Ójafn leikur og ólýðræðislegur

Framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna eru að ræða hvort flokkarnir eigi að setja hámark á kostnað vegna auglýsingabirtinga í komandi alþingiskosningum. Samkvæmt fréttum útvarps eru skoðanir misjafnar eftir hversu hátt hámarki á að vera. Frá 15 milljónum hjá Íhaldi, VG og Frjálslyndum í 30 hjá Samfylkingu og 35 hjá Framsókn. Hafa ber í huga að hér er einungis verið að tala um birtingarkostnað en ekki framleiðslu auglýsinga og annan kostnað sem fellur til vegna komandi herferða.

 

Það kemur ekki á óvart að Framsókn og Samfylking vilji hafa frjálsari hendur varðandi auglýsingar en hinir flokkarnir, enda eiga báðir flokkarnir undir högg að sækja samkvæmt skoðanakönnunum og ljóst að í undanförnum kosningum hefur t.d. Framsóknarflokkurinn auglýst mun meira en aðrir flokkar. Nú eru hins vegar breyttar forsendur því samkvæmt nýjum lögum um fjármál flokkanna geta einstaklingar og fyrirtæki ekki styrkt flokkana um meira en 300 þúsund krónur árlega. Þetta hlýtur að valda Framsóknarmönnum áhyggjum.

 

Alcan þarf hins vegar ekki að hafa áhyggjur af þessu í auglýsingaherferð sinni vegna atkvæðagreiðslunnar um stækkun álversins í Straumsvík. Samt ber fyrirtækið baráttu sína fyrir stækkun við kosningabaráttu stjórnmálaflokka. Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi fyrirtækisins neitaði að upplýsa hvað fyrirtækið ætlaði að kosta miklu til í þessari ójöfnu baráttu. Taldi slíkt óeðlilegt enda þyrftu stjórnmálaflokkar ekki að gera slíkt í kosningum.

 

Það er ljóst að kostnaður fyrirtækisins hleypur ekki á tugum milljóna heldur miklu heldur á hundruðum milljóna þegar upp verður staðið og allt reiknað með. Í ofanálag hvetur svo fyrirtækið starfsmenn sína til að stunda persónunjósnir um bæjarbúa og safnar slíkum upplýsingum inn á lokaðan miðlægan gagngrunn.

 

Pétur Óskarsson talsmaður Sólar í Straumi var hins vegar tilbúinn að upplýsa hvað samtökin hefðu úr að moða í baráttu sinni. Tæp hálf milljón frá bænum í útgáfukostnað og síðan frjáls framlög frá einstaklingum og einstaka fyrirtækjum. Reiknaði hann með að um tvær milljónir yrðu til ráðstöfunar í baráttuna.

 Já þetta er ójafn leikur og afar ólýðræðislegur. Að alþjóðlegur auðhringur eins og Alcan sé að blanda sér kosningabaráttu á þennan hátt um framtíðarþróun byggðar örsamfélags eins og Hafnarfjarðar er óhugnanlegt. Hvert stefnum við eiginlega?

Guðmundur Jaki, Kristur og Marx

Nú vilja Samfylkingarmenn í Breiðholti láta reisa styttu af Guðmundi Jaka í Breiðholtinu. Er ekki nóg að það sé ein stytta af Jakanum í bænum og það á besta stað, í sjálfri Hallgrímskirkju. Þar trónir verkalýðsleiðtoginn sem sjálfur Kristur, en Guðmundur J. mun hafa staðið fyrir þegar Einar Jónsson gerði styttuna. Kannski þeir Breiðhyltingar vilji að nú verði hann í hlutverki Marx, eins og Egill Helgason leggur til á síðu sinni.Ég man ekki betur en að R-listinn hefði lagst gegn því að stytta yrði gerð af Tómasi Guðmundssyni vegna þess að nóg væri komið af styttum af körlum, nú væri röðin komin að konum.

 


Er meirihlutinn í Hafnarfirði að kasta grímunni?

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar stendur fyrir þremur fundum nú á lokasprettinum fyrir atkvæðagreiðsluna um stækkun álversins. Afar athyglisvert er að skoða uppsetningu fundanna, en fyrsti fundurinn er í kvöld og fjallar um umhverfi og mengun. Næsti fundur er annað kvöld og fjallar um skipulag og framtíð byggðar. Lokafundurinn er svo á fimmtudagskvöldið og fjallar um efnahag og samfélag. Á heimasíðu Hafnarfjarðar er hægt að sjá hverjir eru framsögumenn á fundunum. Þar kemur fram að Pétur Óskarsson fulltrúi Sólar í Straumi er meðal framsögumanna á öðrum fundinum. Enginn annar fulltrúi Sólar í Straumi kemur fram á fundunum. Ingi B. Rútsson formaður Hags Hafnarfjarðar er hins vegar með framsögu á öllum fundunum og fulltrúar Alcan eru á tveimur fundum. Er nema vona að trúr og dyggur Samfylkingarmaður eins og ég sem hef varið það að meirihlutinn sitji hjá í skoðanaskiptum um stækkunina þar sem málinu hafi verið vísað til bæjarbúa sé hugsi.  

Fundirnir eru sem hér segir:

20. mars, umhverfi og mengun.
Hafnarborg kl.  20.00

Trausti Baldursson, formaður starfshóps skipulags- og byggingarráðs
Dr. Sveinn Agnarsson, hagfræðingur á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands
Stefán Einarsson, Umhverfisstofnun
Ingi B. Rútsson, formaður Hags Hafnarfjarðar
Stefán Georgsson, verkfræðingur
Guðrún Þóra Magnúsdóttir, leiðtogi umhverfismála hjá Alcan

Fundarstjóri: Hólmar Svansson,Capacent

21. mars, skipulag og framtíð byggðar
Bæjarbíó kl. 20.00

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar
Dr. Bjarki Jóhannesson, sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðarbæjar
Pétur Óskarsson, formaður Sólar í Straumi
Ingi B. Rútsson, formaður Hags Hafnarfjarðar
Elías Georgsson, verkfræðingur
Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri hjá Alcan

Fundarstjóri: Fjóla María Ágústsdóttir, Capacent

22. mars, efnahagur og samfélag.
Bæjarbíó kl. 20.00

Dr. Gunnar Ólafur Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands
Sveinn Bragason, fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar
Ingi B. Rútsson, formaður Hags Hafnarfjarðar
Sigurður Pétur Sigmundsson, hagfræðingur
Dr. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Kristín Pétursdóttir, viðskiptafræðingur

Fundarstjóri: Hólmar Svansson, Capacent
 

15 þúsund í stað 250 þúsund

Alcan auglýsir grimmt þessa dagana. Heilsíður í öllum blöðum þar sem fullyrt er að stækkun þýði 250 þúsund króna viðbótartekjur á ári fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu í Hafnarfirði. Í skýrslu Hagfræðistofnunar fyrir Hafnarfjarðarbæ kemur hins vegar í ljós að bæjarsjóður mun fá um 15.000 krónur á hverja fjölskyldu í bænum á ári. Og þá er ekki tekið tillit til mengunar álversins. Sjá fróðlega grein eftir Pétur Óskarsson, talsmann Sólar í Straumi.

Rangfærslur Alcan sýna að fyrirtækið svífst einskis til að ná fram stækkuninni. Enda mikið í húfi fyrir fyrirtækið. Hagnaður bæjarins á næstu 50 árum verður ámóta mikill og árlegur hagnaður Alcan af núverandi álveri, eða um 4 milljarðar. Hagnaður Alcan af stækkuðu álveri yrði hins vegar um 500 milljarðar á þessum 15 árum. Það er því mikið í húfi.

Burt af lista hinna staðföstu ríkja

Í dag eru liðin fjögur ár síðan Íslenska þjóðin gerðist í fyrsta skipti aðili að stríðsrekstri gegn annarri þjóð og það án þess að hún væri spurð að því. Tveir einstaklingar tóku þessa ákvörðun upp á sitt einsdæmi, Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra. Í skoðanakönnunum kom fram að yfir 80% landsmanna voru andvígir þessum gjörningi enda leiddi stríðið við Írak og eftirleikur þess hræðilegar hörmungar yfir íbúa landsins.

 

Margar þjóðir sem á sínum tíma settu sig á lista hinna staðföstu hafa dregið þann stuðning til baka og beðist afsökunar opinberlega. En ekki íslenska ríkisstjórnin sem þó hefur ítrekað verið krafin um að gera það.

 Þátttaka okkar í Írakstríðinu verður meðal þess sem kosningarnar í maí munu snúast um. Þá gefst landsmönnum tækifæri til að sýna hug sinn í verki. Fyrsta verk þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við af núverandi ráðamönnum á að vera að taka okkur burt af þessum óþverralista svo við getum horft aftur framan í umheiminn.

