13.5.2007 | 20:51
Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstrigrænna
Ríkisstjórnin lafir á einum þingmanni með einungis 48,3% fylgi. Ef Framsókn ætlar að sitja eitt kjörtímabilið í viðbót við pilsfald Sjálfstæðisflokksins þurrkast flokkurinn endanlega út. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að blóðmjólka Framsóknarflokkinn og síðustu dagana fyrir kosningar var ljóst að þeir beindu allri gagnrýni á ríkisstjórnina til Framsóknar. Og í lokahrinunni sló Geir H. Haarde endanlega á þá von Framsóknar að Sjálfstæðismenn kæmu í veg fyrir hrun flokksins með því að segja að einungis með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn yrði flokkurinn sterkur, öðru vísi ekki.
Það er ljóst að bæði innan Samfylkingar og VG er andstaða mikil við að leiða Framsókn enn eina ferðina inn í ríkisstjórn þannig að hefðbundið vinstristjórnarmynstur á erfitt uppdráttar. Hins vegar hef ég heimildir fyrir því að áhugi sé á að mynda minnihlutastjórn Samfylkingar og VG sem Framsókn verji falli. Þetta er ekki óalgengt í nágrannalöndum okkar, t.d. í Svíþjóð þar sem Sossarnir sitja ætíð í skjóli þess að Vensterpartiet ver þá falli þótt sá flokkur eigi ekki aðild að ríkisstjórninni.
Þetta kynni að gagnast Framsóknarflokknum vel á meðan hann endurskipuleggur sig og nær vopnum sínum aftur. Að koma Sjálfstæðisflokknum frá þannig að velferðaráherslur og stöðugleiki í efnahagsmálum verði leiðarljós á komandi kjörtímabili, auk þess sem leitað yrði sátta við þjónina varðandi umhverfismál, gæti verið gott veganesti fyrir Framsókn til framtíðar. Þjóðin kynni að meta það og landið færi aftur að rísa.
Athugasemdir
Er ekki útkoma Framsóknar í Reykjavík staðfesting á afdrifum flokksins eftir R lista samstarfið? Borgarstjórnarmeirihlutinn virðist ganga vel þrátt fyrir eins manns meirihluta!
Elías Theódórsson, 13.5.2007 kl. 23:30
Ég held að það gæti verið góður kostur fyrir Framsókn að verja minnihlutastjórn vinstri flokkanna.
Þá getur Framsókn samt haft viss áhrif en litið út sem aðilinn sem veitti stjórninni aðhald. Það er líka augljóst að Framsóknarmenn vilja ekki áframhaldandi hægristjórn. Þeir eru óánægðir með núverandi stjórnarsamstarf og hafa því yfirgefið flokkinn. Ef Framsókn styddi vinstri stjórn að þá koma eitthverjir til baka.
Ingólfur, 14.5.2007 kl. 00:03
Ég vona svo sannarlega að engum Framsóknarmanni detti svonalagað í hug að verja vinstri stjórn falli er ekki miklu eðlilegra að þeir sitji áfram í stjórn sem þeir sitja í og athugið ÞJÓÐIN KAUS SÖMU STJÓRN ÁFRAM. Ég veit það er erfitt fyrir VG að kyngja því enn svona er þetta samt.
Gylfi Björgvinsson, 14.5.2007 kl. 11:57
Þjóðin á etv. ýmislegt skilið en ekki þennan "frostavetur" sem stungið er upp á. VG eru ótæk í ríksstjórn. Hefðu kannski dugað f. tveimur öldum síðan.
Raunsær (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 18:05
Framsókn mun halda áfram hækju hlutverki sínu við íhaldið,nýta sér oddaaðstöðuna til hins ýtrasta.Þeir eru orðnir eins og hálfvindlaust varadekk hjá íhaldinu,sem nýtir það,þar til betri kostir bjóðast.Sjálfstæðisfl.getur ekki boðið þjóðinni upp á áframhaldandi samstarf við Framsóknarfl.sem þjóðin hefur algjarlega hafnað.
Kristján Pétursson, 14.5.2007 kl. 20:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.