1.5.2007 | 14:21
Ferðasaga og stefnumót í tilefni 1. maí
Í dag er 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkafólks. Upphaf dagsins má rekja til baráttu samtaka verkamanna í Bandaríkjunum fyrir átta stunda vinnudegi en sú krafa varð til árið 1860. Árið 1889 var haldin alþjóðaráðstefna verkamanna í París og sú ráðstefna ákvað að gera 1. maí að baráttudegi verkamanna um allan heim. Það var svo árið 1923 að íslenskt verkafólk fór í sína fyrstu kröfugöngu 1. maí.
Hér ætla ég að segja frá annarri göngu:
Á Gufunni er þáttur um Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum. Man alltaf hvar og hvenær ég átti mitt fyrsta stefnumót við Sóleyjarkvæði. Það var heima hjá Ragnari skjálfta seint að kvöldi vorið 1969.
Við höfðum verið herbergisfélagar í Menntaskólanum á Laugarvatni ég og Páll Halldórsson síðar formaður BHM. Þegar skólanum lauk um vorið ákváðum við herbergisfélagarnir að ganga í bæinn. Við sendum okkar hafurtask með rútunni til Reykjavíkur og lögðum svo af stað gangandi yfir Bláskógaheiðina í átt að Þingvöllum með kaldar pulsur í nesti og viskípela. Okkur tókst að fá far með malarflutningabíl uppi á heiðinni og niður að þjóðgarði. Gengum svo meðfram vatninu að Valhöll.
Viskípelinn hafði haft áhrif og þótt pulsurnar hefðu verið seðjandi vorum við orðnir soltnir. Við settumst við borð og fengum matseðilinn. Sáum strax að það eina sem við réðum fjárhagslega við voru ristaðar brauðsneiðar sem við snæddum með bestu lyst. Við næsta borð sat amerískur hermaður með íslenskri stúlku. Þetta mislíkaði Páli eitthvað og hafði einhver orð í frammi sem urðu til þess að okkur var vísað á dyr.
Klifruðum upp í Hestagjá og hrasaði Páll þar. Hann kannaði ekki hvort hann hefði sjálfur brotnað heldur fór beint í brjóstvasann og kannaði hvort reiknistokkurinn hefði brotnað. Hann reyndist heill og þá kveikti Páll í pípu sinni og svo var lagt af stað upp Almannagjá.
Það var orðið vel áliðið þegar við loksins gátum húkkað okkur far á Mosfellsheiðinni. Ákváðum að óska eftir gistingu þessa nótt hjá Ragnari skjálfta enda þeir Páll góðir mátar. Okkur var tekið opnum örmum og borið fram snarl til að metta okkur. Síðan dró Ragnar fram nýútkomna plötu með Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum við tónlist Péturs Pálssonar. Við sátum andaktugir og hlýddum á snilldina, lögðumst svo á dýnur í stofunni og flutum inn í draumheima þar sem
Sóley sólufegrisitur við hafið á kóralskóm,
leikur við linda
lykill frá Róm
augun blá eins og stjörnur,
varirnar rauðar sem blóm.
Athugasemdir
Fenguð þið ekki landa hjá Ragnari? Var Palli þá þegar kominn í Edgeworth tóbak eða svældi hann óæðri reyk, jafnvel prinsinn Albert? Hvert var pólitískt erindi göngunnar, varla hafið þið verið að stæla "gönguna miklu"? Neeeh asskoti...
Pétur Tyrfingsson, 2.5.2007 kl. 15:52
Palli reykti Dunhill tóbak að hætti breskra aðalsmanna og var lyktin ansi römm. Sjálfur var ég með Prinsinn í þá daga. Reyklaus frá aldamótum þegar árið 2001 gekk í garð.
Sigurður Á. Friðþjófsson, 2.5.2007 kl. 16:40
Þegar ég sé minnst á prinsinn rifjast upp fyrir mér orð sem höfð voru eftir Memphis Slim: "You didn't say 'Gimme a can of Prince Albert tobacco'. Not with that white man on the can. 'Gimme a can of Mister Prince Albert'."
Annars er sagan af Alberti prins og hans eiginkonu skemmtilega dramatísk í alla staði og hæfilega sorgleg. Að henni lesinni er svo gráupplagt að skoða minnismerkiið um Albert sem stendur í Hyde garði og var endurnýjað og hreinsað fyrir stuttu. Gullslegin smekkleysa.
Árni Matthíasson , 3.5.2007 kl. 08:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.