23.4.2007 | 19:15
Ferðaóþoli fullnægt
Nú þegar farfuglarnir koma einn af öðrum til landsins, krían í dag, fyllist maður sjálfur ferðaóþoli. Skruppum því í sunnudagsbíltúr austur í sveitir í gær. Stefnan var tekin á Reynishverfi í Mýrdalnum til að skoða Hánefshelli sem við höfðum skoðað einusinni áður, í tilhugalífinu fyrir rúmum 35 árum síðan. Þó við höfum farið þarna um ótal sinnum höfum við yfirleitt verið á leiðinni lengra austur eða að austan til höfuðborgarsvæðisins. Nokkru sinnum höfum við ekið niður að Dyrhólaey en Reynishverfið orðið út undan.
Það var skýjað þegar lagt var í hann um morguninn og á Hellisheiðinni var suddarigning. Birti aðeins til þegar við ókum niður úr skýjaþykkninu í Kömbum. Rúðuþurrkurnar höfðu samt nóg að gera á leiðinni austur á Hvolsvöll en þá fór að rofa verulega til. Við skruppum inn í Fljótshlíð og skoðuðum kirkjuna á Breiðabólsstað. Kirkja var teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni eins og kirkjan á Húsavík, enda er útlit þeirra mjög svipað þótt kirkjan á Breiðabólsstað sé mun minni. Merkilegt nokk var kirkjan opin þannig að við gátum skoðað hana að innan. Altaristaflan þar er eftirmynd af altaristöflunni í Dómkirkjunni.
Breiðabólsstaður á sér langa sögu. Þar var prestur Jón Ögmundsson helgi, fyrsti biskup á Hólum. Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson var prestur á Breiðabólsstað og er greftraður í kirkjugarðinum.
Þegar komið var undir Eyfjöll skipti landið litum. Sólin braust fram. Þar voru tún farin að grænka og er það sönnun fyrir því að það vorar yfirleitt mánuði fyrr undir Eyjafjöllum. Bændur voru að plægja og ljóst að enginn kotbúskapur er stundaður þarna.
Það var ævintýri líkast að aka í gegnum Reynishverfið út að fjörunni við Garða sem er syðsti bærinn á Íslandi. Margslunginn fuglasöngur tók á móti okkur, tjaldur, stelkur og múgginn í klettunum og í háloftum stakk sér hrossagaukur með sínu hneggi. Við gengum niður í fjöru þar sem aldan brotnaði á malarkömbum. Inn í stuðlaheimi Hánefshellis myndaðist sérstök hljómkviða sem knappast er af þessum heimi. Og þó þessi heimur hefur upp á svo ótrúlega margt að bjóða. Í kirkjugarðinum hjá Reyniskirkju sátu tveir tjaldar á einu leiðinu eins og friðardúfur og högguðust ekki þótt okkur bæri að garði.
Á heimleiðinni ókum við umhverfis Pétursey en það er í fyrsta skipti sem við leggjum þá lykkju á leið okkar. Sama var upp á teningnum þegar við ókum Raufarfellshringinn og þaðan upp að Seljavallalaug. Alls staðar var sama sagan farfuglarnir fögnuðu að vera komnir til landsins og þarna heyrðum við í lóu í fyrsta sinn í vor þótt ekki sæjum við hana.
Fórum svo Krýsuvíkurleiðina í Hafnarfjörð og stoppuðum í Herdísarvík og vottuðum Einari Ben virðingu okkar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.