11.1.2007 | 11:24
Ég á heima á Állandi
Norsk Hyrdro sýnir Þorlákshöfn áhuga. Íhugar að reisa þar álver. Arctus, félag í eigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar, hefur fengið úthlutað lóð við Þorlákshöfn með það fyrir augum að reisa þar álver og endurbræðslu á áli til frekari úrvinnslu. Verði af þessum áformum hefur verið ákveðið að breyta nafni bæjarfélagsins í Állákshöfn.
Á Reyðarfirði eru framkvæmdir á fullu við álverið þar. Búið er að stækka álverið í Hvalfirði. Undirbúningur að álveri í Helguvík er á fullu. Alcan vill þrefalda álverið í Straumsvík. Húsvíkingar vilja sitt álver. Áhugi er í Skagafirði og heyrst hefur að Akureyringar séu volgir.
Hvar endar þetta? Í Laxdælu er sagt frá því að Ketill flatnefur hafi svarað börnum sínum svo þegar þau reyndu að draga hann til Íslands: Í þá veiðistöð kem eg aldregi á gamals aldri.
Verði þetta álæði ekki stöðvað munu flatnefir framtíðarinnar svara börnum sínum: Í það álver kem eg aldregi á gamals aldri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2007 | 11:01
Klórað í bakkann
Talsvert hefur borið á því hjá VG að reyna að gera atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði um stækkun álversins tortryggilega. Þær raddir hafa heyrst að þetta sé bara sýndarmennska, sama hver niðurstaðan verði þá verði farið í stækkun, bara fundin önnur útgönguleið til þess. Í gær kom fram í fréttum að yfir 90% bæjarbúa eru ánægðir með þá leið sem meirihlutinn í Hafnarfirði hefur ákveðið að fara. Þá lýsti Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði því afdráttarlaust yfir að niðurstaða kosninganna yrði bindandi í Speglinum í gær.
Í ljósi þess er fróðlegt að skoða skrif Guðfríðar Lilju þegar hún reynir að klóra í bakkann eftir að hafa skammast út í Samfylkinguna í Hafnarfirði fyrir ætla að láta bæjarbúa taka ákvörðun um stækkunina:
Borið hefur á þeim misskilningi hjá einhverjum í bloggheimum að ég sé mótfallin kosningu um stækkun álversins í Straumsvík. Þetta er alrangt. Ég er mjög fylgjandi kosningu um málið. Ég gagnrýni hins vegar þögn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í opinberum umræðum um málið. Mér finnst það vera ábyrgðarhluti gagnvart kjósendum að stjórnmálaflokkar tali umbúðalaust um stefnu sína og framtíðarsýn. Það er mín skoðun að það sé engum til góðs, og allra síst lýðræðinu í landinu, að stjórnmálaflokkar veigri sér við að taka skýra afstöðu til mikilvægra mála.
Á heimasíðu Samtakanna Sól í Straumi er bæði að finna rök með og á móti stækkun álversins. 800 milljónir á ári er vissulega upphæð sem bæjarsjóður Hafnarfjarðar gæti notað til ýmissa góðra verka, t.d. á sviði öldrunarmála eða til að styrkja íþrótta- og tómstundastarf barna í bænum eða til að niðurgreiða enn frekar leikskólapláss. Ég efa því ekki að skoðanir meirihlutamanna í bæjarstjórn á þessu máli séu skiptar. Sama á reyndar við um minnihlutann í bæjarstjórn. Þar sker fulltrúi VG sig vissulega úr og er samkvæm sjálfri sér.
Þó svo ólíklega vildi til að afstaða meirihlutans til stækkunar væri samhljóma, með eða á móti, væri óeðlilegt að hann beitti sér í málinu eftir að hafa ákveðið að setja það í þetta lýðræðislega ferli.Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2007 | 13:51
Safnaðarheimili Fríkirkjunnar ekki selt
Séra Einar Eyjólfsson prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði sendi eftirfarandi athugasemd við blogginum um að kirkjan hefði selt Nýsi safnaðarheimilið: "Hér birtast rangar upplýsingar. Fríkirkjan hefur ekki selt eiginir sínar þ.e.a.s. safnaðarheimilið við Linnetsstíg eins og fullyrt er í þessum texta. Hvað skal þá segja um svona skrif. Kv Einar Eyjólfsson Fríkirkjunni"
Fagna ég því að safnaðarheimilið hafi ekki verið selt Nýsi og biðst ég afsökunar á þessari missögn sem ég hafði frétt á rakarastofunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 10:01
Að þekkja óvininn
Eitthvað var Björn Ingi Hrafnsson að oftúlka færslu mína í gær um að Vinstri grænir litu á Samfylkinguna í Hafnarfirði sem höfuðandstæðing sinn í baráttunni gegn stækkun álversins í Hafnarfirði. Taldi hann þessi skrif mín til marks um það að brestur væri kominn í svokallað kaffibandalag. Þar heldur hann áhrifamátt minn meiri en hann er. Ég var einungis að benda á að Vinstri grænir ættu að beina spjótum sínum að Alcan í stað þess að agnúast út í Hafnarfjarðakratana sem ákváðu að láta bæjarbúa afráða hvort af stækkun verður.
Sem betur fer eru ekki allir Vinstri grænir við það heygarðshornið. Í Fréttablaðinu í gær birtist grein eftir Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur bæjarfulltrúa Vinstri grænna í Hafnarfirði með yfirskriftinni Í boði Álbræðslu. Ég get tekið undir hvert einasta orð í þeirri grein og er ljóst að Guðrún Ágústa þekkir óvininn.
Liðin í þessari baráttu eru annars vegar fólk í samtökunum Sól í Straumi, sem vinnur í sjálfboðavinnu að því að safna saman efni, halda fundi og reyna að koma á framfæri upplýsingum um afleiðingar þess að samþykkja stækkun álversins.
Hins vegar er það svo álbræðslan í Straumsvík sem er með fólk, hjá almannatengsla- og auglýsingafyrirtæki, á kafi í vinnu við allt annað en afleiðingarnar sem verða ef af stækkun verður. Álbræðslan virðist eiga ómælt fjármagn til notkunar í ímyndarbaráttu sinni. Ímyndarbaráttu sem Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, kallar grímulausa þátttöku í upplýstri umræðu.
Það er því ljóst að ég gæti vel hugsað mér að setjast yfir kaffibolla með Guðrúnu Ágústu og rætt þessi mál við hana, jafnvel átt samstarf við hana í baráttunni gegn stækkuninni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2007 | 10:23
Höfuðandstæðingurinn
Guðfríður Lilja á bloggsíðu sinni: Og hvar er Samfylkingin í Hafnarfirði? Í felum á bak við upplýsingafulltrúa? Það er með ólíkindum hvað Samfylkingin fær að komast upp með í þessum efnum. Samfylkingin hefur leitt þetta mál um langa hríð en felur sig svo á bak við aðra til að firra sig ábyrgð. Ég vil þá frekar biðja um úlfa sem segja rétt til nafns heldur en úlfa í sauðagærum. Veifandi "Fagra Íslandi" í annarri hendi og samningum við álrisa um allt land í hinni. Má ég þá heldur biðja um virkjanasinna sem ganga hreint til verks - ekki virkjanasinna og álvæðingarkappa sem þykjast vera eitthvað annað en þeir eru. Það spillir allri almennilegri umræðu og glepur sýn í málum þar sem stærstu spurningar framtíðarinnar liggja.
Gestur Svavarsson á heimasíðu Ögmundar Jónassonar: Það er greinilegt að senn dragi til tíðinda í stækkunarmálum álversins í Hafnarfirði. Það liggur fyrir samningur til undirritunar milli Landsvirkjunar og Alcan um þá orku sem nauðsynleg er vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Það hefur verið haft eftir bæjarstjóra Samfylkingarinnar í Hafnarfirði að íbúaatkvæðagreiðsla um stækkun álversins verði bráðlega, eða eftir að farið hefur verið yfir deiliskipulagstillögu Alcan. Yfir þá tillögu fer nú stór hópur fulltrúa allra þeirra sem eiga kjörinn fulltrúa í bæjarstjórn, en einnig heilir þrír starfsmenn Alcan. Ég sé ekki fyrir mér að markmið hópsins sé annað en að klára nýtt deiliskipulag, sem verði nægilega lítið breytt frá hinu fyrra, þannig að það veri metið svo að ekki þurfi að fara í aðra kynningu á því.
Öllu málefnalegri umræða fer fram á heimasíðu samtakanna Sól í Straumi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2007 | 19:12
Apaplánetan, Andri Snær og frelsisverðlaun SUS
Andri Snær Magnason gaf á nýliðnu ári út bókina Draumalandið þar sem hann beitir hugmyndafræði frjálshyggjunnar í þágu umhverfisverndar. Rökstuðningur og málflutningur Andra Snæs undirstrikar að frumkvæði einstaklingsins er forsenda framfara en ríkisafskipti til óheilla í þessum málaflokki eins og öðrum. Að mati forystu ungra sjálfstæðismanna eru skrif Andra Snæs vitnisburður um að frjálshyggjan og hugsjónin um frelsi einstaklingsins á fullt erindi á öllum þjóðmálasviðum. Þannig mætti tala um útrás frjálshyggjunnar.
Og bæði Vinstri grænir og Samfylkingin héldu að Andri Snær væri að tala fyrir stefnu sinna flokka. Ég gleymi þó seint svipnum á Valgerði Sverrisdóttur þáverandi iðnaðarráðherra þegar hún gekk fram hjá mér á leið á salernið í fllugvél sem flutti Léttsveitina, kvennakór Reykjavíkur, til Kúbu sl. vor. Þá var Draumalandið nýkomið út og í sætaröðunum í kringum mig hafði annarhver maður keypt sér bókina í Flugstöðinni og var að glugga í hana á leiðinni til Draumalands Kastró.Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2007 | 14:52
Heimatrúboðið, Fríkirkjan og Nýsir
Fríkirkjan er með fallegri kirkjubyggingum og staðsetning hennar uppi á kletti þar sem hún trónir yfir byggðina eitt fallegasta kirkjustæði landsins. Þar fyrir neðan eru gömul hús sem eiga sér merka sögu. Nú er eitt þeirra horfið, það hvarf í gær. Það er gamla Síonshúsið, þar sem heimatrúboðið var. Í gærmorgun mætti stórvirk grafa og braut niður húsið.
Það verður seint sagt að þetta hafi verið fallegt hús en það skipar ákveðinn sess í minningunni. Við krakkarnir vorum hálf smeik við að fara fram hjá húsinu á kvöldin þegar sálmasöngur barst út á Austurgötu. Þetta var eitthvað svo framandi veröld sem þarna var. Guð átti heima í kirkjunum en ekki í þessu gráa húsi.
Nú er húsið horfið og Guð sennilega með því. Og mér skilst að fleiri hús á þessum reit eigi að hverfa.
Fríkirkjan hefur selt sínar eignir á reitnum, en þar er fyrst til að telja glæsilega byggingu þar sem safnaðarheimili kirkjunnar er núna. Það er hús með mikla sögu, sögu sem tengis núverandi bæjaryfirvöldum persónulega. Í þessu húsi var nefnilega Stebbabúð í þá tíð er ég sleit barnsskónum í hrauninu. Með Stebba starfaði lengst af tengdafaðir núverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði, Lúðvíks Geirssonar, sem á sínum tíma ritaði Verslunarsögu Hafnarfjarðar. Í húsinu er nú starfrækt Hárgreiðslustofa Guðrúnar og hef ég iðulega mætt þar í klippingu.
Það er Nýsir sem hefur keypt upp eignirnar á reitnum og ætla að reisa þarna risabyggingu sem mun stinga mjög í stúf við nálæga byggð. Í auglýsingu um skiplag á reitnum segir orðrétt: Breytingin felur í sér að heimiluð er ca 315 m2 stækkun á lóðinni nr. 1. við Linnetstíg. Heimilt er að reisa á lóðinni 5. hæða byggingu allt að 460 m2 að grunnfleti. Stigahús og svalir mega ná allt að 3 m út fyrir byggingarreit að aftanverðu. Á framhlið skal 5. hæðin vera inndregin. Byggja skal 2ja hæða bílakjallara undir húsinu sem tengist fyrirhuguðum bílakjallara undir húsinu sem tengist fyrirhuguðum bílakjallara við hlið lóðarinnar. Gert er ráð fyrir að aðkoma bílakjallarans sé um sameiginlega akstursrampa utan lóðarinnar Linnetstígur 1.
Hvað skal segja þegar Fríkirkjan er komin í svona lóðabrask með Nýsi hf?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2007 | 08:44
Menningarstöðvar kveðja
Enn eitt menningarvígið virðist nú fallið. Útvarp Kántríbær lagði nú um áramótin upp laupana. Kúreki norðursins, Hallbjörn Hjartarson, treystir sér ekki lengur til að reka útvarpsstöðina sem flutt hefur íbúum á Norð- vesturlandi og ferðalöngum um svæðið perlur amrísku kántrítónlistarinnar með flytjendum á borð við Dolly Parton, Jhonny Cash, Roy Rogers og aðra. Það er mikil eftirsjá í þessari stöð.
Alltaf þegar við höfum átt leið norður byrjuðum við að leita að Útvarp Kántríbæ þegar við komum yfir Holtavörðuheiði og hlustuðum á stöðina þar til við höfðum skrölt yfir Öxnadalsheiði. Þetta hefur ætíð verið menningarauki í íslenskri náttúruupplifum. Á borð við að hlusta á Metalicu á svörtum söndum á hálendinu. Það er mér óskiljanlegt að sveitarfélagið sjái ekki mikilvægi útvarpsstöðvarinnar fyrir Skagaströnd. Ég vissi fyrst af þessu samfélagi þegar ég sá frábæra kvikmynd Friðriks Þórs, Kúrekar norðursins. Það varð til þess að fjölskyldan heimsótti Kántríbæ og kíkti á útvarpsstöðina auk þess sem við fengum okkur hamborgara með öllum.Nú er bara að vona að landsmenn, fyrst opinberir aðilar eru ekki tilbúnir að styðja þetta menningarframtak kúrekans á Skagaströnd, bregðist við ákalli hans og styrki Útvarp Kántríbæ en reikningsnúmerið er: 0160-26-3907. En það eru fleiri menningarstöðvar sem hafa kvatt nýlega. Kanaútvarpið lokaði fyrir útsendingar skömmu áður en síðustu dátarnir hurfu. Þá þagnaði rödd sem hafði mikil áhrif í íslensku menningarlífi. Nú skal það haft í huga að ég var frá því ég fór að hugsa sjálfstætt á móti hernum á Miðnesheiði. Kanaútvarpið var hins vegar hluti af mínu tónlistaruppeldi þó ég verði að viðurkenna að á undanförnum árum hef ég ekki hlustað á stöðina. Þessi stöð kynnti minni kynslóð að meta Bob Dylan, Jefferson Airplane, Byrds, Country Joe and the Fish, Frank Zappa, jafnvel Woody Guthrie, Pete Seeger, Leadbelly og þannig mætti lengi telja áfram.
Sama má segja um Kanasjónvarpið sem menningarelítan á Íslandi sá allt til foráttu. Íslenskukennarinn minn í Flensborg sá til þess að opna augu unglingsins fyrir undrum sjónvarpsins. Sonur hans var góður félagi minn og við söfnuðumst heima hjá honum á þeim kvöldum sem Combat, The Untouchable, Bonanza og Lucy Show voru sýnd og lifðum okkur inn í þessa veröld sem var svo á skjön við allt sem við þekktum. Ég vildi ekki hafa misst af því.
Ég ætla ekki að bera kanann og Kántríbæ saman við það sem í framboði er í dag á ljósvakanum. En mikið skelfing var gaman í þá daga þegar offramboðið brenglaði ekki upplifunarnáðargáfu einstaklingsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 09:28
Hvítvoðungur með borða
Ég sá viðtal við hinn nýja lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, þar með talið heimabyggðar minnar, Hafnarfjarðar, í Kastljósi. Þetta var bara borðaprýddur stráklingur. Fyrrverandi aðstoðardrengur dómsmálaráðherra með enga reynslu af lögreglustörfum. Hann gekk fyrr um daginn út á Hlemm og þaðan spölkorn niður Laugaveginn. Hans lausn á ofbeldis- og öðrum afbrotavandamálum höfuðborgarsvæðisins var að hann og aðrir yfirmenn lögreglunnar fengju sér af og til heilsubótargöngu um miðborg Reykjavíkur. Þá átti að skrásetja afbrot eftir póstnúmerum og birta þannig að íbúar svæðisins sæju hvar verst væri að lifa. Nú er ég búsettur í vesturbæ Hafnarfjarðar þar sem afbrotatíðni er hvorki meiri né minni en annars staðar á svæðinu og ég efast um að ef Stefán Eiríksson sæist spássera niður Nönnustíginn þá drægí úr glæpatíðni þar, sem mér vitanlega, þó án þess að ég geti staðfest það, er 0%.
Einhversstaðar sá ég þeirri spurningu varpað fram hvort ekki hefði einhver betri kostur um lögreglustjóra stærsta umdæmis lögreglunnar á Íslandi verið fyrir hendi. Því er til að svara að svo var. Ingimundur Einarsson, varayfirlögreglustjóri Reykjavíkur. Hann var hins vegar ekki í náðinni. Fékk þó smá sárabót þegar hann var skipaðu héraðsdómari í Reykjavík. Ekki jafn mikilvægt starf að mati dómsmálaráðherra við nýskipan löggæslumála í landinu, sem ég held að sé eitt stærsta áhyggjuefni landsmanna ásamt stækkun Alcan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2007 | 09:31
Í boði Alcan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)