9.5.2007 | 19:43
Niðurstaða vinnuhóps um Þjórsárver í andstöðu við vilja heimamanna
Framsóknarmaðurinn Gestur Guðjónsson bregst við færslu minni í gær varðandi afstöðu umhverfisráðherra til stækkunar friðlands Þjórsárvera. Ber hann niðurstöðu sérstakrar nefndar ráðherrans til stækkunarinnar við niðurstöðu kosninga Hafnfirðinga til stækkunar álversins. Þetta er afar langsóttur samanburður. Ráðherrann skipaði þrjá fulltrúa heimamanna í nefndina og voru þeir andvígir því að stækka friðlandið í suður og gera þar með áform Landsvirkjunar á Norðlingaöldulóni að engu. Afstaða þessara þriggja fulltrúa til virkjanaáformanna voru vituð fyrir þannig að niðurstaðan kom ekki á óvart.
Hún speglar hins vegar langt í frá afstöðu íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Gallup framkvæmdi skoðanakönnun fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. Niðurstaðan var sú að 65% landsmanna vildu stækka friðlandið þannig að Norðlingaöldulón væri í eitt skipti fyrir öll út af kortinu. Þá var niðurstaða þjóðarpúls Gallups í janúar 2006 sú að 65% landsmanna voru andvígir Norðlingaöldulóni. Þá hefur barátta íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps og samþykkt hreppsnefndar frá vorinu 2005 gegn Norðlingaöldulóni sýnt að mikill meirihluti íbúanna eru andvígir áformum Landsvirkjunar. Það að Jónína Bjartmarz geti ekki lýst yfir stuðningi við stækkun Þjórsárvera í suður og kjósi þess í stað að skýla sér á bakvið afstöðu þessara þriggja heimamanna sem sátu í vinnuhópnum er aumkunarvert.
Birgir Sigurðsson rithöfundur ritaði gagnmerka grein um virkjanaáform Landsvirkjunar á svæðinu með yfirskriftinni Landsvirkjun enn með kverkatak á Þjórsárverum. Greinin birtist í Morgunblaði 30. apríl sl. Þar segir mann m.a.:
Langmestur hluti Þjórsárvera er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Gnúpverjar höfðu barist hatrammlega gegn öllum virkjunaráformum í verunum alveg frá byrjun áttunda áratugarins. Fundahöld, ályktanir, undirskriftalistar og samþykktir sýna að mikil samstaða er meðal íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps um verndun veranna og stækkun friðlandsins þannig að tryggt sé að þar verði aldrei virkjað. Þessi viðhorf kristölluðust í bókun hreppsnefndar 3. maí 2005 þar sem Norðlingaölduveitu var hafnað.
Ljóst er að fram til þessa hefur flest náttúruverndarfólk talið að stækkað friðland tryggði að Norðlingaölduveita væri úr sögunni. Og svo mikið er víst að í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi var ekki kosið um verndun Þjórsárvera. Menn töldu að hún væri svo til í höfn. Það var kosið um önnur mál. Í þessum kosningum hófst til valda Gunnar Örn Marteinsson og er hann nú oddviti. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra skipaði hann samkvæmt tilnefningu sem fulltrúa heimamanna í nefnd er setja skyldi fram hugmyndir og tillögur um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Annar fulltrúi heimamanna var úr Ásahreppi austan Þjórsár (þar hafa ráðamenn jafnan barist fyrir virkjunum í Þjórsárverum) og sá þriðji úr Rangárþingi ytra og hafa menn þaðan þó ekki verið taldir heimamenn í Þjórsárverum þar til nú.
Nú hefur þessi ráðgefandi nefnd skilað af sér og hefur umhverfisráðherra kynnt tillögur hennar. Ráðherrann lætur hinsvegar hjá líða að kynna sinn eigin vilja í málinu. Samkvæmt tillögunum skal friðlandið stækkað verulega í austur, vestur og norður. En það skal ekkert stækkað í suður. En með því að stækka friðlandið ekki til suðurs er í raun unnið gegn verndun veranna; séð til þess að Landsvirkjun geti enn komið upp áður fyrirhuguðu lóni syðst í verunum og þar með Norðlingaölduveitu. Þáttur oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Gunnars Arnar Marteinssonar, í þessu máli er dapurlegur. Hann stendur að tillögum sem ganga þvert gegn samþykkt hreppsnefndar frá árinu 2005 og ótvíræðum vilja íbúa hreppsins um að hafna Norðlingaölduveitu. Þannig rekur hann erindi Landsvirkjunar og stórvirkjanaaflanna í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum sem enn sjá sóma sinn í því að viðhalda virkjunarógninni í Þjórsárverum.
Að lokum ætla ég að benda á grein Ævars Rafns Kjartanssonar Lækjarsprænan Þjórsá og vald Landsvirkjunar.
Athugasemdir
Sigurður: Þessir menn voru skipaðir í starfshópinn samkvæmt tilnefningu sinna sveitarstjórna og eru allir oddvitar í sínum sveitarstjórnum. Hefðir þú viljað að ráðherra hefði gengið gegn þeim tilnefningum og skipað aðra? Þeir hafa skipulagsvaldið á svæðinu, er það ekki?. Skrifaði um þetta á síðunni minni.
Gestur Guðjónsson, 9.5.2007 kl. 23:59
Engu að síður er það aumt hjá Jóhönnu að skýla sér á bakvið afstöðu þeirra vitandi það að þarna er um að ræða eina mestu náttúruperlu landsins að ræða sem 65% íbúa landsins og Skeiða- og Gnúpverjahrepps vilja varðveita samkvæmt skoðanakönnunum. Lastu ekki innlegg Birgis Sigurðssonar í umræðuna?
Sigurður Á. Friðþjófsson, 10.5.2007 kl. 00:35
Sæll vert þú Sigurður
Ég er íbúi í Skeiða- og Gnúpverjahrepp og ég frábið mér að þú gerir mér upp skoðanir. Það hefur ekki enn farið fram nein könnun á vilja íbúa Skeiða- og Gnúpverjahrepps og barasta alls ekkert víst að meirihluti væri á móti Norðlingölduveitu. Fyrir mína parta þá vil ég frekar fá Norðlingaölduveitu heldur en virkjanir í byggð.
Jónas Yngvi Ásgrímsson, 10.5.2007 kl. 16:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.