10.4.2007 | 21:17
Þaggið rasismann í hel
Fylgdist með kosningasjónvarpi RÚV í gær og í kvöld. Þættirnir eru upplýsandi og stjórnendur hafa staðið sig með prýði og það sama má segja um flesta frambjóðendur. Eitt vil ég þó setja út á en það er hversu mikla athygli og stórum hluta af takmörkuðum tíma þáttanna er varið í rasíska stefnu Frjálslyndra í garð útlendinga. Í þættinum í kvöld um utanríkismál fékk Magnús Þór að halda langt eintal um innflytjendavána. Af hverju var ekki frekar rætt um stuðning ríkisstjórnarinnar við harmleikinn í Írak. Ræðum alvöru mál en leyfum ekki Frjálslyndum að vaða á súðum og ala á ótta við innflytjendur.
Það er hins vegar aðdáunarvert hvað fulltrúar allra annarra framboða eru sammála um að fordæma þennan málflutning. Innflytjendapólitík Frjálslyndra hefur ekkert með utanríkismál að gera. Hún er vinsældaveiðar flokksins í gruggugum polli lægstu hvata kjósenda. Skoðanakannanir sýna sem betur fer að þær veiðar ganga ekki vel því flokkurinn mælist nú með lægra fylgi en fyrir þennan veiðitúr. Fyrst þegar þessi stefna var kynnt virtist fylgið taka kipp en ég reikna með að fylgi fyrrverandi stuðningsmanna hafi hrunið af flokknum við klofninginn að ég tali ekki um þegar grímulausar auglýsingarnar fóru að birtast. Íslenska þjóðin er að upplagi gestrisin og kann auk þess að þakka vel unnin störf í þágu samfélagsins.
Athugasemdir
Sammála þér Sigurður. Magnús Þór var skotinn í kaf í kvöld og það var áberandi í gærkveldi hvað Guðjóni Arnari leið illa með að verja þessa "Stefnu" Frjálslynda. Þeir eru líka með þessum málflutningi búnir að mála sig útí horn varðandi önnur mál því eftir þetta innflytjendaflipp virðast fáir taka mark á þeim í öðrum málaflokkum. Það fór aðeins í mig hvað stjórnmálamenn, sérstaklega á vinstri vængnum voru lengi að taka við sér að skjóta þessari vitleysu í kaf en það virðist loksins vera að gerast og greinilegt að flestir eru að verða að fá nóg af þessu bulli. Það er svo á hinn veginn áberandi hvað stjórnarflokkarnir forðast að tala um alvöru utanríkismál eins og ástandið í miðausturlöndum og Íraksstríðið sem þú bendir réttilega á.
Kristján Kristjánsson, 10.4.2007 kl. 21:36
Sælir Sigurður og Kristján, sem aðrir skrifarar !
Hvaða helvítis snakk er þetta, hjá ykkur ? Magnús Þór var hinn errilegasti, á fundinum, eða hvað sýndist ykkur ? Hann verður a.m.k. ekki sakaður um neina hræsni, í umræðunni.
Hvern fjandann varðar okkur, um Mesópótamíu (Írak) og Mið- Austurlönd, yfirleitt ?
Verð þó að taka fram, ykkar meiningum til fulltingis, að það hefði átt að gjöra þá Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ábyrga, fyrir þessarri fáránlegu ákvörðun þeirra, í Marz 2003, hvað snertir vinalista Bush - og Blair stjórnanna !
Með beztu kveðjum, piltar / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 21:49
Nauðsynlegt að beina ekki athyglinni um of að rasistamálflutningi Magnúsar Þórs, það er rétt en við meigum heldur ekki láta eins og hann sé ekki til. Ég vildi fá umræðu um Íraksstríðið. Þar hafa fallið amk. 70.000 manns frá því að það hófst. Mikl skömm að við Íslendingar skulum nú vera stríðandi þjóð. Það erum við og ekkert annað.
Jenný Anna Baldursdóttir, 11.4.2007 kl. 02:33
Sæll Sigurður.
Ég er ekki talsmaður frjálslynda flokksins. Ég skil hins vegar ekki hversu menn eru viðkvæmir fyrir innflytjendaumræðunni. Þessi mál þarf að ræða án þess að að túlka þau sem rasisma. Við þurfum ekki að líta nema til Danmerkur og Svíþjóðar til að skynja að innflytjendamál geta orðið nokkuð flókin - aðallega þó gagnvart fólki sem kemur úr öðru menningarsamfélagi en við. Ég er sammála Magnúsi að þessu leiti...þó svo að ég sé nánast aldrei sammála nokkru sem þessi maður segir. kv. Berglind
Berglind (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 09:17
Danmörk og Svíþjóð eru ekki lönd sem hægt er að bera saman við Island, fyrst og fremst vegna þess að hér er ekkert atvinnuleysi meðal innflytjenda. þeir sem hingað koma eru í flestum tilfellum komnir til að vinna og greiða hér sína skatta, í lífeyris og stéttarfélög, en fæstir eru með fjölskyldur eða nýta til baka nokkuð af sínum skattpeningum. Við erum öll frá mismunandi menningarheimum, menning er ekki bundin við lönd eða svæði. Ísland eer land sem erfitt er að byggja svo við ættum að fagna þeim sem hér vilja búa.
Guðrún Vala Elísdóttir
Guðrún Vala (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 11:57
Eitt svívirðilegasta sem hægt er að gera í daglega lífi og um leið í stjórnmálum er að kalla einhvern rasista. Hvernig eiga menn að bregðast við þegar menn eru kallaðir rasistar? Þetta er um leið mjög auðveld leið fyrir andstæðinga að koma skoti á andstæðing sinn. Þetta hefur verið leið i Bandaríkjunum þvi með þeim hætti verður sá sem kenndur við rasisma að reyna eftir fremsta megni að afsanna það sem er ekki alltaf auðvelt. Ef ég myndi kalla þig Sigurður rasista, hvernig getur þú sannað að þú sért það ekki? Getur þú það með réttum hætti þannig að allir séu sammála þér. Hvernig veistu að hegðun þín hafi ekki einhvern tímann verið umdeild og gæti verið túlkuð sem rasísk. Einmitt þetta er ekki auðvelt. Frjálslyndir eru ekki fullkomnir í sínum málum en eru hinir flokkarnir betri? Þeir fordæma Frjálslynda og kalla þá rasista og vera vonda við útlendinga. En málið er að þetta fer að verða vandamál ef ekkert er gert í þessum málum, og fólki hjálpað að aðlagast. Almennt skólastarf er að verða erfiðara því aðstaða, fjármagn og kunnátta er ekki til staðar til að kenna nýbúum íslensku svo eitt dæmi sé nefnt. Þessi umræða á ekki að snúast í því að kalla einhverja rasista heldur fremur svo hvað eigum við að gera. Ef við viljum hafa núverandi þennslu og fjölda útlendinga þurfum við að kenna fólki að kenna öðrum fólki af erlendu bergi brotið íslensku. Allt þetta kostar penning sem hefur ekki verið til staðar, né heldur fólk til þess að taka þetta að sér. Skulum ekki fordæma Frjálslynda heldur tökum þessa umræðu á þann pall sem hann á skilið í stað þess að stinga hausnum í sandinn og segja að allt sé fullkomið og ekkert vandamál sé til staðar. Hættum því að kalla einhverja rasista það hjálpar engum.
E.Ólafsson, 11.4.2007 kl. 14:54
Hvaðan kemur þessi nýji sjúkdómur í íslenskri pólitík að væla yfir því að ekki megi ræða málin þegar allir eru ósammmála manni. Eru allir orðnir að einhverjum teprum? Framsóknarflokkurinn var lagður í einelti í fyrra, Ingibjörg Sólrún hefur verið lögð í einelti í vetur, Frjálslyndir mega ekki segja neitt.... öhöhö... Það er verið að ræða inflytjendamálin við Frjálslynda og þeir tala um þau í drep. Allir hinir eru bara ósammála. Magnús Þór hélt langa ræðu um málið í gærkvöldi. Hvaða sjálfsvorkunn er þetta? Halda menn virkilega að það nægi að fá snjalla vitrun um meint þjóðfélagsvandamál og þá eigi þeir að komast fremst á mælendaskrá og allir eigi svo að sitja kankvísir á svip og íhuga málin af yfirvegun og skynsemi og segja svo ekkert fyrr en þeir eru orðnir hálf-sammála eða jafnvel al-sammála eða bara gengnir í Frálslyndaflokkinn? "Ég læt sko ekki þagga niðrí mér" segir Magnús Þór. Hver er að reyna það? Þetta er nú meiri vænisýkin.
Pétur Tyrfingsson, 11.4.2007 kl. 15:51
Eiríkur
Umræða Frjálslyndra um málefni innflytjenda nú verður ekki slitin úr samhengi við upphaf hennar, greinaskrif núverandi oddvita F í Reykjavíkurkjördæmi Suður og ummæli um að hann vilji ekki hingað Syni Múhameðs. Hún verður heldur ekki slitin úr samhengi við það flóð rasískra athugasemda um "vandamálin" og glæpina sem fylgja útlendingum sem standa óhreyfðar og ómótmælt á vefsíðum fulltrúa Frjálslyndra eða hafa fallið á opinberum fundum um málið.
Við blasir að sú höfðun til lægstu hvata ótta og fordóma er önnur hliðin á þessum peningi. Sparihliðin er Magnús Þór að lýsa áhyggjum af því að ekki sé hægt að taka nógu vel á móti öllum sem hingað vilja koma til vinna eða af félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Á meðan þeir takast ekki á við uppruna umræðunnar og skuggahliðar hennar sem grassera hvarvetna rétt í jöðrum kastljóssins er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að Frjálslyndum þyki ekkert leitt að fiska eftir atkvæðum í því grugguga vatni og þaðan kemur t.d. sá tónn sem Sigurður slær hér.
Önnur ástæða fyrir því hve erfitt er að eiga vitræna umræðu við Frjálslynda um þessi mál er sú staðreynd að tvær meginfullyrðingar þeirra, sem endurteknar eru í sífellu, eru efnislega rangar.
Önnur er sú að allir flokkar nema Flistinn hafi brugðist launafólki þegar Alþingi ákvað að í stað þess að fyrri ákvörðun þingsins um opnun vinnumarkaðar gagnvart nýjum aðildarríkjum EES tæki gildi án fyrirvara skyldu settar reglur um skráningar- og eftirlitsskyldu á vinnumarkaði. Sú afgreiðsla sem þeir vísa til var ekki ákvörðun um opnun heldur hvernig að fyrri ákvörðun skyldi staðið.
Hin ranga fullyrðingin er sú blekking gagnvart kjósendum að ef F-listinn komist til valda geti Íslendingar einhliða "stjórnað" því hverjir hingað koma af EES svæðinu á grundvelli neyðarréttar án þess að það hafi neinar alvarlegar afleiðingar. Allir aðrir flokkar hafa reynt að benda þeim á að þetta sé alrangt en það er léttara að slá fram fullyrðingum í gruggugri atkvæðaleit en að ræða málið efnislega svo þar halda þeir ótrauðir áfram. Enda væntanlega að spila á sama óttann með þessu falska loforði um "stjórnina" á "flæðinu" og þeir gerðu í upphafi umræðunnar.
Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 16:53
Er þá ekki rétt að láta eitt yfir alla ganga og þagga kommúnismann í hel ? Gamall kommaflokkur sem hefur skreytt sig með fölskum grænum fjöðrum og bleikri femínistahulu til þess að höfða til lægstu kennda kjósenda. Hvað er verið að veita þessari stórhættulegu stefnu athygli í fjölmiðlum ?
LM, 11.4.2007 kl. 20:35
Hér hefur orðatiltæki skolast til. Ég held að Siggi hafi verið að meina að "þegja" Frjálslyndraí hel fremur en að "þagga" þá í hel. Sem er auðvitað sitt hvað. Feginn væri ég bæði að þetta væri nú bara hula og líka ef skvaldrinu í "grænu kerlingunum" linnti. Enda gamall og gegn sósíalisti.
Pétur Tyrfingsson, 11.4.2007 kl. 21:04
Já það má vera, en fyrirsögnin var "þaggið" sem er reyndar kannski einkennilegt. Mér finnst nú bara hressandi að sjá að það eru ennþá til gamlir kommar, .. ehem.. sólíalistar sem ekki hugnast popúlismi Steingríms hins græna.
LM, 11.4.2007 kl. 21:09
Það er ljóst að innflytjendaumræðan kallar fram sterk viðbrögð. Sum á sömu nótum og þeir Jón og Magnús Þór predika eins og hjá Eiríki Ólafssyni. Það er vissulega rétt hjá honum að öll höfum við sjálfsagt gert eitthvað sem við hefðum viljað látið ógert. Ég efast hins vegar um að orð eða gerðir mínar í gegnum tíðina hafi nokkurntíman geta verið túlkuð sem rasismi. Pistill Arnars kemur hins vegar beint að viðfangsefninu og skilgreinir það mjög vel að mínu mati. Hvað LM varðar þá er óþarfi að væna gamlan Hafnarfjarðarkrata um falskar grænar fjaðrir og bleika feministahulu. Þar á hann líklega við VG og efast ég um að þeir telji innlegg hans svaravert. Ykkur hinum sem hafið tekið undir að boðskapur FF sé hættulegur og til þess eins að fiska í gruggugu vatni þakka ég viðbrögðin.
Sigurður Á. Friðþjófsson, 11.4.2007 kl. 21:10
Ég var nú bara að benda á hvað þessi "rasistaumræða" er vitlaus og á lágu plani. Fyrir mér eru hættulegar öfgar að ætla að setja lög um kynjahlutföll, skattpína millitekjufólk inn að beini og reka fjármálastarfssemi úr landi.
Hins vegar vorkenni ég dálítið gömlum krötum, vonandi náið þið flokknum ykkar aftur úr klóm kvennalista
LM, 11.4.2007 kl. 21:28
Já Pétur, orðalagið var nefnilega "þaggið". Þegar rökin þrýtur þá skal grípa til svona ráða!
Kristján H Theódórsson, 12.4.2007 kl. 14:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.