Hættuástand í Reykjavík

Maður er nefndur Reymond Henault. Hann hlýtur að eiga mjög hættulega óvini hér á landi því þegar hann ferðaðist á milli húsa í Reykjavík fylgdu honum sex mótórhjólalöggur og þrír löggubílar. Ég hef reyndar aldrei heyrt þennan mann nefndan áður og býst við að það sama gildi um yfir 90% þjóðarinnar þannig að þessi örfáu prósent sem vissu um tilvist hans hljóta að bera þungan hug til mannsins.

 

Henault mun vera formaður hermálanefndar NATO og var hann í heimsókn hjá Valgerði utanríkisráðherra um og upp úr hádegi í dag. Þar sem utanríkisráðuneytið er andspænis vinnustað mínum komst ég ekki hjá að verða vitni að heimsókninni. Eins og ég sagði þá voru mótórhjólalöggurnar sex þegar gestinn bar að garði og þrír löggubílar. Á meðan á fundinum stóð, en það var í um tvo tíma, spígsporuðu auk einkennisklæddu lögregluþjónanna nokkrir massaðir óeinkennisklæddir einstaklingar fram og aftur á tröppunum og stéttinni fyrir framan ráðuneytið. Sennilega lífverðir herra Henault og félaga hans. Ekki var gott að sjá hvort þeir bæru vopn en ég reikna alveg eins með því. Þetta var eins og klippt út úr bíómynd.

 

Löggubílarnir, hjólin og bílakostur gestanna voru í gang allan tímann sem fundurinn stóð. Ekki verið að spá í útblástur þar. Allt í einu kom hreyfing á mannskapinn. Lögregluþjónarnir stilltu sér upp í réttstöðu og yfirlífvörðurinn hljóp fyrir hornið til að kanna hvort basúkaskytta væri nokkuð stödd í brekkunni en svo reyndist ekki. Gaf hann þá skipun í gegnum símann um að öllu væri óhætt og opnuðust þá dyr ráðuneytisins og nokkrir misskrautlegir lautenantar og admírálar gengu út og fóru í bílana undir vökulu augnaráði þeirra sem gættu þeirra. Yfirlífvörðurinn settist inn í fremsta löggubílinn á eftir þremur mótorhjólum og svo var ekið af stað.

 Mikið hefði verið gaman að hafa teygjubyssu á skrifstofunni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Usss.....heyra þetta í þér karl. Veistu ekki að þetta er hluti af öryggisástæðum þjóðanna! Suss...svona barnaleg athugasemd. Suss og svei....

Eftir tæplega 8 ára vinnu mína hjá 112 veit ég að það er ALLT til og ALLT mögulegt!

Heyrðu, verður svo reist álver eftir allt!

Sveinn Hjörtur , 2.4.2007 kl. 21:11

2 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Æ gleymdi! Hvað fékkstu þennan frábæra vindil? Ertu búinn að reykja hann? ÞEtta er snilld.....

Sveinn Hjörtur , 2.4.2007 kl. 21:12

3 Smámynd: Frú Bjarkan

Hahahaha þetta fannst mér fyndinn pistill...............bjargaði deginum frá annars leiðinlegum yfirmanni   Ég hefði líka þurft að vera með teygjubyssu í vinnunni

Frú Bjarkan, 3.4.2007 kl. 12:22

4 Smámynd: Auðun Gíslason

Geta þeir ekki bara fengið sér eitthvað við paranojunni, þeir Reymond og BB?

Auðun Gíslason, 3.4.2007 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband