Ríkisbúskapur Framsóknar og Sjálfstæðisflokks

Ég keypti 230 grömm af lambalundum í gær, fjórar lundir. Fyrir það greiddi ég um 1000 krónur. Skar þær í smærri bita, marineraði síðan í sterkri sósu í tvo tíma og steikti í wokpotti með grænmeti og hafði nanbrauð með. Úrvalsmáltíð.

Hlustaði á fréttir. Guðni Ágústsson og Árni Mathiesen undirrituðu fyrr um daginn samning við sauðfjárbændur sem á að gilda frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013, samtals í sex ár. Fyrsta gildisárið verða framlög til sauðfjárræktar 3,348 milljarðar króna og lækka svo árlega um 1% á ári á samningstímanum. Varlega áætlað eru þetta um 18 milljarðar króna á þessu tímabili.  

Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá samtökum sauðfjárbænda er erfitt að segja nákvæmt til um fjölda sauðfjárbænda, en þeir eru á bilinu 1000 til 2000. Sumir eru í blönduðum búskap en þeir sem eingöngu eru með sauðfjárrækt eru flestir í annarri atvinnustarfsemi einnig, en sauðfjárbú þarf að vera með minnst 1000 fjár til að það geti borið sig.

Meðalgreiðslur til sauðfjárbænda eru því 2,5 milljónir á ári ef við miðum við 2.500 bændur.  Samtals eru um 450.000 fjár í landinu. Það þýðir því að hver rolla á landinu fær 7.500 króna meðgjöf úr ríkissjóði. Sé bóndi með 500 fjár ætti hann að fá um 3.750.000 krónur úr ríkissjóði. Ekki slæmt það.  

Svo er hin hliðin á þessum krónum. Það er ekki bagalegt að geta lofað bændum slíkum fjárhæðum í aðdraganda kosninga og ætla komandi kynslóðum að borga brúsann. Þeir félagar eru báðir í framboði í landbúnaðarhéraðinu Suðurlandi. Þetta kemur jú neytendum til góða sagði Guðni og Árni Matt. reyndi líka að réttlæta þennan ríkisbúskap Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Hver var að tala um að Sovét Ísland heyrði sögunni til?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband