14.4.2007 | 21:48
Hjörleifi Guttormssyni svarað
Hjörleifur Guttormsson sendi athugasemd við síðustu bloggfærslu mína þar sem hann notar tækifærið til að níða skóinn niður af Ingibjörgu Sólrúnu, finnur henni allt til foráttu og lýsir henni sem valdasjúkum einstaklingi sem fer fram af slíku offorsi að sviðin jörð er þar sem hún hefur farið um.
Ingibjörg Sólrún sundraði Kvennalistanum um og upp úr 1990 þannig að sú hreyfing bar ekki sitt barr síðan. Hún gekk gegn yfirlýstri stefnu hópsins í Evrópumálum og gerði Kvennalistann um leið ótrúverðugan. Hún var þá þegar farin að gæla við forsætisráðuneytið, hugsun sem alla götu síðan hefur ráðið hennar gerðum. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga 2003 gekk hún af Reykjavíkurlistanum dauðum með því að stíga fram í landsmálin á nýjan leik (ætlaðist reyndar til þess að hún gæti haft hvorutveggja í takinu, borgarstjórastólinn og framboð sem forsætisráðherraefni!). Eftir á reynir hún síðan stöðugt að þakka SÉR það jákvæða sem tengja má við R-listasamstarfið, en sem var afurð af samstarfi þriggja stjórnmálaflokka. Eftir að framboði hennar sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar mislukkaðist 2003 réðist hún til næstu atlögu og nú gegn Össuri Skarphéðinssyni þokkalega vinsælum formanni Samfylkingarinnar, og tókst að fella hann og sáldra sárum hér og þar í hold Samfylkingarfólks. Þátt hennar í stóriðjustefnunni með uppáskrift á Kárahnjúkavirkjun þekkir þú jafn vel og ég. - Það vill oft brenna við að mjög metnaðargjarnt fólk endar í klifri sínu einni eða fleiri tröppum ofar en það ræður við, og þá blasir við hættan á að missa fótanna.
Ingibjörg Sólrún hafði þá framsýni sem Hjörleifur og ýmsir fleiri á vinstri væng stjórnmálanna höfðu ekki að EES samningurinn væri afar hagstæður okkur. Kvennalistinn leið ekki fyrir það og hvernig sú afstaða Ingibjargar á að sýna að hún hafi verið farin að gæla við forsætisráðherrastólin er mér hulin ráðgáta.
Varðandi brotthvarf Sollu úr borgarstjórastólnum þegar hún ákvað að taka fimmta sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem af flestum var talið vonlaust sæti, þó þegar til kastanna kom munaði einungis örfáum atkvæðum á að hún næði kosningu, þá voru það fulltrúar VG og Framsóknar í R-listanum sem boluðu henni burt. Það var síðan Árni Þór Sigurðsson, gamall samstarfsmaður minn og félagi af Þjóðviljanum og Helgarblaðinu, sem endanlega gekk frá R-listanum. Hann er nú borgarfulltrúi VG og í framboði til þings. Hvernig gengur það upp Hjörleifur?
Ingibjörg Sólrún bauð sig fram gegn Össuri til formanns og hafði betur í lýðræðislegustu formannskosningu sem haldin hefur verið af nokkrum stjórnmálaflokki á Íslandi. Allir skráðir flokksmenn fengu að taka þátt í kjörinu. Það var erfitt val enda tveir mjög hæfir stjórnmálamenn í framboði. Solla hafði betur og eins og gamall félagi minn Kurt Vonnegut sem er nýfarinn yfir móðuna miklu var vanur að segja, So it goes. Hvernig er það annars Hjörleifur, mætti Ögmundur ekki bjóða sig fram til formanns VG gegn Steingrími J.?
Lýðræðisást þín Hjörleifur er dulítið sérstök. Í gær birtist eftir þig grein þar sem þú hvetur Ómar Ragnarsson til að draga framboð Íslandshreyfingarinnar til baka þar sem hreyfingin virðist taka atkvæði frá VG. Það tekur enginn atkvæði frá einum eða neinum. Atkvæði eru ekki eign ákveðins flokks. Flokkarnir verða að lúta vilja kjósenda. Það er lýðræðið. Og sem betur fer er lýðræðishugsun Íslendinga það þroskuð að öllum er heimilt að bjóða fram, jafnvel þótt það komi einhverjum illa. Auk þess þá er Íslandshreyfingin ekki Ómar. Hann er partur af henni. Og ef ég man rétt þá mældust Vinstri grænir ekki mjög hátt í skoðanakönnunum þegar þeir buðu fyrst fram.
Hvað kaffið varðar þá var gaman að spjalla við þig á sínum tíma og ég efa ekki að við gætum spjallað um hin aðskiljanlegustu málefni yfir góðum bolla. Frásagnir þínar um Austurland í Árbókum ferðafélagsins hafa m.a. verið mér góður og gegn vegvísir um það fagra svæði.
Athugasemdir
Gott svar hjá þér nafni. Hérna er hlekkur á greinina góðu um Hjörleif, sem Benedikt vitnar í:
http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/161317/#comments
Sigurður J. (IP-tala skráð) 15.4.2007 kl. 00:32
Sæll Sigurður Á.
Ég undrast viðbrögð þín og útleggingar á orðum mínum. Þú varst sjálfur að velta fyrir þér slöku gengi Samfylkingarinnar um þessar mundir og þætti formannsins í því samhengi. Síðan slítur þú orð mín úr samhengi og segir mig finna Ingibjörgu Sólrúnu allt til foráttu. Ég tók sérstaklega fram að ég teldi hana hafa marga kosti sem einstaklingur og í krafti þeirra hafi hún komist þar sem hún nú er stödd. Ég hélt að þú værir í alvöru að leita skýringa á stöðunni, en það er sennilega misskilningur. Vísa annars í athugasemd mín í heild við pistli þínum: Hvað eru konurnar eiginlega að pæla?
Með bestu kveðju Hjörleifur
Hjörleifur Guttormsson, 15.4.2007 kl. 06:39
Mér fannst Hjörleifur lítill karl þegar hann bað Íslandshreyfinguna að hætta við framboð af því hún tók fylgi frá VG. Þetta er Kremlarlógía sem við er að búast frá Hjörleifi. Við sem munum langt vitum að hann talar nú á annan veg en þegar hann vildi virkja á Eyjabökkum og talaði fyrir stóriðju á Austurlandi. En það var víst þá og menn mega alveg skipta um skoðun. Steingrímur rauðliði að austan vildi virkja í neðanverðri Þjórsá þar til fyrir skömmu þegar hann vill ekkert við það kannast og svarar engu. Ég gef lítið fyrir hugsjónir VG og þeirra félga...þetta er fyst og eingöngu poppulismi. Þetta eru gamlir afturhaldssossar í felulitum
Jón Ingi Cæsarsson, 15.4.2007 kl. 09:51
Ég er dálítið hissa á að baktjaldahöfðinginn í VG skuli skríða fram á sjónarsviðið með þessum hætti. Hvað ávinning telur hann sig hafa af því að ráðast á Ingibjörgu Sólrúnu með þeim hætti sem hann gerir? Er hann að reyna að ala vísvitandi á sundurþykkju á vinstri kantinum rétt fyrir kosningar?
Því miður er það svo, að Hjörleifur Guttormsson er böl sem VG hefur orðið að burðast með í farangrinum frá upphafi. Það er t.d. ekki ósennilegt að karlin telji að hann eigi VG umfram aðra félaga í þeim flokki, sé Drottinn sjálfur á bak við tjöldin í flokknum.
Jóhannes Ragnarsson, 15.4.2007 kl. 10:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.