Færsluflokkur: Bloggar

Nú syrtir í álið

Alltaf batnar það. Undanfarin ár hef ég mætt á klettinn fyrir ofan Hellisgerði til að horfa á flugeldasýningu björgunarsveitanna í Hafnarfirði þar sem himininn yfir höfninni hefur logað. Hefur það verið tilkomumikil sjón og einhvernveginn fært áramótin inn í æðakerfið áður en farið er að huga að gamárskvöldssteikinni. Þarna hefur maður hitt vini og kunningja, fengið fregnir af gangi mála, bæði persónulegar og pólitískar, því allt snýst þetta jú um þá tík. Svo hefur maður skundað daginn eftir upp á hraun og verslað inn sprengiefni fyrir heimilið af þessum sömu hjálparsveitum. Reyndar hefur dregið aðeins úr því eftir því sem ungarnir hafa flogið burt en þó er alltaf keypt ein voldug raketta, stjörnuljós og blys.
En nú syrtir í álið. Í morgun þegar ég ók í sortanum til vinnu minnar heyrði ég flugeldasýninguna auglýsta en nú var hún ekki eingöngu í boði hjálparsveitanna heldur í boði þeirra og Alcan. Þannig að í ár mæti ég ekki á klettinn til að njóta ljósadýrðarinnar í svörtum himninum og missi eflaust af nýjustu fréttaskotunum af pólitísku plotti í bænum. Þökk sé gjafmildi Alcan.

Hvað skal segja?

Hvað skal segja? Ég innfæddur gaflarinn fékk ekki álglaðninginn og satt best að segja er ég nokkuð sáttur við það. Ég hefði varla nennt að gera mér sérferð á póstinn til að endursenda pakkann og ekki hefði mér liðið vel að henda þessu í ruslið þar sem mér hefur alltaf þótt vænt um Bjögga, allt síðan við vorum saman í bekk í Lækjarskóla. Hann var þá sami töffarinn og hann er í dag.
Hvað skal segja? Hvað vakir eiginlega fyrir Alcan? Ég hef þá trú á manneskjunni að þetta hafi þveröfug áhrif en lagt var upp með. Þú kaupir ekki sannfæringu fólks. Þvert á móti held ég að svona gjörningur veki ýmsa til umhugsunar.
Hvað skal segja? Ég hef hingað til talið stóriðju eðlilegan hluta af íslensku efnahagslífi. Starfaði sjálfur sumarið 1968 við byggingu varaaflsstöðvar fyrir Straumsvík og sumarið 1983 við Sultartangastífluna. En nú er nóg komið í bili. Stóriðjumeistari ríkisins, ekki meir, ekki meir.
Hvað skal segja? Hitaveita Suðurnesja hefur dregið umsókn sína um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum til baka og vill að þessi náttúruperla fái sín notið ópjölluð. Er bara að vona að önnur orkufyrirtæki fari að dæmi HS og dragi sínar umsóknir til baka. Sýni Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun náttúrunni sömu virðingu og HS þá vitum við hvað skal segja. Takk.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband