23.3.2007 | 17:18
DVD-diskur og risaplakat inn á hvert heimili
Ég er með miða frá póstinum á hurðinni hjá okkur þar sem fjölpóstur er afþakkaður. Eftir að hann var settur upp dró verulega úr ruslpósti á heimilinu og ferðum með blöð og bæklinga í gáma fækkaði verulega og dró því úr mengandi akstri með þessum litla miða. Þannig losnuðum við við að skila Bjöggadisknum frá Alcan í upphafi ársins. Hann barst aldrei til okkar.
Um daginn barst hins vegar litprentaður bæklingur frá Alcan til okkar með póstinum þrátt fyrir miðann og í dag kom enn ein sending frá fyrirtækinu, DVD-diskur um álbræðsluna, bæklingur og risaplakat með andlitsmyndum af starfsmönnum Alcan. Mann grunar því Alcan um að hafa greitt Íslandspósti aukalega fyrir að sniðganga tilmælin um engan fjölpóst.
Hvað ætli þetta auglýsingaátak fjölþjóðafyrirtækisins hafi kostað. Nokkrar millur fóru þarna á einu bretti. Samtímis eru í öllum blöðum heilsíðu auglýsingar og í útvarpinu er ítrekað lesnar upp auglýsingar um kosningamiðstöðina í Firði.
Gullklyfjaði álasninn er búinn að stinga hausnum inn um bæjarhliðið.
Athugasemdir
Varla létu þeir póstinn dreifa þessu? Þeir hljóta að hafa styrkt íþróttafélög í Hafnarfirði. Það fæst lítið goodwill úr því að nota póstinn miðað við boostið og nota krakka hafnfirðinga í fjáröflun og greiða vel fyrir dreifinguna.
TómasHa, 24.3.2007 kl. 11:27
Góðan daginn Sigurður.
Er þér ekki sjálfrátt, .."gullklifjaði álasninn....", hvers konar lítilsvirðing og allt að því hatur, sýnir þú fyrirtækinu og starfsmönnum þess með svona orðavali. Þú veist jafnvel og aðrir, að fyrirtækið hefur verið mjög eftirsóttur starfsstaður mörg hundruð starfsmanna frá upphafi, og er líklega með einn hæsta, ef ekki hæsta meðalstarfsævisaldur starfsmanna á sama vinnustað á landinu, sem flestir sæmilega skyni bornir menn skilja að segir flest, ef ekki allt, sem segja þarf um vinnustaðinn og vinnuveitandann.
Okkur ber að gleðjast yfir að fá upplýsingarnar, sem fyrirtækið sendir okkur til fróðleiks og betri þekkingar til að móta okkar afstöðu í stækkunarmálinu, bæði diskinn og bæklinginn, en allra helst plakatið með myndum af starfsfólkinu.
Plakatið sýnir, svo ekki verður um villst, að það er lifandi fólk, sem starfar í álverinu, fólk með fjölskyldur, börn, skyldmenni, ættingja, vini og kunningja, lifandi fólk sem er fyrirvinnur og framfærendur þessara fjölskyldna.
Menn eiga ekki að hafa það í flimtingum, að ætla að bera hugsanlega ábyrgð á því, meira að segja montnir og hreyknir af því, að fyrirvinnur þessara fjölskyldna missi hugsanlega vinnuna og tekjurnar innan fárra ára. Það er miklu meira alvöru mál en svo, að gantast eigi með atvinnu- og framfærslugetu fólks.
Ég ráðlegg þér að hengja plakatið uppá vegg í eldhúsinu hjá þér, og ef þú hefur kjark til þess, horfðu þá í augu fólksins á plakatinu, heiðarlega og með hreinni samvisku, áður en þú ferð og kýst n.k. laugardag.
Kveðja.
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 12:08
Guðmundur, ertu ekki að taka málið full persónulega ? Að mínu mati er lágkúran alger hjá Alcan að beita starfsfólki sínu miskunarlaust í áróðursstríði. Hvernig er starfsfólk meðhöndlað sem neitar að taka þátt (ef einhver þorir að standa gegn yfirvaldinu yfirleitt) ? Ég talaði við samstarfsmann þinn fyrir nokkru sem lýsti sig andstæðann stækkunaráformum - hann sagði mér jafnframt að væri þessi skoðun hans opinber þá gæti hann farið að leita sér að vinnu strax, honum yrði gerta að taka "pokann sinn" !! Ég hef enga ástæðu til að véfengja þessi ummæli hans. Hverskonar málflutningur er það að fyrirvinnur missi hugsanlega vinnuna, það mætti halda skv. málflutningi "ykkar", að fari álverið (sem ég hef ekki nokkra trú á) þá bíði starfsmanna ekkert annað en eymd og volæði !! hundruðir manna skipta um starf daglega á Íslandi það er ekki eins og starfsfólk Alcan sé ekki hæft til annarra starfa ef til kæmi að Alcan skellti í lás.Ekki er langt síðan að herinn fór þá var stærri vinnustaður en Alcan lokaði. - hugsanlega hafa ekki allir fengið vinnu sem þeir hefður helst óskað sér eða á sömu launum, en það eru líka mjög margir einstaklingur sem hafur fengið "betra" starf með hærri launum. Ég fæ heldur ekki skilið málflutning Alcan að stækki álverið ekki þá verði þessi verksmiðja orðinn úrelt ! ég man ekki betur en skálinn sem næstur er Reykjanesbrautinni hafi verið reistur fyrir fáeinum árum af hverju getur ekki álverið þróast áfram með því að taka upp nýjustu tækni í eldri skálum hvað verður um þessa skála ef álverið stækkar ?
magnús (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 13:40
Sæll vertu óskráður Magnús.
Það má skilja svo að þú haldir að ég starfi hjá Alcan, svo er ekki og ég hef aldrei starfað þar. Þú segist hafa talað við "samstarfsminn" fyrir nokkru. Hafi það verið starfsmaður álversins, þá er hann ekki minn samstarfsmaður.
Á mínum vinnustað í Hafnarfirði starfa um 50 manns, þar eru skoðanir um stækkunina, að því er ég best heyri, mjög skiptar, eins og annars staðar. Sem betur fer geri ég ekki ráð fyrir því að nokkur á "mínum" vinnustað muni missa vinnuna, hvernig sem kosningin fer í Álverinu.
Væntanlega mun hvorki ég eða þú, hafa nokkuð um það að segja hvort Álverið loki í nálægðri framtíð ef það fær ekki að stækka. Forsvarsmenn þess hafa einfaldlega bent á það, að án stækkunar muni það dragast aftur úr og verða smám saman ósamkeppnisfært. Ég hef enga ástæðu til að rengja slík ummæli og engar raunverulegar forsendur til að trúa þeim ekki. Svo er væntanlega líka um þig.
Einhver "önnur" störf eru nú að mínu mati ekki mjög traustvekjandi forsendur fyrir fyrirvinnurnar í álverinu. Kannski finnst sumum bara allt í lagi að hafa ekki trygga atvinnu eða framfærslugetu. Austfirðingar máttu í um 30 ár horfa á ævisparnað sinn í húsnæði, menntun barna sinna ofl. hrynja. Nú virðist það sem betur fer að vera að snúast á jákvæðan veg á nýjan leik.
Störfin, sem voru áður að verulegu leiti greidd af varnarliðinu í Keflavík, og voru svo endurvakin, eru nú á kostnað okkar Íslendinga sem skattgreiðenda eða kaupenda viðkomandi þjónustustarfa. Það segir nú allt sem þarf um þau störf.
Kveðja.
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 14:35
Sæll Guðmundur, bið þig forláts að hafa tekið þig fyrir starfsmann Alacan - dró ályktanir af orðum þínum sem augljóslega voru rangar.
Rétt við munum ekki hafa mikið um það að segja með hvort stóriðjuverið verði hér um ókomna tíð - vafalaust mun það í fyllingu tímans loka hvort sem það stækkar eða ekki - ég hef hinsvegar ekki trú á því að það verði "skrúfað" fyrir eftir 7 ár, ég kann að hafa rangt fyrir mér. Hinsvegar tel ég það algert (umhverfis)stórslys ef stækkun verði leyfð bærinn hefur vaxið í átt að þessu ferlíki eins og það er nú.
ég átta mig ekki á af hverju þetta álver getur ekki verið samkeppnisfært ef það færi ekki að stækka ?? ég reikna með að sú tækni sem var notuð þegar verið var gangsett sé löngu aflögð og endurnýjun hefur átt sér stað, hvers vegna ætti álverið ekki að geta endurnýjað sig í framtíðinni - ég er nokkuð viss um það að það er ekki að gæsku við starfsmenn og verktaka sem Alcan er með starfsemi hér, þeir eru að græða peninga m.a. vegna þess að skattfé okkar hefur verið nýtt í niðurgreiða orku til Alcan.
Nú veit ég ekki hjá hvaða fyrirtæki þú starfar en öll fyrirtæki þurfa að vaxa og þróast flestir slyngir stjórnendur reyna að dreifa "eggjum" sínum í fleira en eina körfu og treysta ekki á einn aðila, ég vænti þess að margir af verktökunum séu ekki með eilífðartryggingu á samningi, reyndar ekki heldur starfsmenn a.m.k. voru þeim sem var vísað út eftir áratuga störf ekki boðinn eftilaunasamningur. Ég er í ágætu starfi og það ég best veit eru vinnuveitendur mínir ánægðir með störf mín en það er engin trygging fyrir því að ég haldi þessu starfi til eilífðar þetta er einfaldlega sú staðreynd sem við launþegar búum við - ef til kemur að álverið lokar þá mun það ekki gerast á einni nóttu og væntanlega hafa mörg af þessum ágætu fyritækjum og starfsemenn álversins aðstöðu til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum EF TIL LOKUNAR KEMUR - vissulega getur það orðið sársaukafullt fyrir einhverja en ég leyfi mér að hafa þá trú að starfsmenn sem starfa hjá Alcan séu hæfir og eftirsóttir starfskraftar.
Ég þekki þó nokkra sem unnu fyrir varnaliðið enginn af þeim eru í "atvinnubótavinnu" hjá íslenska ríkinu þetta er fólk sem skapar ekki síður verðmæti en þeir sem starfa hjá Alcan
Það eru fleiri en starfsmenn Alcan og fyrirtækja í "vinnu" hjá þeim sem eiga hagsmuna að gæta - fjöldi fjölskyldna hafa lagt aleigu sína í fasteignir í nálægð álversins og gátu lifað í sátt og samlyndi við það eins og það er nú, það er engin trygging fyrir þessa aðila að fasteignir þeirra verði undir markaðsverði á þessu svæði ef til stækkunar kemur ég reikna a.m.k. ekki með að nálægðin hækki verð fasteigna.
góð kveðja,
Magnús
magnús (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 17:37
Fyrsta álver Alusuisse var gangsett í Chippis í Valais í Sviss árið 1908 og er að því er ég best veit enn í gangi.
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 18:31
Sæll aftur Masgnús.
Mér sýnist að við verðum seint sammmála í þessum efnum, og er það að mínu mati bara allt í lagi að við höldum fram ólíkum sjónarmiðum, sérstaklega ef það er gert á málefnalegan hátt.
Þú mátt ekki misskilja mig með störfin suður á Keflavíkurflugvelli, ég tel mig alls ekki haf gefið í skyn að um"atvinnnubótarstörf" á kostnað ríkisins væri að ræða. Einungis sagði ég, að þessi störf væru nú ýmist greidd af skattgreiðendum eða sem seld þjónusta, í báðum tilvikum kemur það væntanlega við pyngju alls almennings sem þarf að nýta þessa þjónustu.
Þetta með hugsanlega lækkað verð í íbúðarhúsnæði, væntanlega á völlunum, eru að mínu mati vel skiljanlegar áhyggjur af hálfu íbúðareiganda. Sá augljósi hængur er þó á þessari röksemd, að almennt iðnaðarsvæði, er á milli íbúðarbyggðarinnar og álverslóðarinnar. Ég hef hvergi heyrt að til standi að fjarlægja það iðnaðarsvæði. Svo má ekki gleyma því að að undirbúningur að stækkun álversins hófst árið 1999, íbúðarsvæðið var hins vegar skipulagt á árunum 2002 - 2005, og Hafnarfjarðarbær seldi lóðina til álversins til stækkunar árið 2002 eða 2003.
Orð þín um stækkunarþörf álversins vegna "úreldingar" sjónarmiða, bæði af þinni og minni hálfu, geta aldrei orðið annað en almennar vangaveltur, aldrei þau talnalegu og bitastæðu rök, sem eigendur hvers fyrirtækis hafa fyrir framan sig á hverjum tíma og verða sem slíkir að taka sína afstöðu og ákvarðanir. Ég trúi því ekki að eigendur álversins séu nokkuð verri eða betri en aðrir atvinnurekendur til að taka slíkar ákvarðanir þegar á þarf að halda. Þeir standa bara frammi fyrir ákveðnum talanlegum staðreyndum og verða að haga sér eftir því.
Að sjálfsögðu missa menn vinnu sína um allt land alltaf af og til, eftir því hvernig gengur í hverjum rekstri fyrir sig. Það er eðlilegt. Þá erum við að tala um einn starfsmann eða nokkra hverju sinni, "katastrófur" um 500 - 1500 störf, eru sem betur fer ekki algengar, og slíkt eigum við að forðast. En maður gantast ekki með starfsöryggi starfsmanna í svona miklum fjölda.
Ég er búinn að búa í Hafnarfirði síðan 1976 og dóttir mín og hennar fjölskylda á íbúð uppi í Háholti, í svona ca. í 1000 /1500 metra frá álverinu, og eru mjög ánægð með "nágrannana". Ég var eindreginn andstæðingur álversins og starfsemi þess þegar það hófst. Vegna hvers? Ég hélt að starfsemi þess fylgdi svo svakaleg mengun í Hafnarfjörð. Sem betur fer hafði ég á röngu að standa, og skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það. Mín niðurstaða eftir langa búsetu í Hafnarfirði er einfaldlega sú að rekstri álversins fylgi sem betur fer engin mengun, sem ég verð áþreifanlega var við. Svo er hitt sjónarmiðið. Af hverju er í lagi að álverið haldi áfram í óbreyttri mynd, en megi ekki stækka? Almenna iðnaðarsvæðið verður áfram á milli þess og íbúðabyggðarinnar. Engin breyting verður þar á. Ég læt ekki öðru sinni telja mér trú um það að það sé óalandi og óferjandi vegna "efnafræðilegrar mengunar", sem á að fylgja starfsemi þess. Það stenst einfaldlega ekki. Svokölluð "efnafræðileg mengunaráhrif" vegna stækkunarinnar eru öll langt innan marka skv. opinberum kröfum. Ég hef engar forsendur né þekkingu, væntanlega ekki frekar en þú, til að fullyrða að þar til bærir opinberir leyfisveitendur og eftirlitsaðilar séu að "ljúga" að okkur um það.
Þér til frekari upplýsingar þá starfa ég ekki heldur hjá neinum af þeim verktökum sem þjóna álverinu. Ég er bara opinber starfsmaður, venjulegur launþegi á skattstofunni.
Góða helgi.
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 19:53
Sæll aftur Guðmundur, ég þakka þér sömuleiðis fyrir málefnaleg rök og við getum þó a.m.k. verið sammála um að vera ósammála :)
í mínum huga verður og er Alcan fyritæki sem hugsar fyrst og síðast um eigin hag algerlega óháð sínum starfsmönnum, sem settir eru í afleita aðstöðu með þáttöku sinni í "kosningabaráttu" - hér færi fyrirtækið orku á útsöluverði (og ef mér skjátlast ekki þá greiddum við með orkunni þar til Hjörleifur Guttormsson beitti sér fyrir lagfæringu á samningi - það er önnur saga). Hvers vegna leggur fyrirtækið í miljónaáróðursherferð fyrir stækkun ? Getur ekki verið að hér bjóðist orkan á svo lágu verði að það má miklu til kosta að ná að "mjólka" enn meira.
Varðandi þau línurit og upplýsingar um mengun þar sem verið er að gefa upp meðaltöl - það má líkja við að vera í fótabaði með annan fótinn í ísköldu vatni og hinn í sjóðandi heitu, en að meðaltali er vatnið volgt !! Mín skoðun er að það sem matað er af Alcan sé hálfsannleikur í besta falli.
Enn og aftur bestu þakkir fyrir málefnalegan "debat" en ég vona þó að þú sjáir að þér fyrir 31. mars n.k. og kjósir á móti stækkun. Sigurði Á Friðþjófssyni þakka ég "afnotin" af síðunni í formi athugasemda
Góð kveðja
Magnús Andrésson (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 01:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.