Jákvæðasta fólk Hafnarfjarðar segir NEI

er yfirskrift á litlum bæklingi sem barst inn um bréfalúguna í dag frá Sól í Straumi. Þar var fullt af jákvæðum einstaklingum og þótti mér vænt um að náfrændi minn Gunni Beini væri í þessum hópi með góðkunningja mínum Jónatani Garðarssyni, Sóleyju Elíasdóttur sem keypti af mér íbúð, Magga Kjartans sem býr neðst í götunni minni, Stínu Einars sem er nátengd eiginkonu minni og öðrum góðum og gegnum Hafnfirðingum.

 

Þetta lá á gólfinu við bréfalúguna þegar ég kom heim í dag eftir að hafa farið með Völu Marie dótturdóttur mína að Bakkatjörn á Seltjarnarnesi að gefa brabra og svönum brauð, en þar sáum við fyrsta tjaldinn í ár. Þegar ég kom heim tók ég eftir því að gljámispillinn var farinn að bruma. Vorið er í nánd. Sól mun rísa yfir Hafnarfirði á morgun þegar bæjarbúar ganga til atkvæða um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík.

 

Einnig hafði mér borist bréf af bökkum Þjórsár. Það var frá ábúendum á 23 bæjum við bakka Þjórsár. Þetta var ákall til okkar Hafnfirðinga um að hugsa til íbúa austur í sveitum þegar við greiðum atkvæði á morgun og hjálpa þeim við að vernda stolt þeirra, Þjórsána, skraut hennar, fossa, flúðir, hólma, eyjar og bújarðir þannig að komandi kynslóðir fái notið hennar eins og hinar fyrri.

 

„Sælir eru hógværir því þeir munu landið erfa.“

 

Í bréfinu kemur fram að landslagi í og við Þjórsá verði umturnað frá Gaukshöfða og langleiðina til sjávar. Fimm stór uppistöðulón yrðu þá í sveitarfélaginu. Urriðafoss, Hestfoss og Búðafoss hyrfu. Eyjar sykkju og árfarvegurinn myndi nánast þorna upp á löngum köflum. Aðkoman að Þjórsárdal, eins þekktasta ferðamannasvæðis Íslendinga myndi sökkva í Hagalón. Margar bújarðir myndu skemmast og lífríki Þjórsár skaðast.

 Hafnfirðingar ekki viljum við hafa þetta á samviskunni annað kvöld. Segjum nei við stækkun!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir með bændum á Þjórsárbökkum.  Nú er nóg komið.  Við viljum ekki meira af þessu andstyggðarrugli og græðgi.  Þessar árásir á landið særa meira en orð fá lýst.  Hvers vegna er svona nauðsynlegt að hjálpa erlendu álfélagi að græða ennþá meira?  Segjum nei og aftur nei við þessari ótrúlegu frekju og ágengni erlends auðhrings.  Landið er fagurt og frítt og þannig viljum við hafa það.  Afkomendur okkar mega ekki horfa til okkar með sorg í hjarta og segja :hvað voru þau að hugsa?

audur (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 00:28

2 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Ég engist sundur og saman með ykkur og dáist að staðfestunni. Sjálfsagt væri ég jafnstaðfastur og þú Siggi minn ef ég ætti að greiða atkvæði. En ég bý í Reykjavík og horfi bara á... ykkur í Hafnarfirði, sveitafólk á Þjórsárbökkum. Ég er að velta því fyrir mér hvaða helvítis púki situr á fjósbitanum.

Það er samt einhver pikkles í þessu öllu saman. Var ekki bæjarstjórnin búin að ákveða svæðið þarna undir iðnað (af skammsýni auðvitað)? Og er ekki búið að gera alla díla út og suður? Ég er ekki að nuddast neitt eða vera með leiðindi. Mig svíður það bara sárt að stjórnmálamenn á landsvísu og sveita skuli hafa ruglað öll mál svo að öllum má vera ljóst að þjóðin virðist ekki hafa neinn lýðræðisfarveg fyrir sín deilumál á þessu sviði.

Líklega er það þjóðinni í hag að Hafnfirðingar sameinist um að greiða atkvæði gegn skipulagstillögunni. Þá hafa þeir ekki leiðindi í öðrum héruðum samviskunni og hafa ráðrúm til að staldra við og spyrja sig að því hvort þetta sé ekki vitleysa frá upphafi hvernig bæjarskipulag til framtíðar er skipulagt. Þetta er nú svolítið einkennilegt að keyra inn á milli álversins og auðnarinnar þarna á vinstrihönd með öllu ruslinu og draslinu sem likist ekki iðnaði eða atvinnurekstri. Svona líka stutt frá bænum! Líklega er þetta alveg hárrétt hjá Davíð Þór í Kastljósinu að akkúrat núna þá er það bara absúrd að vera með fabrikku ofaní fólki. Hún var það kannski ekki fyrir 40 árum en bíðum við.... Liggur það í augum uppi fyrir bæjarbúa að stækka stóra verksmiðju  sem valinn var staður fyrir fjórum áratugum áður en allt þandist út um hraun og mosa?

Æi... ég er bara að hugsa upphátt og rausa. Óska ykkur velfarnaðar og vona að þið græðið sárin eftir kosningar.

Pétur Tyrfingsson, 31.3.2007 kl. 04:41

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Skil ekki alveg hversvegna er verið að draga ábúendur við Þjórsá inní þetta mál. Að því að mér skilst var um óundirritað bréf að ræða sem allt eins hefði getað komið frá Pétri Óskarssyni. Þessar þrjár virkjanir í Þjórsá munu koma hvort sem fólki líkar betur eða verr og hvort sem álverið stækkar eða ekki. Þessar þrjár virkjanir eru einfaldlega ódýrasti virkjanakosturinn og verða því virkjaðar fyrr eða síðar. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 31.3.2007 kl. 10:58

4 identicon

Sæll Sigurður.

Lestu þetta bréf, það sýnir að bréfið sem þú vitnar í er bara  ósmekklegur áróður frá svokölluðum ábúendum við þjórsá.

Þessi tölvupóstur barst okkur í gærkvöld:

  • Gott kvöld

    Tilefni þess að ég sendi ykkur línu, er bréf það sem búið er að bera í hús í Hafnafirði og kennt við bændur á bökkum Þjórsár.

    Þegar undirskriftirnar eru skoðaðar kemur í ljós að fæst af þessu fólki á beinna hagsmuna að gæta. Aðeins, að mér sýnist, tveir aðilar sem hafa hagsmuna að gæta, sem sagt búa á jörðum sem ná að Þjórsá og vatnsréttindi hafa ekki verið seld á.

    Annars er þarna mest fólk sem býr fyrir neðan allar virkjanir og svo gamalmenni sem ekki stunda búskap lengur. Það eru ekki nærri allir á þessum lista sem eiga land að Þjórsá.

    Með baráttu kveðju
    Guðmundur Sigurðsson
    Reykhóli Skeiðum



    Þetta fannst mér afar athyglisvert og hafði samband við Guðmund. Hann sagði mér þetta til viðbótar:

    Það er nú því miður svo að þessir svokölluðu náttúruverndarsinnar eiga til að skreyta sig ýmist með fölskum eða sviknum fjöðrum. Það er alveg dæmigert að eins og með þetta bréf sem þeir komu af stað, að gera það á þeim tíma að erfitt er að koma vörnum við og látið líta svo út að þarna sé um einhvern meirihluta að ræða.

    Staðan er sú hjá okkur sem búum við Þjórsá, að hún var gegnum aldirnar búin að herja á lönd, brjóta bakka og flæða um með tilheyrandi skaða. Eftir að farið var að virkja inn á fjöllum hefur þetta mjög breyst til batnaðar, hún er orðin mun rólegri og fastari í farvegi. Það kemur til út af því að framburður hefur minnkað mikið svo hún er hætt að hlaða undir sig.

    Með þessum virkjunum sem fyrirhugaðar eru í neðri Þjórsá mundi hún vera endanlega beisluð í farvegi og landvinningar hefjast hjá mörgum þeim sem eiga land að henni, þar er jafnvel um að ræða hundruð hektara sem er möguleiki að endurheimta

Björn Kristjánsson (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 14:56

5 identicon

Heill og sæll, Sigurður og aðrir skrifarar !

Björn Kristjánsson vitnar til orða, og orðsendingar Guðmundar Sigurðssonar, í Reykhóli á Skeiðum suður. Fyrir mér, kemur Guðmundur ætíð fyrir, sem hrekklaus og vammlaus góður Sunnlendingur. Þykir mér nú stungin tólgin, sunnlenzkir framtíðarhagsmunir einskis virði, kylfa skuli ráða kasti. Trúi þessu vart, hver andskotinn er hlaupinn, í karlinn ?

Vona, að Hafnfirðingar beri þá gæfu til, að láta framtíðarhagsmuni verða ofar skammtíma gróða glýju, og prettum núverandi forstjóra ÍSAL (Alcan), og hennar rycktis; og hafni eindregið refjum þessum.

Guðmundur Ragnar Björnsson skrifar af allmiklu yfirlæti, líkt og Þjórsá og hennar umhverfi allt; komi okkur; í Sunnlendinga fjórðungi ekkert við. Er ekki rétt, að benda honum, sem og allmörgum annarra á, að landshlutarnir hafi rétt á að skipa málum sínum, alveg burtséð frá stærilæti Reykvízku miðstjórnarinnar, og undirstofnunum hennar ? Bætir nú ekki málstað Guðmundar Ragnars, að vera Framsóknarmaður, í ofanálag. Einhver sóðalegasti stjórnmálaflokkur samtímans, og gætum að;; flokka duglegastur að níða niður landsbyggðina, sér í lagi, hvar ekki hafa verið auðmjúkir já kórar þessa andstyggilega rycktis, á fleti fyrir.

Þú fyrirgefur mér heiftina, Sigurður minn, en það er stutt á Hrafnistumanna þráðinn, þeirra frænda minna á Borg á Mýrum, þegar mikið liggur við.  

Sigurður ! Þú hefir staðið þig, með afbrigðum vel, í þessarri andskotans orrahríð allri, og hefir uppskorið fyllstu virðingu mína, og þykist viss um; að svo sé um fleirri.  

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason       

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 15:37

6 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Trúlega hefur þú rétt fyrir þér í því Guðmundur að virkjað verður í Þjórsá fyrr eða síðar. Og mér finnst trúlegt - þó ég viti það alls ekki fyrir víst - að það sé í rauninni ágætur kostur. Þetta breytir því ekki að úrslitin í Hafnarfirði ráða nokkru um hvort dirifið er í því nú. Í þessi mál öll er hlaupið eitthvert offors um leið og mörgu fólki þykir það alls ekki einfalt að gera upp hug sinn.

Fyrir löngu máttu Hafnfirðingar sjá fram á að þeir mundu vilja byggja íbúðabyggð meðfram strandlengjunni einmitt á slóðum álversins en ekki útí hraunið eða upp til heiða. Þetta kom þeim ekki til hugar því enginn vildi þá fyrir nokkurn mun missa álverið. Hvað átti að koma í staðinn? Síðan hefur fólki fjölgað en álverinu líka seldar lóðir. Nú er það látið í hendur almennings í firðinum að höggva á þennan rembihnút. Þetta er eins og að láta börnin skera úr um hvort foreldrar í ónýtu hjónabandi eigi að skilja eða freista þess að fara til hjónabandsráðgjafa. Bæjaryfirvöld, Alcan, ríkisstjórnir og Landsvirkjun bjuggu til hjónabandsvandræðin.

Pétur Tyrfingsson, 31.3.2007 kl. 15:54

7 identicon

Heill og sæll, Sigurður og aðrir skrifarar !

Til hamingju, með úrslitin. Lækkar vonandi risið, á kapítalistunum.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband