Færsluflokkur: Bloggar

Jólasveinar einn og átta

Jólin eru vart liðin og jólasveinarnir horfnir til fjalla að þeir birtast aftur einn af öðrum og draga milljarða framtíðarinnar upp úr skjöttum sínum. Í gær var það Samgöngugaurinn Sturla Böðvarsson. 380 milljarðar til vegagerðar á næstu 11 árum. Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun, sem nær yfir tímabilið 2003-2014, var gert ráð fyrir að útgjöld til vegasmála yrðu 173,3 milljarðar. Hér er því um verulega hækkun að ræða. Ekki það að þessi verkefni sem ráðast á í á tímabilinu séu óþörf. Flest eru þau eflaust bæði nauðsynleg og hagkvæm. Hef reyndar alltaf efast um Héðinsfjarðargöng en ekki verður hætt að sprengja inni í miðju fjalli.

  

Fyrir helgi sendu utanríkisráðherra og menntamálaráðherra frá sér sameiginlega tilkynningu um að fjárframlög verði aukin á næstu árum til að efla áhuga erlendis á íslenskri list og menningu, auka möguleika og áhrif íslenskra listamanna á alþjóðlegum vettvangi, bæta menningarímynd Íslands og auka gagnkvæm menningarsamskipti við önnur lönd og menningarsvæði.

  

Stutt er síðan Þorgerður Katrín hækkaði rannsóknarframlög til Háskólan Íslands um 640 milljónir króna árlega á tímabilinu 2008-2011 og hafa framlögin þá hækkað um tæpa þrjá milljarða í lok samningstímabilsins, árið 2011.

  

Guðni Ágústsson og sauðfjárbændur eru alveg sér á parti. 18 milljarðar til rollubænda á árunum 2008 til 2014. Siv Friðleifsdóttur fannst það ekki tiltökumál þótt hún notaði fé úr framkvæmdasjóði aldraðra til að prenta áróðursbækling fyrir sig.

Hér er bara tæpt á nokkrum framtíðardúsum sem komið hafa upp úr jólasveinapokunum að undanförnu. Eflaust er einhverju gleymt og svo eru margir pakkar enn óopnaðir fram að kosningum í maí. Allir fara að hlakka til.


Blaut tuska í andlit fórnarlamba

„Það er erfitt að fullyrða hvort þessar stúlkur hefðu ekki orðið barnshafandi hvort eð var,“ sagði forsætisráðherra  í Silfri Egils í gær. Þetta er sami maður og sagði fyrir nokkru þegar rætt var um brottför hersins „maður nær ekki alltaf í sætustu stelpuna á ballinu og þá tekur maður bara þá næstu.“

Þetta er ótrúleg seinheppni í orðavali hjá Geir H. Haarde og lýsir skelfilegu karlrembuhugarfari því ráðherrann hafði rétt áður sagt það sorglegt að ungar stúlkur hefðu verið misnotaðar í Byrginu og þær ættu rétt á allri þeirri aðstoð og aðhlynningu sem hægt væri að veita þeim og börnum þeirra. Með þessari einu setningu gleymdist allur fagurgalinn á undan. Þetta var blaut tuska í andlit fórnarlambanna.


Sól rís um land allt

Í dag var haldinn fundur Sólar á Suðurlandi þar sem mótmælt var eindregið virkjun neðri hluta Þjórsár til að standa undir mengandi starfsemi. Þessi fyrirhugaða mengandi starfsemi á að vera í túnfætinum hjá mér. Þreföldun álversins í Straumsvík. Til að sú framtíðarsýn stóriðju- og virkjanafíklanna geti orðið að veruleika þarf að leggja stóran hluta eystri hrepps undir uppistöðulón og Urriðafoss hverfur af yfirborði jarðar.

  

Gnúpverjahreppur er með fegurri sveitum landsins. Að aka upp með Þjórsá inn í Þjórsárdal er einstök náttúruupplifun. Þessi gróðursæla sveit þar sem ógnvaldurinn Hekla gnæfir yfir friðsælli byggð og er stöðugt tilbúin að minna á sig, er Ísland í hnotskurn. Eldurinn og eyðileggingarmáttur hans, lengsta og tignarlegasta á landsins og gróskumikil sveit sem sólin rís yfir og nærir fjölskrúðuga flóru.

  

Viljum við fórna þessu svo hægt sé að stækka álverið í Straumsvík?. Heimamenn segja nei.! Meiri hluti Hafnfirðinga segir vonandi einnig nei í atkvæðagreiðslunni um stækkunina þrátt fyrir að nú sé reynt að kaupa atkvæði bæjarbúa með gylliboðum um milljarðaávinning sveitarfélagsins ef af stækkun verður.

  

Ég talaði um alcanskt fréttamat Fjarðarpóstsins um daginn. En í Firðinum er einnig gefið út annað blað. Það eru Víkurfréttir. Forsíðan hjá þeim var ekki síður undir pilsfaldi Rannveigar en hjá Fjarðarpóstinum. Í blaðinu sem kom út í síðustu viku er slegið upp á forsíðu: „Tæpur milljarður á ári fyrir Hafnfirðinga ef af stækkun álvers verður.”

Sveitir Gnúpverjahrepps og Kapelluhraun í Hafnarfirði eru meira virði en milljarðarnir sem Rannveig boðar. Sólin mun skína áfram á okkur og veita okkur þann innblástur sem þarf til að byggja upp fjölbreytt og öflugt atvinnulíf sem að endingu mun skila landsmönnum miklu meiri verðmætum en stóriðjufíknin.


Sögulegt tækifæri fór forgörðum

Í dag hafði forysta Knattspyrnusambands Íslands tækifæri til að kjósa Höllu Gunnarsdóttur sem forseta sambandsins. En því miður þekktu þeir ekki sinn vitjunartíma. Á móti Höllu buðu sig fram tveir fulltrúar karla, Geir Þorsteinsson og Jafet Ólafsson. Geir sigraði í kjörinu og hlaut 86 atkvæði, Jafet fékk 29 og Halla 3.

  

Úrslitin koma að vissu leyti á óvart. Ekki það að forystan veldi ekki konu í leiðtogasætið og ekki það að það skyldi vera Geir sem sigraði. Hann hefur staðið sig mjög vel sem framkvæmdastjóri KSÍ undanfarin ár og uppbygging knattspyrnunnar verið mikil í hans tíð. Reyndar hefur afstaða KSÍ til kvennaknattspyrnunnar verið mjög umdeild, sérstaklega sú mismunun í greiðslum til karla og kvenna sem leika fyrir hönd Íslands hér heima og erlendis.

  

Það sem kemur mér mest á óvart er að Halla skyldi einungis fá 3 atkvæði. Nú veit ég ekki hvernig kynjahlutfallið er á þingi KSÍ, en reikna með að kynsystur Höllu hafi verið þó nokkuð fleiri en þrjár. Halla hefur að undanförnu ritað margar upplýsandi greinar um afstöðu sína til knattspyrnunnar og þær hafa sýnt að þar fer ung kona sem veit sínu viti og er vel treystandi til góðra verka. En því miður KSÍ virðist vera „trénaður karlaklúbbur“ eins og Hrafn Jökulsson komst að orði í mjög upplýsandi bloggi um hvernig óþverrapennar, einkum á spjallsvæðum gömlu knattspyrnustórveldanna, KR og Vals, hafa reynt að svívirða og niðurlægja Höllu með orðbragði sem lýsir hugsanagangi ekki ósvipuðum og þegar konur léku fyrst knattspyrnu hér á landi á fyrstu áratugum síðustu aldar.

  

Árið 1914 stofnuðu stúlkur á Ísafirði Fótboltafélagið Hvöt en einungis strákar gátu orðið félagar í Fótboltafélagi Ísafjarðar. Flestar stúlkur í bænum voru í félaginu sem starfaði í tvö til þrjú ár og léku þær innbyrðis og við „púkafélög í bænum“. Um svipað leyti æfði hópur stúlkna í Reykjavík knattspyrnu hjá Axel Andréssyni í Víkingi. Ekki voru allir á eitt sáttir og var alls konar sögum komið á kreik um óhollustu íþróttarinnar fyrir konur. Því var haldið fram að stúlkur fengju stórar lappir og gætu ekki eignast börn ef þær iðkuðu knattspyrnu. Þetta varð til þess að kvennaknattspyrnan fékk skjótan endi á þessum árum og var ekki endurvakin fyrr en hálfri öld seinna um 1970.
(Heimild: Bókin Knattspyrna í heila öld eftir undirritaðann og Víði Sigurðsson, gefin út af h KSÍ 1997)

Kvennaknattspyrnan á Íslandi stendur mjög vel um þessar mundir og hefur árangur landsliðsins verið mun betri í alþjóðmótum en hjá körlunum. Engu að síður ríkja enn fordómar sem minna á hugarfarið fyrir einni öld.


Flagarinn horfinn úr Framsókn

Kristinn H.Gunnarsson hefur ákveðið að yfirgefa Framsóknarflokkinn og ganga til liðs við Frjálslynda. Þar með má segja að flagarinn sé horfin úr Framsókn, því stjórnmálaferill Kristins H. hefur lengst af verið að daðra við það að halda þingsæti. Aldrei hefur verið mögulegt að átta sig á því hvað hann stendur eiginlega fyrir.

 

Ég man vel eftir Kristni H. í Alþýðubandalaginu. Hans frami þar var ekki sá sem hann sjálfur óskaði eftir. Þegar los var að komast á flokkinn og hann sá að hann átti ekki mikla framtíð fyrir sér í því uppgjöri sem framundan var hoppaði hann yfir í Framsókn og daðraði við ráðandi öfl þar. Eftir að Frammarar höfðu gefið honum undir fótinn og hann beitt öllum sínum persónutöfrum var hann tekinn upp á arma flokksins og borinn fram til öruggs þingsætis. En flagarinn átti erfitt uppdráttar. Allir aðrir voru teknir fram yfir hann.

 

Flagarinn má eiga það að hann móaðist við ýmsum ákvörðunum sem hirðin sameinaðist um. Hann var ekki sáttur við þá línu sem lögð var af forystunni. Hann var heldur ekki sáttur við þá upphefð sem hann fékk hjá flokknum. Hann vildi meira. Hann var jú fæddur flagari og var tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að komast yfir það sem hann þráði.

  

Eins og Kasanóva varð hann undir í þeirri rimmu. Og eins og Kasanóva átti hann erfitt með að sætta sig við það hlutskipti. Svo hann leitaði á ný mið.

Þau mið hafa Frjálslyndir opnað fyrir honum. Hans hlutskipti er nú að róa á mið útlendingahatursins með Guðjóni Arnari, Jóni Magnússyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni til að landa þingsæti enn einu sinni.


Skotveiðileyfi á pyngjur almennings

Sparisjóðirnir kosta veðurfréttir Sjónvarpsins um þessar mundir. Frost í boði sparisjóðanna. Allavega ríkir almennt frost í huga almennra viðskiptavina bankakerfisins í heild sinni til viðskiptabankanna vegna þess vaxtaorkurs sem ríkir hér á landi á sama tíma og þeir skila methagnaði.

  

Á undan veðurfréttunum birtist stutt auglýsing frá sparisjóðunum. „Þú hefur kannski ekki efni á Elton John í afmæli þitt. En með séreignalífeyrissparnaði sparisjóðanna getur látið drauma þína rætast á  efri árum,“ eða einhvern veginn þannig. Og á eftir frostaspánni kemur auglýsingin: „Þú hefur kannski ekki efni á að kaupa banka en með séreignalífeyrissparnaði sparisjóðanna getur látið drauma þína rætast á  efri árum.“

  

Þeim sem voru gefnir bankarnir, hafa efni á Elton John, Duran Duran, kampavíni og styrjuhrognum, einkaþotum and jú neim itt. Það var jú gefið út skotveiðileyfi á pyngjur landsmanna handa þeim. Veiðiskýrslurnar hafa verið að birtast í uppgjörum þeirra.

Ekki að ég öfundi þá. Hef aldrei fílað Elton John og Duran Duran. Hlustið frekar á Pretty Things og Kinks hér neðar á síðunni. Það eru alvöru töffarar.


Við ysta haf

Á liðnu sumri ferðuðumst við hjónin um Vestfirði. Þetta var fimmta ferð okkar um firðina enda eru Vestfirðir alveg sér á parti.  Þeir eru rammíslenskir án þess að minna á neitt annað á Íslandi. Í þessari ferð heimsóttum við nokkra staði sem við höfðum aldrei komið áður á. Þar má nefna Rauðasand þar sem andi Svartfugls sveif yfir vötnum. Selárdal þar sem styttur Samúels stóðu vörð við úthafið. Vatnsfjörð þar sem séra Baldur sýndi okkur kirkjuna og sagði nokkur velvalin orð um Framsókn, efast reyndar um að hann hafi neina trú á því að Flagari leynist í Framsókn.

  

Einn af þessum stöðum sem við sáum í fyrsta skipti var Látrabjarg. Þar var fuglalífið skoðað á þessum hrikalega stað. Frá Látrabjargi héldum við til Breiðavíkur en þar höfðum við pantað gistingu og kvöldverð.

  

Breiðavík er mjög fallegur staður þarna út við ysta haf. Við fengum mjög góðan viðurgjörning og við borðið hjá okkur sátu tvær konur sem þekktu til sögu staðarins. Þær sögðu að þarna hefði verið heimili fyrir unga drengi á sjötta og sjöunda áratugnum sem hefðu lent í ýsmum hremmingum. Við vorum undrandi á því að þeir hefðu verið vistaðir svona afskekkt en það voru aðrir tímar þá og önnur úrræði notuð en í dag.

  

Eftir kvöldverðinn gengum við tvö niður í fjöru og horfðum á brimið og tíndum skrautlega steina. Þaðan héldum við síðan upp að kirkju sem stendur þar uppi á hól. Það hvíldi mikil ró og friður yfir þessum stað þótt margir ferðamenn væru þarna samankomnir.

  

Um nóttina sváfum við svo í einu herbergjanna. Eitthvað vesen var með sturtuhausinn en því var kippt í liðinn fyrir okkur. Starfsfólkið var lipurt og fúst að ræða við okkur um stað og staðhætti. Það vildi hinsvegar lítið ræða um fortíð staðarins, sagðist ekki þekkja hana. Gaf okkur hins vegar góð ráð hvernig best væri að slípa fjörusteinana, einkum grænlendingana sem þau kölluðu svo, en þeir voru smáir hnöttóttir grænir steinar og var það trú manna að þá hefði rekið yfir hafið frá Grænlandi.

  

Ekki man ég eftir neinum sérstökum draumförum um nóttina og morgunin eftir kvöddum við staðinn ánægð með vistina og héldum áfram okkar för.

  

Ég var því mjög sleginn þegar ég heyrði af þeim atburðum sem þarna hefðu átt sér stað. Þegar ég horfði á Lalla Johns og aðra harðjaxla á svipuðu reki og ég vikna og tárast þegar þeir rifjuðu upp það helvíti sem þarna var og þá ómanneskjulegu framkomu og harðræði sem þeir þurftu að upplifa þarna fyrir 30 til 40 árum varð mér hugsað til þess að kannski hafi ég sofið í sama herbergi og einhver þeirra.

  

Ég man að á þessum árum þegar ég var á sama aldri og þessir drengir þegar þeir voru sendir þarna vestur þá var stundum haft í hótunum að senda óþekktarorma á vandræðabarnaheimili. Þetta var einskonar grýla á ungviðið. Samfélagið hafði því örugglega einhvern ávæning af því að þessi vandræðabarnaheimili væru ekki til fyrirmyndar. Samt fékk þetta að viðgangast í áratugi.

Því miður er þetta ekki eina dæmið um svona helvíti sem börn voru skikkuð í. Sagan af Bjargi er þekkt og eflaust eru dæmin fleiri. Það er skylda samfélagsins að grandskoða þetta mál og aðstoða þessa einstaklinga fjárhagslega og með síðbúinni áfallahjálp eins og Atli Gíslason sagði í Kastljósi. Það minnsta sem stjórnvöld geta gert er að biðja fórnarlömbin opinberlega afsökunar eins og eitt fórnarlambanna krafðist.


Gróðavegurinn yfir Kjöl

Pistill minn í gær um Kjalveg vakti talsverð viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Einhverjir virtust halda að til að aka Kjalveg að sumarlagi þyrfti fjórhjóla jeppatröll sem eins og þeir sem farið hafa norður eða suður Kjöl vita að er ekki rétt. Hvaða bíll sem er, sé hann gangfær, kemst auðveldlega þessa leið. Einn hafði meiri áhyggjur af lakkinu á bílnum sínum ef hann þyrfti að skrölta malarveg en því umhverfisslysi sem uppbyggð malbikuð hraðbraut yfir Kjöl yrði. Haldi hann sig bara á malbikinu, nóg er víst af því.

  

En þeir voru líka nokkrir sem tóku undir afstöðu mína og benti Pétur Þorleifsson á grein eftir Ögmund Jónasson á heimasíðu sinni frá því í júlí 2005 þar sem hann spyr hvort við viljum láta rukka okkur fyrir að aka yfir Kjöl.

Ómar Ragnarsson segir eftirfarandi í athugasend sinni við færslu mína: „Stórt atriði sem allir gleyma er hávaðinn. Á veginum um Bláskógaheiði við Þingvelli er 50 km hámarkshraði og vegurinn bugðóttur. Það er gríðarlegur munur á slíkum ferðamannavegi og trukkavegi á Kili þar sem hávaðinn af hjólbörðunum á trukkunum er ótrúlega mikill.“ Þá bendir hann á að ávinningurinn við þessa vegalagningu sé 22 km. stytting vegarins frá Reykjavík til Akureyrar því hægur vandi sé að stytta leiðina um þjóðveg 1 um 25 kílómetra í byggð. Það þýðir korter á löglegum hraða. Á að fórna hálendinu fyrir korter?  

Eitt var það sem ég ekki nefndi í pistlinum en það var að Norðurvegur ehf. sem vill ráðast í þessa einkaframkvæmd ætlar ekki að skila veginum til ríkisins þegar hann hefur borgað sig upp. Í stað þess á að græða um aldur og æfi á vegtollinum. Þetta er því orðinn gróðavegur eins og Mörður Árnason bendir á á heimasíðu sinni.

  

Og hverjir skyldu skipa stjórn Norðurvegar. Það eru Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, Jóhannes Jónsson í Bónus, Eiður Gunnlaugsson framkvæmdastjóri Kjarnafæðis, Kjartan Ólafsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og Gunnar Þorgeirsson formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi. Þessum mönnum á að færa á silfurfati gróðaveginn yfir Kjöl.

Fyrst var kvótinn gefinn, síðan Síminn, þá bankarnir og nú vegakerfið.


Engu gleymt

Sverrir Hermannsson hefur engu gleymt í listinni að senda frá sér eitraðar pillur til andstæðinga sinna. Í Fréttablaðinu í gær var lítil frétt um það að Sverrir sé enn meðlimur í Frjálslynda flokknum, þrátt fyrir að Margrét dóttir hans hafi sagt skilið við flokkinn. Hann segist vera í ábyrgð fyrir flokkinn og hann þurfi að ganga frá ýmsum málum áður en hann yfirgefur flokkinn. 

Fram kemur að Sverrir var endurkjörinn í fjármálaráð flokksins á ný afstöðnu landsþingi hans en hann hefur verið í fjármálaráðinu frá byrjun. Síðan kemur þessi eitraða sending:

 „...og ég var kosinn í það áfram. Það var vegna þess að það fannst enginn í nýju fylkingunni með nógu gott sakavottorð til þess að fara þar inn.“


Flokkur í afneitun

Þrátt fyrir að Samfylkingin virðist vera í frjálsu falli samkvæmt skoðanakönnunum að undanförnu og þrátt fyrir dómsdagspredikun guðföðurs flokksins í Silfri Egils og þrátt fyrir að Stefán Jón Hafstein hafi tekið undir gagnrýni Jóns Baldvins í Kastljósi í gær virðist þingflokkurinn vera í algjörri afneitun á að ástandið sé slæmt og það sé þingmönnunum sjálfum að kenna. Þeir eru jú dæmdir af verkum sínum. 

Ingibjörg Sólrún segir að almenningur skilji ekki málflutning Samfylkingarinnar vegna þess að flokkurinn sé að ræða pólitík. Ágúst Ólafur varaformaður Samfylkingarinnar mætti í hádegisviðtal Stöðvar 2 í gær og fór eins og köttur í kringum heitan graut þegar gagnrýni Jóns Baldvins kom til tals. Það lá við að hann segði að gagnrýni Jóns Baldvins hefði verið hrós um störf og stefnu Samfylkingarinnar.

Mörður er á svipuðum slóðum á heimasíðu sinni: Jón Baldvin var hressandi í Silfri Egils í gær – svona á að tala! Auðvitað má segja ýmislegt um mælskutæknileg brögð í upphafi viðtals og við lok þess, en meginerindið komst vel til skila: Hér þarf jafnaðarstjórn og Samfylkingin verður barasta að gjöra svo vel að svara þeirri eftirspurn.“

Og Össur þegir þunnu hljóði á sinni heimasíðu. Fjallar þar um nýlega skoðanakönnun (ekki þær nýjustu) sem sýndi vaxandi fylgi við að stjórnarandstöðuflokkarnir myndi næstu ríkisstjórn. Miklu færri vildu hins vegar ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka - en áður.“

Til að hægt sé að takast á við vandann þarf fyrst að horfast í augu við hann. Þingflokkur Samfylkingarinnar virðist ekki gera það þrátt fyrir að viðvörunarbjöllur hljómi úr  öllum áttum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband