Færsluflokkur: Bloggar

Ólíkt höfumst við að

Þegar Ingmar Bergman lést 30. júlí sl. brugðust norrænu sjónvarpsstöðvarnar skjótt við. Sama kvöld var Smultronstället sýnd í sænska sjónvarpinu og kvöldið eftir sýndi danska sjónvarpið Sjöunda innsiglið. Íslenska sjónvarpið sá enga ástæðu til að minnast þessa stærsta kvikmyndaleikstjóra Norðurlandanna á einn eða neinn hátt.

 Nú um helgina var hins vegar sýndur þáttur í íslenska ríkissjónvarpinu um síðustu daga Diönu prisipissu vegna þess að tíu ár eru liðin frá andláti hennar. Nefni þetta hér til vitnis um menningarstig þeirra sem stjórna dagskránni í Efstaleiti.

Skurðgoðadýrkun VG

Mér er fyrirmunað að skilja þessa ást svokallaðra vinstri manna á íslenska gjaldmiðlinum krónunni. Ég get skilið að íhaldssamir hægrimenn dýrki krónuna en að þeir sem kenna sig við vinstrið hafi sett þennan handónýta gjaldmiðil á stall sem hálfgert skurðgoð er með öllu óskiljanlegt.

Í dag birtist í Fréttablaðinu ástarjátning eftir Brynju B. Halldórsdóttur stjórnarmann í Ungum vinstri grænum og Heimssýn undir fyrirsögninni Krónan mín kæra. Þar er efnahagsástandinu á Íslandi lýst þannig að ætla mætti að lýsingin væri tekin upp úr kosningabæklingum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir síðustu alþingiskosningar.

Hér er allt í lukkunnar velstandi þökk sé vorri ástkæru krónu. Í lýsingu Brynju B. gleymist reyndar að taka með vaxtaokrið sem er ein afleiðing þessa veika gjaldmiðils og almenningur er nú að kikna undan. „En krónan er bara of kær til að vera látin lönd og leið að ástæðulausu,“ svo vitnað sé til lokaorða unga rótæklingsins.

Pepper liðþjálfi fertugur

Það er sumarbyrjun 1967. Ég nýbúinn að ljúka landsprófi. 16 ára að verða 17 tveimur mánuðum síðar. Í fyrsta skipti í sumarvinnu í bænum, nánar tiltekið í bæjarvinnunni í Hafnarfirði. Fram til þessa hafði ég verið í sveitinni á sumrin, í Bryðjuholti í Hrunamannahreppi. Nú var ég hins vegar farinn að vinna fyrir alvöru launum í fyrsta skipti. Þegar ég fékk fyrstu útborgunina var mitt fyrsta verk að fara í hjólreiða- og plötuverslunina á Reykjavíkurvegi og kaupa mína aðra longplaying plötu eins og við kölluðum breiðskífur á þessum árum. Fyrsta breiðskífan sem ég eignaðist var  Oldies but Goldies, safnplata með Bítlunum. En í þetta skiptið var það nýjasta afurð Liverpooldrengjanna, Sgt. Peppers Lonely Hearts Club Band, sem kom út 1. júní fyrir 40 árum sléttum.

Við vissum ekki hverju við áttum von á. Höfðum reyndar fengið smá forsmekk með tveggja laga plötu fyrr um veturinn, Penny Lane og I´m the Walrus, sem einhvernveginn kom flestum í opna skjöldu. Þetta var eitthvað alveg nýtt, einkum og sér í lagi Walrusinn. Það var því mikil spenna í lofti þegar platan var sett undir nálina í stofunni á Smyrlahrauni 15. Og hvílík opinberun. Hvorki fyrr né síðar hef ég upplifað þessa opinberun í tónlist sem þarna hljómaði. Þetta var hljómkviða sem ég  vissi þá þegar að ætti eftir að fylgja mér það sem eftir væri. Enn í dag skipar þessi plata fyrsta heiðurssess í mínu safni og nú í kvöld fór vínillinn undir nálina og þrátt fyrir einstaka rispur hefur platan enst vel, en á andlit mitt eru einnig komin nokkur ör.

