Hvor er sætari Geir, Samfylkingin eða VG?

Svo virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að afskrifa áframhaldandi samstarf við Framsóknarflokkinn og sé farinn að horfa til hinna kostanna tveggja sem í stöðunni eru fyrir hann. Skiptar skoðanir eru innan þingflokksins hvort kippa eigi Samfylkingunni eða Vinstrigrænum upp í. Mun fleiri snertifletir eru á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en VG og Sjálfstæðisflokks og því í hugum margra að eðlilegra væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leita þangað. Það segir þó ekki allt.

Evrópumálin eru einn þáttur sem ber í milli og óttast ýmsir andstæðingar Evrópusambandsaðildar innan Sjálfstæðisflokksins að með því að taka upp samstarf við Samfylkinguna kæmust Evrópumálin ósjálfrátt á dagskrá innan Sjálfstæðisflokksins hjá þeim sem aðhyllast aðild innan flokksins. Annað skiptir líka máli í þessu samhengi að með því að mynda meirihluta með Samfylkingunni væri Sjálfstæðisflokkurinn að tryggja pólitískt framhaldslíf Ingibjargar Sólrúnar, en henni hefur ekki enn verið fyrirgefið að R-listinn kom Sjálfstæðisflokknum frá völdum í borginni í þrjú kjörtímabil.

Þessir aðilar horfa því frekar til VG. Þar greinir vissulega á um marga hluti en engu að síður eru ýmsir snertifletir á milli flokkanna. Afstaðan til Evrópu er einn þeirra. Varðandi einkavæðingaráform þá hefur Geir lýst því yfir að Landsvirkjun verði ekki einkavædd á kjörtímabilinu þannig að fáir stórir bitar eru þar á boðstólum í dag. Stóriðjumálin eru hins vegar erfiður þáttur í slíkum viðræðum. Það er þá fyrst og fremst framkvæmdir við Helguvík sem Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki tilbúinn að leggja á ís. VG yrði líklega að kyngja því en margir flokksmenn myndu ekki fyrirgefa ef fyrsta verk slíkrar ríkisstjórnar yrði ekki að taka Ísland af lista hinna staðföstu þjóða.

Valið er því erfitt fyrir Geir. Hvor er sætari Steingrímur eða Solla? Svo er bara að sjá hvort kirkjan leggur blessun sína yfir valið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örvar Þór Kristjánsson

Sem Sjálfstæðismaður segi ég hiklaust, Solla.  Vil miklu frekar samstarf við Samfylkinguna enda miklu gæfulegri kosur en samstarf við VG.  Það ber allt of mikið í milli til þess að Sjálfstæðisflokkurinn og VG gætu starfað saman.  Það er rétt hjá þér að ýmsir Sjálfstæðismenn vilja sjá samstarf við VG einfaldlega til þess að sjá pólitískan feril ISG fjara út.  Skil ekki alveg það sjónarmið og ættu menn frekar að skoða heildar myndina en einblína á persónulega óvild í garð ISG. 

Örvar Þór Kristjánsson, 16.5.2007 kl. 00:45

2 Smámynd: Gunnar Jóhannsson

Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram þessu samstarfi við Framsókn, nema sá flokkur gefi það frá sér.  Efast um að Geir vilji taka áhættuna á því að Jón Sig bjóði hinum uppá R-lista stjórn sem bæði VG og Samf myndu örugglega íhuga mjög vandlega, enda ekki á hverjum degi sem tækifæri býðst til að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum.  Veit að margir innan raða beggja flokka VG og S eru reiðubúnir að fórna mjög miklu til að svo megi verða.  Þannig að það er ekki víst að hægt sé að tala um að Geir geti valið eitt né neitt.

Gunnar Jóhannsson, 16.5.2007 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband