Er ekki kominn tími til að tengja?

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag sýnir að landsfundir Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skila flokkunum að minnsta kosti tímabundinni aukningu. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir Samfylkinguna sem hefur átt undir högg að sækja að undanförnu og fylgið farið stöðugt rénandi. Nú vill hins vegar svo til að Samfylkingin eykur við sig þremur prósentum frá síðustu könnun Fréttablaðsins og er aftur orðinn næst stærsti flokkurinn. Hins vegar bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig rúmum 7% milli kannana og ríkisstjórnin heldur velli sem eru vond tíðindi fyrir félagshyggjuflokkana.

 

Fylgdist með Silfri Egils áðan þar sem bloggvinur minn Pétur Tyrfingsson reifaði þá hugmynd sína að félagshyggjuflokkarnir gerðu með sér samkomulag um að fara ekki í ríkisstjórn án hins flokksins. Við vitum að þetta er bara óskhyggja hjá félaga Pétri. Sameining þessara afla var reynd þegar Samfylking og VG voru stofnuð en þá misfórst það og félagshyggjufólk á Íslandi missti af sögulegu tækifæri til að mynda stærri hreyfingu en Sjálfstæðisflokkinn.

 

Það er hins vegar rétt hjá Pétri að VG er ekki lengur sá hópur rótækra vinstrimanna og verkalýðssinna sem til var stofnað í upphafi. Höfuð áherslur flokksins eru umhverfismál og feminismi. Það er einna helst Ömmi frændi sem móast við og stígur fram með áherslur á velferðarmálin og að fátækt verði útrýmt í þessu ríka landi.

 

Í raun og veru er fátt sem skilur þessa tvo flokka að í þessum málaflokkum. Í utanríkismálum er ekki margt sem skilur þessa flokka að. Einna helst að afstaðan til Evrópusambandsins sé ásteytingarsteinn en það er vitað mál að innan beggja flokkanna eru einstaklingar með og á móti aðildarviðræðum. Í efnahags- og atvinnumálum eru áherslur áþekkar þótt vissulega séu þar mismunandi skoðanir t.d. varðandi rekstrarform ákveðinnar grunnþjónustu. Þó tókst þessum flokkum að sameinast í afstöðunni til oháeffunar RÚV.

 Mín afstaða er sú að ef ríkisstjórnin heldur velli þá eiga þessir tveir flokkar að setjast niður og skoða vandlega hvort ekki sé kominn tími til að tengja. Hættan er hins vegar sú að annar hvor flokkanna haldi Sjálfstæðisflokknum áfram við kjötkatlana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skildi Pétur þannig að flokkarnir ættu að lýsa því yfir að þeir ætluðu að vinna saman í næstu ríkisstjórn. Mér fannst hann alls ekki vera að tala um sameiningu. Hvað varðar sameiningartilraunirnar á árum áður finnst mér vera orðið tímabært að Samfylkingin hætti að vera í fýlu vegna þess að hópur manna "vildi' ekki vera mem" í gamla daga.

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband