Pólitískur munaðarleysingi

Hlustaði á Kristrúnu Heimisdóttur í síðdegisútvarpinu áðan. Þar hélt hún því fram að Samfylkingin væri orðin að jafnaðarmannaflokki að Norrænni fyrirmynd. Þetta er rangt miðað við stöðuna í dag. Jafnaðarmannaflokkur á hinum Norðurlöndunum myndi aldrei reyna að mynda ríkisstjórn með hægri flokki. Þeir sem þekkja til vita að sossarnir í Svíþjóð myndu aldrei semja við Moderatana um ríkisstjórn. Ekki einusinni Moderötunum í sínum villtustu og blautust draumum myndi dreyma um slíkt.

Ég studdi heilshugar stofnun Samfylkingarinnar á sínum tíma og hef stutt hana síðan. Ástæðan var einföld. Ég vildi að hér yrði til öflugur flokkur sem gæti komið Sjálfstæðisflokknum frá stjórn. Það tókst í Hafnarfirði, enda hefur kratisminn þar ætíð verið af norrænu kyni. Gamli Alþýðuflokkurinn og nú Samfylkingin í Hafnarfirði hafa aldrei látið sér detta í hug samstarf við höfuðandstæðinginn. 

Ég man alltaf þegar ég fór í heimsókn til afa og ömmu á Jófríðastaðavegi. Arnór afi sat í sínu skoti við borðstofugluggann og fylgdist með þeim sem gengu niður götuna. Færi Sjálfstæðismaður þar hjá bölvaði og ragnaði sá gamli sem annars var dagfarsprúður maður. Þetta var andinn í Hafnarfirði í þá tíð. Nú bölva menn kannski ekki og ragna en það hvarflar ekki að neinum Samfylkingarmanni í Hafnarfirði að starfa í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Þar eru línur skírar og mætti félagi Gunnar Svavarsson hafa það í huga.

Verði þróunin sú sem allt stefnir í er allt útlit fyrir að ég verði pólitískur munaðarleysingi á landsvísu þótt ég styðji mitt fólk áfram til góðra verka í minni heimabyggð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sáfi! Á hinum Norðurlöndunum standa vinstri menn saman í gegnum þykkt og þunnt, ekki hér. Því miður. Að Samfylkingin sé að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum þýðir bara að Samfylkingin var tekin framyfir VG af Sjálfstæðisflokknum. Annars hefði Birna Þórðar orðið munaðarlaus en ekki þú. Flestum virðist bera saman um að orð og gjörðir forystumanna VG í garð Framsóknar hafi eyðilagt möguleikann á vinstri stjórn. Það er nóg að Framsóknarmenn segi að svo hafi verið - það er þá þeirra upplifun. Ef þér líður illa með Samfylkinguna í stjórn með Sjálfstæðisflokknum þá annað hvort vildir þú frekar að þeir tækju VG í fangið eða að þeir héldu sig við Framsókn og tækju Frjálslynda inn. Ég satt að segja veit ekki hvað af þessu er best og hvað verst. Við fylgjumst vandlega vel og kannski hittumst við á munaðarleysingjahælinu.

Friðrik Þór Guðmundsson, 18.5.2007 kl. 22:47

2 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Er á því að hugmynd Péturs Tyrfingssonar um að Samfylking og VG hefðu átt að sameinast um það að setja Sjálfstæðisflokknum stólinn fyrir dyrnar með því að lýsa því yfir að annað hvort færi hann í samstarf við þessa tvo flokka saman eða væri úti í kuldanum. Annars er ég hættur að hafa áhyggjur af þessu. Ég er pólitískur munaðarleysingi á landsvísu eins og ég sagði en stend með mínum hafnarfjarðarkratisma í minni heimabyggð. Hvað sagði ekki Laxness í Bekkukotsannál: "Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en að missa föður sinn." Vissulega telst ég varla neitt ungviði lengur, en satt að segja líður mér ágætlega enda sumarið búið að banka uppá.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 18.5.2007 kl. 23:35

3 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Hvað er í gangi hérna? Þegar ég vakna upp úr pólitískri útlegð sem óblítt lífið dæmdi til þá verða fyrir mér... ja hvað á maður að segja? Strákar, - nú megum við ekki láta íhaldið stjórna okkur og ekki heldur vera í fýlu yfir því að ekki tókst a sameina félagshyggjuhreyfinguna fyrir sossum eins og tíu árum. Siggi hefur auðvitað rétt fyrir sér. Hann er bara að segja að við séum ekki komin lengra en svo að formaður Samf. klaufaðist til og varaformaðurinn líka að breyta tilvistarrökum Samfylkingarinnar. Í stað þess einfaldlga að segja: Þetta vildum við ekki en um annað er ekki að tefla. Og sleppa allri vörn og réttlætingum. Okkar versti óvinur er að verða sjálfhverf og láta pólitískt hugarstarf okkar snúast um ávirðingar hins vinstriflokksins, samherja okkar innan flokks og þar fram eftir götum´, út eftir melum og um öll tún og móa. Það er komið nóg af þessu. Við þurfum ærleg rifrildi þar sem hollustan leynir sér hvergi. - Ég held Siggi að við eigum að láta Palla Halldórs bjóða okkur í kaffi til að sefa okkur svolítið og sussa soldið á munaðarleysingjakomplexinn þinn.

Pétur Tyrfingsson, 19.5.2007 kl. 04:00

4 Smámynd: Magnús Jónsson

Sigurður þú ættir að þiggja gott ráð frá Ægir Magnússinni hér að ofan, því er ekki tilgangurinn með þátttöku í stjórnmálum að hafa áhrif á gang landsmála?, og er ekki besta leiðin til að hafa áhrif að taka þátt í ríkisstjórn?. Mér sem Sjálfstæðismanni finnst ekkert að því að starfa með Samfylkingunni, tel líklegt að slíkt samstarf gæti orðið landsmönnum öllum til góðs. Samfylkingin kemur vonandi með áherslur á þau mál sem orðið hafa útundan ef svo má að orði komast, og ekki má gleyma því að engum er holt að starfa með fólki sem er sammála um allt, því þá beitist ekki neitt.

Með kveðju frá Íhaldinu Magnús

Magnús Jónsson, 19.5.2007 kl. 09:23

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

"Færi Sjálfstæðismaður þar hjá bölvaði og ragnaði sá gamli sem annars var dagfarsprúður maður."

Er þetta enn þann dag í dag í stéttarfélögunum?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 19.5.2007 kl. 13:40

6 Smámynd: Hermann Ragnarsson

þegar mynda á svona sterka stjórn óttast maður sríð eða náttúruhamfarir.

Hermann Ragnarsson, 19.5.2007 kl. 16:03

7 identicon

( Hver?) "Hlustaði á Kristrúnu Heimisdóttur í síðdegisútvarpinu áðan". Ekki er fyllilega ljóst hver hlustaði á Kristínu, var það einhver sem þú treystir vel vænti ég???.

Kristján Sig Kristjánsson (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 17:03

8 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Heimir! Grunar að athugasemd þín sé vegna starfa minna hjá BSRB. Í stjórn þar eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka m.a. prófkjörskandidatar Sjálfstæðisflokksins og hef ég átt gott samstarf við þá sem aðra.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 19.5.2007 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband