Bjarni Sívertsen

Í færslu minni í gær kom ég inn á að Bjarni Sívertsen hefði stofnað skipasmíðastöð í Hafnarfirði í upphafi 19. aldar. Á sínum tíma tók ég saman ýmsar upplýsingar um þetta framtak föður Hafnarfjarðar og birti þá samantekt hér á eftir. Árið 1763 fæddist Bjarni Sigurðsson að Nesi í Selvogi. Þegar hann varð fullvaxta giftist hann Rannveigu Filippusdóttur ekkju Jóns Halldórssonar lögréttumanns en hún var um tuttugu árum eldri en Bjarni.Þegar einokunarverslunin var afnumin 1787 hóf Bjarni, sem þá hafði tekið upp eftirnafnið Sívertsen, að stunda verslun ásamt fleiri mönnum í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn og í Selvogi. Gerðust þeir borgarar í Vestmannaeyjakaupstað til að fá leyfi til að stunda þessa verslun. Kaupmanninum á Eyrarbakka var mikið í nöp við þessa verslun og kærði Bjarna og félaga ítrekað fyrir lögbrot og lyktaði því þannig að borgararéttindin og verslunarleyfið var tekið af þeim.   

Bjarni undi því hið versta og þegar hann frétti að verslunarstaðurinn í Hafnarfirði væri að losna sigldi hann til Kaupmannahafnar sumarið 1793 og tókst að verða sér úti um verslunarréttindin þar. Hann fékk einnig allstórt lán hjá danska ríkinu og notaði það til vörukaupa. Hann hóf síðan verslunarrekstur í Hafnarfirði og gerðist brátt efnaður maður. Árið 1797 hóf hann einnig verslunarrekstur í Reykjavík en aðalstöðvar verslunarinnar voru áfram í Hafnarfirði.

  

Bjarni var mjög framfarasinnaður maður og keypti eigið þilskip frá Danmörku skömmu fyrir aldamót til að stunda veiðar hér við land. Sú útgerð gekk ágætlega og ákvað þá Bjarni að ráðast sjálfur í skipasmíðar í Hafnarfirði. Hann hafði skoðað skipasmíðastöðvar á ferðum sínum í Danmörku og kynnt sér verklag og tækjakost við skipasmíðar, en sjálfur mun Bjarni hafa þótt ágætur smiður. Þaulvanur árabátasmiður, Ólafur Árnason á Hvaleyri, var ráðinn yfirsmiður við hið nýja þilskip. 5. september árið 1803 var skútunni hleypt af stokkunum og gefið nafnið Hafnarfjord Pröven. Lengd skipsins var 18 álnir og 21 þumlungar milli stafna, breiddin um mitt skip 6 álnir og 7 þumlungar og dýptin 2 álnir og 12 þumlungar.

  

Svo vel tókst til með þessa smíði að Bjarni ákvað að koma upp myndarlegri skipasmíðastöð í Hafnarfirði. Hann sigldi til Kaupnmannahafnar árið 1804 og keypti þar konungsjörðin Ófriðarstaði, sem nefnast nú Jófríðarstaðir. Einnig útvegaði hann sér 6000 dala lán hjá danska ríkinu til framkvæmdanna. Flutt voru áhöld, verkfæri og smíðaviður til Hafnarfjarðar og stöðin reist 1805. Í skipasmíðastöðinni voru smíðuð mörg áraskip af mun betri gerð en áður hafði tíðkast hér á landi en auk þess hélt hann áfram með þilskipasmíðina. Þess er getið að árið 1806 hafi hann átt þilskip í smíðum í stöðinni. Skipasmíðastöðin þjónustaði einnig erlend skip sem sigldu út til Íslands. Þannig mun póstskip hafa komið illa til reika hingað til lands eftir stórsjó og storma og fengið hina vönduðustu viðgerð í skipasmíðastöð Bjarna.

  

Í Íslenskum sagnablöðum frá 1817 er sagt að þrjú þilskip hafi verið smíðuð í skipasmíðastöðinni og telur Gils Guðmundsson að líklegt sé að þar hafi verið smíðuð auk Havnefjords Pröven jaktskipið Flynderen sem var 9,5 lestir að stærð og jafnvel allstór galias, Lykkens Pröve. Auk þess blómstraði smíði opinna báta í Hafnarfirði á þessum árum undir verndarvæng Bjarna. Það voru einkum tveir mjög góðir bátasmiðir sem stuðluðu að því, áðurnefndur Ólafur Árnason á Hvaleyri og Gísli Pétursson á Óseyri. Er þess getið að Ólafur hafi smíðað nálega 100 báta, frábærlega vandaða og vel gerða.

Eftir að Bjarni missti Rannveigu konu sína giftist hann danskri konu og flutti til Kaupmannahafnar. Hann andaðist þar sjötugur að aldri árið 1833.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Því má bæta við að þótt Bjarni hafi átt a.m.k. 6 börn eru aðeins ættir frá einu þeirra hér á landi, Sigurði Sívertsen, syni hans, sem fetaði í fótspor föður síns og rak verslun.

Púkinn, 28.4.2007 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband