Pepper liðþjálfi fertugur

Það er sumarbyrjun 1967. Ég nýbúinn að ljúka landsprófi. 16 ára að verða 17 tveimur mánuðum síðar. Í fyrsta skipti í sumarvinnu í bænum, nánar tiltekið í bæjarvinnunni í Hafnarfirði. Fram til þessa hafði ég verið í sveitinni á sumrin, í Bryðjuholti í Hrunamannahreppi. Nú var ég hins vegar farinn að vinna fyrir alvöru launum í fyrsta skipti. Þegar ég fékk fyrstu útborgunina var mitt fyrsta verk að fara í hjólreiða- og plötuverslunina á Reykjavíkurvegi og kaupa mína aðra longplaying plötu eins og við kölluðum breiðskífur á þessum árum. Fyrsta breiðskífan sem ég eignaðist var  Oldies but Goldies, safnplata með Bítlunum. En í þetta skiptið var það nýjasta afurð Liverpooldrengjanna, Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band, sem kom út 1. júní fyrir 40 árum sléttum.

Við vissum ekki hverju við áttum von á. Höfðum reyndar fengið smá forsmekk með tveggja laga plötu fyrr um veturinn, Penny Lane og I´m the Walrus, sem einhvernveginn kom flestum í opna skjöldu. Þetta var eitthvað alveg nýtt, einkum og sér í lagi Walrusinn. Það var því mikil spenna í lofti þegar platan var sett undir nálina í stofunni á Smyrlahrauni 15. Og hvílík opinberun. Hvorki fyrr né síðar hef ég upplifað þessa opinberun í tónlist sem þarna hljómaði. Þetta var hljómkviða sem ég  vissi þá þegar að ætti eftir að fylgja mér það sem eftir væri. Enn í dag skipar þessi plata fyrsta heiðurssess í mínu safni og nú í kvöld fór vínillinn undir nálina og þrátt fyrir einstaka rispur hefur platan enst vel, en á andlit mitt eru einnig komin nokkur ör.

Þetta var upphafið. Í kjölfarið komu allir aðrir og mesta blómaskeið rokk og popptónlistar rann upp. Stones fylgdu með einni vanmetnustu plötu hljómsveitarinnar Their Satanic Majesties Request, Beach Boys með Pet Sounds, Incredible String Band með 5000 spirits or the Layers of The Onion og nýir listamenn eins og Hendrix og Cream komu fram og þannig mætti halda áfram að telja upp endalaust. Þetta var gullöld þessarar tegundar tónlistar. Það var eins og Pepperinn hefði leyst eitthvað afl úr læðingi hjá æskunni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki aðeins að slá saman hjá þér nafni?

I'm The Walrus kom seinna. Smáskífan sem þú ert að vísa til er:

Penny Lane / Strawberry Fields Forever.

Ég heyrði einhvern tíma þá sögu, að Lennon hafi verið orðinn þreyttur á hvernig gagnrýnendur túlkuðu texta hans og þegar "I'm The Walrus" kom út sagði hann: " Jæja, það verður gaman að sjá hvað þeir finna út úr þessu".

Sigurður Sverrisson (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 10:50

2 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Rétt hjá þér nafni. Biðst forláts minnið eitthvað farið að svíkja. Walrusinn var á Magical mystery tour.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 2.6.2007 kl. 17:17

3 Smámynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson

Það er til önnur saga um "I am the Walrus" en hún er á þann veg að Lennon hafi heyrt að gömlu kennararnir hans væru farnir að nota texta Bítlana í enskukennslu og létu nemendur greina textana. Þess vegna sullaði hann saman meiningarlausum setningum og setningarbrotum og hrærði þessu saman í texta og skemmti sér við að hugleiða hvernig kennararnir myndu útskýra þessa vitleysu.

Jónas Yngvi Ásgrímsson, 8.6.2007 kl. 10:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband