Færsluflokkur: Bloggar

Þora stjórnmálamenn ekki að tjá sig um olíuhreinsistöðina?

oliuhreinsistöðbÞað undrar mig hversu lítil viðbrögð sú geggjaða hugmynd að reisa risa olíuhreinsistöð í Dýrafirði hefur fengið. Það má eiginlega segja að þar vísi hver á annan. Ríkisstjórnin segir að sér komi þetta ekkert við og vísar málinu heim í hérað. Héraðshöfðinginn segir það ekki sitt að hafa skoðun á málinu heldur sé það íbúanna. Íbúarnir eru auðvitað beggja blands en hætt er við að þeir fái glýju í augun þegar rætt er um 500 ný störf og mikil umsvif á svæðinu.

 

Stjórnmálamennirnir standa hins vegar flestir á hliðarlínunni og virðast helst ekki vilja tjá sig um málið. Hver er afstaða efstu manna þeirra lista sem bjóða fram til alþíngiskosninga í Norðvesturkjördæmi? Hvað segja Einar K. Guðfinsson, Magnús Stefánsson, Guðbjartur Hannesson, Jón Helgason, Guðjón Arnar Kristjánsson og Pálína Vagnsdóttir  um málið. Ég hef ekki heyrt eitt píp frá þeim. Vekur sérstaka athygli að fulltrúi VG skuli ekki hafa tjáð sig um málið né heldur Pálína fulltrúi Íslandshreyfingarinnar.

Er málið svona viðkvæmt? Vestfirðir urðu illa úti í kvótabraskinu og þaðan hafa borist áköll til stjórnvalda um að gripið verði til einhverra ráðstafana til að snúa við fólksflóttanum að vestan. Engu að síður er atvinnuástand gott og atvinnuleysi lítið sem ekkert. Því vaknar sú spurning hvernig á að manna þau 500 störf sem skapast ef olíuhreinsistöðin rís með allri þeirri mengun sem henni fylgir og hættu á stórfelldu mengunarslysi. Halda menn virkilega að höfuðborgarbúar muni flykkjast vestur til að starfa í þessari mengandi stóriðju? Nei, sennilegast mun þurfa að manna þessi störf með innflytjendum.

 Tveir fulltrúar fortíðarinnar hafa hins vegar risið upp og lýst undrun sinni og andstöðu við þessi áform. Það eru þeir Júlíus Sólnes, verkfræðingur og ef mig misminnir ekki fyrsti umhverfisráðherra Íslands, en hann kynnti sér vel áform um mun minni olíhreinsistöð á Austfjörðum fyrir einhverjum áratug og þá var niðurstaðan sú að slíkur iðnaður ætti ekkert erindi hingað. Hinn er Hjörleifur Guttormsson fyrrum iðnaðarráðherra en hann ritar afar upplýsandi grein á visir.is í dag (sjá greinina hér).

Gleðilegt sumar

Skruppum á Þingvöll og treystum vor heit. Skafheiður himinn og stilla. Skoðuðum fræðslumiðstöðina fyrir ofan Almannagjá. Þetta er vel heppnuð bygging og margmiðlunartæknin nýtt til að koma sögu og jarðfræði staðarins til skila. Þá er flekarekið undanfarin 1000 ár skemmtilega útfært og kvikmyndin af fjölskrúðugu lífinu undir yfirborði Þingvallavatns  á gafli salarins rammar rýmið skemmtilega inn.

 

Það frábærasta við þetta allt er að þetta kostar ekkert. Það þarf ekki að borga inn. Það þarf ekki að setja hundrað kall í margmiðlunartækin. Þetta er bara þarna fyrir okkur öll. Það hefur vissulega komið upp umræða um að taka aðgangseyri að náttúruperlum til að kosta framkvæmdir og umsjá svæðanna. Ég vona bara í lengstu lög að við komumst hjá því. Efast um að ég hefði skroppið á Þingvöll í dag ef það hefði kosta 500 kall inn. Hefði sjálfsagt hugsað sem svo að ég væri búinn að koma þangað það oft að engin ástæða væri til að henda fimmhundruðkallinum.

 

Gengum niður Almannagjá og niður á bílastæðið. Þaðan héldum við svo út að Þingvallakirkju. Eins og flestar aðrar kirkjur var hún læst. Hversvegna eru öll guðshús lokuð almenningi nema þegar prestur vill stíga í stól? Spurði séra Baldur í Vatnsfirði að því sl. sumar og hann sagði að það væri til þess að Framsóknarmenn vanhelguðu ekki guðdóminn.

 Þessi siður okkar Íslendinga að halda upp á sumardaginn fyrsta er frábær. Í ár frusu saman vetur og sumar og það veit á gott sumar samkvæmt þjóðtrúnni og við trúum því þar til annað kemur í ljós. Í dag var bjart yfir Íslandi og eftir að hafa horft á þátt Stöðvar 2 um mitt kjördæmi í gær veit ég að með rísandi sól mun landinn rísa upp og hafna núverandi stjórnarherrum.

Að snæða nánasta ættingja sinn

simpansiNú er það inni í Evrópu og Bandaríkjunum að snæða apa og önnur dýr sem eru í útrýmingarhættu. Ólöglegu kjöti villtra afrískra dýra eins og górillu apa og simpansa er smyglað til Evrópu og Bandaríkjanna og er talið að daglega komist um tíu tonn í gegnum tollinn. Þetta kjöt er síðan framreitt á lúxusmatsölustöðum og selt þar undir borðið fyrir háar upphæðir. Þessir borðsiðir hófust upphaflega meðal ríkra kaupsýslumanna í Afríku en á meðal þeirra þótti það merki um ákveðinn status að hafa neytt kjöts af dýrum í útrýmingarhættu. Siðurinn barst síðan til Bandaríkjanna og Evrópu.

 

Alþjóðleg náttúruverndarsamtök hafa miklar áhyggjur af þessu og reyna að stemma stigu við þessari rányrkju. Ég rakst á frétt um þetta á http://www.aftonbladet.se  og þar er rætt við líffræðinginn Allan Carlson sem er staddur í Kenya til að vinna gegn verslun með apa, en flest dýrin eru drepin þar og í Kongó og Rúwanda. Hann segir að það að sé fyrst og fremst fátækt fólk sem stundi þessar veiðar til að fjármagna lyfja- og matarkaup. Margt af þessu fólki hefur nú hætt þessum ólöglegu veiðum og gengið til liðs við náttúruverndarsamtökin og þiggur hjá þeim laun fyrir að aðstoða við að koma upp um veiðiþjófana.

 

Allan Carlson bendir á hættuna á því að smyglaða kjötið geti borið með sér ýmsa sjúkdóma eins og t.d. ebolaveiruna en hún er talin eiga uppruna sinn meðal apa í Afríku. Þá bendir hann á skyldleika mannins við þessar apategundir og segir það afar smekklaust að nánustu ættingjar mannsins endi á matardisk hans.

Sjá fréttina hér


Rússnesk rúlletta á Vestfjörðum

oliuhreinsistod1aÞegar við ferðuðumst um Vestfirðina í sumar og nutum ómældrar fegurðar þessa sérstæða landslags var ég þakklátur heimamönnum að hafa samþykkt að Vestfirðirnir yrðu stóriðjufrítt svæði. Mér brá því verulega í brún í gær þegar kynnt voru í fréttum Sjónvarpsins áform um að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Og það er ekki eins og þarna sé um einhverja framtíðarmússík að ræða því stöðin gæti risið á næstu fjórum árum.

Við Vestfirði eru einhver gjöfulustu fiskimið í heimshöfunum og fuglalífið er einstakt í heiminum. Þarna eru líka veður oft válynd og margir skipsskaðar orðið í gegnum tíðina. Ætla menn virkilega að fara að láta risaolíuskip sigla inn á firði hlaðin hráolíu. Eitt slys og skaðinn yrði óbætanlegur. 

Rætt var við prúðmennið Ólaf Egilson fyrrum sendiherra í Rússlandi en hann er annar af eigendum Íslensks hátækniiðnaðar sem í samvinnu við rússneskt olíufyrirtæki stefnir að því að reisa olíuhreinsistöðina. Ólafur sagðist hafa flett því upp í Íslenskri orðabók hvernig stóriðja væri skilgreind og þar væri hún skilgreind sem orkufrekur iðnaður en það væri olíuhreinsunin ekki. Ég ákvað að fletta sjálfur upp í Orðabók Menningarsjóðs og þar er þessa skilgreiningu að finna: stóriðja, verksmiðjuframleiðsla þungavöru í stórum stíl, stórfelld iðnaðarframleiðsla. Fram kom að framleiðslugeta stöðvarinnar verði 150.000 tunnur á dag sem skapa myndi 500 – 700 manns atvinnu. Það má vera meiri hundalógíkin ef það er ekki stóriðja.

Ólafur sagði að fullyrt væri við sig að mengun frá stöðinni væri lítil og hún yrði vegin upp með hreinna eldsneyti á bíla- og skipaflota landsmanna auk þess sem líklegt væri að bensínverð myndi lækka. Varðandi sjónmengun af stöðinni þá væri hægt að staðsetja hana á afskekktum stað. Í fréttum í hádeginu í dag kom í ljós að horft er til Dýrafjarðar, þá líkast til í nágrenni Þingeyrar.  

Það er vitað mál að erfiðleikar hafa steðjað að á Vestfjörðum, störf hafa horfið og fólksfækkun orðið. Atvinnustigið er hins vegar gott þegar skýrsla Vinnumálastofnunar um atvinnuástandið er skoðuð. Meðalfjöldi atvinnulausra á Vestfjörðum var 31 í mars eða 0,8% af áætluðum mannafla á Vestfjörðum en var 0,7% í febrúar s.l. Fjöldi atvinnulausra hefur aukist um 4 milli febrúar og mars. Atvinnuleysi kvenna var 1,6% í mars en var 1,4% í febrúar s.l. og atvinnuleysi karla var 0,3% í mars og sama í febrúar s.l. Atvinnulausir karlar voru 7 í mars en 6 í febrúar s.l. en atvinnulausar konur voru 24 eða 3 fleiri en í febrúar s.l.

Engu að síður er full ástæða til að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið á Vestfjörðum þannig að þróuninni verði snúið við og íbúum á svæðinu fjölgi. En að reisa olíuhreinsistöð við Þingeyri er að bjóða Vestfirskri náttúru í rússneska rúllettu. Slíkt má ekki gerast.

Þarf frekari vitnanna við?

Á heimasíðu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar er að finna bloggfærslu um grein eftir Halldór Jónsson verkfræðing sem Morgunblaðið birti ekki í blaðinu heldur setti á vefinn. Eftir að hafa lesið greinina kemur ekki á óvart að greinin hafi ekki fengist birt í blaðinu og í raun er ég hálf hissa á að blaðið birti greinina á vefnum því svo gegnumsýrð er hún af innflytjendahatri.

Magnús Þór grípur til þess að ásaka Morgunblaðið um að virða ekki tjáningarfrelsi og vísar hann síðan inn á grein Halldórs. Jón Magnússon hefur þetta að segja um greinina í athugasemdum við hana: „Þetta er frábær grein hjá þér Halldór eins og þínar greinar eru venjulega. Mér skilst að Mogginn hafi ekki viljað birta þessa grein í blaðinu. Er það rétt?“

 

Hér á eftir fara tvær tilvitnanir í grein Halldórs: „Vilji maður flytja hund til landsins er hann settur í einangrun úti í Hrísey til langtíma. Það má ekki flytja beljukyn til landsins sem mjólkar meira. Það má ekki flytja inn arabíska stóðhesta, eða setja sænskar geddur í Þingvallavatn. En það eru engin takmörk fyrir því hversu margir eða hvers konar útlendingar mega flytjast hingað.“

 

Og aðeins seinna í greininni: „Nú skilst okkur að það megi ekki einu sinni leita að illlæknanlegum bráðaberklum lengur af því að þá myndum við stuða innflytjendurna. Og þaðanafsíður megum við spyrja að því hvort innflytjandi geti hafa verið axarmorðingi eða barnaníðingur á heimaslóð eða hafi HIV."

Þurfum við frekari vitnanna við um afstöðu Frjálslyndra til málefna innflytjenda?

Er ekki kominn tími til að tengja?

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag sýnir að landsfundir Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skila flokkunum að minnsta kosti tímabundinni aukningu. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir Samfylkinguna sem hefur átt undir högg að sækja að undanförnu og fylgið farið stöðugt rénandi. Nú vill hins vegar svo til að Samfylkingin eykur við sig þremur prósentum frá síðustu könnun Fréttablaðsins og er aftur orðinn næst stærsti flokkurinn. Hins vegar bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig rúmum 7% milli kannana og ríkisstjórnin heldur velli sem eru vond tíðindi fyrir félagshyggjuflokkana.

 

Fylgdist með Silfri Egils áðan þar sem bloggvinur minn Pétur Tyrfingsson reifaði þá hugmynd sína að félagshyggjuflokkarnir gerðu með sér samkomulag um að fara ekki í ríkisstjórn án hins flokksins. Við vitum að þetta er bara óskhyggja hjá félaga Pétri. Sameining þessara afla var reynd þegar Samfylking og VG voru stofnuð en þá misfórst það og félagshyggjufólk á Íslandi missti af sögulegu tækifæri til að mynda stærri hreyfingu en Sjálfstæðisflokkinn.

 

Það er hins vegar rétt hjá Pétri að VG er ekki lengur sá hópur rótækra vinstrimanna og verkalýðssinna sem til var stofnað í upphafi. Höfuð áherslur flokksins eru umhverfismál og feminismi. Það er einna helst Ömmi frændi sem móast við og stígur fram með áherslur á velferðarmálin og að fátækt verði útrýmt í þessu ríka landi.

 

Í raun og veru er fátt sem skilur þessa tvo flokka að í þessum málaflokkum. Í utanríkismálum er ekki margt sem skilur þessa flokka að. Einna helst að afstaðan til Evrópusambandsins sé ásteytingarsteinn en það er vitað mál að innan beggja flokkanna eru einstaklingar með og á móti aðildarviðræðum. Í efnahags- og atvinnumálum eru áherslur áþekkar þótt vissulega séu þar mismunandi skoðanir t.d. varðandi rekstrarform ákveðinnar grunnþjónustu. Þó tókst þessum flokkum að sameinast í afstöðunni til oháeffunar RÚV.

 Mín afstaða er sú að ef ríkisstjórnin heldur velli þá eiga þessir tveir flokkar að setjast niður og skoða vandlega hvort ekki sé kominn tími til að tengja. Hættan er hins vegar sú að annar hvor flokkanna haldi Sjálfstæðisflokknum áfram við kjötkatlana.

Hjörleifi Guttormssyni svarað

Hjörleifur Guttormsson sendi athugasemd við síðustu bloggfærslu mína þar sem hann notar tækifærið til að níða skóinn niður af Ingibjörgu Sólrúnu, finnur henni allt til foráttu og lýsir henni sem valdasjúkum einstaklingi sem fer fram af slíku offorsi að sviðin jörð er þar sem hún hefur farið um.

 

„Ingibjörg Sólrún sundraði Kvennalistanum um og upp úr 1990 þannig að sú hreyfing bar ekki sitt barr síðan. Hún gekk gegn yfirlýstri stefnu hópsins í Evrópumálum og gerði Kvennalistann um leið ótrúverðugan. Hún var þá þegar farin að gæla við forsætisráðuneytið, hugsun sem alla götu síðan hefur ráðið hennar gerðum. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga 2003 gekk hún af Reykjavíkurlistanum dauðum með því að stíga fram í landsmálin á nýjan leik (ætlaðist reyndar til þess að hún gæti haft hvorutveggja í takinu, borgarstjórastólinn og framboð sem forsætisráðherraefni!). Eftir á reynir hún síðan stöðugt að þakka SÉR það jákvæða sem tengja má við R-listasamstarfið, en sem var afurð af samstarfi þriggja stjórnmálaflokka. Eftir að framboði hennar sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar mislukkaðist 2003 réðist hún til næstu atlögu og nú gegn Össuri Skarphéðinssyni þokkalega vinsælum formanni Samfylkingarinnar, og tókst að fella hann og sáldra sárum hér og þar í hold Samfylkingarfólks. Þátt hennar í stóriðjustefnunni með uppáskrift á Kárahnjúkavirkjun þekkir þú jafn vel og ég. - Það vill oft brenna við að mjög metnaðargjarnt fólk endar í klifri sínu einni eða fleiri tröppum ofar en það ræður við, og þá blasir við hættan á að missa fótanna.“

 

Ingibjörg Sólrún hafði þá framsýni sem Hjörleifur og ýmsir fleiri á vinstri væng stjórnmálanna höfðu ekki að EES samningurinn væri afar hagstæður okkur. Kvennalistinn leið ekki fyrir það og hvernig sú afstaða Ingibjargar á að sýna að hún hafi verið farin að gæla við forsætisráðherrastólin er mér hulin ráðgáta.

 

Varðandi brotthvarf Sollu úr borgarstjórastólnum þegar hún ákvað að taka fimmta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem af flestum var talið vonlaust sæti, þó þegar til kastanna kom munaði einungis örfáum atkvæðum á að hún næði kosningu, þá voru það fulltrúar VG og Framsóknar í R-listanum sem boluðu henni burt. Það var síðan Árni Þór Sigurðsson, gamall samstarfsmaður minn og félagi af Þjóðviljanum og Helgarblaðinu, sem endanlega gekk frá R-listanum. Hann er nú borgarfulltrúi VG og í framboði til þings. Hvernig gengur það upp Hjörleifur?

 

Ingibjörg Sólrún bauð sig fram gegn Össuri til formanns og hafði betur í lýðræðislegustu formannskosningu sem haldin hefur verið af nokkrum stjórnmálaflokki á Íslandi. Allir skráðir flokksmenn fengu að taka þátt í kjörinu. Það var erfitt val enda tveir mjög hæfir stjórnmálamenn í framboði. Solla hafði betur og eins og gamall félagi minn Kurt Vonnegut sem er nýfarinn yfir móðuna miklu var vanur að segja, So it goes. Hvernig er það annars Hjörleifur, mætti Ögmundur ekki bjóða sig fram til formanns VG gegn Steingrími J.?

  

Lýðræðisást þín Hjörleifur er dulítið sérstök. Í gær birtist eftir þig grein þar sem þú hvetur Ómar Ragnarsson til að draga framboð Íslandshreyfingarinnar til baka þar sem hreyfingin virðist taka atkvæði frá VG. Það tekur enginn atkvæði frá einum eða neinum. Atkvæði eru ekki eign ákveðins flokks. Flokkarnir verða að lúta vilja kjósenda. Það er lýðræðið. Og sem betur fer er lýðræðishugsun Íslendinga það þroskuð að öllum er heimilt að bjóða fram, jafnvel þótt það komi einhverjum illa. Auk þess þá er Íslandshreyfingin ekki Ómar. Hann er partur af henni. Og ef ég man rétt þá mældust Vinstri grænir ekki mjög hátt í skoðanakönnunum þegar þeir buðu fyrst fram.

 Hvað kaffið varðar þá var gaman að spjalla við þig á sínum tíma og ég efa ekki að við gætum spjallað um hin aðskiljanlegustu málefni yfir góðum bolla. Frásagnir þínar um Austurland í  Árbókum ferðafélagsins hafa m.a. verið mér góður og gegn vegvísir um það fagra svæði.

Hvað eru konurnar eiginlega að pæla?

Það blæs ekki byrlega fyrir mínum flokki nú þegar um mánuður er eftir til kosninga. Tvær kannanir sem birtust í dag, í Dagblaðinu og könnun Gallup fyrir RÚV og Mbl sýna Samfylkinguna með 18 – 19% fylgi. Þetta eru ekki uppörvandi fréttir fyrir flokkinn nú þegar hann blæs til landsfundar í stærsta samkomurými landsins, Egilshöll en vonandi þjappa þær honum saman til nýrrar sóknar.

 

Það er illskiljanlegt hvers vegna Samfylkingunni tekst ekki að ná út með boðskap sinn. Flokkurinn er með vel ígrundaða stefnu í umhverfismálum sem hefur verið kynnt sem Fagra Ísland. Í vikunni var kynnt ítarleg úttekt á efnahagsmálum þjóðarinnar og hvað nauðsynlegt er að gera til að rétta kúrsinn sem Jón Sigurðsson fyrrum iðnaðarráðherra og bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans átti mestan þátt í að móta. Þá hefur verið unnið ítarlega að stefnumótun í velferðar- og menntamálum þjóðarinnar. Engu að síður hefur flokkurinn verið á niðurleið.

 

Það merkilegasta við þessar skoðanakannanir er að það eru konurnar sem virðast vera að yfirgefa flokkinn. Þrátt fyrir það að Solla sé eini kvenformaður stjórnmálaflokks á Íslandi. Þrátt fyrir það að þegar forystumenn flokkanna mæta saman í sjónvarpssal þá er hún sú eina sem sker sig úr þar sem hún er ekki með bindi. Þrátt fyrir það að hún er mjög málefnaleg og fylgin sér í málflutningi sínum. Þrátt fyrir það að hún hefur starfað að kvenfrelsismálum allt frá stofnu Kvennalistans á sínum tíma. Þrátt fyrir það að hún átti stærstan þátt í að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum í Reykjavík. Þrátt fyrir það að henni tókst að minnka kynbundinn launamun hjá borginni verulega á sínum tíma. Þrátt fyrir það að hún gæti orðið fyrsti kvenforsætisráðherra Íslands. Hvað eru konurnar eiginlega að pæla?

 

Ég hef samt fulla trú á því að nú sé leiðin einungis upp á við. Þessi glæsilegi landsfundur mun verða vendipunkturinn og Samfylkingin nær vopnum sínum og hún ásamt Vinstri grænum kemur núverandi stjórnarflokkum frá kjötkötlunum þannig að velferðarkerfið sem verkalýðshreyfingin og vinstri flokkarnir hafa byggt upp verði varið og endurreist öllum almenningi til hagsbóta.

 Ræða Sollu í kvöld var full bjartsýni á að þetta takmark náist.

Frjáls minkur í frjálsu hænsnabúi

Frjálshyggjan er frjáls minkur í frjálsu hænsnabúi, segir Einar Már Jónsson í nýrri bók, Bréfi til Maríu. Einar Már er doktor í miðaldasagnfræði og kennir við Svarta skóla í París. Hann segir að frjálshyggjan stefni að niðurbroti velferðarsamfélagsins. Sagt var frá útkomu bókarinnar í Speglinum í kvöld.

Þetta var góður inngangur að fréttum af  landsfundi Sjálfstæðisflokksins í kvöld. Það versta við þennan frjálsa mink er að alltaf rétt fyrir kosningar, þegar hann veit að það á að fara að vísa honum út úr hænsnabúinu, þá er Hannes yfirminkur sendur í útlegð tímabundið og hinir klæðast dulargerfi svo þeim verði aftur hleypt inn að lokinni talningu.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við stjórn frá 1991. Fyrstu fjögur árin með gamla Alþýðuflokknum en síðan með Framsókn. Á þessum eina og hálfa áratug hafa frjálshyggjuminkarnir fengið úr nógu að moða í íslenska hænsnabúinu. Þeir hafa rifið til sín bankana, símann og fleiri eignir þjóðarinnar og greitt fyrir það smánarlega lágar upphæðir miðað við þau verðmæti sem þeir ginu yfir. Eftir sátu svo þeir hópar sem hafa haft úr minnstu að moða, öryrkjar, stór hópur aldraðra, einstæðir foreldrar o.fl.

 Nú hins vegar þegar dregur að kosningum varpar Sjálfstæðisflokkurinn yfir sig velferðarskikkju og segist ætla að bæta hag þessara hópa. Þetta var líka gert fyrir síðustu kosningar og minkurinn komst aftur að gnægtaborði  hæsnabúsins. Ekki var staðið við stóru orðin þá heldur var haldið áfram á braut einkavinavæðingar og að bæta hag þeirra sem nóg höfðu fyrir. En velferðarskikkjan er orðin ansi trosnuð og kjósendur farnir að sjá glitta í frjálsa minkinn í gegnum götin auk þess sem það gleymdist að senda Hannes burt og  slær hann hvert vindhöggið á fætur öðru í vonlausu vopnaglamri sínu við Stefán Ólafsson sem hefur flett hulunni af „velferðaráherslum“ stjórnarflokkanna.

Stofnfundur Hraunavina

Ég var á stofnfundi Hraunavina nú síðdegis. Fundurinn var haldinn í gamla félagsheimilinu að Görðum. Í samþykktum félagsins segir að þetta sé félagsskapur sem láti sér annt um byggðaþróun og umhverfismál í Álftaneshreppi hinum forna, einkum hið sérstæða umhverfi, hraun, vötn og strendur sem teljast til bæjarlands í Garðabæ, Hafnarfirði og á Álftanesi.

 

Kveikjan að stofnun þessara samtakta má segja að sé það umhverfisslys sem varð þegar Víðistaðahraunið og Urriðakotshraunið var brotið undir risaskemmur IKEA og fleiri verslunarrisa án þess að almenningur fengi neitt um það sagt.

 

Upphaflegir stofnendur samtakanna voru Ólafur G. Einarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Pétur Stefánsson, Reynir Ingibjartsson, Jónatan Garðarsson og Eymundur Sveinn Einarsson, en þessi kjarni kom saman 1. febrúar sl. og lagði drög að þessum félagsskap. Ólafur G. var því miður fjarri stofnfundinn í dag því hann fór í hjartaþræðingu um helgina.

 

Á fundinum í dag voru hátt í fimmtíu manns og ríkti mikill einhugur um það að umgangast bæri umhverfi þessara þriggja byggðarlaga af mikilli varúð enda „um fágæt umhverfisverðmæti að ræða sem vernda ber eins og kostu er, okkur sem nú lifum og komandi kynslóðum til lífsfyllingar og skilnings á náttúrunni í kringum okkur,“ eins og segir í samþykktum félagsins.

 

Kosin var fimm manna stjórn á fundinum og var Pétur Stefánsson kjörinn formaður hennar.

 

Á fundinum flutti Sigmundur Einarsson jarðfræðingur afar forvitnilegt erindi um hraun og jarðmyndanir svæðisins og Jónatan Garðarsson fór í ævintýraferð um svæðið í myndum og frásögn þar sem hver þúfa, hraundrangi og hellisskúti átti sitt örnefni.

 

Í samþykktum felagsins segir að tryggja beri aðkomu almennings í þessum þremur bæjarfélögum að töku ákvarðana um náttúruverðmæti, ekki síst hraunin og að þeim verði ekki raskað nema brýna nauðsyn beri til vegna byggðar og samgangna og að undagenginni ítarlegri kynningu meðal íbúanna. Þá sé nauðsynlegt að löggjöf um umhverfisvernd og skipulagsmál tryggi aðkomu íbúa að ákvarðanatöku þegar um umtalsverðar breytingar á umhverfi og landslagi er að ræða.

 Eitt af meginmarkmiðum félagsins er að láta meta verndargildi hinna ýmsu náttúrufyrirbæra og landslagsheilda og fylgjast náið með skipulagsmálum og framkvæmdum í bæjarfélögunum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband