Zero stækkun

zero--ÁLVERIÐAf hverju ekki álver með zero stækkun? Ekki að það þýði að núverandi álver sé „lítið og krúttlegt“ eins og Rannveig Rist hélt fram í Kastljósi um daginn; sennilega frasi ættaður frá Gunnari Steini, en samkvæmt síðustu fregnum er það hann sem hefur hannað kosningabaráttu Alcan. Þar er ekki í kot vísað enda hefur Gunnar stýrt ófárri kosningabaráttunni og oftast uppskorið fyrir sína umbjóðendur eins og Ólaf Ragnar á sínum tíma.

Ég man alltaf fund sem Gunnar Steinn átti með innsta kjarna Alþýðubandalagsins um árið í aðdraganda að kosningum. Þá var ég ritstjórnarfulltrúi Þjóðviljans sáluga og því boðaður á fundinn þar sem ætlunin var að Þjóðvilinn styddi baráttuna. Gunnar hóf málflutning sinn á því að segja að menn yrðu að líta á sig sem liðsmenn í knattspyrnuleik, það þýddi ekkert að leika sóló, þeir væru hluti af liðsheild (rámar í að framsóknarþingkona hafi notað þennan frasa á yfirstandandi kjörtímabili). Síðan sagði hann að hann yrði að hafa óheftan aðgang að formanni flokksins, Ólafi Ragnari, hvenær sólarhrings sem væri, og það væru þeir sem stýrðu baráttunni og hinir yrðu að fylgja stefnunni. Það kom kyndugur svipur á suma þingmennina og eftir tölu Gunnars stóð Hjörleifur Guttormsson upp og sagðist ekki hlusta á svona rugl, að líkja alvarlegum stjórnmálamönnum við knattspyrnumenn og að hugsjónabarátta væri sambærileg knattleik væri út í hött. Síðan gekk hann á dyr. Ólafur Ragnar og Gunnar Steinn sáu síðan um að skila flokknum ágætum árangri í kosningunni þrátt fyrir að Hjörleifur og ýmsir aðrir spiluðu sóló.

Að lokum vil ég benda á þessa færslu á bloggsíðu Árna Guðmundssonar: Smekkleysa  Það er rétt hjá þér Árni að þarna er skotið yfir markið. Sömu trakteringu fær líka Guðfríður Lilja með sína grein.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll, Sigurður og þökk fyrir allt gamalt og gott !

Eitt það ískyggilegasta, hvað fylgir hugsanlegri stækkun Straums álvers, er skefjalausar  og letjandi stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands, meðfram stóraukinni verðbólgu. Munu leiða til stóraukins tjóns, fyrir alþýðu okkar lands, sem og fyrirtækjanna. Hefi áður nefnt spjöll þau, hver á Þjórsárbökkum yrðu, átti síðast í dag leið niður Urriðafossveg í gamla Villingaholtshreppi (var að koma úr Ásahrepp, í Rangárþingi), jú, jú, gamli Urriðafoss á sínum stað, drjúgur var úðinn af honum, yfir klappirnar í ánni.

Hinir ágætu drengir, Árelíus Þórðarson - Sigurjón Vigfússon og Tryggvi L. Skjaldarson hafa lítt hugað að þeim þætti mála, þeim efnahagslega, líklegast óviljandi, í ákafa sínum  fyrir framgangi sinna hugsjóna. 

Á hvern veg; sem fara kann, er sýnu ódrengilegastur; þáttur stórfrænda míns, Lúðvíks Geirssonar, að taka ekki af röggsemi og stórhug afgerandi afstöðu; opinberlega, í þessu stóra máli. Eitt gleggsta dæmið, um þann moðreyk, hvern Samfylkingin veður, í smærri sem stærri málum þjóðfélagsins; og... Sigurður;;, ætlast til, að þjóðin fylgi henni, í blindni.

Vona, ykkar Hafnfirðinga vegna, sem og annarra Íslendinga, alinna sem óborinna, að refjar þessar verði lagðar að foldu, laugardaginn 31. Marz, n.k. 

Með beztu kveðjum, af landsbyggðinni /

Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 22:00

2 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Þakka þarfan pistil félagi Óskar. Það er bara eitt við pistil þinn sem ég er ekki sammála, það eru skrif þín um góðan vin minn og stórfrænda þinn Lúðvík Geirsson. Ég veit að félagi Lúðvík er í erfiðri aðstöðu og reynir að spila eins vel úr henni og kostur er. Las viðtal við hann í dag í Víkurfréttum og var ánægður með það. Hann er drengur góður og vill vera heiðarlegur í þessari kosningu og að mínu mati hefur honum tekist það. Svo vona ég bara að skynsemin verði ofaná nk. laugardag hjá mínum sveitungum.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 29.3.2007 kl. 22:23

3 identicon

Sæll, enn og aftur Sigurður !

Ekki þykir mér verra, að vera ávarpaður félagi; af gömlum og góðum fasistasið. Þetta þykir mér vænt um, enda einn mesti aðdándi Francos heitins hershöfðingja, á Spáni, þótt svo ég hefði kosið Böskum, og gamla greifadæminu; Katalóníu sjálfstæði, fyrir löngu síðan.

En að Lúðvík frænda. Hann er reyndar, af þeim meiði ættar okkar, hvar helztu sveimhugar fyrirfinnazt, yfirleitt góðgjarnar og hrekklausar sálir, en............ Sigurður; fyrr mega nú vera andskotans rólegheitin, ekki hvað sízt í svo stórum, og afdrifaríkum málum, sem við höfum verið svo samstiga í, og verðum vafalaust áfram. Ekki illa meint, gagnvart Lúðvík, en......... sumir okkar, frá Gamla Hrauni erum opinskárri, og mun meiri strigakjaftar, en aðrir.

Með ítrekuðum kveðjum / Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 23:35

4 Smámynd: Sigurður Á. Friðþjófsson

Heill aftur Óskar!
aldrei geðjaðist mér af Frankó né félögum hans Hitler og Mússolíni. Þetta voru dusilmenni. Hins vegar er ég sammála þér varðandi virkjun Þjórsár í byggð. Það er að mínu mati gerræðisleg aðför að einni að fegurri náttúruperlu landsins. Og til hvers? Til þess að auka mengun í minni heimabyggð. Reisa þar í túnfætinum stærstu álbræðslu Evrópu. Nei takk.

Sigurður Á. Friðþjófsson, 29.3.2007 kl. 23:44

5 Smámynd: Árelíus Örn Þórðarson

 

 Sæll Sigurður.

Samtökin "Hagur Hafnarfjarðar " er ekki Alcan heldur fyrirtæki innan samtaka fyrirtækja í Hafnarfirði sem sjá sér hag í því að Alcan stækki.

Vinsemd og kveðja

Árelíus Örn Þórðarson, 30.3.2007 kl. 04:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband