Stórsigur lýðræðisins

Í stórum dráttum var þessi færsla tilbúin áður en niðurstaða var fengin í atkvæðagreiðslunni um stækkun álversins. Atkvæðagreiðslan í Hafnarfirði var stórsigur lýðræðisins. Sú ákvörðun meirihluta samfylkingarinnar í Hafnarfirði að vísa þessu stóra máli til íbúa Hafnarfjarðar var djörf ákvörðun en hefur sýnt sig að þetta var rétt ákvörðun. Metþátttaka bæjarbúa í atkvæðagreiðslunni, 76,6%, sem er talsvert meira en í síðustu bæjarstjórnarkosningum, sýnir að bæjarbúar vilja fá að hafa eitthvað um framtíð síns bæjarfélags að segja.

 

Sigur þeirra sem voru á móti stækkun var tæpur en horfa verður á hann í ljósi þess ójafnræðis sem var í sjálfri kosingabaráttunni. Annarsvegar var fjölþjólegt stórfyrirtæki með fjárhirslur sem minna á peningatank Jóakim aðalandar og hins vegar almannasamtök smáanda  borð við sjálfan Andrés önd. Eða eins og Ómar Ragnarsson sagði; Davíð lagði Golíat.

 Ég horfði á viðtal við félaga Lúðvík Geirsson í kvöld.  Þetta var djörf ákvarðanataka hjá meirihlutanum að láta bæjarbúa um að gera út um þetta stóra skipulagsmál. Hann hefur staðið vel að útfærslunni og á heiður skilið fyrir. Staða hans hefur ekki verið auðveld en ég dáist að því hvernig hann hefur komist frá því. Lýðræðislegur vilji bæjarbúa fékk að ráða um framtíðarskipan skipulagsmála á strandlengjunni suður af Hafnarfirði. Nú getur við farið að horfa til framtíðar.

Jákvæðasta fólk Hafnarfjarðar segir NEI

er yfirskrift á litlum bæklingi sem barst inn um bréfalúguna í dag frá Sól í Straumi. Þar var fullt af jákvæðum einstaklingum og þótti mér vænt um að náfrændi minn Gunni Beini væri í þessum hópi með góðkunningja mínum Jónatani Garðarssyni, Sóleyju Elíasdóttur sem keypti af mér íbúð, Magga Kjartans sem býr neðst í götunni minni, Stínu Einars sem er nátengd eiginkonu minni og öðrum góðum og gegnum Hafnfirðingum.

 

Þetta lá á gólfinu við bréfalúguna þegar ég kom heim í dag eftir að hafa farið með Völu Marie dótturdóttur mína að Bakkatjörn á Seltjarnarnesi að gefa brabra og svönum brauð, en þar sáum við fyrsta tjaldinn í ár. Þegar ég kom heim tók ég eftir því að gljámispillinn var farinn að bruma. Vorið er í nánd. Sól mun rísa yfir Hafnarfirði á morgun þegar bæjarbúar ganga til atkvæða um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík.

 

Einnig hafði mér borist bréf af bökkum Þjórsár. Það var frá ábúendum á 23 bæjum við bakka Þjórsár. Þetta var ákall til okkar Hafnfirðinga um að hugsa til íbúa austur í sveitum þegar við greiðum atkvæði á morgun og hjálpa þeim við að vernda stolt þeirra, Þjórsána, skraut hennar, fossa, flúðir, hólma, eyjar og bújarðir þannig að komandi kynslóðir fái notið hennar eins og hinar fyrri.

 

„Sælir eru hógværir því þeir munu landið erfa.“

 

Í bréfinu kemur fram að landslagi í og við Þjórsá verði umturnað frá Gaukshöfða og langleiðina til sjávar. Fimm stór uppistöðulón yrðu þá í sveitarfélaginu. Urriðafoss, Hestfoss og Búðafoss hyrfu. Eyjar sykkju og árfarvegurinn myndi nánast þorna upp á löngum köflum. Aðkoman að Þjórsárdal, eins þekktasta ferðamannasvæðis Íslendinga myndi sökkva í Hagalón. Margar bújarðir myndu skemmast og lífríki Þjórsár skaðast.

 Hafnfirðingar ekki viljum við hafa þetta á samviskunni annað kvöld. Segjum nei við stækkun!

Zero stækkun

zero--ÁLVERIÐAf hverju ekki álver með zero stækkun? Ekki að það þýði að núverandi álver sé „lítið og krúttlegt“ eins og Rannveig Rist hélt fram í Kastljósi um daginn; sennilega frasi ættaður frá Gunnari Steini, en samkvæmt síðustu fregnum er það hann sem hefur hannað kosningabaráttu Alcan. Þar er ekki í kot vísað enda hefur Gunnar stýrt ófárri kosningabaráttunni og oftast uppskorið fyrir sína umbjóðendur eins og Ólaf Ragnar á sínum tíma.

Ég man alltaf fund sem Gunnar Steinn átti með innsta kjarna Alþýðubandalagsins um árið í aðdraganda að kosningum. Þá var ég ritstjórnarfulltrúi Þjóðviljans sáluga og því boðaður á fundinn þar sem ætlunin var að Þjóðvilinn styddi baráttuna. Gunnar hóf málflutning sinn á því að segja að menn yrðu að líta á sig sem liðsmenn í knattspyrnuleik, það þýddi ekkert að leika sóló, þeir væru hluti af liðsheild (rámar í að framsóknarþingkona hafi notað þennan frasa á yfirstandandi kjörtímabili). Síðan sagði hann að hann yrði að hafa óheftan aðgang að formanni flokksins, Ólafi Ragnari, hvenær sólarhrings sem væri, og það væru þeir sem stýrðu baráttunni og hinir yrðu að fylgja stefnunni. Það kom kyndugur svipur á suma þingmennina og eftir tölu Gunnars stóð Hjörleifur Guttormsson upp og sagðist ekki hlusta á svona rugl, að líkja alvarlegum stjórnmálamönnum við knattspyrnumenn og að hugsjónabarátta væri sambærileg knattleik væri út í hött. Síðan gekk hann á dyr. Ólafur Ragnar og Gunnar Steinn sáu síðan um að skila flokknum ágætum árangri í kosningunni þrátt fyrir að Hjörleifur og ýmsir aðrir spiluðu sóló.

Að lokum vil ég benda á þessa færslu á bloggsíðu Árna Guðmundssonar: Smekkleysa  Það er rétt hjá þér Árni að þarna er skotið yfir markið. Sömu trakteringu fær líka Guðfríður Lilja með sína grein.

 


Spunameistarar Alcan og Framsóknar

Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Alcan greip til svipaðra spunabragða og Björn Ingi Hrafnsson. Björn Ingi kynnti fyrir fjölmiðlum og alþjóð tilboð Faxaflóahafna í að leggja Sundabraut. Gleymdist að taka fram að þetta tilboð kom fyrir ári síðan í tíð þáverandi meirihluta R-listans. En það gagnaðist Binga að kynna þetta sem árangur Framsóknarmannsins í meirihlutasamstafinu í von um að það skilaði sér til Framsóknar á landsvísu í komandi þingkosningum.

 

Til ámóta bellibragða greip upplýsingafulltrúi Alcan vegna kosninganna nk. laugardag um stækkun álversins. Alcan var tilbúið að greiða Landsneti fyrir að línur í gegnum byggð í Hafnarfirði yrðu grafnar í jörð. Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, kveðst í Morgunblaðinu í dag, ánægður með að samkomulag um þennan þátt sé í höfn en málinu sé þó ekki lokið fyrr en endanlegt umhverfismat liggi fyrir.

 

„Hins vegar er það svo að það hefur alltaf staðið til að línur í næsta nágrenni við spennistöðina við Hamranes og línur sem liggja þaðan inn til Hafnarfjarðar færu í jörðu. Það hefur lengi legið fyrir en það er hins vegar ekki nema vika síðan við sendum staðfestingu á því til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði að við höfum náð samkomulagi um þetta,“ sagði Þórður.

 

Í athugasemd frá Guðmundi Guðmundssyni við skrif mín á gær segir: „Áliðnaðurinn er að flytjast frá Evrópu vegna verðhækkana á raforku. Stækkun í Straumsvík er sennilega síðasta tækifæri Alcans til þess að komast í ódýra vatnsorku á evrópska efnahagssvæðinu.“

 

Að svipaðri niðurstöðu komst Kristín Pétursdóttir, hagfræðingur og fyrrverandi aðstoðarforstjóra Singer og Fridlander bankans í London í Fréttablaðinu. Hún hélt því fram að Landsvirkjun væri rekin með „óviðunandi arðsemi“.



Hafnfirðingum og öðrum landsmönnum er ætlað að niðurgreiða raforkuna til Alcan. Það er alveg sama hvernig á málið er litið. Þreföldun álversins er fórn sem ekki má verða. Með því er besta byggingarlandi höfuðborgarsvæðisins fórnað fyrir stærstu álbræðslu Evrópu, sömuleiðis loftgæðum og takmarkaðri auðlind sem raforkan er.

Stóra kosningatrompið

Já-fánaborgirnar hafa verið endurreistar í Hafnarfirði. Sennilega hefur „Hagur Hafnarfjarðar“ fengið leyfi til þess hjá bæjaryfirvöldum núna, en um helgina þurftu þeir að fjarlægja fánaborgirnar. Hvernig verður það þegar kosningar nálgast, geta stjórnmálaflokkarnir þá fengið að setja upp slíkar fánaborgir víðsvegar um bæinn? Þá verður ófagurt um að litast í bænum.

 

Nú hefur Alcan spilað út stóra kosningatrompinu sínu. Það kostar ekki milljónir. Það kostar vafalítið milljarða og sýnir að fyrirtækið er tilbúið að kosta öllu til fyrir stækkunina. Það sannfærir mig bara um eitt. Álbræðslan er algjör gullbræðsla fyrir Alcan. Þar spilar stærsta hlutverkið lágt orkuverð og er það staðfesting á því að það erum við landsmenn sem þurfum að borga brúsann með háu orkuverði.

 Vissulega ber að fagna því að raflínurnar verði grafnar í jörðu ef niðurstaða kosninganna næsta laugardag fer á versta veg. Ég trúi því hins vegar að Hafnfirðingar séu það skynsamir að hafna stækkuninni. Það er það mikið í húfi. Stóriðjustefnan er stefna fortíðarinnar. Framundan er vorið enda lóan komin.

Þjóðin hlúi að Alcan

Það var ekki laust við að Rannveig Rist hafi ætlað sér að endurbæta hinn nýja þjóðsöng Spaugstofunnar þegar hún sagði í Kastljósinu áðan að Hafnfirðingar ættu að hlú að álbræðslunni í Straumsvík og því kjósa með stækkun. Tilbiðjið Alcan og deyið.

Hingað til hefur þjóðin verið hvött til að hlú að náttúru landsins en aldrei áður álbræðslum. Þetta er svo sem eftir öðru í málflutningi Alcan þar sem sannleikanum er ítrekað snúið á haus. Nú hefur komið fram að haldið er að Hafnfirðingum tölvugerðu myndskeiði af stækkuðu álveri án strompanna og viðurkenndi Rannveig það, enda ekki ætlunin að sýna öll smáatriðin. Risastromparnir sem skaga upp í himininn eru smáatriði.

Loftmengunin er aukaatriði segir Alcan og vísar til ársmeðaltals sem gefur villandi mynd. Mengunin gæti verið hættuleg þeim sem stingur hausnum ofan í strompana, segir Rannveig. En hvaða strompa? Það er jú búið að fjarlægja þá enda snýst málið í dag um sjónmengun.

Nú hefur komið í ljós að það er Alcan sem er að láta Gallup gera könnunina sem ég sagði frá í gær. Efast um að almenningur fái að sjá niðurstöðuna úr henni. Þetta er bara enn eitt vopnið í vopnabúri fjölþjóðafyrirtækisins í baráttunni gegn lýðræðislegri niðurstöðu úr íbúakosningunni nk. laugardag.


Gallup með skoðanakönnun um stækkunina í Hafnarfirði

Capacent Gallup hefur í dag verið að hringja í Hafnfirðinga til að kynna sér afstöðu þeirra til stækkunarinnar á álverinu í Straumsvík. Spurt er um afstöðu Hafnfirðinga til loftmengunar og sjónmengunar, einnig hvort tekjuauki Hafnarfjarðarbæjar hafi áhrif á afstöðu til stækkunarinnar. Aðal spurningin var hins vegar hvort viðkomandi ætli að taka þátt í kosningunni og hvort viðkomandi kjósi með stækkun eða gegn henni. Verður forvitnilegt að sjá niðurstöðuna þegar hún birtist. Forvitnilegri verður þó niðurstaðan 31. mars þegar Hafnfirðingar hafna stækkuninni vonandi.


Ólýðræðislegt vinnubrögð Alcan

Ekki fannst mér flokksbróðir minn Gunnar Svavarsson standa sig vel í Silfri Egils áðan. Ég hef skilið þá afstöðu bæjarfulltrúa meirihlutans í Hafnarfirði að blanda sér ekki með beinum hætti í átökin um stækkun álversins í Straumsvík eftir að málinu hafði verið vísað til bæjarbúa. Hins vegar get ég ómögulega réttlætt það afstöðuleysi sem kom fram hjá Gunnari um hvernig fjölþjóðafyrirtækið Alcan hefur blandað sér í baráttuna með ótæpilegum fjáraustri í auglýsingar fyrir stækkuninni. Þetta er eins ólýðræðislegt og það getur verið. Það er íbúanna að taka afstöðu í þessu máli og eðlilega takast þeir á. Það á ekki að vera hlutverk fjölþjóðarisans Alcan. Fyrirtækið hefur sótt um að fá að stækka og bera að hlýta þeirri niðurstöðu sem bæjarbúar komast að án þess að ausa yfir þá villandi upplýsingum, gjöfum og hótunum um að hverfa burt ef ekki verði af stækkun.

Að lokum vil ég óska Spaugstofunni til hamingju með 300 þáttinn og ólíkt flestum öðrum bloggurum hrósa þeim fyrir frábæra útgáfu af þjóðsöngnum. Má vera að þetta sé brot á einhverjum landslögum um sönginn, en hvaða nauðsyn krefst þess að lög séu sett um eina lagasmíð?

Við erum eitt smáblóm
með titrandi tár
sem tilbiður Alcan og deyr.


Fánaborgir fjarlægðar

Í morgun voru fánaborgir frá Alcan um allan Hafnarfjörð. Á fánunum stóð stórt JÁ 31. mars. Upp úr hádegi höfðu fánarnir allir verið fjarlægðir. Grunar mig að Alcan hafi ekki verið með leyfi til að setja þessar fánaborgir upp á almannafæri og því orðið að fjarlægja þær.

 Þetta er eftir öðru hjá þeim í kosningabaráttunni. Ekkert er til sparað og öll brögð leyfileg, villandi upplýsingar settar fram og persónunjósnir stundaðar.

DVD-diskur og risaplakat inn á hvert heimili

Ég er með miða frá póstinum á hurðinni hjá okkur þar sem fjölpóstur er afþakkaður. Eftir að hann var settur upp dró verulega úr ruslpósti á heimilinu og ferðum með blöð og bæklinga í gáma fækkaði verulega og dró því úr mengandi akstri með þessum litla miða. Þannig losnuðum við við að skila Bjöggadisknum frá Alcan í upphafi ársins. Hann barst aldrei til okkar.

 

Um daginn barst hins vegar litprentaður bæklingur frá Alcan til okkar með póstinum þrátt fyrir miðann og í dag kom enn ein sending frá fyrirtækinu, DVD-diskur um álbræðsluna, bæklingur og risaplakat með andlitsmyndum af starfsmönnum Alcan. Mann grunar því Alcan um að hafa greitt Íslandspósti aukalega fyrir að sniðganga tilmælin um engan fjölpóst.

 

Hvað ætli þetta auglýsingaátak fjölþjóðafyrirtækisins hafi kostað. Nokkrar millur fóru þarna á einu bretti. Samtímis eru í öllum blöðum heilsíðu auglýsingar og í útvarpinu er ítrekað lesnar upp auglýsingar um kosningamiðstöðina í Firði.

 Gullklyfjaði álasninn er búinn að stinga hausnum inn um bæjarhliðið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband