22.3.2007 | 20:32
Ójafn leikur og ólýðræðislegur
Framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna eru að ræða hvort flokkarnir eigi að setja hámark á kostnað vegna auglýsingabirtinga í komandi alþingiskosningum. Samkvæmt fréttum útvarps eru skoðanir misjafnar eftir hversu hátt hámarki á að vera. Frá 15 milljónum hjá Íhaldi, VG og Frjálslyndum í 30 hjá Samfylkingu og 35 hjá Framsókn. Hafa ber í huga að hér er einungis verið að tala um birtingarkostnað en ekki framleiðslu auglýsinga og annan kostnað sem fellur til vegna komandi herferða.
Það kemur ekki á óvart að Framsókn og Samfylking vilji hafa frjálsari hendur varðandi auglýsingar en hinir flokkarnir, enda eiga báðir flokkarnir undir högg að sækja samkvæmt skoðanakönnunum og ljóst að í undanförnum kosningum hefur t.d. Framsóknarflokkurinn auglýst mun meira en aðrir flokkar. Nú eru hins vegar breyttar forsendur því samkvæmt nýjum lögum um fjármál flokkanna geta einstaklingar og fyrirtæki ekki styrkt flokkana um meira en 300 þúsund krónur árlega. Þetta hlýtur að valda Framsóknarmönnum áhyggjum.
Alcan þarf hins vegar ekki að hafa áhyggjur af þessu í auglýsingaherferð sinni vegna atkvæðagreiðslunnar um stækkun álversins í Straumsvík. Samt ber fyrirtækið baráttu sína fyrir stækkun við kosningabaráttu stjórnmálaflokka. Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi fyrirtækisins neitaði að upplýsa hvað fyrirtækið ætlaði að kosta miklu til í þessari ójöfnu baráttu. Taldi slíkt óeðlilegt enda þyrftu stjórnmálaflokkar ekki að gera slíkt í kosningum.
Það er ljóst að kostnaður fyrirtækisins hleypur ekki á tugum milljóna heldur miklu heldur á hundruðum milljóna þegar upp verður staðið og allt reiknað með. Í ofanálag hvetur svo fyrirtækið starfsmenn sína til að stunda persónunjósnir um bæjarbúa og safnar slíkum upplýsingum inn á lokaðan miðlægan gagngrunn.
Pétur Óskarsson talsmaður Sólar í Straumi var hins vegar tilbúinn að upplýsa hvað samtökin hefðu úr að moða í baráttu sinni. Tæp hálf milljón frá bænum í útgáfukostnað og síðan frjáls framlög frá einstaklingum og einstaka fyrirtækjum. Reiknaði hann með að um tvær milljónir yrðu til ráðstöfunar í baráttuna.
Já þetta er ójafn leikur og afar ólýðræðislegur. Að alþjóðlegur auðhringur eins og Alcan sé að blanda sér kosningabaráttu á þennan hátt um framtíðarþróun byggðar örsamfélags eins og Hafnarfjarðar er óhugnanlegt. Hvert stefnum við eiginlega?
Athugasemdir
Það er samt merkilegt að þrátt fyrir veltu upp á 20 þúsund milljón dollara eru líkur á að Alcan tapi slagnum við samskotaliðið. Við skulum vona að asninn hrasi og hálsbrjóti sig á leiðinni upp á múrinn!
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 23:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.