Sami háttur og síðasta ár

Mikil vanafesta ríkir í kringum áramót. Kl. sex er sest að snæðingi undir útvarpsmessu, farið í kirkjugarðinn og á brennu og meðan á þessu stendur er sprengt af miklum móð. Svo skellur þögnin á þegar áramótaskaupið hefst. Um leið og því lýkur er eins og þjóðin losni úr læðingi og fírvekeríð hefst. Það er orðið svo gengdarlaust að það sést ekki lengur fyrir mekki sem leggst yfir bæinn. Á miðnætti kyssist fólk og óskar hvort öðru gleðilegs árs, sumir draga tappa úr kampavínsflösku og skála. Svona er þetta ár eftir ár og smám saman dregur úr sprengjunum, þó er alltaf ein og ein eftirlegukind á kreiki fram á morgun.

 

Við bjuggum í Svíþjóð á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þar höfðu Svíarnir einnig sínar áramótavenjur, m.a. að horfa á sömu stuttmyndina árlega. Þetta er gömul þýsk svart hvít útgáfa á breskum stofuleik. Heitir þjónninn og greifynjan. Gengur út á það að greifynjan heldur sinn árlega gamlárskvöldverð og býður þangað fjórum heiðursmönnum sem allir eru horfnir á vit forfeðranna. Þjónninn gengur um og severar fyrst súpu í forrétt og sherrí með og verður hann að skála fyrir alla herramennina við greifynjuna. Næst er það fiskurinn og hvítvínið og sami háttur hafður á og við síðasta rétt og á síðasta ári. Þá kemur kjúklingurinn og er rautt haft með honum. Sami háttur er hafður á og fer nú drykkjan að svífa örlítið á þjóninn. Á gólfinu er ísbjarnarhamur með haus og rekur þjónninn löppina iðulega í hausinn en eftir því sem vínið hrífur fer hann að geta leikið á ísbjörninn. Að lokum kemur svo eftirréttuinn og púrtarinn með því og sami háttur hafður á og síðast ár. Rúsínan í pylsuendanum kemur svo síðast og verður ekki afhjúpað hér hver hún er. Hún er alltaf jafn óvænt þó sami háttur sé hafður á og síðasta ár.

Undanfarin tvö ár höfum við getað notið þessarar perlu á gamlárskvöld á undan skaupinu þökk sé skjánum. Við erum m.a. með norrænu stöðvarnar og ákváðum að kanna í fyrra hvort greifynjan og þjónninn hefðu enn sama háttinn á. Og viti menn þarna voru þau mætt í sitt gamlárspartí.

Gleðilegt ár

Nú nálgast áramótin óðfluga og ósjálfrátt hugsar maður, en það er svo stutt síðan síðast, það hefur varla nokkur skapaður hlutur gerst síðan við sprengdum burt árið 2005. Svo hugsar maður til baka og viti menn, eitt og annað hefur nú drifið á dagana síðan árið 2006 gekk í garð. Herinn fór og Halldór hætti. Hvoru tveggja fagnaðarefni. 

noiogtomasÉg ætla samt ekki að fabúlera hér um það sem gerst hefur á vettvangi samfélagsins. Frekar að horfa í eigin rann. Mesta gleðiefnið var fæðing þriðja barnabarnsins í ágúst. Honum var gefið nafnið Nói. Það var gaman að fylgjast með Tómasi bróður hans sem varð fjögurra ára í ágúst. Það tók hann nokkurn tíma að átta sig á þessari nýju mannveru. Þó vissi hann alltaf að Nói var væntanlegur. En samt undrið var mikið eins og það alltaf er þegar barn fæðist, hvað þá þegar maður er bara fjögurra ára. 

Þeir bræður Tómas og Nói eru báðir fæddir í ágúst alveg eins og ég. Ég vonaði því auðvitað að þeir myndu fæðast á afmælisdegi mínum en því var ekki að heilsa. Kannski eins gott því ég hefði orðið svekktur ef þeir hefðu ekki verið skýrðir í höfuðið á mér, en það hefði skapað mikil vankvæði hjá móðurslektinu í Frakklandi. 

En fleira gerðist á árinu. Í vor skrapp ég sem viðhengi með Léttsveitinni, kvennakór Reykjavíkur, til Havanna á Kúbu. Það var upplifun sem seint gleymist, gömlu eiturspúandi kaggarnir sem sumum var haldið saman með snærisspottum. Þarna hemsóttum við tímabil sem að öllum líkindum heyrir brátt sögunni til. Fari allt á versta veg verður þessi paradís á jörð einungis framlenging á Flórída eftir nokkur ár. 

Í sumar skruppum við svo á Vestfirði. Fórum á Rauðasand og komum við á Hnjóti á leið okkar út á Látrabjarg. Heimsóttum Selárdal og skoðuðum þar byggingar og styttur Samúels, sem verið er að koma í fyrra horf. Litum við á tónlistarsafninu hans Jóns í Bíldudal og héldum svo til Ísafjarðar, sem ólíkt öðrum bæjum sem við ókum í gegnum á leið okkar, er heimsþorp. Á heimleiðinni heimsóttum við þjóðsagnapersónuna séra Baldur í Vatnsfirði og skoðuðum þar kirkju og fornleifauppgröft sem Mjöll Snæsdóttir stýrði. Gistum svo í Bjarnafirði áður en haldið var aftur til Reykjavíkur. 

Þriðja reisan var svo í nóvember þegar við heimsóttum Róm. Þar var enn um 20 stiga hiti og notalegt að koma þangað úr garranum hér. Við heimsóttum Sixtinusarkapelluna og Vatikanið, Forum Roma og Kólosseum. Katakomburnar og Pompei þannig að þetta var mikil menningarferð.  valamarie

Árið endar svo með bravúr þegar Vala Marie, barnabarn okkar númer tvö í röðinni, verður þriggja ára á morgun við mikinn fögnuð allrar þjóðarinnar eins og sjást mun á kvöldhimninum annað kvöld. Hún er búin að vera svo lengi næstum þriggja ára að það hálfa væri nóg. 

Ég mun nú taka mér frí frá þessu bloggi sem er nýhafið fram yfir áramót. Sest líklega næst við tölvuna annan janúar 2007. Gleðilegt ár.


Nú syrtir í álið

Alltaf batnar það. Undanfarin ár hef ég mætt á klettinn fyrir ofan Hellisgerði til að horfa á flugeldasýningu björgunarsveitanna í Hafnarfirði þar sem himininn yfir höfninni hefur logað. Hefur það verið tilkomumikil sjón og einhvernveginn fært áramótin inn í æðakerfið áður en farið er að huga að gamárskvöldssteikinni. Þarna hefur maður hitt vini og kunningja, fengið fregnir af gangi mála, bæði persónulegar og pólitískar, því allt snýst þetta jú um þá tík. Svo hefur maður skundað daginn eftir upp á hraun og verslað inn sprengiefni fyrir heimilið af þessum sömu hjálparsveitum. Reyndar hefur dregið aðeins úr því eftir því sem ungarnir hafa flogið burt en þó er alltaf keypt ein voldug raketta, stjörnuljós og blys.
En nú syrtir í álið. Í morgun þegar ég ók í sortanum til vinnu minnar heyrði ég flugeldasýninguna auglýsta en nú var hún ekki eingöngu í boði hjálparsveitanna heldur í boði þeirra og Alcan. Þannig að í ár mæti ég ekki á klettinn til að njóta ljósadýrðarinnar í svörtum himninum og missi eflaust af nýjustu fréttaskotunum af pólitísku plotti í bænum. Þökk sé gjafmildi Alcan.

Hvað skal segja?

Hvað skal segja? Ég innfæddur gaflarinn fékk ekki álglaðninginn og satt best að segja er ég nokkuð sáttur við það. Ég hefði varla nennt að gera mér sérferð á póstinn til að endursenda pakkann og ekki hefði mér liðið vel að henda þessu í ruslið þar sem mér hefur alltaf þótt vænt um Bjögga, allt síðan við vorum saman í bekk í Lækjarskóla. Hann var þá sami töffarinn og hann er í dag.
Hvað skal segja? Hvað vakir eiginlega fyrir Alcan? Ég hef þá trú á manneskjunni að þetta hafi þveröfug áhrif en lagt var upp með. Þú kaupir ekki sannfæringu fólks. Þvert á móti held ég að svona gjörningur veki ýmsa til umhugsunar.
Hvað skal segja? Ég hef hingað til talið stóriðju eðlilegan hluta af íslensku efnahagslífi. Starfaði sjálfur sumarið 1968 við byggingu varaaflsstöðvar fyrir Straumsvík og sumarið 1983 við Sultartangastífluna. En nú er nóg komið í bili. Stóriðjumeistari ríkisins, ekki meir, ekki meir.
Hvað skal segja? Hitaveita Suðurnesja hefur dregið umsókn sína um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum til baka og vill að þessi náttúruperla fái sín notið ópjölluð. Er bara að vona að önnur orkufyrirtæki fari að dæmi HS og dragi sínar umsóknir til baka. Sýni Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun náttúrunni sömu virðingu og HS þá vitum við hvað skal segja. Takk.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband