Baðstofumenningin er horfin

Ég skrifaði í gær um reynslu mína sem nýbúa í Svíþjóð um miðjan áttunda áratuginn. Tilefni þeirra skrifa voru skoðanaskipti Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Eiríks Bergmann í Silfri Egils. Hugnaðist mér þar lítt málflutningur Magnúsar Þórs enda í mínum huga litaður af andúð í garð innflytjenda, einkum þeirra sem eru langt að komnir.

  

Magnús Þór mætti svo í fréttir Sjónvarpsins í kvöld ásamt Jóni Magnússyni lögmanni til að kynna framboðslista Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, en þeir skipa þar sínhvort efsta sætið. Þar staðfestu þeir að málefni innflytjenda verða höfuð mál þeirra í komandi kosningum og enn og aftur grillti í að flokkurinn ætlar að ala á andúðinni og hræðslunni gegn nýbúum. „Við gerum þá kröfu að íslensk stjórnvöld hafi stjórn á íslensku landamærunum, að við náum þeirri stjórn og að það sé útilokað að við þurfum að taka við hverjum sem er,“ sagði Jón Magnússon í fréttinni.

Haft var eftir Magnúsi Þór að ástandið hér væri svipað og í nágrannalöndunum fyrir nokkrum árum og að hér væri nú fjöldi erlendra verkamanna sem íhugaði að flytja hingað fjölskyldur sínar og að íslenskt samfélag væri ekki reiðubúið undir það. Síðan bætti Jón við að þeir vildu taka til endurskoðunar aðild okkar að Schengen því það væri skoðun Frjálslyndra að íslensk stjórnvöld ættu á hverjum tíma að hafa fulla stjórn á landamærunum. „Og við eigum að hafa fulla stjórn á því hverjum við bjóðum í heimsókn og hverjum við bjóðum hér til dvalar.“

  

Eitthvað hljómaði þetta kunnuglega, eins og endurvarp frá ákveðnum ríkjum í Evrópu á fjórða áratug síðustu aldar.

  

Í Kastljósi eftir fréttir var sagt frá tveimur einstaklingum sem var vísað frá Íslandi vegna nýrra útlendingalaga. Báðir mennirnir voru kvæntir íslenskum konum en höfðu ekki náð 24 ára aldri, en samkvæmt nýju lögunum þurftu einstaklingar utan EES- svæðisins sem kvæntust íslenskum konum að hafa náð þeim aldri til að fá landvistarleyfi hér á landi. Annar var frá Úkraínu en hinn frá Jórdaníu og var rætt við hann og eiginkonu hans um þessa upplifun. Í þættinum kom fram að þetta lagaákvæði bryti flest ef ekki öll mannréttindaákvæði sem Íslendingar eru aðilar að. Engu að síður lagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ofuráherslu á þetta ákvæði þrátt fyrir mikla og almenna andstöðu við það. Þetta átti víst að koma í veg fyrir málamyndahjúskap. Samt var bakgrunnur þessara hjónabanda ekkert kannaður, því ef svo hefði verið hefði komið í ljós að þar var það ástin sem réð för og ekkert annað.

  

Umboðsmaður alþingis kvað upp úrskurð um að ýmislegt athugunarvert væri við þá stjórnsýslu sem fram fór hjá ráðuneytinu og útlendingastofnun í þessum málum. Í framhaldi af því féllst utanríkisráðuneytið á allar kröfur hjónanna tveggja sem höfðu þurft að líða fyrir þessa mannfjandlegu afstöðu löggjafans og framkvæmdina á lagabókstafnum.

Við eigum að sýna umburðalyndi og taka opnum örmum á móti þeim einstaklingum sem vilja setjast hér að. Íslendingar eiga ekki Ísland. Landið á sig sjálft og fóstrar okkur sem hér viljum búa. Íslendingar eru ekki hreinn kynstofn frekar en nein önnur þjóð. Við erum afkomendur fólks alls staðar að sem hefur kosið að setjast hér að og borið með sér siði og venjur hingað. Og svo verður áfram. Baðstofumenning 19. aldar er ekki lengur við líði. Við eigum sögur af henni, bæði góðar og slæmar, en sá auðugi menningarheimur sem ríkir hér í dag ber keim af öllum heiminum.


Þegar ég gerðist nýbúi

Síðsumar 1975 fluttum við hjónin til Svíþjóðar. Þá kynntist ég því hvernig það er að vera mállaus nýbúi í ókunnu landi. Ég barðist í gegnum atvinnuauglýsingar blaðanna og skildi sumt sökum dönskulærdóms í framhaldsskólum en annað ekki. Ég skildi t.d. ekki hversvegna fjöldi auglýsinga um hraðskautahlaupara væri á hverjum degi í blöðunum. Bölvaði sjálfum mér í hljóði að hafa ekki lagt meiri áherslu á skautahlaup. Hafði einhvern tíman heyrt að íshokkí væri þjóðaríþrótt Svía og það væri sennilega ástæðan fyrir þessari eftirspurn eftir fótfimum skautamönnum. „Fastighetsskötare önskast.“ Þegar ég fór að spyrja út í þetta var mér sagt að þarna væri verið að auglýsa eftir umsjónamönnum fasteigna, húsvörðum.

  

Dag eftir dag í tvær vikur ferðaðist ég með strætisvögnum og lestum á hina og þessa vinnustaði til að sækja um auglýst störf en ekkert gekk. Þá hafði ég samband við opinbera vinnumiðlun í nágrenninu og var þá tafarlaust settur á sænskunámskeið sem greitt var alfarið af sveitarfélaginu. Jafnframt var mér veitt aðstoð við að sækja um störf og fór svo að lokum að ég fékk vinnu í tunnuverksmiðju og starfaði þar við færibandið allan veturinn. Þarna voru framleiddar olíutunnur og voru nær eingöngu innflytjendur við framleiðsluna en yfirmennirnir voru Svíar.

  

Þetta var góður vinnustaður þótt starfið væri fábreytt. Þarna voru Tyrkir, Júgóslavar og Finnar í miklum meirihluta en auk þess einn Dani og Íslendingurinn ég. Þetta var að mörgu leyti framandi umhverfi. Í hádeginu breiddu Tyrkirnir teppi á gólfið, krupu á það með talnabönd og snéru höfðinu í átt til Mekka. Þótt tungumálakunnáttan hamlaði að einhverju leyti tjáskipti gátu þessir ólíku hópar skipst á skoðunum um það sem skipti máli. Þetta var því bæði lærdómsríkur og skemmtilegur vetur enda opnaðist ný sýn fyrir sveitamanninn frá Íslandi á fjölbreytileika ólíkra menningarheima.

  

Því er ég að rifja þetta upp að ég hlustaði á þá Eirík Bergmann og Magnús Þór Hafsteinsson skiptast á skoðunum um stefnuna í nýbúamálum. Magnús Þór var enn við sama heygarðshornið að flokka hverjir megi koma hingað og hverjir ekki og ég óttast að þessi málflutningur muni ágerast hjá Frjálslyndum þegar nær dregur kosningum og þar með muni þeir mála sig út í horn og ekki verða stjórntækir að loknum kosningum.

Málflutningur Eiríks Bergmann var hins vegar mjög áhugaverður. Benti hann ekki bara á hinn menningarlega ábata íslensku þjóðarinnar af þessu fólki heldur einnig þann gríðarlega efnahagslega ábata sem hver einasta fjölskylda í landinu hefur haft af framlagi fólksins. Það sem hins vegar hefur vantað hér er öflugt framlag okkar sjálfra við að taka vel á móti þessu fólki og fræða það skipulega um íslenskt þjóðfélag og auðvelda þeim þannig að aðlagast íslensku samfélagi auk þess að bjóða þeim upp á ókeypis íslenskukennslu. Við skuldum þeim þetta.

Bjart yfir Hafnarfirði

Skrif mín á þessa síðu hafa legið niðri í viku tíma. Eitt og annað hefur  valdið því, m.a. hef ég töluvert velt tilgangi þess að halda úti svona síðu fyrir mér. Þegar ég var iðnastur við kolann var traffíkin á síðuna uppörvandi þannig að einhver hópur virtist hafa gaman af að kynna sér hvað væri að brjótast um í kolli mínum. Ég hóf að blogga í byrjun árs, fyrst og fremst í tilraunaskyni, hvort þetta væri nokkuð fyrir mig. Undarlegt nokk, eða kannski ekki, skemmti ég mér ágætlega við þessa iðju. Þá var ég ekki tölvutengdur um síðustu helgi þar sem ég var staddur í sumarbústað á Suðurlandi og því ekki tengdur. Það varð til þess að færslur féllu niður.

 

Áhersla mín hefur einkum verið á andstöðu við fyrirhugaða stækkun álversins í Straumsvík. Að reisa í túnjaðri okkar Hafnfirðinga stærstu álbræðslu í Evrópu. Ekki ósvipað og að ala upp risaskrímsli í bakgarðinum. Ég fékk töluverð viðbrögð á þessi skrif mín. Mörg jákvæð en einnig mjög neikvæð þar sem mér voru gerðar upp ýmsar skoðanir og jafnvel haft á orði að ég hefði ekki leyfi til að hafa skoðanir á málinu starfs míns vegna. 

Þar sem ég er maður friðar var mér dálítið brugðið við en það var þó ekki til þess að ég gerði hlé á skrifunum heldur fyrst og fremst spurningin um það hvaða tilgangi þetta þjónaði. 

Í dag fórum við á sýningu í Hafnarborg. Þar eru sýnd málverk og vatnslitamyndir eftir færeyska listamanninn Zacharias Heinesen, son rithöfundarins og myndlistarmannsins Williams. Það var mikil birta yfir þessum náttúrulífsmyndum sem komu okkur í snertingu við kjarna eyjaveraldarinnar í Færeyjum. Þarna voru margar myndir af Kunoyarnakkur en engin þeirra eins. Allar sögðu þær sína sögu af þessum dranga sem rís upp úr hafinu en dranginn kallaði fram mynd af Lómagnúpi í huga mér, sem ég hefði viljað að valinn hefði verið fjall Íslands á sínum tíma. 

Frá Hafnarborg gengum við yfir á Víkinga hótelið þar sem Sól í Straumi var að opna kosningaskrifstofu. Það var líka bjart yfir þeirri fjölmennu samkomu og nokkuð ljóst að hugur er í fólki þrátt fyrir milljónirnar sem Alcan eys nú í kosningabaráttu sína fyrir stækkuninni. Þarna voru einnig fulltrúar frá Sól á Suðurlandi og Sól á Suðurnesjum sem fluttu kveðjur frá sínu fólki til okkur Hafnfirðinga sem berjumst gegn stækkuninni. Þarna hitti ég ýmsa sem þökkuðu mér skrifin á þessari síðu og eftir að hafa átt samskipti við þetta fólk hef ég ákveðið að taka aftur upp skrif mín að minnsta kosti fram yfir kosningu þegar stækkuninni verður hafnað.


Kamelljónið hristir sig

Enn á ný rætist hið fornkveðana að að korteri fyrir kosningar birtist kammelljónið í nýjum búningi og hristir sig framan í alþjóð. Framsókn í nýjum galla. 12 mánaða fæðingarolof. Burt með stimpilgjöld og verðtryggingu. Samstöðu um þjóðlendur. Vaskur á lyf lækki í 7 prósent. Kynbundnum launamun verði eytt. Og svo framvegis.

  

Þetta eru baráttumál flokksins sem hefur setið við kjötkatlana undanfarinn áratug eða svo. Nú allt í einu á að fara fram með þessi málefni sem ef hugurinn stæði til hefði verið hægt að hrinda í framkvæmd fyrir löngu síðan.

  

Kannski var það samstarfsaðilinn í ríkisstjórn sem stóð í veginum. Spyr sá sem ekki veit. Sá hinn sami og fékk Fransóknarflokkinn til að skrifa upp  á stuðninginn við innrás Bandaríkjamanna í Írak. Sá hinn sami og lét knébeygði Framsókn í afstöðunni til hlutafjárvæðingar Ríkisútvarpsins.

En nú ríkja felulitirnir. Kamelljónið er mætt til leiks með fjármagn þeirra sem færðar hafa verið eignir þjóðarinnar á silfurfati.


Skrímslið í túnjaðrinum

Skoðanakönnun Fréttablaðsins um afstöðu landsmanna til stækkunar álversins í Straumsvík þarf ekki að koma á óvart. Þeir sem fylgst hafa með umræðu í samfélaginu að undanförnu hafa fundið að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur mætt miklum andbyr. Þegar Kárahnjúkavirkjun var samþykkt á sínum tíma gerði þjóðin sér enga grein fyrir því hvað verið var að kalla yfir hana. Eitt álver í viðbót við þau tvö sem fyrir voru og það í landshluta sem hafði átt undir högg að sækja atvinnulega var bara allt í lagi í huga stærsta hluta landsmanna þá. En nú horfir bara landið allt öðru vísi við.

  

Landsmenn þekktu ekki það svæði sem fór undir vatn við stíflu Kárahnjúka en sú kynning á svæðinu sem Ómar Ragnarsson o.fl. hafa veri með hefur opnað augu stórs hluta þjóðarinnar á þeim náttúruperlum sem fórnað var. Þetta var ekkert allt í lagi bara vegna þess að við þekktum ekki svæðið.

  

En við þekkjum svæðið í uppsveitum Árnessýslu sem stendur til að fórna á altari stóriðjunnar vegna stækkunarinnar í Straumsvík. Við höfum líka heyrt hugmyndir ráðamanna um fleiri álver; í Helguvík, á Húsavík og við Þorlákshöfn. Þá erum við að átta okkur á því að álverið í Straumsvík, sem staðsett er í jaðri byggðar Hafnarfjarðar verður stærsta álbræðsla Evrópu. Það er ekki ásættanlegt fyrir mína sveitunga að hafa slíkt skrímsli í túnjaðrinum hjá sér.

  

Í skoðanakönnun Fréttablaðsins kemur fram að meirihluti stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka nema Sjálfstæðisflokksins eru andvígir stækkuninni, en þó eru 37% fylgismanna hans andvígir. Mest er andstaðan hjá VG þar sem rúm 93% eru andvíg, rúm 75% hjá Samfylkingu og nálægt 55% hjá Framsókn og Frjálslyndum.

  

Sjálfsagt er landslagið í Hafnarfirði eitthvað frábrugðið þessari niðurstöðu en engu að síður gefur þessi skoðanakönnun andstæðingum stækkunar í Hafnarfirði byr undir báða vængi nú á lokasprettinum fyrir atkvæðagreiðsluna.

  

Hræðsluáróður Hags Hafnfirðinga og Alcan fellur í grýttan jarðveg, enda hefur komið í ljós að hann byggir á fölskum forsendum. Einnig liggur það nokkuð í augum uppi að aðstandendur Hags í Hafnarfirði eru tengdir fyrirtækjum sem sjá stækkunina í gegnum sjóngler síns eigin bókhalds.

Samtökin Sól í Straumi hafa hins vegar byggt sinn málflutning á staðreyndum sem standast, auk þess sem það vekur athygli að á heimasíðu þeirra er bæði að finna rökin með og á móti stækkun. Þegar þau eru skoðuð án fyrirfram gefinnar niðurstöðu verður kjósendum ljóst að rökin á móti vega mun þyngra þegar horft er til framtíðar bæjarins. Þá er íbúum bæjarins ljóst að núverandi álver í bænum verður ekki lagt niður þótt slíkt hafi verið gefið í skyn. Hvers vegna ætti Alcan að hætta rekstri þess álvers sem skilar fyrirtækinu mestum hagnaði af öllum álverum þess.


Hriplekt velferðarkerfi

Stöðugt kemur það betur og betur í ljós að íslenska velferðarkerfið er hriplekt. Í nýlegri skýrslu barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna kom fram að íslensk börn eru afskipt og njóta lítilla samverustunda við foreldra sína sökum mikils vinnuálags.

Kastljós hefur að undanförnu verið með umfjöllun um stöðu heilabilaðra og aðstandenda þeirra. Þar kom fram að úrræði fyrir þetta fólk eru mjög af skornum skammti og flestir aðstandendur þurfa að hætta vinnu til að geta sinnt sínum nánustu, yfirleitt mökum.

Nýjustu fréttir herma svo að foreldrar blindra barna neyðast til að flytja frá Íslandi svo börn þeirra fái möguleika til menntunar og þroska einsog ófötluð börn. Úrræðin eru ekki fyrir hendi hér á landi.

Í Blaðinu í dag er svo greint frá því að fötluðum skólabörnum í Reykjavík í 5. til 10. bekk stendur ekki til boða vistun á frístundarheimilum eins og ófötluðum börnum eftir skólatíma. Hafa foreldrar þurft að minnka við sig vinnu vegna þessa. Það stendur þó til að vinna bragarbót á þessu fyrir næsta haust.

Hér hefur bara verið tæpt á nokkrum atriðum sem sýna að þrátt fyrir að við búum í einu ríkasta samfélagi veraldar þá er víða pottur brotinn og þá hefur ekki verið minnst á aukna fátækt sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins kallar á þjóðarátak til að útrýma. Verkefnin eru næg framundan.


Kveðjur úr uppsveitum Árnessýslu

Það er dálítið sérkennileg tilfinning en í athugasemdum sem ég fæ við færslur mínar um stækkun álversins í Straumsvík fæ ég stuðningsyfirlýsingar úr uppsveitum Árnessýslu en hins vegar fjölmargar neikvæðar athugasemdir frá íbúum minnar heimabyggðar. Reyndar sýnast mér þær einkum vera frá starfsmönnum álversins.

  

Mér hefur alltaf þótt vænt um hreppana. Var í sveit í Bryðjuholti í Hrunamannahreppi frá 10 ára aldri til 15 ára, hjá eðalhjónunum Magnúsi og Sigríði. Lærði þar mörg undirstöðuatriði lífsins og vinnunnar og einnig ófáar góðar stökur. Reyndar voru íbúar eystri hreppsins litnir þar í góðgerðu hrepparígsgráglettnisljósi. Í mínum huga eru þessir tveir hreppir með fegurstu sveitum landsins. Því þykir mér mjög vænt um athugasemdir eins og ég fékk í dag frá Óskari Helga Helgasyni frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum. Athugasemd hans fer hér á eftir:

  

Sælir piltar, og stúlkur; ef einhverjar skrifa hér um þessi málefni!

Vil byrja á, að þakka Sigurði síðuhaldara, fyrir greinagóð skrif, og vel fram sett. Finnst rétt, að biðja þá ágætu drengi; Bjarna M. - Sigurð J.  og Björn Kristjánsson að athuga, að hér er ekki um hagsmuni Hafnfirðinga einna, að ræða. Beggja vegna Þjórsárbakka eru nokkur lögbýli, hver verið hafa í ábúð um árhundruð sum, og önnur í áratugi. Mannlíf í Villingaholts- Skeiða- Gnúpverja og Ásahreppum er ekkert ómerkilegra, eða ógöfugra en í Hafnarfirði og nærsveitum.

Ég hefi á tilfinningunni, að hefðbundinn búskapur; já og þar með mannlíf í sveitum Íslands, sé nokkrum starfsmönnum ÍSAL (Alcan) bara með öllu óviðkomandi, ja, sem og framtíðarhagsmunir okkar Sunnlendinga almennt.

Ber þetta vott um hroka þeirra ÍSAL manna? Trúi því ekki, að óreyndu, miklu fremur liðveizla við innlenda, sem útlenda stjórnendur þessa ágæta álsamfélags, í eftirsókn stækkunar og frekari gróða. 

Bjarni M. þykist geta talað niður, til Ögmundar Jónassonar, þess skrumlausa og hrekklausa drengs, (vill nú svo til, Bjarni; að þeir Ögmundur og Björn Bjarnason eru nú svo lítilátir og lausir við stórbokkahátt, allajafna svara þeir erindum mínum, til þeirra, gagnstætt flestum kollegum þeirra); og Sigurður J. talar um fyrrverandi komma, á Íslandi, jah..... betra hefði verið fyrir hina kapítalízku gróðahyggju að hafa meira aðhald, en nú tíðkast í dag; Sigurður J., persónulega hefði ég nú kosið hina ágætu stjórnmálastefnu, fasismann heldur en þá kommúnísku, það er a.m.k. mín skoðun.

Bjarni M. - Sigurður J. og Björn Kristjánsson ath.! Okkur; Vestur- Skaftfellingum - Rangæingum og Árnesingum ber ekki nokkur skylda, til útvegunar frekari raforku, úr héraði okkar, nema þá brýnir þjóðarhagsmunir krefðust, s.s. eldgos - miklir landskjálftar eða önnur óáran á landi hér. Höfum fram til þessa ekki gert neinar þær kröfur, til Landsvirkjunar, að njóta betri kjara eða hlunninda; umfram aðra landsmenn, þótt stærstir hefðum verið, fram undir þetta, í orkuútvegun allri. Þessa ættu íbúar við miðbik Faxaflóans að minnast, áður lengra er haldið! 

Bið að endingu skrifara, að sýna Sigurði Á. Friðþjófssyni virðingu, og engan fauta- eða rustaskap, hver algengari er að verða, á landi hér; hin seinni misseri.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum“


Fyrsti bikarinn í ár hjá mínum mönnum

Chelsea landaði fyrsta bikarnum á þessu tímabili fyrr í dag þegar þeir lögðu Arsenal 2 – 1 í frábærum leik á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff. Arsenal á heiður skilinn fyrir frammistöðu sína í leiknum og á köflum voru þeir betri aðilinn í leiknum þrátt fyrir að tefla fram ungum leikmönnum og hvíla þá eldri og reyndari eins og Henry og Ljungberg. En reynslan og frábærir taktar Drogba og Cech lönduðu sigrinum að lokum. Tvennt skyggir þó á sigurinn. Í fyrsta lagi að John Terry skyldi rotast. Óvíst er hversu alvarlegt það slys var og hvenær hann verður leikfær aftur. Svo var ljótur blettur á leiknum undir lokin þegar slagsmál brutust út en mikið var í húfi og mönnum því heitt í hamsi.

Enn og aftur til hamingju Chelsea og nú er bara að landa fleiri bikurum á árinu. Verður á brattann að sækja í deildinni og þar þarf að stóla á að United misstígi sig auk þess sem Chelsea þarf að halda áfram á þeirri sigurbraut sem liðið er. Svo er það meistaradeildin og þar er liðið í sterkri stöðu. Það er bara að spýta í lófana og halda áfram með sama sigurviljann og landaði dollunni í dag.


Mér er ekki illa við starfsmenn álversins

Ég hef fengið talsverð viðbrögð vegna skrifa minna um það sem ég kalla flugumenn Alcan. Starfsmenn álversins hafa sent inn athugasemdir og talið mig tala niður til þeirra. Það er af og frá. Ég veit að starfsmenn álversins í Straumsvík eru upp til hópa mjög hæfur starfskraftur sem vill auðvitað sínum vinnustað vel. Og ég skil vel að þeir vilji veg fyrirtækisins sem bestan og mestan og hafi vissar áhyggjur af framtíðinni þar sem atvinnurekandinn hefur gefið það í skyn að verksmiðjunni verði lokað ef áform þeirra um stækkun ná ekki fram að ganga. Hins vegar set ég spurningamerki við það þegar starfsmenn fá greitt frá atvinnurekandanum fyrir að tala fyrir stækkuninni.

  

Sumarið 1968 starfaði ég við að reisa vararafaflsstöð í Straumsvík. Sumarið 1983 starfaði ég hjá Hagvirki við Sultartangastíflu. Ég á bara góðar minningar frá þessum árum. Reyndar fórum við í verkfall á Sultartanga þetta sumar en það var ekki vegna andstöðu okkar við stífluna heldur vegna kjara.

  

Afstaða mín í dag til þessara mála markast fyrst og fremst af því að ég tel að stóriðjufylleríið sé komið úr böndunum. Dollaraglampinn í augunum tel ég að villi mönnum sýn á farsæla framtíð fyrir þessa þjóð. Við getum ávaxtað okkar pund miklu betur á öðrum vígstöðvum en í álbræðslum.

  

Enn og aftur er verið væna mig um vera málpípa VG þar sem ég sé starfsmaður BSRB. Við Ögmundur Jónasson höfum í gegnum tíðina átt gott samstarf og verið sammála um margt en einnig ósammál um sumt. Við höfum hins vegar ekki verið pólitískir samherjar frá stofnun Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Ég var alla tíð talsmaður þess að vinstri vængurinn sameinaðist í Samfylkingunni en Ögmundur valdi annan kost. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að enn í dag getum við verið sammála um sum pólitísk hitamál eins og stækkun álversins í Straumsvík, en þar eigum við bandamenn úr öllum flokkum, nema kannski helst í Framsóknarflokknum.

Og við Guðmund Gunnarsson vil ég bara segja það að ein skoðun er ekki merkilegri en önnur. Ég virði skoðanir þeirra sem eru hlynntir stækkun en ég fylgi hins vegar minni sannfæringu eftir, eins og ég veit að hann hefur ætíð gert sjálfur. 


Hafnfirðingar eru ekki til sölu

Dofri Hermannson spyr á bloggsíðu sinni hvað Hafnfirðingar kosti. Mer líkar ekki spurningin. Hafnfirðingar eru ekki til sölu, ekki í mínum huga að minnsta kosti. Ég treysti íbúum Hafnarfjarðar til að taka afstöðu um stækkun álversins burtséð frá gullasnanum sem Alcan reynir að koma yfir bæjarmúrana.

  

Ég gerði að umtalsefni í gær flugumenn Alcans og fékk talsverð viðbrögð á þá færslu. Var jafnvel haft í hótunum við mig og því haldið fram að þar sem ég er starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar megi ég ekki hafa skoðun á stækkuninni, að minnsta kosti ekki koma henni á framfæri. Af því tilefni vil ég segja eftirfarandi. Allt það sem birtist á þessari síðu er á mína ábyrgð en ekki míns atvinnurekanda. Sem starfsmaður BSRB gæti ég hlutleysis varðandi stóriðjuna enda hefur BSRB ekki tekið afstöðu í þeim málum. Innan bandalagsins eru einstaklingar með og á móti stækkun álversins. Þar eru líka einstaklingar úr öllum stjórnmálaflokkum. Það meinar mér ekki sem einstaklingi að hafa mínar eigin skoðanir og tala fyrir þeim vilji ég svo en það geri ég utan vinnutímans og í nafni sjálfs míns.

 

En ég fékk einnig jákvæð viðbrögð á færsluna. Þessi kom frá Árna Matthíassyni:

 „Mér finnst nú umtalsverður munur á því þegar maður talar vegna sannfæringar sinnar annars vegar, eins og Jón Baldvin, eða vegna þess að hann fær borgað fyrir að tala máli stórfyrirtækis, eins og Tryggvi Skjaldarson. Nú var ég ekki á fundinum og spyr því: Endaði hann mál sitt á: Þessi skoðun var í boði Alcan?

Hvaða munur er á því þegar Tryggvi Skjaldarson talar eða þegar Hrannar Pétursson talar? Enginn. Báðir eru þeir upplýsingafulltrúar Alcan, annar opinber og hinn hálfopinber. Hefði mönnum þótt það trúverðugt ef Hrannar Pétursson hefði tekið til máls á fundinum? Ónei.

 Ég skora á Alcan að birta lista yfir flugumenn sína svo maður viti á hvaða fylgjendur stækkunar er hægt að hlusta og hverjir eru bara málpípur.“

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband