Aukið misrétti í skattakerfinu í tíð ríkisstjórnarinnar

Talsvert hefur verið karpað um það nú í aðdraganda kosinga hvort skattbyrði hafi hækkað eða lækkað á undanförnum árum. Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram að álögur hafi þyngst á lágtekju og meðaltekjufólk en hins vegar sé skattbyrðin lægri á hátekjufólk í dag en hún var þegar ríkisstjórnin tók við fyrir 12 árum. Þessu hafa stjórnarflokkarnir mótmælt og vitna í meðaltöl máli sínu til stuðnings.  

 

Nú hefur Indriði H. Þorláksson fyrrum skattstjóri stigið fram á sviðið með eigin bloggsíðu til að birta greinaflokk um þróun skattbyrðinnar frá árinu 1992 til dagsins í dag. Ástæðan fyrir því að hann birtir þær á blogginu er sú að Morgunblaðið birti fyrstu greinina í þessum greinaflokki sl. mánudag en ekkert hefur bólað á þeim tveimur sem voru í beinu framhaldi af þeirri fyrstu. Hvort Morgunblaðið hafi ákveðið að bíða með birtingu þeirra fram yfir kosningar vegna óþægilegs innihalds þeirra skal ósagt látið hér. Óneitanlega læðist samt sá grunur að manni.  Niðurstaða Indriða H. um þróun skattbyrði er mjög á sömu nótum og stjórnarandstaðan, verkalýðshreyfingin og ýmsir hópar sem hafa átt undir högg að sækja halda fram. Það er tekjulægsta fólkið sem ber skarðastan hlut frá borði. Þessi kafli úr þriðju grein Indriða H. segir allt sem segja þarf um þetta mál: 

„Á árinu 1992 voru tekjuskattar einstaklinga að meðaltali um 17% af heildartekjum þeirra. Árið 2005 var meðalskatthlutfallið orðið um 22% og hafði því hækkað um 5 prósentustig eða rúmlega fjórðung. Hjá hjónum í lægsta tekjufjórðungi hækkaði skattbyrðin um 10 til 14 prósentustig, Hjá hjónum með meðaltekjur hækkaði skattbyrðin um 4,5 til 6 prósentustig, Hjá hjónum með hærri tekjur en ¾ hlutar allra hjóna hækkaði skattbyrðin um nálægt 2,5 prósentustig. Hjá þeim 10% hjóna sem hæstar tekjur hafa lækkaði skattbyrðin um 2 til 25 prósentustig.  

 

Réttilega hefur verið bent á að sú staðreynd að laun hafa hækkað hefur leitt til aukinnar skattbyrði. Í tekjuskattskerfi með skattleysismörk og stígandi meðalskatthlutfall gerist það sjálfkrafa ef ekki er gripið inn í og föstum kerfisins breytt. Sé breytingar gerðar í hlutfalli við tekjubreytingar helst skattbyrðin óbreytt en ef þær fylgja verðlagsbreytingum hækkar skattbyrðin á uppgangstímum og raungildi skatta eykst á kostnað ráðstöfunartekna. Í samdrætti eru áhrifin andstæða þessa. Á síðustu árum hefur hvorugri þessari aðferð verið beitt en sú leið valin að hækka ekki skattleysismörkin í samræmi við tekjur og verðlag en lækka í stað þess skatthlutfallið. Óhjákvæmileg afleiðing slíkra aðgerða er að færa skattbyrðina af þeim sem sem hafa hærri tekjur á hina sem eru tekjulægri eins og tölurnar bera með sér.

Á það hefur einnig verið bent að þrátt fyrir aukna skattbyrði hafi ráðstöfunartekjur á föstu verðlagi hækkað. Er það rétt að vissu marki en ekki algilt. Þrátt fyrir almenna hækkun tekna hafa ekki allir hærri ráðstöfunartekna en þeir hefðu haft með sömu rauntekjur á fyrri árum. Hjón með allt að 4 milljónir í árstekjur 2005, en í þeim hópi eru um 19% hjóna, greiddu allt að 5% hærri skatt en hjón með sömu rauntekjur greiddu 1995. Ráðstöfunartekjur þeirra voru því lægri en þær hefðu verið með skattkerfinu frá 1995. Hjón með 4 - 6 millj. kr. tekjur 2005 greiddu svipað hlutfall tekna sinna í skatt og þeir hefðu greitt fyrir 10 árum af sömu rauntekjum. Aðrir með hærri tekjur greiða lægra hlutfall af rauntekjum í skatt en áður frá um 1% með 6-8 m.kr. í tekjur og upp í 15% þegar tekjur eru yfir 30 m. kr. Sé litið á rauntekjur hefur skattbyrði hækkað að jafnaði um 2 prósentustig. Hækkuð skattbyrði hefur leitt til lækkunar á ráðstöfunartekjum hjá u.þ.b. 20% tekjulægstu hjóna. Hjá öðrum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist eða haldist lítt breyttur.

Jafnræði í skattlagningu felst fyrst og fremst í því að þeir þegnar sem eins er ástatt um t.d. hafa sömu tekjur greiði sama skatt. Sanngirni kemur fram í því að þeir sem háar tekjur hafa greiði hærra hlutfall þeirra í skatt en hinir tekjulægri. Þegar framangreindar tölur eru skoðaðar verður varla sagt að þær breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á síðustu árum stuðli að þessum markmiðum og að tekjuskattskerfið gæti jafnræðis og sanngirni.“

 Sjá bloggsíðu Indriða Hauks Þorlákssonar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband