Því Guð býr í gaddavírnum amma!

hallgrimurp1Í tilefni dagsins skruppum við í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd og skoðuðum þar skemmtilega sýningu á verkum fjölmargra íslenskra myndlistarmanna sem túlkuðu Hallgrím Pétursson hver á sinn hátt. Var skemmtilegt að virða fyrir sér persónulegt handbragð listamannanna á verkefninu. Það er ekki auðvelt að gera upp á milli þeirra en mest höfðaði mynd Húberts Nóa til mín, en það er bara mitt persónlega mat.

 

Á morgun verður meistari Megas með tónleika í kirkjunni þar sem hann flytur passíusálmana. Við hæfi var að einn listamannanna birti ljósmynd af Megasi og var hann eflaust að höfða til þess að Megas væri nútíma sálmaskáld, en því má heldur ekki gleyma að Hallgrímur orti mikið af veraldlegum vísum og ljóðum.

 

Á leiðinni uppfrá kirkjunni stoppuðum við og skoðuðum uppsprettu lindarinnar sem séra Hallgrímur laugaði sig í eftir að hann hafði fengið holdsveikina.

 

Hvalfjörðurinn skartaði sínu fegursta í dag. Sól skein í heiði og þótt gróðurinn sé ekki enn farinn að taka við sér var vor í lofti. Fjöldi höfuðborgarbúa sá ástæðu til að skreppa í bíltúr upp í Hvalfjörð og í fjörunni við Fossá voru fjölmargir að tína krækling enda stórstraumsfjara. Ótrúlegt að fólk hafi bölvað þessum krók á árunum áður. Mun skemmtilegra útsýni en ofan í göngunum, þótt óneitanlega séu þau stórkostleg samgöngubót.

 

Hver er dáinn? spurði strákurinn okkur, því við kirkjuna, Ferstiklu og víðar var flaggað í hálfa stöng. Já enn eitt árið er þess minnst að Jesús var krossfestur á Golgata fyrir tæpum tvö þúsund árum. Ég man að þegar ég var yngri var þessi dagur sá heilagasti og fannst okkur börnunum hann því einn sá leiðinlegasti. Í dag er heldur ekki eins og hver annar helgidagur í huga mínum þótt ég teljist seint í hópi trúaðra einstaklinga. Nei það er uppeldið, hefðin og hin stórbrotna saga Krists sem veldur því.

 Því Guð býr í gaddavírnum amma!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Vertu með mér meyjarblómið Amma!

Ég og konan mín fórum einmitt i saurbæjarkirkju í Eyjafirði nú á föstudeginum langa. Agaleg kyrrð og ró við að fara í gamla, lúna kirkju á þessum helgasta degi ársins.  

Sveinn Arnarsson, 6.4.2007 kl. 18:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband