Færsluflokkur: Íþróttir

Ímyndunaraflinu gefinn laus taumur

Ég var staddur fyrir austan fjall í dag, nánar tiltekið á Hótel Heklu á Skeiðum, að kenna. Ég lauk minni kennslu skömmu áður en viðureign strákanna, best að bæta við okkar (ÍBS), við Rússa hófst. Ég hlustaði því á lýsinguna á leiknum í bílnum á leiðinni heim. Það var fín upplifun. Rifjaði upp gamla tíma.

  

Einkum kom ein sambærileg upplifun í hugann og var hún öllu meira spennandi en þessi lýsing. Það var árið 1980. Úrslitaviðureign í tennis á Wimbledon. Þá starfaði ég í ábyrgðapóstinum á Arlanda flugvelli fyrir utan Stokkhólm. Ég átti gamalt Wolkswagen rúgbrauð sem sænski herinn hafði notað en hafði verið innréttað til ferðalaga. Rúgbrauðið keypti ég af Galante mafíuafkomanda sem hét Paul. Hann hafði flúið til Svíþjóðar sem flóttamaður frá því að gegna herþjónustu en í raun og veru var hann að flýja uppruna sinn. Föðurbróðir hans hafði verið plaffaður niður á ítalskri pitseríu skömmu áður. Ég hef því keypt bíl af ítölsku mafíunni.

  

Hugsið ykkur Íslendingur á leið heim úr vinnu hlustandi á beina lýsingu á tennisleik. En það var Björn Borg æði í Svíþjóð á þessum árum. Hann vann allt sem hægt var að vinna. Og nú lék hann til úrslita við helsta andstæðing sinn, John McEnroe. Þeir höfðu marga hildina háð og Borg yfirleitt haft betur.

  

Spennan í viðureigninni var gríðarleg og lýsing sænska íþróttafréttamannsins það lifandi að maður sá í huga sér boltann fara fram og til baka og ekki laust við að augun fylgdu með frá vinstri til hægri þótt ekkert væri að sjá annað en skóg til beggja hliða. Svo þegar komið var heim að Kóngshömrum þar sem ég bjó með fjölskyldu minni var allt á suðupunkti. Ég lagði í stæði og hélt áfram að hlusta. Gat ekki slitið mig frá lýsingunni þótt ég vissi að það tæki mig tvær mínútur að stökkva heim og hlamma mér niður við sjónvarpið. Þarna sat ég í hálftíma og hlustaði á lokin á þessari sex setta viðureign, viðureign sem enn í dag er talin mest spennandi úrslitaviðureign í Wimbledon mótunum. Viðureign sem meira að segja slær út leikinn við Dani í fyrradag.

  

Leikurinn við Rússa í dag var ekki neitt í líkingu við þetta en engu að síður hafði ég gaman af þeirri tilbreytingu sem fólst í því að hlusta á útvarpslýsingu í stað þess að sjá leikinn. Það gaf ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Hársbreidd frá baráttu um verðlaunasæti

Mikill baráttuleikur sem hefði getað farið á hvorn veginn sem var endaði með eins marks sigri Dana eftir framlengingu. Draumurinn um baráttu um verðlaunasæti orðinn að engu. Leikur strákanna var engu að síður mjög góður, einkum hjá Snorra Steini og Óla. Það er einhvern veginn eins og einn einstaklingur blómstri í hverjum leik. Í síðasta leik var það Marhús Máni, áður Logi og nú Snorri Steinn. En öll liðsheildin var frábær og liðsandinn og leikgleðin í hámarki, þótt vörnin hefði mátt vera þéttari. Íslenska þjóðin má vera stolt af frammistöðu strákanna þrátt fyrir þetta nauma tap núna. Þetta var ein besta íþróttaskemmtun sem boðið hefur verið upp á og eiga bæði liðin heiður skilið. Leikurinn var sigur handboltans. 

Þetta er ekki búið þótt draumurinn um verðlaunasæti sé úti. Nú er bara stefna á fimmta sætið í keppninni. Áfram Ísland.

Bannað eldri en fimmtugum

Leikur Íslendinga gegn Slóvenum var svo æsispennandi að það var á mörkunum að undirritaður gæti horft á lokakaflann. Svona trylli á ekki að vera leyfilegt að sýna um miðjan dag. Þetta á að vera bannað börnum og þeim sem eru eldri en fimmtugt. En takk og aftur takk fyrst hjartað brast ekki. Hvílík skemmtun. Þökk sé markvörðunum Birki Ívari og Róland Eradze og útileikurum á borð við einhenta Loga, haltrandi Guðjón og hinn útsjónasama Snorra Stein þá tókst að landa eins marks sigri og þátttaka í átta liða úrslitum er gulltryggð. Við tökum undir með Loga Geirs, á morgun leggjum við Þjóðverja og sigrum þar með riðilinn. Áfram Ísland.

Ég er dauðsvekktur

Ég ætla ekki að svekkja mig á úrslitunum áðan. Þau voru óréttlát en eru staðreynd. Ég ætla ekki að svekkja mig á frammistöðu strákanna áðan, hún var góð en bara ekki nógu góð. Ég ætla ekki að svekkja mig á dómgæslunni áðan, hún var léleg en hafði ekki úrslitaáhrif. Ég ætla ekki aðsvekkja mig á fautaskap Pólverja, nokkrir okkar manna lágu í valnum en það fylgir þessari íþróttagrein. Engu að síður er ég dauðsvekktur eins og öll þjóðin en það var ekki við strákana að sakast. Þeir gerðu sitt besta (hefði aldrei trúað því að ég ætti eftir að vitna í texta eftir VG).

Það var greinilegt á leiknum að okkar menn höfðu ekki sama úthald og Pólverjar. Nú er bara að safna kröftum á morgun og mæta dýrvitlausir til leiks gegn Slóvenum á laugardag með sama hugarfar og gegn Frökkum og og Túnis.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband