2.1.2007 | 12:32
Sami háttur og síðasta ár
Mikil vanafesta ríkir í kringum áramót. Kl. sex er sest að snæðingi undir útvarpsmessu, farið í kirkjugarðinn og á brennu og meðan á þessu stendur er sprengt af miklum móð. Svo skellur þögnin á þegar áramótaskaupið hefst. Um leið og því lýkur er eins og þjóðin losni úr læðingi og fírvekeríð hefst. Það er orðið svo gengdarlaust að það sést ekki lengur fyrir mekki sem leggst yfir bæinn. Á miðnætti kyssist fólk og óskar hvort öðru gleðilegs árs, sumir draga tappa úr kampavínsflösku og skála. Svona er þetta ár eftir ár og smám saman dregur úr sprengjunum, þó er alltaf ein og ein eftirlegukind á kreiki fram á morgun.
Við bjuggum í Svíþjóð á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þar höfðu Svíarnir einnig sínar áramótavenjur, m.a. að horfa á sömu stuttmyndina árlega. Þetta er gömul þýsk svart hvít útgáfa á breskum stofuleik. Heitir þjónninn og greifynjan. Gengur út á það að greifynjan heldur sinn árlega gamlárskvöldverð og býður þangað fjórum heiðursmönnum sem allir eru horfnir á vit forfeðranna. Þjónninn gengur um og severar fyrst súpu í forrétt og sherrí með og verður hann að skála fyrir alla herramennina við greifynjuna. Næst er það fiskurinn og hvítvínið og sami háttur hafður á og við síðasta rétt og á síðasta ári. Þá kemur kjúklingurinn og er rautt haft með honum. Sami háttur er hafður á og fer nú drykkjan að svífa örlítið á þjóninn. Á gólfinu er ísbjarnarhamur með haus og rekur þjónninn löppina iðulega í hausinn en eftir því sem vínið hrífur fer hann að geta leikið á ísbjörninn. Að lokum kemur svo eftirréttuinn og púrtarinn með því og sami háttur hafður á og síðast ár. Rúsínan í pylsuendanum kemur svo síðast og verður ekki afhjúpað hér hver hún er. Hún er alltaf jafn óvænt þó sami háttur sé hafður á og síðasta ár.
Undanfarin tvö ár höfum við getað notið þessarar perlu á gamlárskvöld á undan skaupinu þökk sé skjánum. Við erum m.a. með norrænu stöðvarnar og ákváðum að kanna í fyrra hvort greifynjan og þjónninn hefðu enn sama háttinn á. Og viti menn þarna voru þau mætt í sitt gamlárspartí.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.