25.3.2007 | 14:57
Ólýðræðislegt vinnubrögð Alcan
Ekki fannst mér flokksbróðir minn Gunnar Svavarsson standa sig vel í Silfri Egils áðan. Ég hef skilið þá afstöðu bæjarfulltrúa meirihlutans í Hafnarfirði að blanda sér ekki með beinum hætti í átökin um stækkun álversins í Straumsvík eftir að málinu hafði verið vísað til bæjarbúa. Hins vegar get ég ómögulega réttlætt það afstöðuleysi sem kom fram hjá Gunnari um hvernig fjölþjóðafyrirtækið Alcan hefur blandað sér í baráttuna með ótæpilegum fjáraustri í auglýsingar fyrir stækkuninni. Þetta er eins ólýðræðislegt og það getur verið. Það er íbúanna að taka afstöðu í þessu máli og eðlilega takast þeir á. Það á ekki að vera hlutverk fjölþjóðarisans Alcan. Fyrirtækið hefur sótt um að fá að stækka og bera að hlýta þeirri niðurstöðu sem bæjarbúar komast að án þess að ausa yfir þá villandi upplýsingum, gjöfum og hótunum um að hverfa burt ef ekki verði af stækkun.
Að lokum vil ég óska Spaugstofunni til hamingju með 300 þáttinn og ólíkt flestum öðrum bloggurum hrósa þeim fyrir frábæra útgáfu af þjóðsöngnum. Má vera að þetta sé brot á einhverjum landslögum um sönginn, en hvaða nauðsyn krefst þess að lög séu sett um eina lagasmíð?
Við erum eitt smáblóm
með titrandi tár
sem tilbiður Alcan og deyr.
Athugasemdir
Sammála þessu með þjóðsönginn og ég leyfi mér að halda að þetta sé í anda húmanistans Matthíasar sem var engin kveif heldur kunni að hafa skoðanir.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.3.2007 kl. 16:28
Sorrí, gleymdi einu, auðvitað sammála öllu hinu líka. Úrslitin hjá ykkur í Hafnarfirði varða okkur öll og ég vona að þið berið gæfu til að sigra ofurafl peninga og hótana.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.3.2007 kl. 16:29
Það er sem sagt þín skoðun Sigurður að Hafnfirðingar hefðu átt að taka afstöðu með það eina til að byggja á sem Sól í Straumi segði. Fyrirtækið hefði semsagt átt að sleppa því að kynna staðreyndir um sig og sína framleiðslu og hvaða þýðingu stækkunin hefði í för með sér. Hefði það verið lýðræðislegt? Hefðu Hafnfirðingar með því móti getað tekið upplýsta ákvörðun?
Ef bæjarstjórnin hefði gefið það út fyrir kosningarnar að enginn mætti gefa út efni eða reka kosningabaráttu því að bærinn ætlaði að sjá um alla kynningu á málinu værir þú þá sáttur við það?
Annars finnst mér skrýtið að Sól í Straumi geti ekki fengið úthlutað úr þeim digru sjóðum sem standa að baki Framtíðarlandinu. Herferð Framtíðarlandsins hefur allavega kostað meira en kynningarefnið frá Alcan.
Guðmundur Ragnar Björnsson, 25.3.2007 kl. 17:55
Hvernig getur nokkur maður lagt blessun sína yfir það að erlent risafyrirtæki beiti sér í íbúakosningu á Íslandi? Hvernig er hægt að leggja að jöfnu hagsmuni þeirra sem búa við hliðina á þessu fyrirtæki, anda að sér óþverranum sem það blæs frá sér og horfa upp á örin sem það skilur eftir á landinu og hagsmuni þeirra sem búa víðsfjarri vettvangi og hugsa um það eitt að komast í ódýra orku? Hvernig er hægt að leggja að jöfnu baráttu íbúasamtaka sem snapa fé með samskotum og áróðursstríð risafyrirtækis þar sem kosningaútgjöld eru eins og hver annar frádráttarliður í rekstrarbókhaldi? Hvernig er hægt að hafa svo lítilsigldar hugmyndir um lýðræði? Stundum getur maður ekki annað en skammast sín.
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.