10.1.2007 | 11:01
Klórað í bakkann
Talsvert hefur borið á því hjá VG að reyna að gera atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði um stækkun álversins tortryggilega. Þær raddir hafa heyrst að þetta sé bara sýndarmennska, sama hver niðurstaðan verði þá verði farið í stækkun, bara fundin önnur útgönguleið til þess. Í gær kom fram í fréttum að yfir 90% bæjarbúa eru ánægðir með þá leið sem meirihlutinn í Hafnarfirði hefur ákveðið að fara. Þá lýsti Lúðvík Geirsson bæjarstjóri í Hafnarfirði því afdráttarlaust yfir að niðurstaða kosninganna yrði bindandi í Speglinum í gær.
Í ljósi þess er fróðlegt að skoða skrif Guðfríðar Lilju þegar hún reynir að klóra í bakkann eftir að hafa skammast út í Samfylkinguna í Hafnarfirði fyrir ætla að láta bæjarbúa taka ákvörðun um stækkunina:
Borið hefur á þeim misskilningi hjá einhverjum í bloggheimum að ég sé mótfallin kosningu um stækkun álversins í Straumsvík. Þetta er alrangt. Ég er mjög fylgjandi kosningu um málið. Ég gagnrýni hins vegar þögn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í opinberum umræðum um málið. Mér finnst það vera ábyrgðarhluti gagnvart kjósendum að stjórnmálaflokkar tali umbúðalaust um stefnu sína og framtíðarsýn. Það er mín skoðun að það sé engum til góðs, og allra síst lýðræðinu í landinu, að stjórnmálaflokkar veigri sér við að taka skýra afstöðu til mikilvægra mála.
Á heimasíðu Samtakanna Sól í Straumi er bæði að finna rök með og á móti stækkun álversins. 800 milljónir á ári er vissulega upphæð sem bæjarsjóður Hafnarfjarðar gæti notað til ýmissa góðra verka, t.d. á sviði öldrunarmála eða til að styrkja íþrótta- og tómstundastarf barna í bænum eða til að niðurgreiða enn frekar leikskólapláss. Ég efa því ekki að skoðanir meirihlutamanna í bæjarstjórn á þessu máli séu skiptar. Sama á reyndar við um minnihlutann í bæjarstjórn. Þar sker fulltrúi VG sig vissulega úr og er samkvæm sjálfri sér.
Þó svo ólíklega vildi til að afstaða meirihlutans til stækkunar væri samhljóma, með eða á móti, væri óeðlilegt að hann beitti sér í málinu eftir að hafa ákveðið að setja það í þetta lýðræðislega ferli.
Athugasemdir
Þessi færsla er mér meira að skapi. Auðvitað eiga Hafnfirðingar að kjósa um þessi mál. Það eru þeir sem verða að lifa með þessu. Ætli ég hafi ekki miskilið þig í þinni fyrri færslu.
Sjensinn Bensinn, 11.1.2007 kl. 12:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.