13.4.2007 | 21:14
Hvað eru konurnar eiginlega að pæla?
Það blæs ekki byrlega fyrir mínum flokki nú þegar um mánuður er eftir til kosninga. Tvær kannanir sem birtust í dag, í Dagblaðinu og könnun Gallup fyrir RÚV og Mbl sýna Samfylkinguna með 18 19% fylgi. Þetta eru ekki uppörvandi fréttir fyrir flokkinn nú þegar hann blæs til landsfundar í stærsta samkomurými landsins, Egilshöll en vonandi þjappa þær honum saman til nýrrar sóknar.
Það er illskiljanlegt hvers vegna Samfylkingunni tekst ekki að ná út með boðskap sinn. Flokkurinn er með vel ígrundaða stefnu í umhverfismálum sem hefur verið kynnt sem Fagra Ísland. Í vikunni var kynnt ítarleg úttekt á efnahagsmálum þjóðarinnar og hvað nauðsynlegt er að gera til að rétta kúrsinn sem Jón Sigurðsson fyrrum iðnaðarráðherra og bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans átti mestan þátt í að móta. Þá hefur verið unnið ítarlega að stefnumótun í velferðar- og menntamálum þjóðarinnar. Engu að síður hefur flokkurinn verið á niðurleið.
Það merkilegasta við þessar skoðanakannanir er að það eru konurnar sem virðast vera að yfirgefa flokkinn. Þrátt fyrir það að Solla sé eini kvenformaður stjórnmálaflokks á Íslandi. Þrátt fyrir það að þegar forystumenn flokkanna mæta saman í sjónvarpssal þá er hún sú eina sem sker sig úr þar sem hún er ekki með bindi. Þrátt fyrir það að hún er mjög málefnaleg og fylgin sér í málflutningi sínum. Þrátt fyrir það að hún hefur starfað að kvenfrelsismálum allt frá stofnu Kvennalistans á sínum tíma. Þrátt fyrir það að hún átti stærstan þátt í að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum í Reykjavík. Þrátt fyrir það að henni tókst að minnka kynbundinn launamun hjá borginni verulega á sínum tíma. Þrátt fyrir það að hún gæti orðið fyrsti kvenforsætisráðherra Íslands. Hvað eru konurnar eiginlega að pæla?
Ég hef samt fulla trú á því að nú sé leiðin einungis upp á við. Þessi glæsilegi landsfundur mun verða vendipunkturinn og Samfylkingin nær vopnum sínum og hún ásamt Vinstri grænum kemur núverandi stjórnarflokkum frá kjötkötlunum þannig að velferðarkerfið sem verkalýðshreyfingin og vinstri flokkarnir hafa byggt upp verði varið og endurreist öllum almenningi til hagsbóta.
Ræða Sollu í kvöld var full bjartsýni á að þetta takmark náist.
Athugasemdir
Heill og sæll, Sigurður minn !
Hvað ertu að tauta, drengur ? Hví, í ósköpunum setjið þið ekki; hina ágætu stórfrænku mína, Ingibjörgu Sólrúnu til hliðar ? Er ekki tími Jóhönnu kominn ?
Hélt, í barnslegri einfeldni minni, að þú hafir verið; fyrir löngu, genginn úr helvítis kratafylkingunni, Sigurður minn. Vona, að þú hættir, sem allra fyrst, að uppnefna vini mína, í Frjálslynda flokknum, þeir eiga annað, og betra skilið, ekki hvað sízt, af hálfu góðra drengja, sem þú svo sannarlega ert, Sigurður minn.
Veistu það Sigurður, að allan þann tíma, sem við stóðum saman, í baráttunni, gegn stækkun Straumsvíkur álvers, að þá var eitthvað, í minni undirmeðvitund, sem sagði mér, að okkar sjónarmið yrðu ofaná. Kann ekki að útskýra, en..... það er eins og samstilling huga margra, í senn; fái nokkru áorkað, þegar mikið liggur við. Þetta er mjög sérstök tilfinning, Sigurður. Þótt við séum ósammála, í mörgum greinum, þá náum við samt saman, um mörg góð mál, sem varða heill og hag samferðafólks okkar, og afkomenda.
Haf þú, og þitt fólk það sem allra bezt, Sigurður minn.
Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 21:50
Sæll og blessaður Sigurður Á.Skemmtilegt að hitta þig aftur fyrir á þessum vettvangi bloggsins. Man síðast eftir að við sátum á spjalli í kaffistofu Alþingis. Það er býsna langt síðan. Tíminn flýgur hratt.Ég vissi ekki að þú værir í Samfylkingunni en þangað lenti mikið af góðu fólki í leit að Stóra Jafnaðarmannaflokknum. Ég hafði aldrei trú á þeirri klisju málefnanna vegna, fann hversu holt var undir í aðdraganda Samrunans mikla 1998 og kvaddi samkvæmið.Nú ætla ég ekki að kveða upp stóra dóma um vegferð Samfylkingarinnar, best færi á því að menn legðust í slíkt innanfrá til að kanna hvar meinið liggur. En út af vangaveltum þínum um hvers vegna Samfylkingunni vegnar ekki betur en raun ber vitni og hversvegna konur safnast ekki meir að flokknum þrátt fyrir Ingibjörgu sem formann nefni ég til íhugunar eftirfarandi:Ingibjörg Sólrún sundraði Kvennalistanum um og upp úr 1990 þannig að sú hreyfing bar ekki sitt barr síðan. Hún gekk gegn yfirlýstri stefnu hópsins í Evrópumálum og gerði Kvennalistann um leið ótrúverðugan. Hún var þá þegar farin að gæla við forsætisráðuneytið, hugsun sem alla götu síðan hefur ráðið hennar gerðum. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga 2003 gekk hún af Reykjavíkurlistanum dauðum með því að stíga fram í landsmálin á nýjan leik (ætlaðist reyndar til þess að hún gæti haft hvorutveggja í takinu, borgarstjórastólinn og framboð sem forsætisráðherraefni!). Eftir á reynir hún síðan stöðugt að þakka SÉR það jákvæða sem tengja má við R-listasamstarfið, en sem var afurð af samstarfi þriggja stjórnmálaflokka. Eftir að framboði hennar sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar mislukkaðist 2003 réðist hún til næstu atlögu og nú gegn Össuri Skarphéðinssyni þokkalega vinsælum formanni Samfylkingarinnar, og tókst að fella hann og sáldra sárum hér og þar í hold Samfylkingarfólks. Þátt hennar í stóriðjustefnunni með uppáskrift á Kárahnjúkavirkjun þekkir þú jafn vel og ég. - Það vill oft brenna við að mjög metnaðargjarnt fólk endar í klifri sínu einni eða fleiri tröppum ofar en það ræður við, og þá blasir við hættan á að missa fótanna. Ég held að margir skynji feril núverandi formanns Samfylkingarinnar í þessa veru og það eigi nokkurn þátt í þeirri tilfinningu fjölda kjósenda að Samfylkingin sé ótrúverðug. Með þessu er ég ekki að fullyrða að Ingibjörgu sé alls varnað, hún hefur marga kosti sem einstaklingur, og í krafti þeirra hefur hún komist þangað sem hún nú er stödd. Það er margt annað sem veldur því að Samfylkingin nær ekki tökum á því sem hún ætlaði sér.Vona svo að við eigum eftir að spá í bolla saman þegar um hægist og þokunni léttir að loknum kosningum.Með bestu kveðjum Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson, 14.4.2007 kl. 10:43
Viðvera Hjörleifs Guttormssonar í VG er sannarlega einn stór mínus fyrir þann flokk. Hann, ásamt gömlu flokkseigendaklíkunni úr Alþýðubandalaginu, tók VG umsvifalaust í gíslingu þegar flokkurinn var stofnaður og hafa á margan hátt staðið VG fyrir þrifum allar götur síðan. Mér verður oft hugsað til Ögmundar Jónassonar, þess einlæga vinstrimanns, að þurfa að vinna alla daga með með þessu fólki og taka tillit til kenjanna hrokans í því. Það hlýtur að vera sálardrepandi hlutskipti.
Jóhannes Ragnarsson, 15.4.2007 kl. 11:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.