9.1.2007 | 10:01
Að þekkja óvininn
Eitthvað var Björn Ingi Hrafnsson að oftúlka færslu mína í gær um að Vinstri grænir litu á Samfylkinguna í Hafnarfirði sem höfuðandstæðing sinn í baráttunni gegn stækkun álversins í Hafnarfirði. Taldi hann þessi skrif mín til marks um það að brestur væri kominn í svokallað kaffibandalag. Þar heldur hann áhrifamátt minn meiri en hann er. Ég var einungis að benda á að Vinstri grænir ættu að beina spjótum sínum að Alcan í stað þess að agnúast út í Hafnarfjarðakratana sem ákváðu að láta bæjarbúa afráða hvort af stækkun verður.
Sem betur fer eru ekki allir Vinstri grænir við það heygarðshornið. Í Fréttablaðinu í gær birtist grein eftir Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur bæjarfulltrúa Vinstri grænna í Hafnarfirði með yfirskriftinni Í boði Álbræðslu. Ég get tekið undir hvert einasta orð í þeirri grein og er ljóst að Guðrún Ágústa þekkir óvininn.
Liðin í þessari baráttu eru annars vegar fólk í samtökunum Sól í Straumi, sem vinnur í sjálfboðavinnu að því að safna saman efni, halda fundi og reyna að koma á framfæri upplýsingum um afleiðingar þess að samþykkja stækkun álversins.
Hins vegar er það svo álbræðslan í Straumsvík sem er með fólk, hjá almannatengsla- og auglýsingafyrirtæki, á kafi í vinnu við allt annað en afleiðingarnar sem verða ef af stækkun verður. Álbræðslan virðist eiga ómælt fjármagn til notkunar í ímyndarbaráttu sinni. Ímyndarbaráttu sem Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, kallar grímulausa þátttöku í upplýstri umræðu.
Það er því ljóst að ég gæti vel hugsað mér að setjast yfir kaffibolla með Guðrúnu Ágústu og rætt þessi mál við hana, jafnvel átt samstarf við hana í baráttunni gegn stækkuninni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.