3.4.2007 | 18:07
Lögreglu sigað á unglinga að leik
Vorið er komið. Trjágróður byrjaður að bruma og farfuglarnir að nema land (hvernig er það annars Magnús Þór á ekki að banna þeim að koma líka, þeir geta jú flutt með sér sjúkdóma og sumir eru hálfgerðir vargar). Fyrirgefið þennan útúrdúr. Nema galsi hleypur í ungviðið þegar hlýnar í lofti og stundum eru unglingarnir einsog kálfar þegar þeim er loksins hleypt út í sumarbyrjun. Eðlilega fylgir því smá hávaði og sumum kann að finnast slíkt ónæði en að siga lögreglu á unglinga að leik er ansi langt gengið. Hypjið ykkur heim og hagið ykkur eins og eðlilegir unglingar og drepið mann og annan í tölvuleikjum en verið ekki í boltaleik hér á þessu leiksvæði. Slíkt má einungis stunda þegar fullorðnir eru úti að vinna. Nú þurfa þeir frið og ró.
Tilefni þessara skrifa er eftirfarandi frétt sem birtist á visir.is í gær:
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af unglingum á nokkrum stöðum á svæðinu seint í gærkvöldi, en ekki vegna ölvunar eða óspekta, heldur leikja. Fólk í grennd við leiksvæði og leikvelli kvartaði yfir gáska í krökkunum, sem voru í boltaleikjum og höfðu ekki hemil á vorleiknum, sem hlaupinn var í þá. Unglingarnir tóku tilmælum lögreglu vel, enda hafði hún skilning á útivist krakkanna svona seint, þar sem páskafrí er nú hafið í skólum.
Athugasemdir
Ónæði vegna hávaða kemur fordómum ekkert við. Hávaði er andstygglegur.
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.4.2007 kl. 21:50
Heill nafni!
Það er ámóta langt síðan við vorum unglingar og ég býst við að þú hafir jafnt og aðrir á þeim árum fundið þegar vorið skall á að það var eitthvað innra með okkur sem tók yfirhöndina og læsti úr læðingi gáska og gleði sem sprakk út í háværum leikjum. Hávaðinn sem því fylgdi var ekki andstyggilegur. Hann var yndislegur. en yndilegast var samt þegar Séra Gunnlaugur Stefánsson, sem þá var ekki orðinn séra heldur bara 14 ára ungmenni, hrópaði í knattleik á Svínatúni þegar andstæðingar hans voru í hörkusókn hátt og skipandi, "Stoppið strax." Og leikmenn stoppuðu. Þá lokaði verðandi klerkur vörninni meðp því að segja: "Hlustið á þögnina." Þetta hefði John Terry átt að reyna í kvöld þegar David Silva var að munda sig við að skjóta að marki Chelsea.
Sigurður Á. Friðþjófsson, 4.4.2007 kl. 22:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.