Hafnarfjarðarkratismann í stjórnarráðið

Nú er þessari vorveislu stjórnmálanörda að ljúka. Á morgun heimsækjum við kjörklefana og kjósum yfir okkur þá ríkisstjórn sem þjóðin á skilið. Þannig er það nú bara. Þá verðum við laus við stjórnmálamennina sem daglega gesti í stofunni hjá okkur næstu fjögur árin. Ég efast um að nokkur gráti það.

Í kvöld fór fram lokaumræða forystumanna stjórnmálaflokkanna í Kastljósi. Í raun og veru voru það fyrst og fremst lokaorðin sem skiptu máli. Þar lagði Ingibjörg Sólrún höfuðárherslu á velferðarmálin. Ómar vitaskuld umhverfismálin. Jón Sig. ekkert stopp. Guðjón Arnar sjávarútveginn og velferðina. Geir H. velferð atvinnulífsins og Steingrímur J. umhverfismálin eins og Ómar.

Ég sem gamall sósíalisti. Nú miðaldra Hafnarfjarðarkrati kýs náttúrlega þann flokk sem leitar fyrst og síðast jöfnuðar í samfélaginu og vill leggja allt í sölunnar til að efla velferðarhlutverk ríkisvaldsins. Ég kýs líka þá manneskju til forystu sem ég treysti best til þess en það er Ingibjörg Sólrún.

Það kom mér verulega á óvart, þó ekki, þegar Steingrímur J. sór af sér að hann væri gamall sósíalisti í kosningaþætti Stöðvar 2 í vikunni. Í mínum huga hefur Steingrímur alltaf haft yfir sér áru framsóknarmannsins, einnig þegar hann var í Alþýðubandalaginu. Nú skilst mér hins vegar að hann sé fyrst og fremst feministi. Sá feministi sem ég treysti hins vegar best til að jafna kjör kynjanna er Ingibjörg Sólrún.

Varðandi sósíalistann þá sé ég enga ástæðu til að skammast mín fyrir að viðurkenna að ég hafi aðhyllst þá stefnu og ég geri það enn sem Hafnarfjarðarkrati. Sósíalisminn er stefna jöfnuðar. Það hvarflar ekki einu sinni að mér að hlaupa í vörn fyrir þessa stefnu vegna ríkja austan járntjalds á síðustu öld. Þeirra stefna átti ekkert skylt við sósíalisma. Velferðarstefna Norðurlanda á hins vegar uppruna sinn í þeirri stefnu. Þar af leiðandi er Hafnarfjarðarkratisminn afsprengi sósíalismans.

Við eygjum von til þess að fella ríkisstjórnina og efla hér velferðarkerfið sem  hefur verið vanrækt í tíð núverandi ríkisstjórnar. Í mínum huga er enginn vafi hvað ég kýs. Ég kýs X-S þannig að Hafnarfjarðarkratisminn hreiðri einnig um sig í stjórnarráðinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Halldórsson

....gulir blýantar eru mjög áhrifamiklir í dag, ekki á morgun.

Benedikt Halldórsson, 12.5.2007 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband