30.12.2006 | 15:48
Gleðilegt ár
Nú nálgast áramótin óðfluga og ósjálfrátt hugsar maður, en það er svo stutt síðan síðast, það hefur varla nokkur skapaður hlutur gerst síðan við sprengdum burt árið 2005. Svo hugsar maður til baka og viti menn, eitt og annað hefur nú drifið á dagana síðan árið 2006 gekk í garð. Herinn fór og Halldór hætti. Hvoru tveggja fagnaðarefni.
Ég ætla samt ekki að fabúlera hér um það sem gerst hefur á vettvangi samfélagsins. Frekar að horfa í eigin rann. Mesta gleðiefnið var fæðing þriðja barnabarnsins í ágúst. Honum var gefið nafnið Nói. Það var gaman að fylgjast með Tómasi bróður hans sem varð fjögurra ára í ágúst. Það tók hann nokkurn tíma að átta sig á þessari nýju mannveru. Þó vissi hann alltaf að Nói var væntanlegur. En samt undrið var mikið eins og það alltaf er þegar barn fæðist, hvað þá þegar maður er bara fjögurra ára.
Þeir bræður Tómas og Nói eru báðir fæddir í ágúst alveg eins og ég. Ég vonaði því auðvitað að þeir myndu fæðast á afmælisdegi mínum en því var ekki að heilsa. Kannski eins gott því ég hefði orðið svekktur ef þeir hefðu ekki verið skýrðir í höfuðið á mér, en það hefði skapað mikil vankvæði hjá móðurslektinu í Frakklandi.
En fleira gerðist á árinu. Í vor skrapp ég sem viðhengi með Léttsveitinni, kvennakór Reykjavíkur, til Havanna á Kúbu. Það var upplifun sem seint gleymist, gömlu eiturspúandi kaggarnir sem sumum var haldið saman með snærisspottum. Þarna hemsóttum við tímabil sem að öllum líkindum heyrir brátt sögunni til. Fari allt á versta veg verður þessi paradís á jörð einungis framlenging á Flórída eftir nokkur ár.
Í sumar skruppum við svo á Vestfirði. Fórum á Rauðasand og komum við á Hnjóti á leið okkar út á Látrabjarg. Heimsóttum Selárdal og skoðuðum þar byggingar og styttur Samúels, sem verið er að koma í fyrra horf. Litum við á tónlistarsafninu hans Jóns í Bíldudal og héldum svo til Ísafjarðar, sem ólíkt öðrum bæjum sem við ókum í gegnum á leið okkar, er heimsþorp. Á heimleiðinni heimsóttum við þjóðsagnapersónuna séra Baldur í Vatnsfirði og skoðuðum þar kirkju og fornleifauppgröft sem Mjöll Snæsdóttir stýrði. Gistum svo í Bjarnafirði áður en haldið var aftur til Reykjavíkur.
Þriðja reisan var svo í nóvember þegar við heimsóttum Róm. Þar var enn um 20 stiga hiti og notalegt að koma þangað úr garranum hér. Við heimsóttum Sixtinusarkapelluna og Vatikanið, Forum Roma og Kólosseum. Katakomburnar og Pompei þannig að þetta var mikil menningarferð.
Árið endar svo með bravúr þegar Vala Marie, barnabarn okkar númer tvö í röðinni, verður þriggja ára á morgun við mikinn fögnuð allrar þjóðarinnar eins og sjást mun á kvöldhimninum annað kvöld. Hún er búin að vera svo lengi næstum þriggja ára að það hálfa væri nóg.
Ég mun nú taka mér frí frá þessu bloggi sem er nýhafið fram yfir áramót. Sest líklega næst við tölvuna annan janúar 2007. Gleðilegt ár.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.