Þetta var upphafið. Í kjölfarið komu allir aðrir og mesta blómaskeið rokk og popptónlistar rann upp. Stones fylgdu með einni vanmetnustu plötu hljómsveitarinnar Their Satanic Majesties Request, Beach Boys með Pet Sounds, Incredible String Band með 5000 spirits or the Layers of The Onion og nýir listamenn eins og Hendrix og Cream komu fram og þannig mætti halda áfram að telja upp endalaust. Þetta var gullöld þessarar tegundar tónlistar. Það var eins og Pepperinn hefði leyst eitthvað afl úr læðingi hjá æskunni.

Stríðsdrama í túnfæti langömmu

Langamma mín Sigríður Beinteinsdóttir var fædd á Arnarfelli í Krýsuvík. Þessi ættleggur minn kom því Krýsuvíkurleiðina í Hafnarfjörð. Hennar faðir var Beinteinn Stefánsson bóndi og smiður á Arnarfelli í Krýsuvík. Hann fluttist úr Krýsuvíkursókn með fjölskyldu sína eftir áleitni frá afturgöngu á Selatöngum. Það má því með sanni segja að móðurleggur föður míns hafi komið Krýsuvíkurleiðina í Hafnarfjörð.

Því er ég að minnast á þetta hér að í stað þess að horfa á umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra ákváðum við hjónin að horfa á Flags of our Fathers eftir Clintarann sem að hluta til var tekin á Arnarfelli þar sem forfeður mínir bjuggu. Horfði reyndar fyrst á tríóið Geir, Steingrím og Sollu og bar Solla af þeim þremur. Nöldrið í Steingrími þótt á köflum væru mælskir og fyndnir sprettir er að verða pínlegt og Geir var eins og upplestraræfing hjá framhaldsskólanema.

Mynd Clintarans um Iwo Jima og afdrif þremenninganna sem fóru í auglýsingaherferð fyrir Bandaríkjaher eftir blóðugan hildarleik í fjallshlíðum þessarar japönsku eyju var mögnuð. Var samt dálítið hugsi yfir hvað forfeður mínir á Arnarfelli hefðu hugsað um þetta stríðsdrama í túnfætinum hjá þeim. En þau voru ýmsu vön, m.a. draugadrama sem hrakti þau burt.


Össur getur á sig rósum bætt

Nú reynir á Fagra Ísland Samfylkingarinnar. Náttúruverndarsamtök Íslands sendu ríkisstjórninni áskorun um að stöðva framkvæmdir og undirbúning virkjana í neðri hluta Þjórsár. Í áskoruninni segir að ekkert heildarmat hafi verið gert á gildi né sérstöðu náttúru og landslags við neðri hluta Þjórsrá, en ljóst sé að virkjunarframkvæmdir þar muni hafa mikil áhrif og valda tjóni.

Samfylkingin ræður yfir þeim ráðuneytum sem hafa mest um þetta að segja, iðnaðarráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu. Össur hefur þegar sýnt að hann er ófeiminn við að túlka kafla stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um Þjórsárverin á þann hátt að Norðlingaölduveita sé út af borðinu og er það rós í hans hnappagat. Nú getur hann enn bætt á sig rósum með því að hætta undirbúningi að virkjun neðri hluta Þjórsár þar til heildarúttekt hefur farið fram á verndargildi náttúruperla eins og Þjórsár og rammaáætlun er lokið árið 2009. Hann getur stoppað það ferli sem nú er farið af stað innan Landsvirkjunar. Þar með stæði Samfylkingin við sitt Fagra Ísland.


Fórnarlömb staðfestu okkar

Ég er ósáttur. Samfylkingin sest í ríkisstjórn án þess að standa við þá kröfu að Ísland verði tekið af lista hinna staðföstu þjóða. Vil bara að það sé skjalfest hér að ég er drullufúll yfir því. Í dag létust 40 og sjö Evrópubúum var rænt. Fórnarlömb staðfestu okkar eru komin yfir 70 þúsund. Sú mæta kona Ingibjörg Sólrún er utanríkisráðherra í stjórn sem heldur áfram að vera á dauðalistanum. Það er ekki henni að kenna að við vorum sett á listann, ábyrgðina af því bera Davíð og Halldór, en Solla hefði getað gert það að úrslitaatriði að við yrðum tekin af listanum, eins og hún sagði að yrði fyrsta verk Samfylkingarinnar í ríkisstjórn.

Daglega eru fórnarlömbin talin í tugum. Af hverju gerðu menn ekki hreint fyrir sínum dyrum? Það er ekki nóg að harma stríðsreksturinn í Írak og vilja leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi, eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Við berum fulla ábyrgð á stríðsrekstrinum með því að vera enn á lista hinna staðföstu þjóða.

Yarisfólkið komið á kreik

Yarisfólkið er komið á kreik. Varð var við það á flestum stöðum sem ég áði á á leið minni um Vesturland og Norðvesturland þessa helgi. Þessi litlu bílkríli voru á flestum skoðunarstöðum ferðamanna á svæðinu. Á Búðum, Arnarstapa, Hellnum, Stykkishólmi, Reykholti og meira að segja á Hvammstanga. Út úr þeim streymdu allra þjóða kvikindi vopnuð myndavélum að fanga óviðjafnanlega náttúru landsins. Sé lóan vorboði er Yarisfólkið sumarboði.

Eitt það skemmtilegasta sem maður gerir þegar maður ferðast um landið er að skoða auglýsingatöflur í verslunum. Þær segja manni ótrúlega mikið um það pláss sem maður er staddur í. Hvað segið þið um þessa auglýsingu: „Verð að klippa í Sambúð ef næg þátttaka fæst.“ Það tók mig dágóðan tíma að átta mig á auglýsingunni. Það var ekki fyrr en ég sá að Sambúð var með stórum staf að ég skildi að hér var rakari að auglýsa þjónustu sína í húsi nefnt Sambúð. Og hvað þá með þessa sem hékk uppi í Kaupfélaginu á Hvammstanga: „Vantar ykkur hænsnaskýt. Framleiði helling af hænsnaskýt. Nægt framboð af hænsnaskýt.“ Hversvegna skíturinn var með ypsiloni er ofvaxið skilningi mínum, en það er önnur Ella.

Skoðuðum Vatnasýninguna á Stykkishólmi og er það ótrúleg upplifun að sjá gömlu húsin í bænum speglast í jökulvatni frá mismunandi jöklum. Einnig selasetrið á Hvammstanga sem er skylduheimsókn allra sem unna margbreytilegri náttúru landsins.

Af hverju flugmiðann frekar en budduna?

Þá liggur stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar fyrir og er þar margt jákvætt að finna. Má þar nefna velferðarhluta yfirlýsingarinnar en velferðarmálin lenda hjá Samfylkingunni. Það er málaflokkur sem kostar sitt og því mér óskiljanlegt hversvegna Ingibjörg Sólrún valdi ekki frekar budduna en flugmiðann. Í fjármálaráðuneytinu hefðu áhrif hennar á landsstjórnina orðið mun meiri en í utanríkisráðuneytinu.

Steingrímur J. reynir að gera lítið úr umhverfisþætti yfirlýsingarinnar og hamrar á því að þetta verði stóriðjustjórn. Lítum aðeins á það. Í yfirlýsingunni segir m.a.:

„Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum. Íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og menntastofnanir eru í einstakri stöðu til þess að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í baráttu gegn mengun og sóun náttúruauðlinda. Ríkisstjórnin stefnir að því að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ríkisstjórnin hyggst efla skógrækt og landgræðslu meðal annars í þeim tilgangi að binda kolefni í andrúmsloftinu. Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja, m.a. með því að beita hagrænum hvötum. Til að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægt að ljúka rannsóknum á verndargildi þeirra og gildi annarrar nýtingar. Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar. Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir. Nokkur svæði, sem talin eru mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum af stofnunum umhverfisráðuneytisins, verði undanskilin nýtingu og jarðrask þar óheimilt þar til framtíðarflokkun hefur farið fram í samræmi við staðfestar niðurstöður hinnar endurskoðuðu rammaáætlunar. Slík svæði eru Askja, Brennisteinsfjöll, Hveravellir, Kerlingafjöll, Kverkfjöll og Torfajökull. Vatnasviði Jökulsár á Fjöllum verði bætt við Vatnajökulsþjóðgarðinn og tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna.“

Þetta hljómar eins og fögur hljómkviða í mínum eyrum. Þarna er í lokin kveðið á um að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir allt votlendið og þar með er Norðlingaölduveita í eitt skipti fyrir öll út af teikniborðinu. Þá er þarna tryggt að ekki verði snert við Langasjó í virkjanaskyni sem hefur verið einn af kostum Landsvirkjunar, þ.e. að veita Skaftá yfir í vatnið og þar með eyðileggja þessa náttúruperlu. Hvernig hægt er að túlka þenna texta sem uppáskrift um áframhaldandi stóriðjustefnu er mér hulin ráðgáta.


Rýr hlutur Samfylkingar

Hlutur Samfylkingar í ríkisstjórnarsamstarfinu verður að teljast frekar rýr ef miðað er við stöðu Framsóknarflokks fyrir kosningar, þrátt fyrir að þingstyrkur Samfylkingar sé mun meiri en Framsóknar í síðustu ríkisstjórn. Framsókn hafði tvö atvinnumálaráðuneyti en Samfylkingin einungis eitt. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn landað heilbrigðisráðuneytinu án þess að þurfa að fórna menntamálaráðuneytinu.

Ráðuneyti Samfylkingarinnar eru utanríkisráðuneytið, samgönguráðuneytið, umhverfisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og svo þurfa þeir að sætta sig við að það sem áður var eitt ráðuneyti sé skipt upp í tvö, iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Frekar rýr hlutur það.

Geir landaði því vænni bleikju fyrir sig og sína. Svo eigum við eftir að sjá hvað stjórnarsáttmálinn inniheldur. Fram hefur komið að samið hefur verið um tveggja ára stóriðjuhlé en fátt annað hefur spurst út. Það er vissulega sterk staða gagnvart Fagra Íslandi að Samfylkingin hafi bæði iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið á sinni könnu.

Varðandi ráðherravalið er ég að mestu leyti sáttur nema að mér finnst frekar skítt að fulltrúi sterkasta vígis flokksins, Hafnarfjarðar, sé settur til hliðar.


Íslenska Sicko blasir við

Það versta sem gerst gat við ráðuneytisskiptinguna á milli Sjálfstæðisflokks er nú orðið að veruleika. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið úthlutað heilbrigðisráðuneytinu. Flokkurinn sem hefur viljað einkavæða eitt besta heilbrigðiskerfi heimsins og færa það að bandarískri fyrirmynd sem hefur fengið falleinkun í öllum samanburðarrannsóknum alþjóðastofnana. Það verður verðugt verkefni fyrir íslenska heimildarkvikmyndagerðamenn að gera Íslenska Sicko eftir fjögur ár að hætti Michaels Moore. Vonandi á þó Guðlaugur Þór ekki eftir að ganga það langt vitandi það að íslenska þjóðin ber mikið traust og velvilja til íslenska heilbrigðiskerfisins en þrýstingur á hann frá þeim sem vilja ganga alla leið verður mikill.

Nokkrir jákvæðir þættir eru í uppstokkun ráðuneyta. T.d. það að færa tryggingarmálin úr heilbrigðisráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins og að sameina sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneyti.

Fátt kom á óvart við skipan í ráðherrastóla hjá Sjálfstæðisflokknum. Það var allt eftir bókinni. Eini nýi ráðherrann er Guðlaugur Þór og sitja allir hinir í sínum gömlu ráðuneytum þannig að ekki er á þeim vettvangi að vænta mikilla breytinga. Mest eftirvænting var hvað um Björn Bjarnason yrði en eins og spáð hafði verið heldur hann sínu ráðuneyti og þakka ýmsir það auglýsingu Jóhannesar úr Bónus.


mbl.is Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband