Forðið umhverfisslysi á Jófríðarstöðum

Eins og sjá má hér til hliðar þá er ég ættaður frá Jófríðarstöðum í Hafnarfirði. Arnór afi var fæddur þar en hans foreldrar voru Þorvarður Ólafsson og Elín Sigurðardóttir sem voru með búskap á þessu gamla höfuðbóli í Hafnarfirði. Á síðustu öld eignaðist kaþólski söfnuðurinn jörðina og bjuggu prestar kirkjunnar þar en í Hafnarfirði höfðu sest að Jósefssystur og reistu þar St. Jósefsspítala og klaustur. Í spítalanum var lengi kapella en þegar spítalinn var seldur á níunda áratugnum réðst söfnuðurinn í að reisa myndarlega kirkju með safnaðarheimili og prestsbústað á Jófríðarstöðum. Þetta er afar vel heppnuð bygging sem fellur vel að opnu svæði gamla Jófríðarstaðatúnsins og hólsins þar sem sjá má yfir mest alla byggðina í Hafnarfirði og yfir til Snæfellsness.

 

Nú árar hins vegar illa hjá söfnuðinum og hafa komið upp hugmyndir um að selja verktökum byggingarland á þessu gróna opna svæði til að rétta við fjárhagsstöðuna. Jófríðarstaðatúnið er í raun eina opna svæðið í miðjum bænum og tel ég það mikið glapræði að taka það undir íbúðabyggð. Fjárhagsstöðu safnaðarins hlýtur að vera hægt að bjarga á annan hátt, t.d. að bærinn leysti til sín landið.

 

Jófríðarstaðir eiga sér langa og merka stöðu. Fyrr á öldum hét bærinn Ófriðarstaðir en sennilega hefur sú nafngift þótt of ófriðvænleg þannig að breyting varð á seint á 19. öld. Óljóst er hvernig nafnið er tilkomið en til er frásögn eftir Jón Guðmundsson lærða þar sem hann skrifar að forfaðir sinn, Magnús Auðunarson ríki, hafi fallið á Ófriðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna.“ Þessa frásögn er að finna í ritinu „Um ættir og slekti“ frá 1688. Elstu skjalfestar heimildir um bæinn eru frá 1541.

 

Bjarni Sívertsen sem kallaður hefur verið faðir Hafnarfjarðar eignaðist jörðina árið 1804 og náði hún þá niður að sjó þar sem nú er slyppurinn. Reisti hann þar fyrstu skipasmíðastöð landsins. Þetta er því bær með mikla sögu auk þess sem þarna er eins og áður sagði eitt af fáum opnum svæðum bæjarins og einn besti útsýnisstaðurinn. Það væru því mikil mistök að reisa þarna enn eitt blokkarhverfið.

 Heimild Saga Hafnarfjarðar eftir Sigurð Skúlason, Félagsprentsmiðjan 1933

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Kristinsson

þú virðist ekki vilja neitt hér í hafnarfirði, ekki stórt og gott fyrirtæki, ekki að byggt sé á góðum stað í hafnarfirði, mætti halda að þú sért að vinna í reykjavík og viljir halda hafnarfirði sem góðum útivistastað í fríum fyrir þig og þína. en það eru hafnfirðingar sem vinna hér í álverinu og fleiri góðum vinnustöðum sem þú villt losna við, væri gaman að sjá þig vinna við ferðaþjónustu og lifa af því hér í hafnarfirði

Haukur Kristinsson, 26.4.2007 kl. 22:31

2 Smámynd: Ibba Sig.

Byggingar á Húbbahól!!! Er fólk orðið skrítið? 

Ibba Sig., 27.4.2007 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband