5.2.2007 | 11:43
Enga hraðbraut yfir Kjöl
Hraðbraut yfir Kjöl í einkaframkvæmd Norðurvegar ehf. Ég segi nei og tek heilshugar undir með leiðara Morgunblaðsins í dag. Verði Kjalvegur byggður upp og lagður varanlegu slitlagi hverfur þessi tilfinning sem ferðalangur fyllist í óbyggðunum. Hann er ekki lengur staddur í ósnortinni náttúru sem kallar á að hann staldri við og andi að sér hreinu fjallalofti heldur æðir hann áfram eftir svörtu malbiki og gæti þessvegna verið staddur hvar sem er í veröldinni.
Hlykkjóttur vegslóðinn sem liggur nú yfir Kjöl býður ekki upp á hraðakstur, heldur þarf vegfarandi að silast áfram, stundum á hraða snigilsins og stundum skjaldbökunnar. Þessvegna gefst tími til að meðtaka það sem fyrir augu ber, melabörðin, smáblómin, fjöllin allt í kring og gróðurvinjar sem birtast óvænt í auðninni. Þessi upplifun mun heyra sögunni til ef áform Norðurvegar verða að veruleika. Í stað þess streymir strolla af flutningabílum um veginn með trailera aftaní og aðrir vegfarendur hugsa um það eitt að sleppa lifandi úr þessum glæfraleik sem ferðalög um þjóðvegi á Íslandi eru.
4.2.2007 | 16:05
Allir að stofna stjórnmálaflokka
Stjórnmál virðast inni núna. Áhyggjur yfir áhugaleysi almennings á stjórnmálum hljóta að vera horfnar því þeir sem ekki eru þegar komnir í framboð fyrir núverandi stjórnmálaflokka virðast flestir vera að stofna eigin flokka.
Um daginn komu fram tvær fylkingar aldraðra og öryrkja og gáfu báðar í skyn að þær væru réttbornir fulltrúar þessara hópa. Lítið hefur heyrst úr þeim herbúðum síðan.
Jón Baldvin mætti í Silfur Egils um síðustu helgi og fór mikinn að vanda og hefur Ingibjörg Sólrún átt fullt í fangi með að bera meint framboð Jóns Baldvins til baka síðan. Eins og það hafi verið það sem hún þurfti helst á að halda núna.
Í Silfrinu áðan komu fram þrír einstaklingar, tveir frá Framtíðarlandinu, þau Pétur Óskarsson einn helsti talsmaður Sólar í Straumi og Ósk Vilhjálmsdóttir varaformaður Framtíðarlandsins. Á eftir þeim kom svo Haukur Nikulásson sem hefur verið að boða stofnun nýs stjórnmálaafls, Flokkinn, á bloggsíðu sinni.
Það var mjög athyglisvert að hlýða á þetta fólk. Af hverju finnur það sig ekki í þeim stjórnmálaflokkum sem þegar eru til staðar? Umhverfismálin skipta mjög miklu máli og er alveg ljóst að þau verða í forgrunni í komandi kosningum. Kosningin um stækkunina í Straumsvík er bara upptakturinn í því uppgjöri við virkjanafíknina og stóriðjustefnuna sem fram fer í alþingiskosningunum í vor.
Ómar Ragnarsson skilgreinir Sjálfstæðisflokkinn, Framsókn og Frjálslynda sem stóriðjuflokka. Það er líka rétt sem fram kemur hjá Ómari að Samfylkingin er klofin. Annars vegar er það stefnuskráin Fagra Ísland og sá hópur sem vann hana auk stærsta hluta fylgismanna flokksins, en hins vegar er það lítill hópur hagsmunaaðila í héraði og á það við um Fjarðarbyggð, Hafnarfjörð, Húsavík og fleiri sveitarfélög sem eru með glýju í augunum. Að lokum eru það Vinstri grænir sem hafa staðið umhverfisvaktina með miklum sóma en það er ljóst að íhaldsmenn eins og áðurnefndir Pétur Óskarsson og Haukur Nikulásson munu seint geta kostið VG.
Og hvað er þá til ráða? Vinstri hægri segir þetta fólk. En klukkan tifar. Það er svo spurning hverjum hún glymur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2007 | 14:43
Pólitískur flóttamaður
Þegar dregið hefur að kosningum á Íslandi undanfarna áratugi fer ætíð einn maður í pólitíska útlegð. Sennilega ekki af sjálfdáðum heldur er hann sendur burt af pólitískum samherjum sínum í Sjálfstæðisflokknum. Þetta er vitaskuld Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Samherjar hans vita að í hvert skipti sem hann tjáir sig um þjóðfélagsmál tekur flokkurinn dífu niður á við í könnunum. Menn hafa því metið það réttilega svo að best sé að hafa Hannes Hólmstein í felum þegar kosningabaráttan fer í gang.
Nú bregður hins vegar svo við að stjórnmálafræðingurinn er óvanlega mikið í sviðsljósinu. Hann hefur verið að skilgreina fátækt á Íslandi. Niðurstaða Hannesar er á skjön við allar rannsóknir. Hann viðurkennir vissulega að fátækt sé fyrir hendi en fullyrðir að fátækir í dag hafi það miklu betra en fátækir í gær og að fátækir Íslendingar séu ríkustu fátæklingar í heimi. Árni Guðmundsson kallar þetta brauðmolahagfræði á blogg síðu sinni.
Í hádegisfréttum útvarpsins áðan kom fram að tíu prósent þjóðarinnar lifi undir lágtekjumörkum og fram hefur komið að 4000 börn búa við fátækt. Slíkt er með öllu óviðunandi í einu ríkasta landi heimsins. Ekki eitt einasta barn á Íslandi á að þurfa að búa við fátækt.
Hannes Hólmsteinn mætti Karli Th. Birgissyni í Kastljósinu í gær og maður fann hvernig atkvæði Sjálfstæðisflokksins hurfu eitt af öðru. Í lok umræðunnar sagði Karl Th. það mikinn heiður að fá að mæta Hannesi því að öllum líkindum væri hann á leið til útlanda fram yfir kosningar. Hannes glotti þá og sagði við sjáum til. Kannski hefur Geir H. Haarde ekki sömu tök á Hannesi og Davíð hafði? Mun þá vinstrið kætast.
2.2.2007 | 10:05
Alcanskt fréttamat Fjarðarpóstsins
Skoðanakönnun Alcan um afstöðu Hafnfirðinga til stækkunar álversins í Straumsvík vakti verulega athygli. Þar kom í ljós að um 55% aðspurðra voru andvígir stækkun en 45% hlynntir ef einungis var tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu.
Fjarðarpósturinn fjallaði um þessa skoðanakönnun í gær. Fréttamat hans vekur verulega athygli. Þar er því slegið upp að 58% séu ánægð með störf Alcan og í undirfyrirsögn segir að 60% telji Alcan standa sig vel í umhverfismálum.
Þarna er svo sem engu logið. Í skoðanakönnuninni voru 22 spurningar um afstöðu bæjarbúa til fyrirtækisins. En mér er hulið hvernig hægt er að komast að því að þetta sé fréttnæmasta niðurstaða könnunarinnar.
Kannski liggur skýringin í því að í miðopnu blaðsins er auglýsing frá Alcan og Samtökum atvinnulífsins um svokallað stefnumót atvinnulífsins í Hafnarborg undir yfirskriftinni Hagsæld í Hafnarfirði.
Ritstjóri Fjarðarpóstsins veit sem er að þegar nær dregur kosningunni um stækkunina munu allar hirslur Alcan opnast til að koma málstað fyrirtækisins á framfæri.
1.2.2007 | 20:31
Ímyndunaraflinu gefinn laus taumur
Ég var staddur fyrir austan fjall í dag, nánar tiltekið á Hótel Heklu á Skeiðum, að kenna. Ég lauk minni kennslu skömmu áður en viðureign strákanna, best að bæta við okkar (ÍBS), við Rússa hófst. Ég hlustaði því á lýsinguna á leiknum í bílnum á leiðinni heim. Það var fín upplifun. Rifjaði upp gamla tíma.
Einkum kom ein sambærileg upplifun í hugann og var hún öllu meira spennandi en þessi lýsing. Það var árið 1980. Úrslitaviðureign í tennis á Wimbledon. Þá starfaði ég í ábyrgðapóstinum á Arlanda flugvelli fyrir utan Stokkhólm. Ég átti gamalt Wolkswagen rúgbrauð sem sænski herinn hafði notað en hafði verið innréttað til ferðalaga. Rúgbrauðið keypti ég af Galante mafíuafkomanda sem hét Paul. Hann hafði flúið til Svíþjóðar sem flóttamaður frá því að gegna herþjónustu en í raun og veru var hann að flýja uppruna sinn. Föðurbróðir hans hafði verið plaffaður niður á ítalskri pitseríu skömmu áður. Ég hef því keypt bíl af ítölsku mafíunni.
Hugsið ykkur Íslendingur á leið heim úr vinnu hlustandi á beina lýsingu á tennisleik. En það var Björn Borg æði í Svíþjóð á þessum árum. Hann vann allt sem hægt var að vinna. Og nú lék hann til úrslita við helsta andstæðing sinn, John McEnroe. Þeir höfðu marga hildina háð og Borg yfirleitt haft betur.
Spennan í viðureigninni var gríðarleg og lýsing sænska íþróttafréttamannsins það lifandi að maður sá í huga sér boltann fara fram og til baka og ekki laust við að augun fylgdu með frá vinstri til hægri þótt ekkert væri að sjá annað en skóg til beggja hliða. Svo þegar komið var heim að Kóngshömrum þar sem ég bjó með fjölskyldu minni var allt á suðupunkti. Ég lagði í stæði og hélt áfram að hlusta. Gat ekki slitið mig frá lýsingunni þótt ég vissi að það tæki mig tvær mínútur að stökkva heim og hlamma mér niður við sjónvarpið. Þarna sat ég í hálftíma og hlustaði á lokin á þessari sex setta viðureign, viðureign sem enn í dag er talin mest spennandi úrslitaviðureign í Wimbledon mótunum. Viðureign sem meira að segja slær út leikinn við Dani í fyrradag.
Leikurinn við Rússa í dag var ekki neitt í líkingu við þetta en engu að síður hafði ég gaman af þeirri tilbreytingu sem fólst í því að hlusta á útvarpslýsingu í stað þess að sjá leikinn. Það gaf ímyndunaraflinu lausan tauminn.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 00:03
Engu gleymt
Sverrir Hermannsson hefur engu gleymt í listinni að senda frá sér eitraðar pillur til andstæðinga sinna. Í Fréttablaðinu í gær var lítil frétt um það að Sverrir sé enn meðlimur í Frjálslynda flokknum, þrátt fyrir að Margrét dóttir hans hafi sagt skilið við flokkinn. Hann segist vera í ábyrgð fyrir flokkinn og hann þurfi að ganga frá ýmsum málum áður en hann yfirgefur flokkinn.
Fram kemur að Sverrir var endurkjörinn í fjármálaráð flokksins á ný afstöðnu landsþingi hans en hann hefur verið í fjármálaráðinu frá byrjun. Síðan kemur þessi eitraða sending:
...og ég var kosinn í það áfram. Það var vegna þess að það fannst enginn í nýju fylkingunni með nógu gott sakavottorð til þess að fara þar inn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2007 | 10:27
Arfavitlaus hugmynd
Ég ber mikla virðingu fyrir Ómari Ragnarssyni, jafnt sem fréttamanni, þáttagerðarmanni, skemmtikrafti og baráttumanni. Kannski mest baráttumanninum. Sú vegferð hans gegn virkjanafíkninni sem hófst sl. sumar þegar hann sagði af sér fréttamennsku um umhverfismál er sennilega eitt merkasta einstaklingsframtak sem við höfum orðið vitni að. Hann hefur hrifið með sér fjöldann og snúið umræðunni um stórvirkjanir og stóriðjuver við þannig að almenningsálitið er nú orðið andsnúið stóriðjustefnu stjórnvalda.
Þetta þýðir þó ekki að allt sem frá Ómari kemur sé hafið yfir gagnrýni. Sú arfavitlausa og umhverfisóvæna hugmynd sem kynnt var í Kastljósi þar sem Ómar fór á nostalgíurúnt með gamla góða Villa um Austurstræti var þess eðlis að ég hélt að skemmtikrafturinn Ómar væri mættur. Ónei honum virtist full alvara með þessu. Hann vill opna fyrir umferð í báðar áttir í Austurstræti og gott ef ekki Laugaveginn líka svo ungir piltar sem eru í stúlkuleit geti ekið rúntinn. Og gamli góði Villi brosti við gömlum minningum þegar hann var á rúntinum í gamla daga á veiðum, þetta voru gjöful mið, eins og hann sagði.
Eru þessir menn að ranka við sér úr áratuga dái. Í fyrsta lagi þá er útblástursmengunin í miðbænum miklu meiri en nóg nú þegar. Í öðru lagi þá eru aðrir tímar nú en þegar Tómas Guðmundsson orti um Austurstræti. Hafa þeir félagar ekki heyrt fréttir af ástandinu í miðbænum um helgar og halda þeir að það lagist ef við það bætast unglingspiltar nýkomnir á kynþroskaaldurinn undir stýri á kraftmiklum drossíum.
Nei Ómar. Höldum okkur við baráttuna gegn virkjanafíkninni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2007 | 21:11
Hársbreidd frá baráttu um verðlaunasæti
Þetta er ekki búið þótt draumurinn um verðlaunasæti sé úti. Nú er bara stefna á fimmta sætið í keppninni. Áfram Ísland.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2007 | 10:02
Flokkur í afneitun
Þrátt fyrir að Samfylkingin virðist vera í frjálsu falli samkvæmt skoðanakönnunum að undanförnu og þrátt fyrir dómsdagspredikun guðföðurs flokksins í Silfri Egils og þrátt fyrir að Stefán Jón Hafstein hafi tekið undir gagnrýni Jóns Baldvins í Kastljósi í gær virðist þingflokkurinn vera í algjörri afneitun á að ástandið sé slæmt og það sé þingmönnunum sjálfum að kenna. Þeir eru jú dæmdir af verkum sínum.
Ingibjörg Sólrún segir að almenningur skilji ekki málflutning Samfylkingarinnar vegna þess að flokkurinn sé að ræða pólitík. Ágúst Ólafur varaformaður Samfylkingarinnar mætti í hádegisviðtal Stöðvar 2 í gær og fór eins og köttur í kringum heitan graut þegar gagnrýni Jóns Baldvins kom til tals. Það lá við að hann segði að gagnrýni Jóns Baldvins hefði verið hrós um störf og stefnu Samfylkingarinnar.
Mörður er á svipuðum slóðum á heimasíðu sinni: Jón Baldvin var hressandi í Silfri Egils í gær svona á að tala! Auðvitað má segja ýmislegt um mælskutæknileg brögð í upphafi viðtals og við lok þess, en meginerindið komst vel til skila: Hér þarf jafnaðarstjórn og Samfylkingin verður barasta að gjöra svo vel að svara þeirri eftirspurn.
Og Össur þegir þunnu hljóði á sinni heimasíðu. Fjallar þar um nýlega skoðanakönnun (ekki þær nýjustu) sem sýndi vaxandi fylgi við að stjórnarandstöðuflokkarnir myndi næstu ríkisstjórn. Miklu færri vildu hins vegar ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka - en áður.
Til að hægt sé að takast á við vandann þarf fyrst að horfast í augu við hann. Þingflokkur Samfylkingarinnar virðist ekki gera það þrátt fyrir að viðvörunarbjöllur hljómi úr öllum áttum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 10:44
Forsætisráðherra Framtíðarlandsins
Það skyldi þó aldrei vera að Jón Baldvin væri á hraðferð inn í pólitíkina aftur. Miðað við fyrirlestur hans í Silfrinu í gær er ljóst að hann hefur engu gleymt í pólitískri rökræðu og að hann iðar í skinninu að fá að taka þátt í henni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)