Færsluflokkur: Bloggar
20.1.2007 | 20:14
Við erum öll plebbar inn við beinið
Til hamingju kynbræður með bóndadaginn í gær, eina daginn sem okkur eru færð blóm. Ég fékk fjólubláa túlípana, enda konan mjög hrifin af þeim. Það jákvæða við þorrann í ár er HM í handbolta. Þótt strákarnir burstuðu Ástrali í dag segir það ekkert til um framhaldið. Reyndar leist mér ekkert á liðið í upphafi seinni hálfleiks. Þess ber þó að gæta að Alfreð hafði þá tekið útaf marga af burðarásum liðsins og sett inn minni spámenn, sem sumir áttu eftir að blómstra þegar á leikinn leið, menn eins og t.d. gaflarinn Ásgeir Örn. Við feðgarnir vorum reyndar að leika okkur að því að telja fulltrúa okkar bæjarfélags í liðinu og hlutfallslega held ég að Hafnarfjörður eigi vinninginn. Birkir Ívar, Logi Geirs, Ásgeir Örn og Vignir Svavars, 4 af 17 eða tæp 25% af hópnum.
Horfði síðan á leik Frakklands og Úkraínu. Frakkarnir sýndu stórleik enda býst ég við að þeir landi bikarnum í lokin en ég er enn hálf hræddur við Úkraínu þótt ekki hafi blásið byrlega hjá þeim í dag. Ég held að það verði hörkurimma á morgun. Með góðri einbeitingu, leikgleði og sigurvilja eigum við þó að hafa það.
Það hvarflaði að mér í vikunni að ástæðan fyrir þessu ofurkappi menntamálaráðherra á að keyra RÚV ohf frumvarpið í gegn sem fyrst hafi verið að hún vildi komast með Kristjáni frænda til Þýskalands til að fylgjast með keppninni. Ég skil það vel en nú er nokkuð ljóst að umræða um frumvarpið mun standa eitthvað fram í næstu viku og því ekki einu sinni víst að Þorgerður Katrín geti fylgst með leikjunum í beinni í sjónvarpinu. Komist strákarnir hins vegar áfram upp úr riðlinum ættu skötuhjúin að geta fylgst með framhaldinu á vettvangi.
Þorrinn hefst ekki bara með HM því undankeppni Júróvisjón er einnig skollin á. Stundum getur verið gaman af því brambolti eins og í fyrra þegar Silvía Nótt setti allt á annan endann, en yfirleitt er þetta nú frekar þunnur þrettándi sem tæpast er á vetur setjandi. Engu að síður mun þjóðin, og ég tilheyri jú henni, fylgjast með þegar í lokakeppnina kemur. Við erum jú öll plebbar inn við beinið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2007 | 14:22
Meirihlutinn á móti stækkun
Frétt ríkissjónvarpsins í gær um að Alcan hefði látið framkvæma skoðanakönnun um afstöðu Hafnfirðinga til stækkunar álversins, en vildi ekki upplýsa um niðurstöðuna fyrr en starfsmönnum álversins hefði verið kynnt hún, vakti verulega athygli, enda mun niðurstaðan hafa legið fyrir í viku tíma.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mun meirihluti Hafnfirðinga hafa verið andvígur stækkuninni, þ.e.a.s. 55% á móti stækkun og 45% með. Bloggari veit hins vegar ekki hversu margir voru óákveðnir, né heldur hversu stórt úrtakið var.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.1.2007 | 11:19
Börn - fullorðins kvikmynd
Í gærkvöldi sannfærðist ég um að íslensk kvikmyndagerð væri orðin fullorðin. Ég horfði þá á kvikmyndina Börn sem Ragnar Bragason gerði í samvinnu við Vesturport. Ég hafði haft smá fordóma gagnvart myndinni, hélt að þar sem hún var svart/hvít væri hópurinn á einhverju artí smartí kenderíi, auk þess sem ég hef ekki verið trúaður á að hópefli gæti skilað af sér alvöru kvikmynd, en leikararnir munu sjálfir hafa skapað sínar persónur í Börnum.
Ekkert af þessu reyndist rétt. Börn varpar nýju ljósi á íslenskan samtímaveruleika. Hún er svört en full af hlýju og í öllu vonleysinu leynist von. Upphafsatriðið minnti á Pulp Fiction Tarantinos en þar með lýkur þeim samanburði. Ofbeldið í Börnum þjónar alltaf tilgangi. Það er verið að sýna okkur inn í baráttu venjulegs fólks fyrir tilveru sinni. Undir lokin var ég farinn að örvænta en lokasenan þar sem þeir bræður sitja reifaðir sárabindum og gifsi eins og múmíur á spítalanum og horfa á fótbolta í sjónvarpinu, þótt hvorugur þeirra hafi nokkurn tíman haft minnsta áhuga á knattspyrnu, sannfærði áhorfandann um að þrátt fyrir allt væri lífið þess virði að lifa því.
Ég leyfi mér að fullyrða að ekki áður hefur leikur í íslenskri kvikmynd verið jafn eðlilegur og góður og í Börnum. Frammistaða leikaranna var frábær og er vart hægt að taka einn fram yfir annan þótt mest hafi mætt á Gísla Garðarssyni, Nínu Dögg Filippusdóttur og drengnum Andra Snæ Helgasyni. Þar er komin framtíðarstjarna. Einnig verður að nefna Ólaf Darra Ólafsson, Margréti Helgu Jóhannesdóttur, Sigurð Skúlason og Hönnu Maríu Karlsdóttur sem öll máluðu sínar persónur skörpum dráttum þannig að þær lifa áfram í huga áhorfandans.
Kvikmyndin Börn mun hafa verið tilnefnd sem framlag Íslands til Óskarsverðlauna en ekki komist í gegnum nálarauga bandarísku kvikmyndaakademíunnar. Þá hljóta þær myndir sem munu keppa um titilinn besta erlenda myndin vera einstakt úrval mynda. Hef reyndar séð eina þeirra, Volver eftir Almodovar. Frábær kvikmynd og á margt sameiginlegt með Börnum þótt þar séu konur alfarið í forgrunni.
Í dag verður frumsýnd kvikmyndin Foreldrar í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Hinn hluti þessarar samloku. Nú er væntingarnar miklar en eftir að hafa horft á Börnin veit ég að hópurinn mun standa undir þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2007 | 10:06
Útvarp Framsókn og Bláskjár
Um miðjan síðasta áratug tók ég viðtöl við tvo mæta menn um formbreytingu á Pósti og síma. Þetta voru annars vegar Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra og hins vegar Hreinn Loftsson þáverandi formaður einkavæðingarnefndar. Ég spurði þá báða sömu spurningarinnar: Er hlutafélagavæðing stofnunarinnar ekki fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu Pósts og síma?
Svör þeirra félaga voru ólík.Halldór Blöndal (sept. 1995): Það er ekki á dagskrá hjá mér að selja Póst og síma og slík hugmynd hefur ekki komið upp í viðræðum við starfsmenn.
Hreinn Loftsson (feb. 1996): Reynsla erlendra sérfræðinga er eindregið sú að það sé einungis skynsamlegt að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag sé ætlunin að selja það. Hlutafélagavæðingin er bara fyrsta skrefið að mínu áliti.
Því var ítrekað haldið fram að hlutafélagsvæðing Pósts og síma á sínum tíma væri fyrsta skrefið til að einkavæða þá þætti stofnunarinnar sem skiluðu hagnaði, þ.e. símann. Þessu var stöðugt neitað af stjórnarmeirihlutanum en annað kom síðar í ljós.
Það sama á við í dag varðandi Ríkisútvarpið. Sá er þó munur á að einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað talað fyrir einkavæðingu stofnunarinnar, þar á meðal formaður menntamálanefndar Sigurður Kári Kristjánsson. Engu að síður þvertaka þingmenn meirihlutans fyrir það að ætlunin sé að einkavæða í framtíðinni. Hvað vakir þá fyrir mönnum?
Staða Framsóknar í þessu máli er all undarleg. Flokkurinn berst fyrir tilveru sinni þessa dagana. Afstaða flokksins í útvarpsmálinu er í því ljósi óskiljanleg. Það er einsog hann sé haldinn sjálfseyðingarhvöt. Vitað er að flokkurinn er haldinn virkjanafíkn eins og Ómar Ragnarsson kallar það og afrakstur þeirrar fíknar er Kárahnjúkaslysið og stóriðjubrjálsemi. Það kom hins vegar verulega á óvart þegar flokkurinn gekk til liðs við stríðsherranna í Washington og hefur því á samviskunni þær hörmungar sem fylgdu í kjölfar stríðsins í Írak. Og nú á að fórna Ríkisútvarpinu til að halda friðinn í ríkisstjórninni þá þrjá fjóra mánuði sem hún á eftir að óbreyttu.
Nema að hin sígildu helmingaskipti ríkisstjórnarflokkana liggi hér að baki. Vilji svo ólíklega til að þessir tveir flokkar geti myndað ríkisstjórn að loknum kosningum þá skyldi þó ekki vera inni í myndinni að skipta jafnt.Útvarp Framsókn og Bláskjár.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2007 | 09:46
Það brast eitthvað
Sú var tíðin að við strákarnir ákváðum að skreppa upp að Urriðakotsvatni til að stelast til að renna fyrir silung. Fyrst þurfti að undirbúa ferðalagið vel, því það var talsverður spotti þarna upp eftir, enda engin byggð fyrir ofan Arnarhraun þá og Keflavíkurvegurinn ekki kominn, heldur fór umferðin á Suðurnes öll í gegnum bæinn. Eftir að hafa útbúið nesti og tekið til heimatilbúnu veiðistangirnar var farið niður í beitingaskúrana á Norðurbakkanum þar sem Hellyers bræður voru með fiskvinnslu fyrr á öldinni.
Þarna sátu beitingakarlarnir og og nokkrir gestir iðulega hjá þeim og komu lóðningunni fimlega fyrir í stömpunum. Bara það eitt að hugsa um þennan stað verður til þess að mér finnst ég finna lyktina sem þarna var, sambland af fiski og tjöruilm og tíminn hrekkur nokkra áratugi til baka. Það var sjálfsagt að gefa okkur beitu enda hjálpuðum við strákarnir stundum körlunum við að greiða úr flækjum og færa til stampa.
Síðan var lagt af stað upp á hraun með nesti, stangir og úrvals beitu. Fyrir ofan Arnarhraun voru fiskvinnsluhús og þar fyrir ofan í Kapplakrika, þar sem nú er íþróttasvæði FH, var einhverskonar fiskrækt, sennilega ein sú fyrsta á Íslandi. Við horfðum löngunaraugum þangað þegar við gengum þar framhjá með stangirnar en vissum sem var að ef við yrðum staðnir þar að verki yrðum við ekki teknir neinum vettlingatökum.
Við héldum svo upp með Urriðakotslæknum í stórbrotið hraunið að vatninu. Þar gátum við staðið í skjóli við kletta og hent út í. Þetta var ævintýraheimur. Í hlíðinni hinu megin við vatnið voru tóftir gamla Urriðakots og í huganum kviknuðu ævintýri sem hófust á frægri dægurlagatextalínu sem hljómaði iðulega á frívaktinni: Þar stóð bær með burstir fjórar.
Ekki urðum við varir þennan daginn. Ég hef nú alltaf verið hálfgerð fiskifæla. Einna helst að marhnútar bitu á hjá mér á bryggjunni í Hafnarfirði. En minningin um þessa ferð okkar strákanna er böðuð rómantík bernskunnar, enda umhverfið þarna einstakt.
Þessar minningar kviknuðu í kollinum á mér nú skömmu fyrir jól. Þá birtist auglýsing í sjónvarpinu. Ungur piltur knékrýpur í hrauninu fyrir framan stúlkuna og er með hringaöskju í hendi. Vel tilfundið hjá gullsmiðnum að velja þetta umhverfi til að auglýsa vöru sína, hugsaði ég. Og stúlkan lítur upp og andlitið ljómar. Ekki furða þegar hún horfir í áttina að Urriðakotsvatni.
Myndavélin eltir augnaráð hennar og hvað blasir við. Blá gulur risi merktur IKEA. Það brast eitthvað innra með mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2007 | 10:08
Teboð í boði Alcan
Íslenskum sjónvarpsáhorfendum var boðið að fylgjast með tedrykkju frú Dorrit Moussaieff og Evu Maríu í Sunnudagskastljósinu sl. sunnudag. Þarna sátu þessar glæsilegu konur í ríkisráðsherberginu og fóru um víðan völl eins og vera ber í svona þætti. Svo komu viðtöl við tvær lafðir frá Bretlandi sem báru frú Dorrit vel söguna.
Áfram var spjallað og frú Dorrit sagði Íslendinga ekki gera sér grein fyrir því hversu heppnir þeir væru að búa í þessu landi með þetta tæra vatn og hreina loft.
Frá spjallinu er síðan farið í heimsókn í álverið í Straumsvík og Dorrit er kumpánleg við starfsmennina og hoppar upp í stóra vinnuvél og sest þar undir stýri. Því næst er rætt við íslensku lafðina Rannveigu Rist (er hún ekki örugglega komin með fálkaorðuna?), sem fer fögrum orðum um forsetafrúna. Í framhaldi af því mærir svo frú Dorrit álverið og Rannveigu Rist í bak og fyrir.
Þetta væri svo sem allt í lagi að ef ekki stæði fyrir dyrum atkvæðagreiðsla um stækkun Álversins í Straumsvík. Sú stækkun hefur í för með sér 250% aukningu á loftmengun. Tölulegar upplýsingar er að finna á heimasíðu Sól í straumi. Þar kemur eftirfarandi fram:
Loftmengun eykst líka mjög mikið við stækkun (2,5 földun), öll mengunargildi verða eftir stækkun 250% af gildunum fyrir stækkun: Svifryk frá bræðslunni fer úr 470 kg í 1.175 kg á sólarhring. Flúoríð frá bræðslunni fer úr 270kg í 675kg á sólarhring. Brennisteinsdíðxíð fer úr 7,2 tonnum í 19 tonn á sólarhring. CO2 (gróðurhúsalofttegund) fer úr 880 tonnum í 2.200 tonn á sólarhring. Ekki má heldur gleyma kerbrotunum sem urðuð eru í flæðigryfjum en magn kerbrota fer úr 8,4 tonn í 21 tonn á sólarhring.
Það er stór hluti Íslendinga sem kann að meta hreint loftið á Íslandi og vill varðveita það áfram og er því andvígur þeim áformum sem uppi eru í Straumsvík. Þess vegna orkaði þetta innslag í sunnudagskastljósið vægast sagt tvímælis og ýmsar samsæriskenningar hafa farið af stað.
Hvað á Guðmundur Magnússon sagnfræðingur og bloggari t.d. við með þessu:Detti mér allar dauðar lýs úr höfði! Nú er verið að benda mér á að það sé sami maðurinn sem annist almannatengsl fyrir forsetaembættið og álverið. Þetta hlýtur að vera algjör tilviljun. Kallar þetta ekki á frekari skýringu hjá Guðmundi?
Og að öðru. Hvenær eignuðumst við Íslendingar First lady? Fram til þessa höfum við haft forsetafrú sem útleggst á ensku, president wife. Ástæða þess að við höfum ekki First lady er að konur á Íslandi hafa fram til þessa verið jafnar. Ég þykist þó vita að ef Ómar Ragnarsson ætti að benda á First lady Íslands þá myndi hann benda á Jöklu sem nú hefur verið fórnað.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2007 | 10:46
Í hálfgerðu sjokki
Á sjötta áratug síðustu aldar þegar ég var að alast upp í hrauninu í Hafnarfirði notuðum við krakkarnir hvert tækifæri til að leika okkur úti. Þegar snjó kyngdi niður eins og gert hefur undanfarið voru grafin út snjóhús og hlaðin virki, sleðar dregnir fram og skíði eða skautar spenntir á skóna.
Á sumrin var dreginn fram knöttur og skipt í lið á Svínatúni. Það voru eltingaleikir, bófahasar, fallin spýtan, hlaupið í skarðið, kýlubolti og aðrir leikir á planinu fyrir neðan Álfaskeið 18. Síðan var hjólað upp á Hvaleyrarvöll og æfingar sóttar hjá FH. Hverfaliðin áttust svo við á túninu í Engidal.
Yfir veturinn voru leikfimitímar hjá Hallsteini í gamla fimleikahúsinu við Lækjarskóla. Okkur vantaði ekki hreyfingu í þá daga.
Um helgina var opnuð líkamsræktarstöð fyrir börn á aldrinum átta til fjórtán ára. Kortið á víst að kosta 25% minna en í hefðbundnar heilsuræktarstöðvar. Þarna eru hjól fyrir börn til að hjóla á án þess að færast úr stað. Þarna eru göngubrautir fyrir börn til að ganga á án þess að færast úr stað. Kerfið sem farið er eftir kallast Shokk.
Satt að segja er ég í hálfgerðu sjokki yfir þessu.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2007 | 10:28
Afsökunar krafist
Las á Vísi í gær að yfir eitt hundrað sjía múslimar hafa verið hengdir í ljósastaurum og símastaurum í Bagdad, í hefndarskyni fyrir aftöku Saddams Hussein. Hinir hengdu eru venjulegir óbreyttir borgarar, sem súnní múslimar safna saman í stóra hópa til að hengja opinberlega. Þetta er uppskera hinna staðföstu ríkja.
Heilu þorpin eru bombarderuð í Sómalíu af Bandaríkjamönnum að sögn til að drepa al-Kaída leiðtoga. Þeir reyndust hins vegar ekki vera í þorpinu en fjölmargir óbreyttir borgarar þar á meðal börn lágu í valnum.
Í gær voru fimm ár eru liðin frá því að fyrstu fangarnir komu til fangabúða Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu vegna gruns um aðild að hryðjuverkum. Þegar mest var voru um 750 manns af 45 þjóðernum þar í haldi, sumir allt niður í þrettán ára gamlir. Í dag eru 400 fangar enn í búðunum sem hafa ítrekað verið beittir harðræði. Enginn hefur fengið réttað í máli sínu og enginn hefur farið fyrir dóm.
Það eru bandamenn íslensku ríkisstjórnarinnar sem standa fyrir þessu öllu. Hvenær ætla augu þeirra að opnast, ekki bara rifa eins og á augum Jóns Sigurðssonar sem lokaðist strax á þingi, heldur upp á gátt og í framhaldi af því lýsa því yfir opinberlega að það hafi verið mistök að styðja stríðsreksturinn í Írak. Í framhaldi af því er svo rétt að þeir biðji þjóðina afsökunar, nei umheiminn allan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2007 | 11:24
Ég á heima á Állandi
Norsk Hyrdro sýnir Þorlákshöfn áhuga. Íhugar að reisa þar álver. Arctus, félag í eigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar, hefur fengið úthlutað lóð við Þorlákshöfn með það fyrir augum að reisa þar álver og endurbræðslu á áli til frekari úrvinnslu. Verði af þessum áformum hefur verið ákveðið að breyta nafni bæjarfélagsins í Állákshöfn.
Á Reyðarfirði eru framkvæmdir á fullu við álverið þar. Búið er að stækka álverið í Hvalfirði. Undirbúningur að álveri í Helguvík er á fullu. Alcan vill þrefalda álverið í Straumsvík. Húsvíkingar vilja sitt álver. Áhugi er í Skagafirði og heyrst hefur að Akureyringar séu volgir.
Hvar endar þetta? Í Laxdælu er sagt frá því að Ketill flatnefur hafi svarað börnum sínum svo þegar þau reyndu að draga hann til Íslands: Í þá veiðistöð kem eg aldregi á gamals aldri.
Verði þetta álæði ekki stöðvað munu flatnefir framtíðarinnar svara börnum sínum: Í það álver kem eg aldregi á gamals aldri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2007 | 11:01
Klórað í bakkann
Talsvert hefur borið á því hjá VG að reyna að gera atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði um stækkun álversins tortryggilega. Þær raddir hafa heyrst að þetta sé bara sýndarmennska, sama hver niðurstaðan verði þá verði farið í stækkun, bara fundin önnur útgönguleið til þess. Í gær kom fram í fréttum að yfir 90% bæjarbúa eru ánægðir með þá leið sem meirihlutinn í Hafnarfirði hefur ákveðið að fara. Þá lýsti Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði því afdráttarlaust yfir að niðurstaða kosninganna yrði bindandi í Speglinum í gær.
Í ljósi þess er fróðlegt að skoða skrif Guðfríðar Lilju þegar hún reynir að klóra í bakkann eftir að hafa skammast út í Samfylkinguna í Hafnarfirði fyrir ætla að láta bæjarbúa taka ákvörðun um stækkunina:
Borið hefur á þeim misskilningi hjá einhverjum í bloggheimum að ég sé mótfallin kosningu um stækkun álversins í Straumsvík. Þetta er alrangt. Ég er mjög fylgjandi kosningu um málið. Ég gagnrýni hins vegar þögn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í opinberum umræðum um málið. Mér finnst það vera ábyrgðarhluti gagnvart kjósendum að stjórnmálaflokkar tali umbúðalaust um stefnu sína og framtíðarsýn. Það er mín skoðun að það sé engum til góðs, og allra síst lýðræðinu í landinu, að stjórnmálaflokkar veigri sér við að taka skýra afstöðu til mikilvægra mála.
Á heimasíðu Samtakanna Sól í Straumi er bæði að finna rök með og á móti stækkun álversins. 800 milljónir á ári er vissulega upphæð sem bæjarsjóður Hafnarfjarðar gæti notað til ýmissa góðra verka, t.d. á sviði öldrunarmála eða til að styrkja íþrótta- og tómstundastarf barna í bænum eða til að niðurgreiða enn frekar leikskólapláss. Ég efa því ekki að skoðanir meirihlutamanna í bæjarstjórn á þessu máli séu skiptar. Sama á reyndar við um minnihlutann í bæjarstjórn. Þar sker fulltrúi VG sig vissulega úr og er samkvæm sjálfri sér.
Þó svo ólíklega vildi til að afstaða meirihlutans til stækkunar væri samhljóma, með eða á móti, væri óeðlilegt að hann beitti sér í málinu eftir að hafa ákveðið að setja það í þetta lýðræðislega ferli.Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)