 


Grátt ætlar allt grænt að gleypa

Sáttmáli Framtíðarlandsins sem ber yfirskriftina grænt eða grátt er um margt merkilegt plagg. Bara það að svona stefnumarkandi manifesto um framtíðar umhverfisstefnu þjóðarinnar skuli gert eru heilmikil tíðindi. Þá vekur það athygli hverjir standa að þessum sáttmála. Það eru m.a. fyrrverandi forseti lýðveldisins, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi biskup þjóðkirkjunnar, Vigdís, Steingrímur og Sigurbjörn. Þá eru í hópnum fjölmargir einstaklingar sem hafa skarað fram úr í listum, íþróttum, vísindum og á fleiri sviðum. Allt þjóðkunnir einstaklingar sem við berum virðingu fyrir. Það er erfitt fyrir þjóðina að neita að hlusta á þetta fólk.

 

Yfirskriftin: Grænt eða grátt rifjaði upp fyrir mér sumarið 1982 þegar ég vann hjá Hagvirki sem þá hafði tekið að sér Sultartangastíflu. Á tímabili var ég staddur í Hafnarfirði við að steypa byggingareiningar sem fluttar voru upp á hálendið. Dag eftir dag, viku eftir viku vorum við að steypa sömu gráu eininguna. Þá varð til hjá mér eftirfarandi staka:



Slynga,slóttuga
sleipa
steypa, stein-
steypa
hatri í hjartað
munt hleypa
geggjun í geðið
greipa
Steypa, stein-
steypa
Grátt ætlar allt grænt
að gleypa.

 Hvað felst svo í sáttmálanum? Það að áður en ráðist verður í nokkrar frekari virkjunar- eða

stóriðjuframkvæmdir verði búið að afgreiða og samþykkja fyrsta og annan áfanga Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og að Rammaáætluninni í heild verði gefið lögformlegt vægi. Þar til því ferli er lokið verði ekkert frekar aðhafst í stóriðju- og virkjanauppbyggingu. Þetta útilokar ný álver í Helguvík og á Húsavík, sem og stækkun álveranna í Straumsvík og í Hvalfirði á tímabilinu. Á meðan þessu ferli stendur verði ekki leitað hófanna með aðrar virkjanir, hvort sem þær falla í umhverfisflokk A, B eða C samkvæmt núverandi skilgreiningu Rammaáætlunar. Ennfremur verði engum frekari rannsóknarleyfum úthlutað á þessu tímabili. Þá verði íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni ekki notað frekar en þegar hefur verið gert vegna Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði.

  

Horfði á fulltrúa fjögurra stjórnmálaflokka í Silfri Egils. Það voru Össur fyrir Samfylkinguna, Einar Guðfinnsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Siv fyrir Framsókn og Steingrímur fyrir VG. Þegar maður mátar málflutning þessara fulltrúa við sáttmála Framtíðarlandsins er ljóst að einungis tveir stóðust prófið, Össur og Steingrímur. Þá hefur komið fram að Frjálslyndir eru með „hóflegri stóriðju“.

  

Umhverfismálin eru mikilvægasti málaflokkurinn fyrir komandi kosningar og skoðanakannanir sýna að þau munu vega þungt þegar kjósendur greiða atkvæði. Kosningarnar munu snúast um grænt eða grátt. Fyrst mun reyndar reyna á okkur Hafnfirðinga 31. mars þegar við ákveðum hvort stærsta álver Evrópu verði staðsett í miðjum bænum. Eða eins og ég var spurður um í dag: Hvenær ætla Reykvíkingar að krefjast álvers til að bjarga borgarsjóði?


Álbræðsluöfugmæli

Í Fréttablaðinu í dag er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði að söfnun Alcan á persónuupplýsingum um íbúa Hafnarfjarðar „...sé svona heldur sakleysislegt. Þetta virðist vera fyrirtæki sem þarf að hella sér út í kosningabaráttu til að berjast fyrir sinni framtíð.“

 

Þá vitum við það. Alcan sakleysið uppmálað í kosningabaráttu sinni. Hún líkir þessu við kosningakerfi stjórnmálaflokkanna og finnst ekkert athugavert við það. Mér finnst ansi margt að því að risafyrirtæki á borð við Alcan sé að blanda sér í lýðræðislega kosningu um framtíðarþróun Hafnarfjarðar. Í kosningu um það hvort í framtíðinni verði stærsta álbræðsla Evrópu stödd í miðju bæjarfélaginu því ljóst er að framtíðarbyggð bæjarins mun vera meðfram ströndinni fyrir sunnan Straum. Þá hef ég á tilfinningunni að upplýsingasöfnun Alcan sé á dálítið öðru plani en flokksskrár stjórnmálaflokkanna.

 

Í hádegisfréttum í dag blandaði Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins sér í kosningabaráttuna fyrir Alcan. Í ræðu sinni á iðnþingi varaði hann við því að fyrirtæki á borð við Alcan yrðu kosin burt. Atkvæðagreiðslan snýst sem sagt ekki lengur um stækkun álbræðslunnar heldur um að kjósa fyrirtækið burt. Sami útúrsnúningurinn hefur verið hjá öðrum stuðningsmönnum stækkunar. Það er ekki lengur talað um stækkun heldur hvort álverið fari. Helgi bætir um betur og segir að ef Hafnfirðingar kjósa álverið burt (hafna stækkuninni) gæti komið holskefla af kosningum um framtíð annarra fyrirtækja eins og „fiskiðjur, síldarverksmiðjur og  fyrirtæki í grófum iðnaði.“

 Hann sá síðan ástæðu til að skammast út í Hafnfirðinga fyrir að hafa byggt svo nálægt álbræðslunni. Þeir hefðu átt að beina byggðinni annað. Það er sama ábendingin og Roth forveri Rannveigar Rist og Finnur Ingólfsson fyrrum iðnaðarráðherra komu með á sínum tíma. Hvers vegna? Liggur það ekki í augum úti. Stækkunin hefur aukna mengun í för með sér fyrir íbúana á Völlunum. Málið er bara það að vænlegt byggingarland fyrir Hafnarfjörð er eins og fyrr sagði í hrauninu fyrir sunnan Holt. Í norður er fullbyggt og ekki er vænlegt að teygja byggðina mikið meira í áttina að Kaldárseli.

Vitinn og álrisinn

Ég ólst upp á Álfaskeiði 18. Þaðan er tveggja mínútna gangur að vitanum efst við Vitastíg sem er tákn Hafnarfjarðar. Þetta var okkar leiksvæði og síðar átti karl faðir minn eftir að útfæra vitann sem einkennismerki Hafnarfjarðar. Mér hefur því alltaf verið hlýtt til þessarar byggingar, enda í mínum huga hafnfirskari en sjálfur gaflarinn.

 

Í dag barst inn um bréfalúguna glæsilegur litprentaður bæklingur frá Alcan og prýddi vitinn forsíðu hans. Mér var brugðið. Undanfarna daga hafa birst heilsíðu auglýsingar í helstu blöðum landsmanna og drjúgt pláss einnig verið undir slíkar auglýsingar í bæjarblöðunum. Sól í Straumi hefur verið með lítinn borða í bæjarblöðunum. Þarna er stórkapítalið að reyna að kaupa bæjarbúa til liðs við sig í kosningum sem eiga að heita lýðræðislegar. Það er ekkert lýðræðislegt við þessi vinnubrögð.

 

Í vetur voru sett ný lög um fjármál stjórnmálaflokkanna þar sem kveðið er á um að einstök fyrirtæki geti einungis veitt takmörkuðu fé í kosningasjóði flokkanna. Varðandi kosninguna um stækkun álversins gilda hins vegar engar reglur. Sjóðir Alcan eru ótæmandi. Almenningsálitið hlýtur að vera falt og við greiðum það sem þarf til að snúa því okkur í hag hugsa ráðamenn þar.

 

Á sama tíma berast fréttir af því að Alcan sé með innri kosningavef fyrir starfsmenn og áróðursmeistara sína þar sem ótæpilega er safnað upplýsingum um afstöðu bæjarbúa til stækkunarinnar, á nöfnum, símanúmerum og vafalítið kennitölum. Persónuvernd hefur þennan kosningavef til skoðunar hjá sér.

 Þetta er farið að minna óhugnanlega mikið á United Fruit Company, bananalýðræðið. Eða framferði olíufyrirtækja í þriðja heiminum. Hafnfirðingar þurfa síst á slíku að halda. Vitinn mun lýsa okkur inn í sólbjarta framtíð án stærsta álskrímslis Evrópu í garðshorninu hjá okkur.

Hundslappadrífa Framsóknar

Upphlaup Framsóknarflokksins vegna auðlindafrumvarpsins, sem fyrst virtist vera orrahríð að samstarfsflokknum í ríkisstjórn, reyndist í raun hundslappadrífa. Hríðin gufaði upp áður en hún náði jarðsambandi, rétt eins og ofankoman úti núna. Auðlindafrumvarpinu var vísað til framtíðarinnar og Framsókn kennir stjórnarandstöðunni um. Hún hafi hótað málþófi.

Staðreyndin var einfaldlega sú að frumvarpið var hvorki fugl né fiskur og snilldarútspil hjá Geir H. Haarde því hann var allan tímann fullviss um að það gæti enginn skilið það sama skilningi og Jón Sigurðsson, sem lagði sinn þjóðræna skilning í málið. Nú stendur Framsókn með enn eina niðurlæginguna frá samstarfsflokknum. Útspilið sem átti að sýna sjálfstæði Framsóknar sýndi í raun að flokkurinn er og hefur verið taglhnýtingur Sjálfstæðisflokksins og miðað við yfirlýsingar að undanförnu vonast hann til að geta verið það áfram eftir kosningarnar í vor. Allt útlit er hins vegar fyrir að þá lendi flokkurinn í stórhríð sem geri þær vonir að engu.


mbl.is Umfjöllun um stjórnarskrárfrumvarp hætt í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verndarinn í hrauninu fyrir sunnan byggð

Það er vart hægt að hreyfa sig í Hafnarfirði þessa dagana án þess að vera minntur á verndarann í hrauninu rétt fyrir sunnan byggð. Álrisinn minnir á sig. Allsstaðar blasa við skilti og fánar með merki bræðslunnar. Á jarðhæðinni í Firði fyrir framan bankann og ríkið er stórt skilti sem vísar fólki upp á næstu hæð fyrir ofan þar sem er glæsileg kosningaaðstaða fyrir alþjóðarisann og er ekkert til sparað. Peningar skipta ekki máli. Það þarf að minna bæjarbúa á hversu örlátt þetta fyrirtæki hefur verið í þeirra garð.

 

Nokkuð oft tek ég að mér að sækja dótturdóttur mína á leikskólann sem er við golfvöllinn á Hvaleyri. Í dag brá svo við að fáni Alcan blakti þar á stöng. Sennilega hefur álbræðslan verið að styrkja golfklúbbinn Keili. Þeir hafa einnig verið að minna bæjarbúa á stuðning sinn við önnur íþróttafélög í bænum. Alcan er hér og þar og allsstaðar í firðinum og við skulum ekki gleyma því hvað við eigum þeim að þakka.

 

Mér var sagt að auglýsingastofan sem sér um kosningaáróður fyrir Alcan sé ekki bundin neinni fjárhagsáætlun. Kosningasigur 31. mars má kosta það sem hann þarf. Auglýsingar í dagblöðum og bæjarblöðunum, leigupennar sem fjalla ekki á málefnalegan hátt um stækkunina heldur hamra nú á því að kosningarnar fjalli ekki um stækkun heldur lokun álversins. Það er von að andstæðingar stækkunar séu uggandi. „Ég óttast að asninn gullklyfjaði komist yfir bæjarmúrinn,“ sagði Kristján Bersi við mig á opnunarhátíð kosningamiðstöðvar Sólar í Straumi sl. sunnudag. Þar er fyrst og fremst unnið hugsjónastarf. Frjáls framlög félagsmanna kosta kosningabaráttuna að mestu leyti. Vonast er eftir hálfrar milljón króna útgáfustyrk frá bæjaryfirvöldum, álíka upphæð og Alcan eyðir í baráttuna fyrir hádegi á einum degi. Þetta er ekki jafn leikur.

Um daginn barst bæklingur frá bæjaryfirvöldum um stækkunina til bæjarbúa. Ég trúði því vart að félagi Lúðvík Geirsson, fyrrverandi formaður Blaðamannafélagsins, legði blessun sína yfir svo óaðlaðandi og óaðgengilegan bækling. Sjálfsagt er ekki hægt að væna útgefanda um að reka áróður fyrir annan hvorn aðilann. Allt mjög óhlutdrægt. En hver nennir að lesa þetta. Það var eins og gamla kanselíið hefði séð um útgáfuna. Hvar var blaðamaðurinn í þér Lúlli þegar þú leist á afkvæmið?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband