23.2.2007 | 00:16
Baráttuaðferðir stóriðjunnar
Þröstur Sverrisson félagi í Sól í Straumi sendi mér slóð á ræðu Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hann flutti á fundi andstæðinga stækkunar álversins í Straumsvík innan Samfylkingarinnar í Bæjarbíói á miðvikudag. Ræðan er á heimasíðu Sólar í Straumsvík.
Einn af þeim sem tók til máls á fundinum í Bæjarbíói í fyrradag var Kópavogsbúinn Tryggvi Skjaldarson starfsmaður álversins í Straumsvík. Hann flutti mál sitt vel og skilmerkilega. Hann var á því að það væri glapræði að styðja ekki stækkun álversins í Straumsvík. Meginrökin í hans málflutningi voru auknar tekjur bæjarsjóðs Hafnarfjarðar auk þess sem hann ræddi um framtíð starfsfólks álversins af þekkingu á viðfangsefninu.
Í gær las ég svo í Fréttablaðinu að Tryggvi væri meðlimur í kosningateymi Alcan sem starfar á sérstökum launum frá fyrirtækinu við að fá fólk til að greiða atkvæði með stækkuninni. Þetta er kosningaslagur og við ætlum að taka hann, sagði Tryggvi í viðtali við Fréttablaðið.
Í fréttinni kom fram að fyrrverandi starfsmanni álversins, sem kominn er á eftirlaun, hafi verið boðin vinna við að hvetja Hafnfirðinga til að greiða atkvæði með stækkun álversins. Hann neitaði góðu boði þar sem hann var á móti stækkun.
Þá staðfesti Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Alcan að fyrirtækið hvetji starfsmenn sína til að fá Hafnfirðinga til að greiða atkvæði með stækkuninni og að stofnað hafi verið kosningateymi skipað starfsmönnum Alcan sem miðli upplýsingum um stækkunina. Hann líkir síðan aðferð fyrirtækisins við kosningabaráttu stjórnmálaflokka og sér ekkert óeðlilegt við það.
Hvernig ætli þeim starfsmönnum fyrirtækisins sem t.d. af umhverfissjónarmiðum eru andvígir stækkun vegni hjá fyrirtækinu þessa daga?
Er á einhvern hátt eðlilegt að erlent stórfyrirtæki blandi sér í pólitíska baráttu um framtíðarstefnu Íslands í stórvirkjana og stóriðjumálum á þennan hátt? Nei segi ég. Jafnvel þó að um hagsmuni fyrirtækisins sé að ræða. Það hefur ítrekað verið bent á þann áróðurslega ójöfnuð sem ríkir milli þeirra sem eru andvígir stækkun álversins og peningamaskínu Alcan. Þeir víla ekki fyrir sér að greiða mönnum laun fyrir undirróðursstarfsemi. Og þeir réttlæta vinnubrögðin með því að bera sig saman við baráttu stjórnmálaflokka. Eitthvað eru lýðræðisleg vinnubrögð komin á skjön hér.
Eftir að hafa kynnt mér álit manna innan bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem ekki hafa gefið upp afstöðu sína til stækkunarinnar er niðurstaðan sú að ef kosið yrði í dag yrði stækkuninni hafnað. Alcan er meðvitað um þetta og nú á lokasprettinum verður sennilega engu til sparað. Það gæti þó unnið gegn þeim að íbúar Hafnarfjarðar eru farnir að fá óbragð í munninn af vinnubrögðum fyrirtækisins og peningaaustri til að ná fram vilja sínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.2.2007 | 13:59
Gott vín verður bara betra með aldrinum
Ég spurði í gær hvað gamlingjarnir væru eiginlega að vilja upp á dekk. Í gærkvöldi fékk ég svo staðfestingu á því að gott vín verður bara betra með aldrinum. Samfylkingingarfólk í Hafnarfirði andstætt stækkun álversins hafði boðað til fundar í Bæjarbíói.
Meðal ræðumanna var Jón Baldvin Hannibalsson sem varð 68 ára þá um daginn. Hann hélt þrusugóða og áhrifamikla ræðu þar sem hann jarðaði stóriðjustefnuna með hagfræðilegum rökum þannig að ekki stóð steinn yfir steini í málflutningi virkjanafíkla.
Þeim var vorkunn sem á eftir Jóni töluðu. Fyrst talaði Tryggvi Harðarson og fór eins og köttur í kringum heitan graut hvað varðaði afstöðu til stækkunar en vildi bíða í fimm ár með ákvörðunina til að ríma við stefnu Samfykingarinnar. Þá kom Þórunn Sveinbjarnardóttir sem lagðist eindregið gegn stækkuninni og taldi að úrslit atkvæðagreiðslunnar hefði afgerandi áhrif á framhald stóriðjustefnunnar. Öll lögðu þau áherslu á að ábyrgð Hafnfirðinga væri mikil í þessu máli því úrslit kosninganna vörðuð ekki eingöngu Hafnarfjörð heldur landsmenn alla og komandi kynslóðir.
Á eftir auglýstum ræðumönnum fengu fundarmenn tækifæri til að tjá sig um málið og í lok þeirrar umræðu sté annar öðlingur í pontu, maður á svipuðu reki og Jón Baldvin, maður sem verður bara betri með árunum, sjálfur Ómar Ragnarsson. Á sama hátt og Jón Baldvin hreif hann salinn með sér og hér með lýsi ég því yfir að máltækið allt er fertugum fært þarf að uppfæra í allt er sjötugum fært. Við getum bara lært af þessum öðlings öldungum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2007 | 15:33
Hvað eru gamlingjar að vilja upp á dekk?
Það voru fréttir af því í vikunni að félag eldri borgara Skeiða- og Gnúpverjahreppar hefði haldið fjölmennan fund og þar sem fyrirhuguðum virkjunaráformum í neðri hluta Þjórsár var mótmælt. Þetta var fólk sem hefur nytjað þetta land í ártugi og vill að afkomendur geti nytjað það áfram til búrekstrar í framtíðinni. Lóa Pind Aldísardóttir ræddi við nokkra eldri íbúa svæðisins sem höfðu skrifað undir mótmælin.
Jón Eiríksson í Vorsabæ sagðist alinn upp í ungmennafélagsandanum; að elska, virða og rækta landið. Erlingur Loftsson á Sandlæk sagðist vera búinn að fá upp í kok af öllu þessu álkjaftæði og að hann teldi enga þörf á að virkja núna heldur ætti að bíða eftir nýtingar- og verndaráætlun stjórnvalda.
Þá rifjaði Jón frá Vorsabæ það upp að þegar Búrfellsvirkjun var reist á sínum tíma hefði verið boðað að þegar hún væri afskrifuð myndi rafmagnið lækka en sú hefði ekki orðið raunin heldur færi raforkuverðið til almennings stöðugt hækkandi.
Þetta var eins og sagði vel unnin samantekt hjá Lóu Pind og mjög upplýsandi en hins vegar orkaði lokaspurning hennar tvímælis: Hvers vegna eru þið rígfullorðnir mennirnir að berjast gegn þessum virkjunum?
Það er alveg óhætt að skilja eitthvað eftir handa komandi kynslóðum, svaraði Erling henni og Jón sagðist vilja deyja með góða samvisku.
Í flestum menningarheimum er litið með virðingu til eldra fólks og það talið geta miðlað af reynslu sinni til uppvaxandi kynslóða. Svo var og á Íslandi til skamms tíma en nú eru nýir tímar. Æskudýrkunin er orðin slík að sumir pólitíkusar vilja kaupa sér velvilja ungdómsins með því að lækka kosningaaldur niður í 16 ár. Næsta skrefið verður líklega að takmarka kosningaaldurinn við 67 ár.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2007 | 14:45
Kynslóðirnar eru hættar að tala saman
Það rifjaðist upp fyrir mér viðtal sem ég átti við sænskan félaga minn í Stokkhólmi þegar ég bjó þar á áttunda og níunda áratugnum. Tilefni þess að ég minntist þessa samtals var umræðan um yfirburði norræna velferðarmódelsins þegar kemur að umræðu um þjóðfélagsgerð. Það sem brann á okkur námsmönnum á erlendri grund var vitaskuld húsnæðismál og leikskólamál. Í Svíþjóð leigðum við hjá Stúdentabústöðum góða íbúð á sanngjörnu verði sem var síðan niðurgreitt af sænska ríkinu. Drengurinn okkar var á góðum leikskóla í næsta nágrenni og var dvölin þar einnig niðurgreidd. Síðan fengum við fæðingarstyrk þegar fjölgaði í fjölskyldunni. Það var séð til þess að enginn liði skort og það átti einnig við um þá sem aldraðir voru, fatlaðir eða sjúkir. Velferðarsamfélagið sá til þess.
Sænski kunningi minn spurði mig hvernig þessum málum væri háttað á Íslandi og því miður varð ég að viðurkenna að þá vorum við ansi aftarlega á merinni miðað við Svíana, þótt það hafi batnað mikið síðan. En, bætti ég við, samfélagið er svo smátt og fjölskyldutengsl svo mikil að náunginn kemur til hjálpar ef þörf er á. Má eiginlega segja að allir ali önn fyrir öllum. Þetta var eiginlega góða nágrannalífsspekin sem Capra gerði skil í kvikmyndum sínum.
Svo fluttum við heim fyrri hluta níunda áratugarins og lífsbaráttan hófst í óvernduðum íslenskum raunveruleika. Sú mynd sem ég hafði dregið upp fyrir sænska vininum stóðst engan veginn. Hér voru flestir svo uppteknir af eigin lífsbaráttu og neyslukapphlaupi að þeir sáu lítið út fyrir eigin rann. Ýmis nýleg dæmi eru um það. Kona á níræðisaldri fannst látin á heimili sínu og hafði verið önduð í u.þ.b. mánuð. Þetta var frétt sem við héldum að gerðist eingöngu í erlendum stórborgum. Og dæmin eru mýmörg. Mest sláandi er útkoma íslenskra barna í nýlegri skýrslu barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur í ljós að íslensk börn eru afskipt og njóta lítilla samverustunda við foreldra sína. Sama er með áa okkar. Þeir eru vistaðir á stofnunum og börn þeirra hafa ekki tíma til að heimsækja þá. Kynslóðirnar eru hættar að tala saman. Slíkt veit ekki á gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.2.2007 | 15:31
Ef þið viljið sjá Ísland þá flýtið ykkur
Eftirfarandi bréf fékk ég frá Gunnari bróður mínum sem rekur veitingastaðinn Deli Cat á Bali í Indónesíu.
Hæ Sigurður.
Í kvöld var ég á DeliCat eins og flest kvöld. Ég sat til bords með vini minum enskum bókaútgefanda. Svo birtust gestir sem ég hafði ekki séð áður. Þeir spurðu eins og flestir sem ekki þekkja mig hvort ég væri eigandi DeliCats og hvort ég kæmi fra Íslandi. Vinur minn fór að hlæja og sagði: Hann kemur fra Íslandi og er eigandi DeliCats en bráðum getur hann sagt að hann hafi KOMIÐ fra Íslandi. Svo hélt hann afram og sagði að Ameríkanarnir hefðu keypt landið og ætluðu að breyta því í uppistöðulón. Svo ef þið viljið sjá Ísland þá flýtið ykkur. Ég bara brosti og sagði velkomin til DeliCat.
Kveðjur Gunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.2.2007 | 19:45
Hagstæðasti virkjanakosturinn
Sá ágæti útvarpsmaður Sigurður G. Tómasson hitti sennilega naglann á höfuðið þegar hann hélt því fram í Silfri Egils fyrr í dag að lokun álversins í Straumsvík væri líklega hagstæðasti virkjanakosturinn. Raforkuna sem losnaði við það væri hægt að selja á margföldu því verði sem Alcan greiðir fyrir hana í dag.
Menn horfa vitaskuld í það að við lokun álversins myndi fjöldi manna missa atvinnu og það vel launaða atvinnu. Nú er það svo að ég hef mjög takmarkaða trú á að Alcan grípi til þess úrræðis að loka álverinu þar sem það hefur á undanförnum árum skilað fyrirtækinu mjög góðum hagnaði, að mati sumra verið ein besta mjólkurkú fyrirtækisins.
Færi hins vegar svo að álverinu yrði lokað þá stöndum við frammi fyrir minna vandamáli en þegar herinn hvarf burt af landinu. Fjöldi manna stóð frammi fyrir atvinnumissi. Skipulega var tekið á því og í dag heyrir maður ekkert af því vandamáli. Til svipaðra aðgerða yrði eflaust gripið ef svo ólíklega vildi til að Alcan ákveddi að slátra bestu mjólkurkúnni sinni til að ná sér niðri á Hafnfirðingum ef þeir hafna stækkun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.2.2007 | 20:44
Í túnfætinum hjá okkur
Skruppum út á Reykjanes í dag í blíðunni. Frábært að eiga þetta svæði í túnfætinum heima. Endalaus fjölbreytni og alltaf eitthvað nýtt að uppgötva ef viljinn er fyrir hendi. Renndum til Grindavíkur og þaðan í áttina að Reykjanesvita. Á leiðinni til Reykjanesvita er Brimketill. Þarna átti skessa að hafa sest niður og þessvegna er þessi skemmtilegi skessuketill í flæðarmálinu þar sem brimið leikur ótrúlegar listir. Alveg einstök upplifun að fylgjast með þegar reginöflin brotna á þessum stað eins og í dag. Þetta er fimm mínútna ganga frá veginum og upp lýkst náttúruundur sem á fáa sér líka.
Eftir að hafa farið niður að Reykjanesvita og séð fálka lyfta sér til flugs við vitann héldum við áfram í átt til Hafna. Á leiðinni þangað gengum við upp á Stampa, gíga við veginn. Þaðan var gott útsýni yfir Stampahraun, út til Reykjanesvita og í vesturátt til Hafnabergs og á milli Stóra Sandvík þar sem Clintarinn tók upp hluta af Our Flags.
Nú eru uppi áform um að flytja rafmagn frá Reykjanesvirkjun til Helguvíkur um þetta svæði Það myndi setja ljótann blett á svæðið ef tröllaukin mastur yrðu megineinkenni hraunsins. Guð forði okkur frá því.
Á leiðinni til Hafna ókum við svo framhjá Merkinesi þar sem Ellý Vilhjálms ólst upp með Eldey í stofuglugganum, en eftir henni heitir hún Eldey Vilhjálmsdóttir. Heyrði í þessari andrá Vegir liggja til allra átta í þætti Jóns Ólafssonar um kvikmyndatónlist.
Í Höfnum skoðuðum við tóftir landnámsbæjar Herjólfs Bárðarsonar föður Bjarna Herjólfssonar. Allt þetta er í túnfætinum hjá okkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2007 | 11:56
Gæsasteggur hristir sig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2007 | 13:49
Skelfileg tilhugsun
Í dag hófst utankjörstaðaatkvæðagreiðsla um stækkunina í Straumsvík og í kvöld verður málfundur í Kænunni um stækkunina á vegum málfundarfélags Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði þar sem Andri Snær Magnason og Guðlaugur Þór Þórðarson hafa framsögu. Í pallborði verða auk þeirra Pétur Óskarsson frá Sól í straumi, Lúðvík Geirsson bæjarstjóri, Haraldur Þór Ólason oddviti sjálfstæðismanna í Hafnarfirði og fulltrúi frá Alcan. Lokaspretturinn fyrir atkvæðagreiðsluna er því hafinn.
Ljóst er að Alcan ætlar að komast yfir múra andstöðunnar í bænum með asna klyfjuðum gulli auk þess að hóta því að pakka saman verði niðurstaðan ekki fyrirtækinu þóknanleg. Á sama tíma berast fréttir af því að Rio Tinto sé að gera fjörutíu milljarða bandaríkjadala yfirtökutilboð í Alcoa sem er að reisa álverið á Reyðarfirði. Rio Tinto mun vera einn verst þokkaði auðhringur heimsins og fjallar Andri Snær um slóða hans í Draumalandinu. Þau meðöl sem Alcan grípur til núna koma því ekki á óvart, þessi meðöl eru alþekkt í þessum bransa.
Lítið hagkerfi eins og það Íslenska, að ekki sé talað um afkomu örsmárra sveitarfélaga eins og Hafnarfjörður óneitanlega er á alþjóðamælihvarða, geta auðveldlega orðið ofurseld þessum fyrirtækjum. Þau verða að gjöra svo vel og sitja og standa eins og þessum aðilum er þóknanlegt. Er það sú framtíðarsýn sem við viljum hafa, að lúta stjórn alþjóðlegra auðhringa? Nei Hafnfirðingar. Nýtum atkvæði okkar til áframhaldandi sjálfstæðis. Danskurinn var kannski slæmur herra en að vera undir hælnum á alþjóðlegum auðhringum er skelfileg tilhugsun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.2.2007 | 09:17
Þjóðarsátt um Framsókn burt
Stjórnmálaspekingar hafa verið að leita skýringa á lakri útkomu Framsóknar í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins. Ein skýringin er sú að meirihluti Framsóknarmanna hafi verið á fundi Framsóknar á Klörubar á Kanaríeyjum en um 360 manns sóttu fundinn og hlýddu á Guðna Ágústsson varaformann flokksins.
Þetta er vissulega skemmtileg skýring en varla trúverðug. Ekki frekar en ásakanir Guðna í garð Fréttablaðsins þar sem hann hreinlega heldur því fram að blaðið leggi flokkinn í einelti og að skoðanakönnunin sé því ekki marktæk.
Nei ég held að skýringin sé einfaldlega sú að þjóðarsátt er að myndast um það að koma Framsókn burt frá kjötkötlunum. Við Hafnfirðingar höfum verið lausir við Framsóknarmenn í bæjarstjórn undanfarin tvö kjörtímabil og hvílíkur léttir. Síðasti Framsóknarmaðurinn hvarf á braut eins og þjófur að nóttu með gamla skátaheimilið í togi.
Framsóknarflokkurinn hefur verið til mikillar óþurftar í stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur leitt stóriðjubrjálæðið yfir þjóðina og kemur nú fram á sjónarsviðið sem boðberi þjóðarsáttar um nýtingu auðlindanna. Liggur við að ráðherrar iðnaðar og umhverfismála beri því við að það hafi verið tæknileg mistök hjá þjóðinni að halda að Framsókn hafi átt einhvern þátt í virkjanafíkninni.
Tillögurnar felast í því skipaður verði vinnuhópur til að móta verndar- og nýtingaráætlun sem lögð verði fram á haustþingi 2010. Þangað til geta virkjanafíklarnir virkjað eins og þá lystir.
Nei eina þjóðarsáttin sem hefur skapast er að koma Framsókn burt, það sýna skoðanakannanir að undanförnu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)