Stofnfundur Hraunavina

Ég var á stofnfundi Hraunavina nú síðdegis. Fundurinn var haldinn í gamla félagsheimilinu að Görðum. Í samþykktum félagsins segir að þetta sé félagsskapur sem láti sér annt um byggðaþróun og umhverfismál í Álftaneshreppi hinum forna, einkum hið sérstæða umhverfi, hraun, vötn og strendur sem teljast til bæjarlands í Garðabæ, Hafnarfirði og á Álftanesi.

 

Kveikjan að stofnun þessara samtakta má segja að sé það umhverfisslys sem varð þegar Víðistaðahraunið og Urriðakotshraunið var brotið undir risaskemmur IKEA og fleiri verslunarrisa án þess að almenningur fengi neitt um það sagt.

 

Upphaflegir stofnendur samtakanna voru Ólafur G. Einarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Pétur Stefánsson, Reynir Ingibjartsson, Jónatan Garðarsson og Eymundur Sveinn Einarsson, en þessi kjarni kom saman 1. febrúar sl. og lagði drög að þessum félagsskap. Ólafur G. var því miður fjarri stofnfundinn í dag því hann fór í hjartaþræðingu um helgina.

 

Á fundinum í dag voru hátt í fimmtíu manns og ríkti mikill einhugur um það að umgangast bæri umhverfi þessara þriggja byggðarlaga af mikilli varúð enda „um fágæt umhverfisverðmæti að ræða sem vernda ber eins og kostu er, okkur sem nú lifum og komandi kynslóðum til lífsfyllingar og skilnings á náttúrunni í kringum okkur,“ eins og segir í samþykktum félagsins.

 

Kosin var fimm manna stjórn á fundinum og var Pétur Stefánsson kjörinn formaður hennar.

 

Á fundinum flutti Sigmundur Einarsson jarðfræðingur afar forvitnilegt erindi um hraun og jarðmyndanir svæðisins og Jónatan Garðarsson fór í ævintýraferð um svæðið í myndum og frásögn þar sem hver þúfa, hraundrangi og hellisskúti átti sitt örnefni.

 

Í samþykktum felagsins segir að tryggja beri aðkomu almennings í þessum þremur bæjarfélögum að töku ákvarðana um náttúruverðmæti, ekki síst hraunin og að þeim verði ekki raskað nema brýna nauðsyn beri til vegna byggðar og samgangna og að undagenginni ítarlegri kynningu meðal íbúanna. Þá sé nauðsynlegt að löggjöf um umhverfisvernd og skipulagsmál tryggi aðkomu íbúa að ákvarðanatöku þegar um umtalsverðar breytingar á umhverfi og landslagi er að ræða.

 Eitt af meginmarkmiðum félagsins er að láta meta verndargildi hinna ýmsu náttúrufyrirbæra og landslagsheilda og fylgjast náið með skipulagsmálum og framkvæmdum í bæjarfélögunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Frábært framtak. Ekki veitir af vinum í náttúruverndinni. Bestu óskir til ykkar.

Lárus Vilhjálmsson, 11.4.2007 kl. 21:15

2 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Takk félagi

Sigurður Á. Friðþjófsson, 11.4.2007 kl. 21:47

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég hef lengi haft orð á hve merkilega andvarlaus við erum um okkar næsta nágreni, t.d. hraunin og ekki síst gígana þar sem t.d. er verið að moka í burtu þeim sem næsti standa nokkru höfðuborgarsvæði í heiminum þ.e. fá km fyrir ofan Vallahverfið í Hafnarfirði sem svo aftur er byggt á hrauni sem ranna fyrir aðeins 850 árum. Inniá Blogginu mínu er mynd af þeim gíg sem næstur er Hafnarfirði og álverinu en frafa stendur í honum miðjum.

Helgi Jóhann Hauksson, 15.4.2007 kl. 02:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband