Yarisfólkið komið á kreik

Yarisfólkið er komið á kreik. Varð var við það á flestum stöðum sem ég áði á á leið minni um Vesturland og Norðvesturland þessa helgi. Þessi litlu bílkríli voru á flestum skoðunarstöðum ferðamanna á svæðinu. Á Búðum, Arnarstapa, Hellnum, Stykkishólmi, Reykholti og meira að segja á Hvammstanga. Út úr þeim streymdu allra þjóða kvikindi vopnuð myndavélum að fanga óviðjafnanlega náttúru landsins. Sé lóan vorboði er Yarisfólkið sumarboði.

Eitt það skemmtilegasta sem maður gerir þegar maður ferðast um landið er að skoða auglýsingatöflur í verslunum. Þær segja manni ótrúlega mikið um það pláss sem maður er staddur í. Hvað segið þið um þessa auglýsingu: „Verð að klippa í Sambúð ef næg þátttaka fæst.“ Það tók mig dágóðan tíma að átta mig á auglýsingunni. Það var ekki fyrr en ég sá að Sambúð var með stórum staf að ég skildi að hér var rakari að auglýsa þjónustu sína í húsi nefnt Sambúð. Og hvað þá með þessa sem hékk uppi í Kaupfélaginu á Hvammstanga: „Vantar ykkur hænsnaskýt. Framleiði helling af hænsnaskýt. Nægt framboð af hænsnaskýt.“ Hversvegna skíturinn var með ypsiloni er ofvaxið skilningi mínum, en það er önnur Ella.

Skoðuðum Vatnasýninguna á Stykkishólmi og er það ótrúleg upplifun að sjá gömlu húsin í bænum speglast í jökulvatni frá mismunandi jöklum. Einnig selasetrið á Hvammstanga sem er skylduheimsókn allra sem unna margbreytilegri náttúru landsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Skýtur. Ætli það sé ekki af því að hænurnar skjóti honum úr sér. Eða " framleiðandinn" sjálfur?

Sigurður Sveinsson, 29.5.2007 kl. 06:17

2 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll. Kvitt fyrir lesningu. Skemmtileg grein. Minnir mig, þegar þú talar um Yaris fólkið. Heyrði af því að þegar bílaleigubílar Flugleiða voru að koma inn,til viðgerðar hjá Toyota, var eins og verið væri að fara yfir Rallybíla. Undirvagninn var eins og illa hamrað stál. Það var skoðun þeirra sem gerðu við þessa bíla að best væri að setja plötu undir þá alla því aksturslag útlendinga væri skelfilegt. Vegir merktir jeppaslóðum var sem segull á þessar litlu púddur.

Svo seljast þessir bílar sem ,,einstakir" bílar, á uppsprengdu verði... Og við höldum að við séum að kaupa gæðabíla!

Sveinn Hjörtur , 29.5.2007 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband