14.5.2007 | 21:58
Stjórnarmyndunarpókerinn
Pókerfésið á Geir H. Haarde virðist hafa orðið til þess að öllum við borðið er orðið ljóst að fullt hús sem Framsókn þóttist hafa á hendi er í mesta lagi tvenna, ef það er þá nokkuð. Með því að afskrifa möguleika á vinstra samstarfi og þykjast eiga einhverjar óuppgerðar sakir við VG sem hafi verið svona vondir við þá eru þeir búnir að færa Geir öll sóknarfærin í hendur. Nú þarf Geir bara að bíða með Framsókn í gíslingu eftir að annar hvor félagshyggjuflokkurinn missi þolinmæðina og bjóði fram krafta sína til að halda Sjálfstæðisflokknum áfram í stjórn. Fyrr en seinna kemur að því nema eitthvað óvænt gerist.
Áhuginn fyrir áframhaldandi samstarfi við Framsókn er ekki mikill meðal Sjálfstæðismanna, en það hentar þeim að halda flokknum í spennitreyjunni þar til öðrum hvorum hinna verður kippt upp í. Einnig er auðvitað sá möguleiki í stöðunni að Frjálslyndum verði bætt við núverandi ríkisstjórn til að auka þingstyrk hennar. Tilgangurinn með slíku væri tvíþættur því þar sæi Geir möguleika á að fá týndu sauðina aftur heim í heiðadalinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.