17.4.2007 | 16:59
Rússnesk rúlletta á Vestfjörðum
Þegar við ferðuðumst um Vestfirðina í sumar og nutum ómældrar fegurðar þessa sérstæða landslags var ég þakklátur heimamönnum að hafa samþykkt að Vestfirðirnir yrðu stóriðjufrítt svæði. Mér brá því verulega í brún í gær þegar kynnt voru í fréttum Sjónvarpsins áform um að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Og það er ekki eins og þarna sé um einhverja framtíðarmússík að ræða því stöðin gæti risið á næstu fjórum árum.
Við Vestfirði eru einhver gjöfulustu fiskimið í heimshöfunum og fuglalífið er einstakt í heiminum. Þarna eru líka veður oft válynd og margir skipsskaðar orðið í gegnum tíðina. Ætla menn virkilega að fara að láta risaolíuskip sigla inn á firði hlaðin hráolíu. Eitt slys og skaðinn yrði óbætanlegur.Rætt var við prúðmennið Ólaf Egilson fyrrum sendiherra í Rússlandi en hann er annar af eigendum Íslensks hátækniiðnaðar sem í samvinnu við rússneskt olíufyrirtæki stefnir að því að reisa olíuhreinsistöðina. Ólafur sagðist hafa flett því upp í Íslenskri orðabók hvernig stóriðja væri skilgreind og þar væri hún skilgreind sem orkufrekur iðnaður en það væri olíuhreinsunin ekki. Ég ákvað að fletta sjálfur upp í Orðabók Menningarsjóðs og þar er þessa skilgreiningu að finna: stóriðja, verksmiðjuframleiðsla þungavöru í stórum stíl, stórfelld iðnaðarframleiðsla. Fram kom að framleiðslugeta stöðvarinnar verði 150.000 tunnur á dag sem skapa myndi 500 700 manns atvinnu. Það má vera meiri hundalógíkin ef það er ekki stóriðja.
Ólafur sagði að fullyrt væri við sig að mengun frá stöðinni væri lítil og hún yrði vegin upp með hreinna eldsneyti á bíla- og skipaflota landsmanna auk þess sem líklegt væri að bensínverð myndi lækka. Varðandi sjónmengun af stöðinni þá væri hægt að staðsetja hana á afskekktum stað. Í fréttum í hádeginu í dag kom í ljós að horft er til Dýrafjarðar, þá líkast til í nágrenni Þingeyrar.Það er vitað mál að erfiðleikar hafa steðjað að á Vestfjörðum, störf hafa horfið og fólksfækkun orðið. Atvinnustigið er hins vegar gott þegar skýrsla Vinnumálastofnunar um atvinnuástandið er skoðuð. Meðalfjöldi atvinnulausra á Vestfjörðum var 31 í mars eða 0,8% af áætluðum mannafla á Vestfjörðum en var 0,7% í febrúar s.l. Fjöldi atvinnulausra hefur aukist um 4 milli febrúar og mars. Atvinnuleysi kvenna var 1,6% í mars en var 1,4% í febrúar s.l. og atvinnuleysi karla var 0,3% í mars og sama í febrúar s.l. Atvinnulausir karlar voru 7 í mars en 6 í febrúar s.l. en atvinnulausar konur voru 24 eða 3 fleiri en í febrúar s.l.
Engu að síður er full ástæða til að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið á Vestfjörðum þannig að þróuninni verði snúið við og íbúum á svæðinu fjölgi. En að reisa olíuhreinsistöð við Þingeyri er að bjóða Vestfirskri náttúru í rússneska rúllettu. Slíkt má ekki gerast.
Athugasemdir
Hvað ætli vottað grasatínslusvæði þurfi að vera langt frá olíuhreinsunarstöð ?
Pétur Þorleifsson , 18.4.2007 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.