Menningarstöðvar kveðja

Enn eitt menningarvígið virðist nú fallið. Útvarp Kántríbær lagði nú um áramótin upp laupana. Kúreki norðursins, Hallbjörn Hjartarson, treystir sér ekki lengur til að reka útvarpsstöðina sem flutt hefur íbúum á Norð- vesturlandi og ferðalöngum um svæðið perlur amrísku kántrítónlistarinnar með flytjendum á borð við Dolly Parton, Jhonny Cash, Roy Rogers og aðra. Það er mikil eftirsjá í þessari stöð. 

Alltaf þegar við höfum átt leið norður byrjuðum við að leita að Útvarp Kántríbæ þegar við komum yfir Holtavörðuheiði og hlustuðum á stöðina þar til við höfðum skrölt yfir Öxnadalsheiði. Þetta hefur ætíð verið menningarauki í íslenskri náttúruupplifum. Á borð við að hlusta á Metalicu á svörtum söndum á hálendinu. Það er mér óskiljanlegt að sveitarfélagið sjái ekki mikilvægi útvarpsstöðvarinnar fyrir Skagaströnd. Ég vissi fyrst af þessu samfélagi þegar ég sá frábæra kvikmynd Friðriks Þórs, Kúrekar norðursins. Það varð til þess að fjölskyldan heimsótti Kántríbæ og kíkti á útvarpsstöðina auk þess sem við fengum okkur hamborgara með öllum.

 Nú er bara að vona að landsmenn, fyrst opinberir aðilar eru ekki tilbúnir að styðja þetta menningarframtak kúrekans á Skagaströnd, bregðist við ákalli hans og styrki Útvarp Kántríbæ en reikningsnúmerið er: 0160-26-3907. En það eru fleiri menningarstöðvar sem hafa kvatt nýlega. Kanaútvarpið lokaði fyrir útsendingar skömmu áður en síðustu dátarnir hurfu. Þá þagnaði rödd sem hafði mikil áhrif í íslensku menningarlífi. Nú skal það haft í huga að ég var frá því ég fór að hugsa sjálfstætt á móti hernum á Miðnesheiði. Kanaútvarpið var hins vegar hluti af mínu tónlistaruppeldi þó ég verði að viðurkenna að á undanförnum árum hef ég ekki hlustað á stöðina. Þessi stöð kynnti minni kynslóð að meta Bob Dylan, Jefferson Airplane, Byrds, Country Joe and the Fish, Frank Zappa, jafnvel Woody Guthrie, Pete Seeger, Leadbelly og þannig mætti lengi telja áfram.

 Sama má segja um Kanasjónvarpið sem menningarelítan á Íslandi sá allt til foráttu. Íslenskukennarinn minn í Flensborg sá til þess að opna augu unglingsins fyrir undrum sjónvarpsins. Sonur hans var góður félagi minn og við söfnuðumst heima hjá honum á þeim kvöldum sem Combat, The Untouchable, Bonanza og Lucy Show voru sýnd og lifðum okkur inn í þessa veröld sem var svo á skjön við allt sem við þekktum. Ég vildi ekki hafa misst af því.

 Ég ætla ekki að bera kanann og Kántríbæ saman við það sem í framboði er í dag á ljósvakanum. En mikið skelfing var gaman í þá daga þegar offramboðið brenglaði ekki upplifunarnáðargáfu einstaklingsins.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband