Rebbi í stríð við innflytjendur

Á seinni hluta fyrstu þúsaldar eftir Krist var hér einn fulltrúi landspendýra. Það var rebbi karlinn. Hafði komið hingað á hafís frá Grænlandi. Hann er hinn upprunalegi landnemi Íslands. Hér var gnótt matar, fuglalíf mikið og árnar fullar af fiski. Rebbi lifði hér sældarlífi enda enginn að keppa við hann um fæðuna. Honum fjölgaði því ört og nam nýjar lendur í suðri. En einn góðan veðurdag komu skektur af hafi með nokkra munka frá Írlandi og rebbi var ekki lengur einn um hituna í þessu landi. Og einhverjum árum seinna komu stærri skip  með fjölda innflytjenda og búfénað og hafði nú fánan fengið mikla fjölbreytni. Þetta var rebba að skapi því nú jókst fjölbreytnin á gnægtaborðinu. Lömbin voru í uppáhaldi.

 

Fjölbreytileiki tegundanna jókst statt og stöðugt. Einhvernveginn barst hagamúsin hingað og seinna húsamúsin og að lokum rotturnar. Síðan flutti maðurinn inn minkinn, en sá vargur slapp út og lagðist á fugla og fisk. Hann er nú réttdræpur hvar sem til hans næst og einnig er leyfilegt að plaffa á rebba.

 

Það er jú maðurinn sem hefur þraukað í þessu landi í yfir þúsund ár sem setur reglurnar. Íslenska þjóðin sem er upphaflega afrakstur blöndunar kelta og norrænna manna og síðar meir kemur blóðblöndun frá öðrum Evrópulöndum og frá öðrum heimsálfum. Hver man ekki eftir fregnum af því að Davíð í Svörtuloftum sé með svart blóð í æðum. En þjóðin var ekki bara í því að taka á móti heldur gaf hún einnig af sér. Íslendingar hafa frá örófi sest að í öðrum löndum og blandast þar íbúum viðkomandi lands. Vesturfararnir á seinni hluta 19. aldar eru bara eitt dæmi um slíka blöndun.

 

Í dag birtist aftur auglýsing „Frjálslyndra“ um Ísland fyrir Íslendinga. Refirnir Magnús Þór og Jón Magnússon vita að þjóðin er eins og þverskurður annarra þjóða og því örugglega jarðvegur hér fyrir rasískar skoðanir sem gætu ef spilað er á þessar lágkúrulegu hvatir fleytt þeim á þing. Afleiðingarnar skipta þá engu máli. Það eina sem skiptir máli er þingsætið. Tilgangurinn helgar meðalið.

 

Refurinn Jón Magnússon hefur gengið með þingmanninn í maganum frá unga aldri og Magnús Þór vill ekki þurfa að sækja um aðra vinnu.

 Hingað til hefur ekkert sérstakt vandamál skapast vegna nýbúa hér á landi. Upp til hópa er þetta iðjusamt fólk sem reynir að aðlagast þessu samfélagi. En með útspili „Frjálslyndra“ gætu verið í uppsiglingu erfiðir tímar fyrir okkur öll.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigurður.

Ef marka má þín skrif hér virðist svo vera að þú viljir að fyrst verði til vandamál svo skuli gengið i að leysa þau. Hvað með það atriði að fyrirhyggja væri meðferðis til tilbreytingar ?

Árásir þínar á Jón og Magnús eru lágkúrulegar.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.4.2007 kl. 01:21

2 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Bendi á þessa færslu.

Pétur Þorleifsson , 6.4.2007 kl. 09:53

3 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Afar ómálefnalegt og barnalegt.

Ég myndi ætla að þú værir sönnun sögusagna um greindarfar Hafnfirðinga ef ég vissi ekki betur. Það lætur enginn þenkjandi einstaklingur hafa þessar fleipur eftir sér.  

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 6.4.2007 kl. 14:21

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér datt bara í hug af engu tilefni (alls ekki út af færslunni): Eiga gaflarar það aldrei til að ganga af göflunum?

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.4.2007 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband