1.4.2007 | 19:05
Hreinsunargusturinn í Kaldárseli
Skrapp upp í Kaldársel í dag til þess að láta íslenska veðráttu, hraunið og mosann hreinsa heilabúið eftir orrahríð undanfarinna vikna. Þetta var ekki hreinsunareldur heldur hreinsunargustur. Engu að síður er hraunið í Kaldárseli, að ekki sé talað um móbergshrúgaldið Helgafell sjálfsagður hluti af elfjallaþjóðgarðinum sem andstæðingar stóriðjustefnunnar hafa talað um. Með niðurstöðunni í gær er sá möguleiki nær en margur hyggur.
Þetta var eins og fyrr sagði hreinsunargustur sem okkur stendur öllum til boða, öllum íbúum þessa lands sem og gestum okkar. Því er ég að hamra á þessu að heilsíðu auglýsing Frjálslynda flokksins sem blasti við mér og öðrum landsmönnum með morgunkaffinu í morgun, Ísland fyrir Íslendinga var eins og löðrungur eftir atburðarás gærdagsins. Gengur stjórnmálaafl á 21. öld á Íslandi virkilega svona langt í kynþáttafordómum og elur á lægstu hvötum mannsins?
Þessi flokkur verður ekki stjórntækur eftir kosningar. Gleymið kaffibandalaginu. Ég vil að Samfylkingin og Vinstri grænir lýsi því yfir strax að flokkur með þennan málflutning sé ekki hæfur til samstarfs.
Horfði á varaformanninn Magnús Þór í Silfri Egils verja þennan málstað, auk þess sem hann tók upp hanskann fyrir frambjóðanda flokksins í 5. sæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna, en sá hefur gengið enn lengra í sínum rasisma á bloggsíðu hér hjá MBL.
Hann talar um nýbúa frá Austur Evrópu sem heilbrigðisvandamál, félagsvandamál, glæpahyski sem stundi mansal og eiturlyfjasölu og ég veit ekki hvað. Hann lýkur færslu sinni með því að það sé nauðsynlegt að verja íslenska menningu og íslensk gildi. Mér er spurn. Hvað í ósköpunum er það?
Nei Ísland er ekki einungis land innflytjendanna fyrir 1200 árum. Ísland er allra. Það eiga allir að geta notið hreinsunargustsins í Kaldárseli.
Athugasemdir
Get ekki verið þér meira einhuga. Nú fyrir kosningar þurfa okkar flokkar af einurð og festu að burtreka þessa menn úr samfélagi siðaðra pólitíkusa.
Pétur Tyrfingsson, 1.4.2007 kl. 23:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.