Bréf til Maríu

Sl. vor fór ég sem viðhengi Léttsveitar Reykjavíkur til Kúbu. Valgerður Sverrisdóttir var líka viðhengi í þeirri ferð þar sem dóttir hennar er í kórnum. Þetta var skömmu eftir að Draumaland Andra Snæs kom út. Allt í kringum mig í flugvélinni var fólk að glugga í þessa nýju biblíu umhverfissinna á Íslandi þannig að ætla má að bókabúðin í Flugstöðinni hafi gert uppgrip. Sjálfur var ég að lesa Historian, spennusögu byggða á goðsögninni um Dracula en sonur minn sem einnig var viðhengi var með Draumalandið uppi.

 

Eins og gengur þarf fólk í svona langri flugferð að skreppa á klósettið. Varð var við það þegar Valgerður kom gangandi fram vélina og horfði til vinstri og hægri og í velflestum sætaröðum var að minnsta kosti einn að lesa hið nýja fagnaðarerindi. Svipurinn á henni var ekki mjög fagnandi.

 

Sjálfur reyndi ég seinna að lesa Draumalandið en einhvernveginn fangaði bókin mig ekki. Það sama verður ekki sagt um þá bók sem ég er nú að lesa en það er Bréf til Maríu eftir Einar Má Jónsson. Mikið myndi ég gefa mikið fyrir að fá að vera í flugvél með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni þar sem jafn margir væru að lesa þessa úttekt miðaldasagnfræðingsins á frjálshyggjunni og lásu Draumalandið í Kúbuferðinni.

 

Ég þekki Einar Má frá árum mínum á Þjóðviljanum. Þegar sumra tók birtist þessi eldhugi frá París og hristi upp í okkur öllum. Hann var í sumarafleysingum í erlendum fréttum hjá okkur. Hann setti málin ætíð í óvænt ljós og gekk oft á tíðum fram af okkur sem þóttumst þó ekki kalla allt ömmu okkar í pólitísku og siðferðilegu tilliti. Einar Már var líkt og Megas bróðir hans  á einhverju öðru plani. Hann var staddur ofan og utan við þann veruleika sem við hrærðumst í og því gat hann varpað óvæntu ljósi á hversdagslegustu hluti.

 

Nú ber þess að geta að ég hef ekki lokið lestri þessarar frábæru bókar, sem líkt og titillinn segir til um ávarpar annað snilldarverk íslenskrar bókmenntasögu, Bréf til Láru Þórbergs. Þrátt fyrir titilinn og upphafssetningu bókarinnar þá er bók Einars Más analísa á nútímanum en ekki endurvarp fortíðarinnar og hún er verk fullmótaðs fræðimanns en ekki óharðnaðs áhrifagjarns unglings eins og Bréf til Láru var.

 Bréf til Maríu er einhver beittasta gagnrýni á frjálshyggjuna sem ég hef nokkurn tímann lesið. Hún er skyldulesning fyrir alla sem hafa áhuga á samtímaþróuninni og því pólitíska litrófi sem ríkir á Íslandi og í heiminum í dag. Mikið hefði það verið meira gefandi ef Egill Helgason hefði nú fengið Einar Má í viðtal í Silfrinu í dag í stað þess að láta Jón Baldvin endurtaka sig enn einn ganginn (lesist með vestfirskum framburði).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, fróðlegt verður að sjá þessa bók, en viðtal Egils í dag við "séníið" Slavoj Zisek frá Slóveníu var nú ágætis viðbit líka, þótt ekki taki ég undir sumt í málflutningi hans. - Með kveðju,

Jón Valur Jensson, 23.4.2007 kl. 01:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband