Færsluflokkur: Bloggar
9.1.2007 | 13:51
Safnaðarheimili Fríkirkjunnar ekki selt
Séra Einar Eyjólfsson prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði sendi eftirfarandi athugasemd við blogginum um að kirkjan hefði selt Nýsi safnaðarheimilið: "Hér birtast rangar upplýsingar. Fríkirkjan hefur ekki selt eiginir sínar þ.e.a.s. safnaðarheimilið við Linnetsstíg eins og fullyrt er í þessum texta. Hvað skal þá segja um svona skrif. Kv Einar Eyjólfsson Fríkirkjunni"
Fagna ég því að safnaðarheimilið hafi ekki verið selt Nýsi og biðst ég afsökunar á þessari missögn sem ég hafði frétt á rakarastofunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 10:01
Að þekkja óvininn
Eitthvað var Björn Ingi Hrafnsson að oftúlka færslu mína í gær um að Vinstri grænir litu á Samfylkinguna í Hafnarfirði sem höfuðandstæðing sinn í baráttunni gegn stækkun álversins í Hafnarfirði. Taldi hann þessi skrif mín til marks um það að brestur væri kominn í svokallað kaffibandalag. Þar heldur hann áhrifamátt minn meiri en hann er. Ég var einungis að benda á að Vinstri grænir ættu að beina spjótum sínum að Alcan í stað þess að agnúast út í Hafnarfjarðakratana sem ákváðu að láta bæjarbúa afráða hvort af stækkun verður.
Sem betur fer eru ekki allir Vinstri grænir við það heygarðshornið. Í Fréttablaðinu í gær birtist grein eftir Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur bæjarfulltrúa Vinstri grænna í Hafnarfirði með yfirskriftinni Í boði Álbræðslu. Ég get tekið undir hvert einasta orð í þeirri grein og er ljóst að Guðrún Ágústa þekkir óvininn.
Liðin í þessari baráttu eru annars vegar fólk í samtökunum Sól í Straumi, sem vinnur í sjálfboðavinnu að því að safna saman efni, halda fundi og reyna að koma á framfæri upplýsingum um afleiðingar þess að samþykkja stækkun álversins.
Hins vegar er það svo álbræðslan í Straumsvík sem er með fólk, hjá almannatengsla- og auglýsingafyrirtæki, á kafi í vinnu við allt annað en afleiðingarnar sem verða ef af stækkun verður. Álbræðslan virðist eiga ómælt fjármagn til notkunar í ímyndarbaráttu sinni. Ímyndarbaráttu sem Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, kallar grímulausa þátttöku í upplýstri umræðu.
Það er því ljóst að ég gæti vel hugsað mér að setjast yfir kaffibolla með Guðrúnu Ágústu og rætt þessi mál við hana, jafnvel átt samstarf við hana í baráttunni gegn stækkuninni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 10:23
Höfuðandstæðingurinn
Guðfríður Lilja á bloggsíðu sinni: Og hvar er Samfylkingin í Hafnarfirði? Í felum á bak við upplýsingafulltrúa? Það er með ólíkindum hvað Samfylkingin fær að komast upp með í þessum efnum. Samfylkingin hefur leitt þetta mál um langa hríð en felur sig svo á bak við aðra til að firra sig ábyrgð. Ég vil þá frekar biðja um úlfa sem segja rétt til nafns heldur en úlfa í sauðagærum. Veifandi "Fagra Íslandi" í annarri hendi og samningum við álrisa um allt land í hinni. Má ég þá heldur biðja um virkjanasinna sem ganga hreint til verks - ekki virkjanasinna og álvæðingarkappa sem þykjast vera eitthvað annað en þeir eru. Það spillir allri almennilegri umræðu og glepur sýn í málum þar sem stærstu spurningar framtíðarinnar liggja.
Gestur Svavarsson á heimasíðu Ögmundar Jónassonar: Það er greinilegt að senn dragi til tíðinda í stækkunarmálum álversins í Hafnarfirði. Það liggur fyrir samningur til undirritunar milli Landsvirkjunar og Alcan um þá orku sem nauðsynleg er vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Það hefur verið haft eftir bæjarstjóra Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að íbúaatkvæðagreiðsla um stækkun álversins verði bráðlega, eða eftir að farið hefur verið yfir deiliskipulagstillögu Alcan. Yfir þá tillögu fer nú stór hópur fulltrúa allra þeirra sem eiga kjörinn fulltrúa í bæjarstjórn, en einnig heilir þrír starfsmenn Alcan. Ég sé ekki fyrir mér að markmið hópsins sé annað en að klára nýtt deiliskipulag, sem verði nægilega lítið breytt frá hinu fyrra, þannig að það veri metið svo að ekki þurfi að fara í aðra kynningu á því.
Öllu málefnalegri umræða fer fram á heimasíðu samtakanna Sól í Straumi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2007 | 19:12
Apaplánetan, Andri Snær og frelsisverðlaun SUS
Andri Snær Magnason gaf á nýliðnu ári út bókina Draumalandið þar sem hann beitir hugmyndafræði frjálshyggjunnar í þágu umhverfisverndar. Rökstuðningur og málflutningur Andra Snæs undirstrikar að frumkvæði einstaklingsins er forsenda framfara en ríkisafskipti til óheilla í þessum málaflokki eins og öðrum. Að mati forystu ungra sjálfstæðismanna eru skrif Andra Snæs vitnisburður um að frjálshyggjan og hugsjónin um frelsi einstaklingsins á fullt erindi á öllum þjóðmálasviðum. Þannig mætti tala um útrás frjálshyggjunnar.
Og bæði Vinstri grænir og Samfylkingin héldu að Andri Snær væri að tala fyrir stefnu sinna flokka. Ég gleymi þó seint svipnum á Valgerði Sverrisdóttur þáverandi iðnaðarráðherra þegar hún gekk fram hjá mér á leið á salernið í fllugvél sem flutti Léttsveitina, kvennakór Reykjavíkur, til Kúbu sl. vor. Þá var Draumalandið nýkomið út og í sætaröðunum í kringum mig hafði annarhver maður keypt sér bókina í Flugstöðinni og var að glugga í hana á leiðinni til Draumalands Kastró.Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2007 | 14:52
Heimatrúboðið, Fríkirkjan og Nýsir
Fríkirkjan er með fallegri kirkjubyggingum og staðsetning hennar uppi á kletti þar sem hún trónir yfir byggðina eitt fallegasta kirkjustæði landsins. Þar fyrir neðan eru gömul hús sem eiga sér merka sögu. Nú er eitt þeirra horfið, það hvarf í gær. Það er gamla Síonshúsið, þar sem heimatrúboðið var. Í gærmorgun mætti stórvirk grafa og braut niður húsið.
Það verður seint sagt að þetta hafi verið fallegt hús en það skipar ákveðinn sess í minningunni. Við krakkarnir vorum hálf smeik við að fara fram hjá húsinu á kvöldin þegar sálmasöngur barst út á Austurgötu. Þetta var eitthvað svo framandi veröld sem þarna var. Guð átti heima í kirkjunum en ekki í þessu gráa húsi.
Nú er húsið horfið og Guð sennilega með því. Og mér skilst að fleiri hús á þessum reit eigi að hverfa.
Fríkirkjan hefur selt sínar eignir á reitnum, en þar er fyrst til að telja glæsilega byggingu þar sem safnaðarheimili kirkjunnar er núna. Það er hús með mikla sögu, sögu sem tengis núverandi bæjaryfirvöldum persónulega. Í þessu húsi var nefnilega Stebbabúð í þá tíð er ég sleit barnsskónum í hrauninu. Með Stebba starfaði lengst af tengdafaðir núverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði, Lúðvíks Geirssonar, sem á sínum tíma ritaði Verslunarsögu Hafnarfjarðar. Í húsinu er nú starfrækt Hárgreiðslustofa Guðrúnar og hef ég iðulega mætt þar í klippingu.
Það er Nýsir sem hefur keypt upp eignirnar á reitnum og ætla að reisa þarna risabyggingu sem mun stinga mjög í stúf við nálæga byggð. Í auglýsingu um skiplag á reitnum segir orðrétt: Breytingin felur í sér að heimiluð er ca 315 m2 stækkun á lóðinni nr. 1. við Linnetstíg. Heimilt er að reisa á lóðinni 5. hæða byggingu allt að 460 m2 að grunnfleti. Stigahús og svalir mega ná allt að 3 m út fyrir byggingarreit að aftanverðu. Á framhlið skal 5. hæðin vera inndregin. Byggja skal 2ja hæða bílakjallara undir húsinu sem tengist fyrirhuguðum bílakjallara undir húsinu sem tengist fyrirhuguðum bílakjallara við hlið lóðarinnar. Gert er ráð fyrir að aðkoma bílakjallarans sé um sameiginlega akstursrampa utan lóðarinnar Linnetstígur 1.
Hvað skal segja þegar Fríkirkjan er komin í svona lóðabrask með Nýsi hf?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2007 | 08:44
Menningarstöðvar kveðja
Enn eitt menningarvígið virðist nú fallið. Útvarp Kántríbær lagði nú um áramótin upp laupana. Kúreki norðursins, Hallbjörn Hjartarson, treystir sér ekki lengur til að reka útvarpsstöðina sem flutt hefur íbúum á Norð- vesturlandi og ferðalöngum um svæðið perlur amrísku kántrítónlistarinnar með flytjendum á borð við Dolly Parton, Jhonny Cash, Roy Rogers og aðra. Það er mikil eftirsjá í þessari stöð.
Alltaf þegar við höfum átt leið norður byrjuðum við að leita að Útvarp Kántríbæ þegar við komum yfir Holtavörðuheiði og hlustuðum á stöðina þar til við höfðum skrölt yfir Öxnadalsheiði. Þetta hefur ætíð verið menningarauki í íslenskri náttúruupplifum. Á borð við að hlusta á Metalicu á svörtum söndum á hálendinu. Það er mér óskiljanlegt að sveitarfélagið sjái ekki mikilvægi útvarpsstöðvarinnar fyrir Skagaströnd. Ég vissi fyrst af þessu samfélagi þegar ég sá frábæra kvikmynd Friðriks Þórs, Kúrekar norðursins. Það varð til þess að fjölskyldan heimsótti Kántríbæ og kíkti á útvarpsstöðina auk þess sem við fengum okkur hamborgara með öllum.Nú er bara að vona að landsmenn, fyrst opinberir aðilar eru ekki tilbúnir að styðja þetta menningarframtak kúrekans á Skagaströnd, bregðist við ákalli hans og styrki Útvarp Kántríbæ en reikningsnúmerið er: 0160-26-3907. En það eru fleiri menningarstöðvar sem hafa kvatt nýlega. Kanaútvarpið lokaði fyrir útsendingar skömmu áður en síðustu dátarnir hurfu. Þá þagnaði rödd sem hafði mikil áhrif í íslensku menningarlífi. Nú skal það haft í huga að ég var frá því ég fór að hugsa sjálfstætt á móti hernum á Miðnesheiði. Kanaútvarpið var hins vegar hluti af mínu tónlistaruppeldi þó ég verði að viðurkenna að á undanförnum árum hef ég ekki hlustað á stöðina. Þessi stöð kynnti minni kynslóð að meta Bob Dylan, Jefferson Airplane, Byrds, Country Joe and the Fish, Frank Zappa, jafnvel Woody Guthrie, Pete Seeger, Leadbelly og þannig mætti lengi telja áfram.
Sama má segja um Kanasjónvarpið sem menningarelítan á Íslandi sá allt til foráttu. Íslenskukennarinn minn í Flensborg sá til þess að opna augu unglingsins fyrir undrum sjónvarpsins. Sonur hans var góður félagi minn og við söfnuðumst heima hjá honum á þeim kvöldum sem Combat, The Untouchable, Bonanza og Lucy Show voru sýnd og lifðum okkur inn í þessa veröld sem var svo á skjön við allt sem við þekktum. Ég vildi ekki hafa misst af því.
Ég ætla ekki að bera kanann og Kántríbæ saman við það sem í framboði er í dag á ljósvakanum. En mikið skelfing var gaman í þá daga þegar offramboðið brenglaði ekki upplifunarnáðargáfu einstaklingsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 09:28
Hvítvoðungur með borða
Ég sá viðtal við hinn nýja lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, þar með talið heimabyggðar minnar, Hafnarfjarðar, í Kastljósi. Þetta var bara borðaprýddur stráklingur. Fyrrverandi aðstoðardrengur dómsmálaráðherra með enga reynslu af lögreglustörfum. Hann gekk fyrr um daginn út á Hlemm og þaðan spölkorn niður Laugaveginn. Hans lausn á ofbeldis- og öðrum afbrotavandamálum höfuðborgarsvæðisins var að hann og aðrir yfirmenn lögreglunnar fengju sér af og til heilsubótargöngu um miðborg Reykjavíkur. Þá átti að skrásetja afbrot eftir póstnúmerum og birta þannig að íbúar svæðisins sæju hvar verst væri að lifa. Nú er ég búsettur í vesturbæ Hafnarfjarðar þar sem afbrotatíðni er hvorki meiri né minni en annars staðar á svæðinu og ég efast um að ef Stefán Eiríksson sæist spássera niður Nönnustíginn þá drægí úr glæpatíðni þar, sem mér vitanlega, þó án þess að ég geti staðfest það, er 0%.
Einhversstaðar sá ég þeirri spurningu varpað fram hvort ekki hefði einhver betri kostur um lögreglustjóra stærsta umdæmis lögreglunnar á Íslandi verið fyrir hendi. Því er til að svara að svo var. Ingimundur Einarsson, varayfirlögreglustjóri Reykjavíkur. Hann var hins vegar ekki í náðinni. Fékk þó smá sárabót þegar hann var skipaðu héraðsdómari í Reykjavík. Ekki jafn mikilvægt starf að mati dómsmálaráðherra við nýskipan löggæslumála í landinu, sem ég held að sé eitt stærsta áhyggjuefni landsmanna ásamt stækkun Alcan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2007 | 09:31
Í boði Alcan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 12:32
Sami háttur og síðasta ár
Mikil vanafesta ríkir í kringum áramót. Kl. sex er sest að snæðingi undir útvarpsmessu, farið í kirkjugarðinn og á brennu og meðan á þessu stendur er sprengt af miklum móð. Svo skellur þögnin á þegar áramótaskaupið hefst. Um leið og því lýkur er eins og þjóðin losni úr læðingi og fírvekeríð hefst. Það er orðið svo gengdarlaust að það sést ekki lengur fyrir mekki sem leggst yfir bæinn. Á miðnætti kyssist fólk og óskar hvort öðru gleðilegs árs, sumir draga tappa úr kampavínsflösku og skála. Svona er þetta ár eftir ár og smám saman dregur úr sprengjunum, þó er alltaf ein og ein eftirlegukind á kreiki fram á morgun.
Við bjuggum í Svíþjóð á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þar höfðu Svíarnir einnig sínar áramótavenjur, m.a. að horfa á sömu stuttmyndina árlega. Þetta er gömul þýsk svart hvít útgáfa á breskum stofuleik. Heitir þjónninn og greifynjan. Gengur út á það að greifynjan heldur sinn árlega gamlárskvöldverð og býður þangað fjórum heiðursmönnum sem allir eru horfnir á vit forfeðranna. Þjónninn gengur um og severar fyrst súpu í forrétt og sherrí með og verður hann að skála fyrir alla herramennina við greifynjuna. Næst er það fiskurinn og hvítvínið og sami háttur hafður á og við síðasta rétt og á síðasta ári. Þá kemur kjúklingurinn og er rautt haft með honum. Sami háttur er hafður á og fer nú drykkjan að svífa örlítið á þjóninn. Á gólfinu er ísbjarnarhamur með haus og rekur þjónninn löppina iðulega í hausinn en eftir því sem vínið hrífur fer hann að geta leikið á ísbjörninn. Að lokum kemur svo eftirréttuinn og púrtarinn með því og sami háttur hafður á og síðast ár. Rúsínan í pylsuendanum kemur svo síðast og verður ekki afhjúpað hér hver hún er. Hún er alltaf jafn óvænt þó sami háttur sé hafður á og síðasta ár.
Undanfarin tvö ár höfum við getað notið þessarar perlu á gamlárskvöld á undan skaupinu þökk sé skjánum. Við erum m.a. með norrænu stöðvarnar og ákváðum að kanna í fyrra hvort greifynjan og þjónninn hefðu enn sama háttinn á. Og viti menn þarna voru þau mætt í sitt gamlárspartí.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2006 | 15:48
Gleðilegt ár
Nú nálgast áramótin óðfluga og ósjálfrátt hugsar maður, en það er svo stutt síðan síðast, það hefur varla nokkur skapaður hlutur gerst síðan við sprengdum burt árið 2005. Svo hugsar maður til baka og viti menn, eitt og annað hefur nú drifið á dagana síðan árið 2006 gekk í garð. Herinn fór og Halldór hætti. Hvoru tveggja fagnaðarefni.
Ég ætla samt ekki að fabúlera hér um það sem gerst hefur á vettvangi samfélagsins. Frekar að horfa í eigin rann. Mesta gleðiefnið var fæðing þriðja barnabarnsins í ágúst. Honum var gefið nafnið Nói. Það var gaman að fylgjast með Tómasi bróður hans sem varð fjögurra ára í ágúst. Það tók hann nokkurn tíma að átta sig á þessari nýju mannveru. Þó vissi hann alltaf að Nói var væntanlegur. En samt undrið var mikið eins og það alltaf er þegar barn fæðist, hvað þá þegar maður er bara fjögurra ára.
Þeir bræður Tómas og Nói eru báðir fæddir í ágúst alveg eins og ég. Ég vonaði því auðvitað að þeir myndu fæðast á afmælisdegi mínum en því var ekki að heilsa. Kannski eins gott því ég hefði orðið svekktur ef þeir hefðu ekki verið skýrðir í höfuðið á mér, en það hefði skapað mikil vankvæði hjá móðurslektinu í Frakklandi.
En fleira gerðist á árinu. Í vor skrapp ég sem viðhengi með Léttsveitinni, kvennakór Reykjavíkur, til Havanna á Kúbu. Það var upplifun sem seint gleymist, gömlu eiturspúandi kaggarnir sem sumum var haldið saman með snærisspottum. Þarna hemsóttum við tímabil sem að öllum líkindum heyrir brátt sögunni til. Fari allt á versta veg verður þessi paradís á jörð einungis framlenging á Flórída eftir nokkur ár.
Í sumar skruppum við svo á Vestfirði. Fórum á Rauðasand og komum við á Hnjóti á leið okkar út á Látrabjarg. Heimsóttum Selárdal og skoðuðum þar byggingar og styttur Samúels, sem verið er að koma í fyrra horf. Litum við á tónlistarsafninu hans Jóns í Bíldudal og héldum svo til Ísafjarðar, sem ólíkt öðrum bæjum sem við ókum í gegnum á leið okkar, er heimsþorp. Á heimleiðinni heimsóttum við þjóðsagnapersónuna séra Baldur í Vatnsfirði og skoðuðum þar kirkju og fornleifauppgröft sem Mjöll Snæsdóttir stýrði. Gistum svo í Bjarnafirði áður en haldið var aftur til Reykjavíkur.
Þriðja reisan var svo í nóvember þegar við heimsóttum Róm. Þar var enn um 20 stiga hiti og notalegt að koma þangað úr garranum hér. Við heimsóttum Sixtinusarkapelluna og Vatikanið, Forum Roma og Kólosseum. Katakomburnar og Pompei þannig að þetta var mikil menningarferð.
Árið endar svo með bravúr þegar Vala Marie, barnabarn okkar númer tvö í röðinni, verður þriggja ára á morgun við mikinn fögnuð allrar þjóðarinnar eins og sjást mun á kvöldhimninum annað kvöld. Hún er búin að vera svo lengi næstum þriggja ára að það hálfa væri nóg.
Ég mun nú taka mér frí frá þessu bloggi sem er nýhafið fram yfir áramót. Sest líklega næst við tölvuna annan janúar 2007. Gleðilegt ár.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)